Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. október 2005 HeilbrigðisráðuneytiðJón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra 2001-2006

Úrslit hugmyndasamkeppni

Ávarp Jóns Kristjánssonar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við
afhendingu dómnefndar á niðurstöðu í samkeppni
um skipulag lóðar vegna nýs spítala

12. október 2005

Ágætu fundargestir!

Ég hef nú fengið í hendur niðurstöður dómnefndar, en ég, eins og svo margir hér í þessum sal, hef beðið eftir því með nokkurri eftirvæntingu. Að baki þessa álits liggur mikil vinna og vil ég hefja mál mitt í dag á þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn og tilkynna um það hver fer með sigur af hólmi í samkeppninni en það er hópur, skipaður arkitektastofunni Arkitektur.is, Verkfræðistofu Norðurlands, norsku verkfræðistofunni SWECO Gröner og dönsku arkitekta-og landslagsarkitektastofunum C.F. Möller og Scönherr Landskab. Þetta eru vinningahafarnir og mig langar að biðja fulltrúa þessa hóps að koma hér upp og að við gefum þeim gott klapp.

Góðir gestir!

Ég vil þakka dómnefndinni og öllum þeim sem hafa lagt mikla vinnu og alúð í allan undirbúning málsins fyrir þeirra mikilvæga þátt, en of langt mál er að telja þá alla upp hér. Ég vil hins vegar sérstaklega þakka formanni dómnefndarinnar, Ingibjörgu Pálmadóttur fyrrverandi heilbrigðismálaráðherra, en hún bæði hratt af stað sameiningu stóru spítalanna tveggja í Reykjavík og þeirri vinnu við að ákveða hvar framtíðaruppbygging nýs spítala ætti að vera.

Ég tel að sameiningin hafi verið heillaspor. Landspítalinn hefur styrkst faglega og hann hefur einnig náð árangri í rekstri sínum og með þeim skrefum sem stigin eru í dag nálgumst við það að ljúka sameiningunni en ég hef haldið því fram að með því að sameina starfsemi spítalans á einn stað náum við að fullu þeim markmiðum sem við settum okkur við sameininguna. Ingibjörg gat ekki verið með okkur hér í dag af persónulegum ástæðum, en við sendum henni okkar bestu kveðjur.

Í dómsorðum sínum segir dómnefndin um vinningstillöguna meðal annars að hún sé vönduð og sterk og hafi mikla möguleika til nánari útfærslu. Tillagan hefur heildstætt yfirbragð og gefur skýra mynd af svæðinu. Skipulag A-hluta lóðarinnar er mjög vel leyst, með rólegu yfirbragði í góðum tengslum við aðliggjandi byggð. Flest rými spítalans njóta dagsbirtu og nálægðar við útirými hans.

Umferð sjúkrabíla, gesta og starfsmanna er vel aðgreind en staðsetning þyrlupalls er ekki eins og best verður á kosið. Umferð gangandi og akandi um svæðið er ágætlega leyst en skýra þarf aðkomu gangandi frá nýju Hringbraut. Aðalinngangar HÍ og LSH um sameiginlegt torg þarfnast frekari útfærslu en tenging spítalans við HÍ undir aðkomutorgi er vel leyst. Innri tenging starfseininga er góð en bæta má tengingu barnadeildar við bráðakjarna. Áfangaskipting tillögunnar er mjög skýr og sannfærandi.

Það er talin kostur að fyrsti áfangi samkvæmt tillögunni er byggður næst núverandi spítala, sem þýðir að um heilsteypt spítalasvæði er að ræða í lok hvers áfanga.
Þróunarmöguleikar tillögunnar eru miklir og er þá meðal annars litið til fyrirkomulags skurð- og greiningadeilda. Og síðan segir að dómnefndin sé sammála um að þessi tillaga uppfylli vel flest þau atriði sem samkeppnislýsing kveður á um og telur hana því besta kostinn til áframhaldandi vinnu við skipulag svæðisins. Ég vil aftur þakka vinningshöfum og þeim öðrum sem tóku þátt í samkeppninni fyrir sinni þátt, og dómnefndinni fyrir sinn.

Niðurstaða hugmyndasamkeppninnar markar tímamót í því stóra og viðamikla verkefni að byggja nýjan spítala. Draumurinn um öflugan háskólaspítala á einum stað er kominn til ára sinna en skipuleg vinna við að hrinda honum í framkvæmd hófst fyrir tæplega fjórum árum þegar nefnd um framtíðarskipulag og uppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss skilaði mér nefndaráliti sínu í janúar 2002. Í því nefndaráliti var lagt til í fyrsta lagi að starfsemi Landspítala - háskólasjúkrahúss yrði á einum stað, og í öðru lagi að framtíðarsjúkrahúsið yrði við Hringbraut og nýbyggingar rísi aðallega sunnan núverandi Hringbrautar. Frá þeim tíma hefur verið stefnt að því að háskólaspítalinn risi við Hringbraut og unnið stöðugt að því marki, enda verkefnið af óvenjulegri stærðargráðu. Í október 2002 var síðan skipuð nefnd til þess að stýra næstu skrefum við uppbyggingu Landspítalans á þessum stað. Hún hefur meðal annars gert samninga við Reykjavíkurborg um það svæði, sem nú verður tekið til deiliskipulags.

Framundan er undirbúningur að deiliskipulagi og áframhaldandi hönnun spítalans og háskólans á þessu svæði. Það er nýr áfangi og krefst töluverðs mannafla. Ég hef því ákveðið að skipa byggingarnefnd á þessum tímamótum til þess að fara með yfirstjórn þessara mála næstu misserin og mun ég kynna samsetningu nefndarinnar á næstunni.

Ég vil gjarnan að hana skipi einvalalið sérfræðinga á þessu sviði og ég vil líka að það verði tryggt með byggingarnefndinni að um verkið eða verkefnið skapist til langrar framtíðar sú breiða pólitíska samstaða sem nú ríkir og þarf að ríkja um uppbyggingu nýs spítala fyrir alla landsmenn. Þetta segi ég vegna þess að öllum er ljóst að svo stórt verkefni eins og bygging nýs Landspítala nær yfir að minnsta kosti tvennar kosningar.

Ágætu fundargestir!

Stærstu þáttaskilin í málinu, og forsenda þess að við sjáum nýja framtíð handan skipulagssamkeppninnar, urðu að sjálfsögðu þegar að ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að leggja 18 milljarða af söluandvirði Símans til uppbyggingar hins nýja spítala. Fyrir heilbrigðisráðherra er ánægjulegast að geta lagt sitt af mörkum til að efla heilbrigðisþjónustuna til hagsbóta fyrir borgara þessa lands. Verkefnið sem bíður okkar nú er hins vegar ekki bara að reisa hús og byggingar heldur ekki síður að taka ákvarðanir um starfsemina sem hér fer fram og þar með hvað gert er á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Landspítalinn hefur verið og verður meginstoð íslensku heilbrigðisþjónustunnar í skilningi lækninga og hjúkrunar að ekki sé talað um rannsóknir og kennslu.

Þegar ákvörðun ríkisstjórnarinnar lá fyrir var mín fyrsta hugsun að kynna niðurstöðuna fyrir starfsmönnum og stjórnendum Landspítalans og Háskóla Íslands. Við það tækifæri sagði ég eitthvað á þá leið að mikilvægi rannsókna og vísinda á heilbrigðissviði færi vaxandi og þar gegndu einmitt háskólasjúkrahúsin lykilhlutverki. Ég sé fyrir mér að þetta verði eitt meginhlutverka hins nýja Landspítala. Ég sé fyrir mér nýjan Landspítala sem veitir fyrirtaks þjónustu og þar sem unnt er að framkvæma flóknar aðgerðir á sem flestum sviðum, spítala sem verður í senn hornsteinn heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar og spítalinn sem tengir saman heilbrigðisþjónustuna í landinu öllu.

Við erum hér í raun og veru að tala um miðstöð, eða háskólaspítala sem allir aðrir geta sótt í þekkingu, hátækni- og sérfræðiþjónustu. Þegar vinningstillagan og framtíðin er skoðuð er mikilvægt að hafa einmitt þessi sjónarmið í huga, því þau liggja til grundvallar öllum okkar ákvörðunum.

Ágætu fundarmenn.

Við okkur blasir óvenjulega spennandi verkefni og tækifæri til þess að hafa áhrif á mótun nýs sjúkrahúss og nýrra háskólabygginga í miðborginni. Þessi uppbygging mun hafa mikil áhrif á Reykjavíkurborg og breyta ásýnd hennar. Jafnframt munu þessar byggingar þjóna landsmönnum öllum og bera vitni framsækni okkar á sviði heilbrigðisþjónustu. Það er sannarlega tilhlökkunarefni að halda áfram þessu verki.

Takk fyrir.

------------------------

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum