Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. febrúar 2005 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Setningarræða á flokksþingi Framsóknarflokksins

Setningarræða Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins á flokksþingi Framsóknarflokksins febrúar 2005.


Ágætu framsóknarmenn, kæru vinir.

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á þetta flokksþing Framsóknarflokksins. Það er gleðilegt að sjá hversu margir hafa séð sér fært að koma hingað á Hótel Nordica í dag og ég tel þann mikla mannfjölda sem hér er kominn saman bera gróskumiklu og öflugu starfi Framsóknarflokksins glöggt vitni og er vísbending um að við eigum framundan hér gott og árangursríkt flokksþing.

Framsóknarflokkurinn stendur á gömlum merg og er elsti starfandi stjórnmálaflokkur þjóðarinnar. Hann kemur fram undir sömu merkjum og þegar til hans var stofnað og æ síðan hafa framsóknarmenn haft mikil og góð áhrif á mótun og vöxt íslensks samfélags og raunar er það svo að við framsóknarmenn höfum átt aðild að ríkisstjórnum í um 60 ár í tæplega 90 ára sögu flokksins. Að sama skapi er vert að geta þess að staða flokksins er sterkari í stjórn stærstu sveitarfélaga landsins en í annan tíma, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi staðreynd hefur ekki hvað síst orðið til þess að við verðum reglulega skotspónn andstæðinga okkar. Sterk söguleg staða okkar sem stjórnmálaafls er þeim þyrnir í augum. Við getum litið stolt um öxl á þann góða árangur sem náðst hefur. Við eigum ekki að taka mark á gömlum og nýjum úrtöluröddum sem efast um hlutverk Framsóknarflokksins á nýrri öld. Hlutverk flokksins hefur í gegnum tíðina verið stórt og við eigum svo sannarlega enn brýnt erindi við íslenska þjóð.

Góðir félagar

Hvers vegna hefur Framsóknarflokkurinn valist jafn oft til forystu í íslenskum stjórnmálum og raun ber vitni? Hver og einn getur haft á því sínar skýringar, en ég tel að fyrir því séu þrjár meginástæður.

Í fyrsta lagi hefur Framsóknarflokkurinn borið gæfu til að breytast og þróast með þjóð sinni. Flokkurinn okkar í dag er auðvitað fjarri því að vera sá sami og þegar hann var stofnaður í desember árið 1916. Hann er heldur ekki sami flokkur og hann var fyrir tíu, tuttugu eða þrjátíu árum. Enda er samfélagið líka gjörbreytt þótt ekki sé farið nema tíu ár aftur í tímann. Hugsið ykkur framfarirnar á öllum sviðum! Framsóknarflokkurinn er ekki flokkur sem vill slá skjaldborg um fortíðina. Hann er flokkur í sífelldri þróun og leitar nýrra leiða til að bæta íslenskt samfélag. Hann er flokkur fólks sem veit að því verkefni lýkur aldrei. Hann er afl sem skilur að stjórnmálaflokkur sem ætlar sér að eiga erindi við þjóð sína verður alltaf að fylgja þróun samfélagsins og setja fram stefnu sem skiptir máli og á við á hverjum tíma. Það hefur Framsóknarflokkurinn gert. Hann vill alltaf sækja fram eins og nafn hans ber með sér. Stjórnmálaflokkar sem aldrei hafa neitt nýtt að segja, eða vilja vernda fortíðina dragast aftur úr eigin þjóð, geta á stundum gert út á tímabundna óánægju, en þrýtur örendi að lokum og verða fylgislaus náttröll í samfélaginu. Á annan tug stjórnmálaflokka, þótt aðeins séu taldir þeir sem hafa fengið kjörna þingmenn, hafa runnið sitt skeið á enda frá því Framsóknarflokkurinn var stofnaður, en hann hefur borið gæfu til að vera stöðugt að sækja fram. Þess vegna hefur okkur hlotnast mikið traust og fyrir það eigum við öll að vera þakklát.

Í öðru lagi hefur Framsóknarflokkurinn haft fólk í fyrirrúmi. Flokkurinn hefur aldrei gleymt því að hann sækir umboð sitt til félagsmanna sinna og kjósenda um land allt um leið og stefnumálin snúast um þegnana alla. Við höfum hugsað um velferð einstaklinganna í landinu án tillits til efnahags, búsetu, aldurs eða annarra þátta sem menn nota gjarnan til að skipta fólki í hópa. Manneskjan er mesta undrið, var eitt sinn skrifað og það er eitt af því sem við höfum ekki gleymt þegar við mótum okkar stefnu. Við höfum leitað lausna sem snúast um að bæta samfélagið í anda hófsemi, trausts og skynsemi. Við aðhyllumst ekki kreddukenningar, en setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

Í þriðja lagi höfum við í gegnum árin borið gæfu til að standa saman þegar á reynir og móti blæs. Auðvitað hefur oft verið tekist á um menn og málefni innan flokksins í langri sögu hans. Þeir sem hafa kynnt sér söguna muna til dæmis eftir átökum um formennsku Jónasar Jónssonar frá Hriflu á flokksþingi 1944 eða átökin í Sambandi ungra framsóknarmanna á áttunda áratug síðustu aldar þegar margir innan SUF vildu sameina Framsóknarflokkinn vinstri flokkunum. Stjórnmálaflokkar verða líka að geta þolað átök innan sinna raða. Það liggur í hlutarins eðli að innan tíu þúsund manna hreyfingar hljóta að vera mismunandi áherslur. Hinsvegar þurfa allir að standa saman þegar niðurstaða er fengin og það höfum við framsóknarmenn leitast við að gera. Það hefur orðið til þess að okkur hefur gengið vel að vinna með öðrum flokkum að landsstjórninni og stjórn sveitarfélaganna í landinu. Þeir sem hafa unnið með okkur hafa getað treyst því að þegar um eitthvað er samið við okkur þá stendur það. Þannig verðum við að vinna áfram ef við ætlumst til að vera áfram trúað fyrir jafn miklu og verið hefur. Haldist þetta traust ekki höfum við tapað sérstöðu okkar í íslenskum stjórnmálum og þá er hætt við að barátta innan okkar eigin raða verði barátta um ekki neitt.

Ég hlýt að leggja á þetta þunga áherslu. Við skulum takast á um hvaða leiðir við ætlum að fara á þessu flokksþingi en þegar við göngum héðan út á sunnudag er afar mikilvægt að hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Stjórnmálaflokkur sem er sundraður inn á við getur ekki búist við því að fá traust kjósenda til að koma stefnu sinni í framkvæmd, ef hann getur þá komið sér saman um stefnu yfirleitt.

Góðir félagar,

Ég hef ferðast töluvert um landið að undanförnu og átt orðastað við fólk, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Þetta eru meðal minna ánægjulegustu stunda í pólitíkinni og gefa mér kost á að eiga bein og hreinskiptin skoðanaskipti við fjölmarga. Viðfangsefnin eru ekki alls staðar hin sömu og að mörgu er að hyggja. Framsóknarflokkurinn er bæði flokkur landsbyggðarinnar og íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Hann er stjórnmálaflokkur allra landsmanna, hvar sem þeir búa. Við framsóknarmenn eigum að taka forystu um að sætta og samtvinna hin ólíku sjónarmið og þá ólíku en mikilvægu hagsmuni sem hér búa að baki.

Sannleikurinn er sá að Framsóknarflokkurinn hefur frá upphafi lagt áherslu á framfarir landsins alls. Við þurfum öfluga höfuðborg og við þurfum sterka byggð um landið allt. Mikilvægast af öllu er þó að Ísland styrki samkeppnisstöðu sína í samfélagi þjóðanna. Það er ekki aðeins innantómur söngur á hátíðarstundum heldur bláköld staðreynd sem mun skipta enn meira máli þegar fram líða stundir. Samkeppnin er ekki á milli einstakra staða í landinu, heldur miklu fremur milli Íslands og annarra þjóða. Þetta er einmitt það sem við höfum lagt megináherslu á undanfarin tíu ár. Og árangurinn blasir við. Við tókum erfiðar ákvarðanir, sem stundum voru umdeildar og oft hefur það verið hlutverk Framsóknarflokksins að standa í stafni, en markmiðið var ávallt skýrt og eftir því var farið og árangurinn talar sínu máli.

Samkvæmt könnun IMD viðskiptaháskólans í Sviss eru Íslendingar nú komnir í 5. sæti yfir samkeppnishæfni þjóða. Til samanburðar má nefna að á árinu 1995 vorum við í 25. sæti. Nú erum við efst Evrópuþjóða en vorum í 13. sæti árið 1995. Á tiltölulega stuttum tíma hefur íslenskt efnahagslíf þróast úr því að vera fyrst og fremst framleiðsluþjóðfélag þar sem sjávarútvegur hefur verið meginuppistaðan yfir í fjölbreytt og afar tæknivætt framleiðslu- og þjónustuhagkerfi þar sem nýjar atvinnugreinar skipta sífellt meira máli. Upp hafa sprottið ný og þróttmikil fyrirtæki jafnframt því sem fleiri fyrirtæki hafa sótt af miklum og vaxandi krafti inn á erlenda markaði sem hefur rennt enn styrkari stoðum undir okkar efnahagslíf.

Við skulum hinsvegar viðurkenna að frjáls viðskipti, tækniframfarir og alþjóðavæðing hafa gífurleg áhrif á byggð og atvinnulíf. Okkar stefna hefur ekki verið að halda í það gamla hvað sem það kostar og einangrast.

Okkar stefna hefur verið að auka tekjur og verðmæti þjóðarbúsins og gera landið okkar samkeppnishæfara og lífvænlegra sem heild. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að þannig tryggjum við börnunum okkar og um leið byggðum landsins bjartari framtíð – jafnvel þótt slíkar breytingar kunni að valda tímabundnu mótlæti, erfiðleikum og jafnvel sárindum.

Hvar skapast ný störf? Það sem kemur til með að skipta hvað mestu er þekkingariðnaður, fjármálaþjónusta, stóriðja og nýting orkulindanna, til dæmis vegna vetnisvæðingar og ferðaþjónusta. Fjöldi annarra starfa tengist þessum greinum á sviði verslunar og annarrar þjónustu. Það mun einnig fjölga hjá hinu opinbera á sviði menntunar, heilbrigðismála og annara velferðarmála. Þessi störf munu dreifast um landið allt. Okkar viðfangsefni er að reyna að skapa aðstæður þar sem fólk vill búa.

Ljóst er að ný störf og aukin verðmætasköpun mun að litlu leyti verða til í hefðbundnum greinum landbúnaðar og sjávarútvegs. Samt er það svo að ýmsa af ánægjulegustu öngum nýsköpunarinnar er að finna í þessum gamalgrónu greinum og uppgangur í sveitum er nú meiri en um langt skeið á sama hátt og þróun á margskonar fiskeldi lofar mjög góðu. Tæknibreytingar, hagræðing fyrirtækja og breytt gildismat fólks hefur áhrif á þróun hinna rótgrónu atvinnuvega. Þessi umbylting snertir atvinnulífið allt, byggðir og efnahagslífið. Svar við þessu hlýtur að felast í nýsköpun á sem flestum sviðum og eflingu hvers kyns menntunar, ekki síst verkmenntunar.

Ungt fólk og frumkvöðlar eru að skila árangri. Þeim fylgir kraftur, áræði og ný tækifæri gefast með ferskum vindum. Þar er fjárfesting okkar í menntun að skila sér inn í samfélagið aftur. Samkvæmt úttekt OECD skipar Ísland efsta sæti hvað varðar nýsköpun. Það er óræk sönnun þess að hér kraumar kraftur frumkvæðis og frjórrar hugsunar. Fyrirtæki á borð við Marel, Össur, Latabæ, Íslenska erfðagreiningu, Actavis og fjölmörg önnur eru dæmi um vel heppnaða nýsköpun – fyrirtæki sem veita hundruðum einstaklinga störf, skapa þjóðarbúinu verulegar tekjur og treysta efnahag þjóðarinnar allrar.

En betur má ef duga skal. Efla þarf og einfalda ferlið frá hugmynd til fyrirtækis. Við veitum háum fjárhæðum til rannsókna og nýsköpunar og höfum stóraukið framlög í þeim efnum að undanförnu. Við verðum að gera enn betur í þeim efnum í framtíðinni. Sömuleiðis ættu fjársterkir aðilar á borð við lífeyrissjóðina að sjá sér hag í að leggja áhættufé í sprotastarfsemi og hvetja mætti til þess með breytingum á skattkerfinu.

Ég tel að þessi málaflokkur verði einn sá mikilvægasti á vettvangi stjórnmálanna á næstu árum og hyggst beita mér fyrir því á vettvangi formennsku í Vísinda- og tækniráði að framlög til þessa málaflokks verði aukin á næstu árum og þannig undirstrikað mikilvægi menntunar, nýsköpunar og þekkingar í hagkerfi framtíðarinnar. Með slíkum áherslum munum við sjá fjölmörg ný fyrirtæki spretta upp og vaxa á næstu árum og áratugum.

Allsstaðar á landinu eru áherslurnar svipaðar í grundvallaratriðum. Stytting leiða milli byggða, betri samgöngur til höfuðborgarinnar. Uppbygging öflugra þjónustukjarna um allt land. Höfuðborgarsvæðið verður sífellt stærra í hugum fólks. Fyrir nokkrum árum brugðust menn illa við þegar Akranes, Reykjanesbær og Selfoss voru nefnd í sömu andránni og höfuðborgarsvæðið. Nú þykir það sjálfsagt og hækkandi lóðaverð hefur meðal annars aukið eftirspurn eftir lóðum í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Meiri þungi er því en nokkru sinni fyrir bættri aðkomu að borginni um Sundabraut, Hellisheiði og Reykjanesbraut.

Allt þetta er sönnun þess að þjóðin vill breytingar og gerir sér grein fyrir að áfram verður haldið á sömu braut. Áætlanir um skipulag og uppbyggingu byggða hafa verið gerðar og eru í burðarliðnum. Þannig hefur verið gerður sérstakur vaxtarsamningur fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Vestfirði. Svipaðar hugmyndir eru í gangi á öðrum svæðum. Háskólastarf hefur eflst um allt land og eru nú til dæmis uppi metnaðarfullar hugmyndir um stofnun háskóla á Vestfjörðum, sem ég styð og tel að eigi að starfa í góðri samvinnu við aðrar háskólastofnanir í landinu.

Við framsóknarmenn eigum að vinna áfram í þeim anda að Ísland fái notið sín í samfélagi þjóðanna. Við munum ekki koma í veg fyrir að byggðin þéttist og eigum ekki að sporna gegn slíkri þróun, en mest mun hún þéttast með bættum samgöngum og við eigum að leggja áherslu á að hraða þeim framkvæmdum. Höfuðborgin er og verður miðstöð alþjóðlegs samstarfs. Hún er jafnframt miðstöð stjórnsýslu og menningar. Án nets og strauma um allt land er hún ekki sönn höfuðborg og með henni eru byggðirnar í landinu sterkari.

Allt þetta er hollt að hafa í huga þegar rætt er um grundvöll og hugmyndafræði Framsóknarflokksins. Stundum er því haldið fram að Framsóknarflokkurinn hafi færst of langt til hægri. Við hvað er átt? Er það einkavæðing bankanna og Símans? Er það samkeppnis- og fjármálaumhverfið sem við höfum byggt upp? Er það lækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga? Eða hvað er það? Vissulega hefur flokkurinn breyst. En það sama gildir um alla systurflokka okkar í nágrannalöndunum.

Það sama hafa þau lönd gert í kringum okkur sem náð hafa hvað bestum árangri. Ef það er hægri stefna, hvað er þá vinstri stefna? Að hjakka í gamla farinu, breyta engu og sjá flest svart? Eigum við ekki að vera stolt af því að hafa leitt til lykta flest baráttumála okkar nú þegar kjörtímabilið er aðeins hálfnað? Endurgreiðslubyrði námslána hefur verið lækkuð. Húsnæðislán hækkuð og vextir lækkað. Skattar hafa lækkað og kaupmáttur launa hækkað meira en í öðrum löndum, mest þó kaupmáttur lægstu launanna. Foreldrum langveikra barna hafa verið tryggð réttindi til að dvelja hjá veikum börnum sínum. Örorkulífeyrir hefur hækkað. Aldrei hefur jafn miklum fjármunum verið varið til samgöngumála. Barnabætur hafa hækkað. Fæðingarorlofslögin tryggja sífellt fleiri foreldrum tækifæri til að vera með börnum sínum fyrstu mánuðina í ævi þeirra. Ég lít á þessa þætti og marga fleiri með stolti og það ættum við öll að gera. Ætlar einhver í alvöru að halda því fram að þetta séu hægri áherslur í stjórnmálum? Við höfum ekki náð fram öllum þeim félagslegu réttindamálum sem viljum ná fram. Það verður alltaf eitthvað eftir sem stefna þarf að til framtíðar og við megum aldrei gleyma þeim sem ekki eiga það jafn gott. Það er samfélagsleg skylda okkar að rétta þeim hjálparhönd.

Hafið þið trú á að þeir sem hafa hugtakið „vinstri” með í flestum setningum hefðu náð lengra í félagslegu og efnalegu réttlæti? Ég tel það af og frá.

Góðir félagar,

Á árunum 1999-2004 fóru alls fram 14 sölur á hlutabréfum í eigu ríkisins og nemur söluvirði seldra hlutabréfa á þessu tímabili um 55 milljörðum króna, söluvirði sem notað hefur verið til niðurgreiðslu skulda og til fjármögnunar ýmissa þarfra verkefna. Markmiðið með sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins er að draga ríkið út úr samkeppnisrekstri og auka þannig samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu, neytendum til hagsbóta.

Undirbúningur sölu á hlutabréfum í Símanum stendur nú sem hæst og stefnt er að sölu á vormánuðum. Með sölu á Símanum er ráðist í stærstu einstöku einkavæðingu Íslandssögunnar. Ég hef lýst því yfir og raunar hefur það legið fyrir um langt skeið að Síminn verður seldur í heilu lagi, með grunnneti, enda liggja þar að baki heimild Alþingis og veigamikil tæknileg, rekstarleg og pólitísk rök.

Ég veit hins vegar að fjölmargir flokksmenn hafa áhyggjur af þessu máli og vil því skýra þetta mál út hér. Fjarskiptafyrirtæki hafa víðast hvar í Evrópu verið seld úr ríkiseigu. Nú síðast stendur yfir einkavæðing tyrkneska símafyrirtækisins. Í því ferli hafa grunnnet hvergi verið aðskilin af þeirri ástæðu að hvergi var sú leið talin heppileg eða skynsamleg, hvorki fyrir fjarskiptamarkaðinn né neytendur. Nýleg úttekt OECD á fjarskiptamarkaði styður þessi sjónarmið.

Lagaumhverfið á EES-svæðinu gerir ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta. Þannig reka til að mynda Orkuveita Reykjavíkur, Og Fjarskipti og Fjarski svæðisbundin grunnnet. Ríkisrekið grunnnet væri því í beinni samkeppni við aðra rekstraraðila og engan veginn hægt að tryggja viðskipti fjarskiptafyrirtækja við slíkt net, jafnvel ekki viðskipti Símans. Þá er álitaefni hvort slíkt fyrirkomulag standist ákvæði EES-samningsins. Þessu er öfugt farið með flutning raforku sem samkvæmt evrópskri löggjöf gerir ráð fyrir einkasölu.

Hið lagalega umhverfi á Íslandi og annars staðar í Evrópu tryggir samkeppnisaðilum Símans greiðan og jafnan aðgang að grunnnetinu. Lögin, sem eru frá 2003, gera ríkar kröfur til markaðsráðandi aðila á fjarskiptamarkaði og gefa fyrirmæli um aðgang annarra fjarskiptafyrirtækja inn á grunnnet slíks aðila. Verði markaðsráðandi aðili vís að brotum hafa Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun úrræði til inngripa.

Aðskilnaður grunnnets myndi skapa aukna óvissu um söluna á Símanum og draga úr áhuga fjárfesta og þar með lækka söluandvirði Símans. Sjálfstæð stofnun um grunnnet þyrfti að hafa sjálfstæðan tekjugrundvöll og sérstakt rekstrarskipulag með tilheyrandi kostnaði. Slíkt fyrirkomulag yrði nær örugglega dýrari í rekstri en sú þjónusta sem Síminn rekur í dag, og aukakostnaður félli á neytandann. Rekstraraðili grunnnets þarf að standa undir fjárfestingum vegna tæknilegrar uppbyggingar til að koma til móts við hraða vöruþróun og auknar kröfur neytenda. Leiða má að því sterkum líkum að þjónustufyrirtæki, sem á allt sitt undir neytandanum, sé betur til slíkrar uppbyggingar fallið en rekstraraðili í eigu hins opinbera.

Með sölu á Símanum mun samkeppni á fjarskiptamarkaði aukast og samhliða styrkingu ríkissjóðs gefast áður óþekkt tækifæri til frekari uppbyggingar á fjarskiptaþjónustu, ekki síst í dreifðari byggðum landsins. Ég vil að hluti af andvirði við sölu Símans verði notað til að tryggja landsmönnum betra dreifikerfi en nú er. Ég vil að gsm-kerfið á helstu þjóðvegum verði klárað og skilgreind verði lágmarksþjónusta að því er varðar tölvutengingar, enda skipta slík samskipti gífurlegu máli í þeirri viðleitni að treysta byggð í landinu. Verið er að þróa nýja tækni í ADSL-tengingum með örbylgjusendingum sem auka mjög möguleika á háhraðasambandi í dreifbýli sem hefur hingað til verið nokkrum annmörkum háð tækninnar vegna, en nú hafa um 93% landsmanna slíka tengingu. Ég tel að skoða þurfi hvernig unnt sé að jafna aðstöðumun að þessu leyti og vil sjá hið fyrsta framkvæmdaáætlun um uppbyggingu dreifikerfisins.

Í þessu sambandi ber að nefna að þróun á fjarskiptamarkaði er ör og lög um fjarskipti og eftirlitsúrræði eru í sífelldri endurskoðun. Því mun ríkisvaldið áfram móta leikreglur á fjarskiptamarkaði og þannig stuðla að virkri samkeppni og góðri þjónustu. Hins vegar legg ég höfuðáherslu á að sala Símans á að vera jákvæð aðgerð en ekki neikvæð. Hún á að afla fjár til að byggja upp dreifikerfið, en fyrir andvirði fyrirtækisins á einnig að fjárfesta í grunnþjónustu öllum landsmönnum til handa. Ríkisstjórnin samþykkti fyrir tæpu ári síðan að hefja undirbúning að byggingu nýs hátæknisjúkrahúss Landsspítalans og fleiri brýn mál mætti nefna. Ég tel að fyrir stóran hluta andvirðis af sölu Símans eigi að fjárfesta í samgöngumannvirkjum sem koma landsmönnum öllum til góða.

Sama formála mætti í raun hafa um framtíðarskipan raforkumála sem mjög hefur verið til umræðu að undanförnu, ekki síst eftir að undirrituð var viljayfirlýsing um sölu á eignarhlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar til ríkisins. Umræða hefur verið um það að undanförnu að rétt sé að skipta RARIK upp og sameina hlutana þeim dreififyrirtækjum sem fyrir eru. Meðal annars lagði NV-nefnd það til að RARIK á Vesturlandi og Orkubú Vestfjarða yrðu sameinuð.

Ég vil leggja á það áherslu að ólíkum hlutum sé ekki blandað saman í þessari umræðu. Þótt ríkið eignist allt hlutafé í Landsvirkjun og velt sé upp kostum þess að sameina öll orkufyrirtæki ríkisins undir einn hatt, hefur engin ákvörðun verið tekin um hvað verður um þennan eignarhlut til framtíðar. Mér finnst raunar ástæða til þess að við framsóknarmenn ræðum það alveg sérstaklega og hef því ákveðið í samráði við iðnaðarráðherra að mælast til þess við málefnanefnd flokksins, að stofna sérstaka nefnd um framtíðarskipan raforkumála sem skili tillögum sínum fyrir miðstjórnarfund næsta haust, líkt og gert hefur verið með góðum árangri í flokknum í sérstökum nefndum um Evrópumál, sjávarútvegsmál og nú síðast menntamál.

Ég tel að slík vinnubrögð séu til fyrirmyndar í nútímalegum og lýðræðislegum stjórnmálaflokki. Við munum auðvitað ræða þessi mál hér á þessu flokksþingi, en ég legg þó megináherslu á flokksmenn úr öllum kjördæmum komi að slíku nefndastarfi og njóti þeirrar sérfræðikunnáttu sem til staðar er, bæði innan og utan flokksins okkar.

Ágætu framsóknarmenn.

Á þessu flokksþingi munum við móta okkur stefnu til næstu tveggja ára. Drög að ályktunum sem hér liggja fyrir voru mótuð af þrettán málefnahópum sem öllum félagsmönnum gafst kostur á taka þátt í. Mörg hundruð skráningar bárust og margir hafa lagt mikið á sig við að vinna drögin. Það sem hér liggur fyrir er niðurstaða þeirrar vinnu. Við höfum unnið þetta með mjög opnum og lýðræðislegum hætti og ég tel það til fyrirmyndar að vinna að stefnumótun á þennan hátt. Ég minni á að mörg af stærstu málum okkar á undanförnum árum hafa einmitt orðið til í slíku lýðræðisstarfi grasrótarinnar í flokknum. Nægir að nefna 90% húsnæðislán fyrir alla í því sambandi.

Í drögum málefnahópanna er fjallað um alla helstu málaflokka í íslensku samfélagi og þar er margt sem vekur athygli. Ég ætla ekki að dvelja við einstök drög að ályktunum, enda verður án efa tekist hressilega á um þau í málefnastarfinu hér á flokksþinginu og ég ætla ekki heldur að þylja upp þau góðu verk sem hefur verið unnið að á vettvangi einstakra ráðuneyta. Við höfum látið taka saman yfirlit yfir helstu verkefni ráðuneytanna það sem af er kjörtímabilinu og liggur það frammi hér á flokksþinginu og hvet ég ykkur til þess að kynna ykkur það þróttmikla starf sem þar hefur verið unnið.
Þó er tvennt sem ég vildi minnast á. Hið fyrra lýtur að utanríkismálum og þeim drögum að ályktun sem snúa að aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er ánægjulegt að áhugi er fyrir umræðu um Evrópumálin í Framsóknarflokknum. Það sýnir áhuga á framtíðinni. Ég tel mikilvægt að þessi umræða haldi áfram. Í stefnu Framsóknarflokksins er skýrt að aðild að Evrópusambandinu er talinn hugsanlegur kostur. Ég tel hvorki tímabært né skynsamlegt að fara út í aðildarviðræður á þessu kjörtímabili og slíkt væri ekki í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar. En við eigum heldur ekki að vera feimin við að ræða málið fordómalaust í grasrótinni eða hér á flokksþinginu því að ákvörðun um aðild kann að koma fyrr en seinna.
Hitt atriðið sem ég vildi nefna snýr að hugmyndum í hópnum um menntamál um betri samtengingu hinna mismunandi skólastiga meðal annars með því að gera síðasta ár leikskólans að skyldunámi og þar með gjaldfrítt. Ég tel að slíkar hugleiðingar snúi að uppbyggingu þess samfélags sem við búum í og viljum móta til framtíðar. Um þessi mál er til að mynda fjallað í fjölskyldunefnd sem ég hef skipað og ég bind miklar vonir við. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stefna að því að ríkið og sveitarfélögin geri átak í leiksskólamálum í því augnamiði að stórlækka gjaldtöku. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og þar fer fram afar gott og mikilvægt uppeldisstarf. Ég tel að stórlækkun leikskólagjalda væri mikið kjaramál fyrir fjölskyldurnar í landinu og vil beita mér fyrir því að það verði sem fyrst að veruleika. Vona ég að innan Framsóknarflokksins séu fleiri sömu skoðunar.

Góðir framsóknarmenn,

Staða Íslands í alþjóðamálum hefur verið til mikillar umræðu að undanförnu. Framtíðarsýn okkar mótast af því hvar við viljum standa og með hverjum við viljum helst starfa. Í upphafi lýðveldisins höfðum við þá trú að Ísland gæti verið hlutlaust. Það var góð draumsýn sem átökin í síðari heimsstyrjöldinni breytti. Þá tókum við stöðu með vestrænum þjóðum og vorum með í Atlantshafsbandalaginu frá fyrsta degi. Síðan hefur margt breyst, en eitt hefur ekki breyst og mun aldrei breytast. Ísland er eyland milli mikilvægustu efnahagssvæða heims, Ameríku og Evrópu. Samskiptin við þjóðirnar beggja vegna Atlantshafs skipta okkur miklu í öryggis- og varnarmálum. Við eigum að treysta þau vináttubönd, ekki veikja þau.

Framsóknarflokkurinn ákvað að skipa sér í sveit þjóða Atlantshafsbandalagsins og eiga náið samstarf við þær þjóðir. Nánast hefur samstarfið verið við Bretland og Bandaríkin. Enginn hefur skilgreint stöðu Íslands betur í þessu samhengi en Jónas Jónsson frá Hriflu. Það kom í hlut Eysteins Jónssonar síðar formanns Framsóknarflokksins að hafa forystu í flokknum um inngöngu í NATO og samninga við Bandaríkin, Síðan hefur margt breyst en enn þann dag í dag eru þessar þjóðir okkar nánustu bandamenn á sviði öryggis- og varnarmála. Sem herlaus þjóð þurfum við að rækta þau samskipti vel í baráttunni gegn aðsteðjandi hættum. Ef við gerum lítið úr því erum við að vanrækja þá afstöðu sem flokkurinn tók á viðkvæmum tímum.

Ég vil hins vegar ekki loka augunum fyrir því að tímarnir hafa breyst og Bandaríkin hafa sætt gagnrýni í alþjóðasamfélaginu að undanförnu. Víst er að staða þeirra sem eina raunverulega risaveldis veraldarinnar er einstök og af þeim sökum verða Bandaríkin fremur fyrir gagnrýni en ella. Hryðjuverkin þann 11. september 2001 hafa brennt sig inn í vitund bandarísku þjóðarinnar og fréttir um að fleiri voðaverk kunni að vera í undirbúningi hefur haft mikil áhrif á þjóðarsál þeirra.

Ég er þeirrar skoðunar að staða mála í Írak í aðdraganda innrásarinnar fyrir tveimur árum hafi verið einstök og ekki sé unnt að bera önnur lönd saman við hana. Alþjóðasamfélagið, með Sameinuðu þjóðirnar og Öryggisráð þeirra í broddi fylkingar, höfðu á annan áratug sent frá sér fjölda ályktana þar sem vígbúnaðarkapphlaup, þjóðarmorð og framferði írakskra stjórnvalda var fordæmt á alla kanta. Innrásin átti sér því langan aðdraganda og fyrir löngu var orðið ljóst að til átaka gæti komið. Ég hef ávallt talað fyrir samningaleiðinni og vonað í lengstu lög að koma mætti í veg fyrir átök. Því miður varð sú ekki raunin.

Það er mikill misskilningur að það sé létt verk að axla ábyrgð á samskiptum ríkis við önnur ríki og þær ákvarðanir sem þarf að taka eru stundum mjög þungbærar. Ég skal vera alveg einlægur og og játa að vart líður sá dagur að ég velti ekki fyrir mér þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita pólitískan stuðning við innrás Bandaríkjamanna, Breta og fleiri í Írak.

Ég er líka einlægur í þeirri afstöðu minni að ég tel að um rétta ákvörðun hafi verið að ræða, bæði í ljósi utanríkisstefnu Íslendinga á undanförnum áratugum og eins í ljósi þeirra upplýsinga sem lágu fyrir og ég hafði enga ástæðu til að efast um eða rengja. Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á, en ég er sannfærður um að sagan mun sýna að það var rétt að koma frá ógnarstjórn Saddams Hussein. Þrátt fyrir erfitt ástand í Írak nú um stundir, fylgdist heimsbyggðin með frjálsum kosningum þar af aðdáun á dögunum. Þar sannaðist enn og aftur að fólk lætur hvorki byssugelt né sprengjuhótanir ræna sig þeim sjálfsagða og lýðræðislega rétti að neita atkvæðisréttar í kosningum. Ég fann vel á leiðtogafundi NATO nú í vikunni að menn eru sammála um að til lítils sé að deila um hið liðna; framtíðin sé það sem mestu skiptir. Ég er sammála því og ber þá von í brjósti að framundan séu bjartari tímar í þessum heimshluta, enda þótt enn sé langt í land.

Góðir félagar,

Hvar stöndum við sem þjóð í dag? Ég er fullviss um að við stöndum vel. Ég hef alltaf trúað á landið mitt og fólkið sem þar býr. Ég hef kynnst margvíslegum störfum en ég eins og fleiri helgaði mig stjórnmálum vegna þess að ég hafði þá bjargföstu trú að við gætum lyft Grettistaki á grundvelli hugsjóna Framsóknarflokksins.

Í þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru er mjög brýnt að við eflum samstöðuna og styrkjum flokkinn inn á við. Stjórnarandstaðan er í sífelldum tilraunum að berja bresti í flokkinn. Vissulega höfum við skapað þeim tækifæri til þess með lítt hugsuðum ummælum sem síðan eru hártoguð og slitin úr samhengi. Ég tel að deilur innan flokksins séu okkur ekki til framdráttar. Mér er það ljóst að það er ekki létt að ganga fram í umdeildum málum iðulega gegn straumnum. Það getur þó verið hlutverk okkar og skylda að gera einmitt það. Okkar er að leiða, ekki að berast með straumi og tilfallandi vindum. Það er nánast óhugsandi að gera það án samstöðu og einhugs. Við þurfum að sýna á þessu flokksþingi að við erum samstilltur flokkur sem er tilbúinn til að ganga fram til frekari afreka. Skoðanaskipti og mismunandi áherslur eru nauðsynlegar og eðlilegar. En þegar niðurstaða er fengin verða allir að ganga fram sem einn maður. Þannig stóðum við saman þegar barist var fyrir uppbyggingu atvinnu á Austurlandi og enginn þarf að velkjast í vafa um að sú barátta átti rétt á sér og hefur skilað og mun skila enn meiri árangri í framtíðinni.

Við höfum markað djúp spor í íslensku samfélagi, spor sem mun aldrei fenna yfir. Við verðum hinsvegar að viðurkenna að okkur hefur ekki tekist nægilega vel að koma okkar góða starfi að í umræðunni. Við getum gert betur í að koma árangri okkar á framfæri hér heima fyrir. Það er staðreynd að Ísland er stöðugt ofar á listum yfir þjóðir sem ná bestum árangri. Lánshæfismat Íslands er eins og best getur orðið. Alþjóðleg matsfyrirtæki og efnahagsstofnanir bera okkur vel söguna. Í stuttu máli, það ríkir mikið traust í garð Íslands. En það er ekki nóg að útlendingar viti af þessu ef Íslendingar gera sér ekki sjálfir grein fyrir þeim góða árangri sem náðst hefur.

Ég lýsti því yfir á Viðskiptaþingi á dögunum, að ég ætti mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda, vegna þess mannauðs sem í landinu býr og vegna mikils og góðs stöðugleika, hvort sem er í efnahagslegu eða stjórnmálalegu tilliti.

Ég er þeirrar skoðunar að með samstilltu átaki getum við gert þennan draum að veruleika. Við eigum ekki að harma það þótt upp spretti stöndug fyrirtæki hér á landi og fleiri fái ríkulega greitt fyrir vinnu sína. Þvert á móti eigum við að laða hingað fyrirtæki og stórefla vísindarannsóknir og nýsköpun. Mér finnst að það eigi að vera sameiginlegt markmið okkar allra að sýna hvernig allt í senn er hægt að skapa á Vesturlöndum ríki þar sem fyrirtækjum er boðin samkeppnishæf aðstaða til rekstrar og vaxtar við það sem best þekkist í heiminum, en um leið sé áhersla lögð á öflugt velferðarkerfi sem byggist á ævagömlum lögmálum um samhjálp og manngæsku. Þar sem eru til peningar fyrir betri skóla, öflugri heilbrigðisstofnunum og til þess að búa hinum öldruðu áhyggjulaust ævikvöld.

Góðir flokksþingsfulltrúar,

Framsóknarmenn hafa ávallt trúað á samtakamátt sinn og verið þess fullvissir að ekkert verkefni, engin áskorun sé ofviða samtökum karla og kvenna, sem treysta á mátt samvinnunar, hafa jöfnuð að leiðarljósi, setja velferð fólksins í landinu í öndvegi, vinna lýðræðislega og af samfélagslegri ábyrgð og ganga fram af hófsemi og án öfga. Það var þessi trú sem lagði grundvöllinn að hugmyndafræði Framsóknarflokksins, hún var sprottin úr rammíslenskum jarðvegi en var og er jafnframt hluti hinnar frjálslyndu hefðar sem er ríkur þáttur í stjórnmálahefð allra vestrænna lýðræðisþjóða.

Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá. Þau orð trúi ég að eigi vel við þegar litið er yfir sögu Framsóknarflokksins frá upphafi til dagsins í dag. Á þessu tímabili hefur Framsóknarflokkurinn oftar en ekki setið í ríkisstjórn, hann hefur stuðlað að því að íslenska þjóðin fetaði hinn gullna meðalveg á öld pólitískra öfga, hann hefur komið í veg fyrir pólitískar og efnahagslegar kollsteypur, leitað hagnýtra og hagkvæmra lausna á verkefnum hvers tíma, haft hagsmuni fólksins í landinu að leiðarljósi og haft dug og þor til að verja íslenskra hagsmuni gegn allri ásælni. Vegferð íslensku þjóðarinnar frá örbirgð til allsnægta er tengd sögu Framsóknarflokksins órjúfandi böndum.

Ég trúi því að Framsóknarflokkurinn eigi mikið starf óunnið og ég trúi því að þau grundvallargildi sem flokkurinn okkar sækir afl sitt til séu jafnnauðsynlegir vegvísar fyrir íslensku þjóðina á 21. öldinni og á hinni 20. Það erum við, sem erum hér saman komin – fulltrúar þeirra 10.000 karla og kvenna sem eru félagar í Framsóknarflokknum – sem berum ábyrgð á þessum grundvallargildum flokksins í dag, það er okkar ábyrgð að sjá til þess að gildin finni hljómgrunn meðal þjóðarinnar og það eru okkar verk sem munu ráða því hvaða augum næsta aldamótakynslóð mun líta starf Framsóknarflokksins á 21. öldinni. Okkur er trúað fyrir miklu og þessarar ábyrgðar gagnvart komandi kynslóðum er okkur hollt að minnast þegar við göngum til starfa hér á flokksþinginu.

Góðir vinir,

Framsóknarflokkurinn er ein stærsta fjöldahreyfing í landinu og þótt við séum nokkur valin til forystu í þessari hreyfingu þá býr afl flokksins í fjöldanum og það er til ykkar flokksmanna sem við forystumennirnir sækjum okkar styrk og gagnvart ykkur berum við mikla ábyrgð. Ég hef sjálfur notið mikils trausts innan Framsóknarflokksins. Það eru meira en þrjátíu ár síðan ég settist á þing fyrir flokkinn, ég var varaformaður flokksins í fjórtán ár og nú formaður í ellefu ár.

Ég hef lagt mig allan fram og unnið af þeirri einlægni og sannfæringu sem ég hef átt þennan aldarfjórðung í forystu flokksins. Traust ykkar skiptir mig öllu máli og fyrir þetta traust ykkar í gegnum árin hef ég verið mjög þakklátur.

Ég sækist eftir endurnýjuðu umboði og bið um stuðning ykkar hér á þessu flokksþingi og heiti því að leggja mig allan fram með ykkar fulltingi í þeim krefjandi en um leið skemmtilegu verkefnum sem framundan eru.

Framtíðin er okkar. Við skulum móta hana saman af bjartsýni, einlægni og samstöðu og þá mun árangurinn ekki láta á sér standa.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira