Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 2005 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Áramótaávarp forsætisráðherra í sjónvarpi 2005

Góðir Íslendingar.

I

Árið sem nú er senn liðið hefur verið flestum okkar gjöfult, en öðrum eru tregablandnar minningar ofar í huga. Mestu skiptir þó trúin á að nýtt ár færi okkur betri tíð og þrótt til að takast á við þau verkefni sem bíða.

Árið hefur verið þjóðinni happadrjúgt. Staða efnahagsmála er með besta móti hvort sem litið er til samanburðar við fyrri ár eða til annarra landa. Hagvöxtur er hér meiri en í flestum nágrannaríkjum. Atvinnuleysi, sem víða um lönd er hinn mesti vágestur, er lítið og nær væri að tala um skort á vinnuafli. Bætt velferð heimilanna hefur verið markmið og leiðarljós ríkisstjórnarinnar og því leiðarljósi verður áfram fylgt á nýju ári.

En ekki hafa allir notið sömu gæfu. Árið var sannkallað ár náttúruhamfara. Hver fellibylurinn rak annan en þó enginn á borð við Katrinu sem fór yfir suðurhluta Bandaríkjanna með þvílíku afli að vart stóð steinn yfir steini í borginni New Orleans.

Enn skelfilegri voru þær fréttir sem bárust af nauð manna í Pakistan þegar jarðskjálfti skók suðurhluta Asíu í október. Tugir þúsunda létust og milljónir misstu heimili sín. Bar þá svo við að hjálparstofnanir og Sameinuðu þjóðirnar kvörtuðu undan því að erfiðara væri að afla fjár til hjálparstarfa en áður og var engu líkara en um væri að kenna leiða á hörmungum og deyfð yfir neyð náungans.

Við sem erum svo lánsöm að vera yfirleitt fjarri heimsins ógn og hörmungum megum alls ekki láta doða gagnvart umhverfinu og þeim sem minna mega sín ná tökum á okkur. Okkur ber skylda til að rétta öðrum hjálparhönd og gefa af því allsnægtarborði sem við sitjum við. Ríkisstjórnin brást við hörmungum vegna flóðbylgjunnar í Asíu og jarðskjálftans í Pakistan með fjárframlögum en enn mikilvægari þótti mér sá samhugur sem þjóðin sýndi þeim sem þarna áttu um sárt að binda með myndarlegum gjöfum. Íslenskar hjálparstofnanir unnu einnig fórnfúst og göfugt starf sem sómi er af.

II

Oft er óblíð veðráttan okkur Íslendingum ofarlega í huga og við hér á hjara veraldar höfum ekki farið varhluta af dyntum náttúruaflanna. En það er vissulega gott að búa á Norðurslóðum. Úrkoman sem við kvörtum stundum yfir færir okkur gnægð af vatni, þeirri auðlind sem einna dýrmætust er á jörðu nú þegar vatnsskortur hrjáir menn víða um heimsbyggðina. Spámaður norðursins, Vestur-Íslendingurinn Vilhjálmur Stefánsson, var ekki í vafa um kosti þess að búa í norðrinu, eða á Norðurslóðunum vinalegu, eins og hann orðaði það. Kuldann má af sér klæða en ekki hitann, og gnægð af vatni og öðrum auðlindum, ekki síst í hafinu, gera lífið á norðurslóðum bærilegra en víðast hvar annars staðar.

Áhrifa þróunar á heimskautasvæðinu gætir í veðurfari og vistkerfi um alla jörð. Rannsóknir á norðurslóðum eru þannig mikilvægar fyrir alla heimsbyggðina og þar eigum við Íslendingar að vera leiðandi. Ég kynnti mér nýverið hugmyndir um stofnun fræðaseturs á Ísafirði þar sem fengist yrði við rannsóknir á jarðkerfinu sem kannaði breytingar á loftslagi, straumum sjávar og hitastigi. Þar er á ferðinni gott dæmi um vaxandi áhuga landsmanna á auknu vísinda- og háskólastarfi víða um land.

III

Enginn hefur opnað augu Íslendinga betur fyrir fegurðinni og litrófinu í náttúru landsins en meistari Kjarval. Árið 1930, sama ár og þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður, dvaldi hann þar sumarlangt og málaði fjöllin og hraunið, urð og grjót, svo sterkum dráttum að listaverk hans og mynd okkar af íslenskri náttúru hafa æ síðan verið samtvinnaðar. Þúsund árum fyrr höfðu forfeður okkar lagt þar grunninn að því lýðræði sem við búum við enn í dag og erum stolt af.

Enginn staður á Íslandi er þjóðinni kærari og sameinar hana meira en Þingvellir. Mér hefur að undanförnu verið hugleikið hvernig megi laða þangað í ríkari mæli börn og fjölskyldur þeirra, ekki aðeins til að njóta þar náttúrunnar heldur til að komast í snertingu við sögu lands og þjóðar. Ég hef því ákveðið, nú á 75 ára afmæli þjóðgarðsins, að efnt skuli til hugmyndasamkeppni á árinu 2006 um framtíð nánasta umhverfis Valhallar. Þar eigum við öll að eiga okkur athvarf. Mikilvægt er að lögin frá 1930 verði í heiðri höfð en þar segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.

IV

Góðir Íslendingar.
Við státum okkur gjarnan af því að verða allra þjóða langlífust. Allra karla elstur varð Egill Skallagrímsson. Mér flugu í hug á dögunum kvartanir hans um fótakulda þegar hann orti um þá heldur dauflegu vist með elli kerlingu:

„Langt þykki mér,
ligg einn saman,
karl afgamall,
án konungs vornum:
eigum ekkjur
allkaldar tvær,
en þær konur
þurfa blossa“

Við sem erum í blóma lífsins og sitjum nú við stjórnvölinn, í stjórnmálunum og atvinnulífinu, höfum ekki aðeins skyldum að gegna gagnvart kynslóðunum sem erfa landið. Við eigum ekki síður að tryggja öldruðum örugga og góða afkomu.

Við megum aldrei gleyma því að aldraðir hafa átt stóran þátt í að skapa þá velsæld sem nú ríkir og þeir eiga að geta notið ævikvöldsins með reisn. Helst sem lengst á eigin heimili og meðan heilsan leyfir úti í atvinnulífinu þar sem reynsla og viska þeirra getur komið að góðum notum. Ég reifaði þessi sjónarmið á fundi nokkurra ráðherra með Landssambandi eldri borgara sem haldinn var nú rétt fyrir jól og lagði til að fulltrúar stjórnvalda og eldri borgara héldu áfram nánu samráði og samstarfi. Meginverkefni þess starfs yrði tvíþætt, annars vegar að ræða um leiðir til að draga úr tekjutengingu bóta og hins vegar að fjalla um möguleika á því að auka þjónustu við þá einstaklinga sem kjósa að búa áfram í heimahúsum.

Ég minntist á þessum vettvangi fyrir einu ári á mikilvægi fjölskyldunnar í íslensku þjóðfélagi. Fátt skiptir hag fjölskyldunnar meira máli en verðlag á brýnustu nauðsynjum. Ekki verður við það unað til framtíðar að matvælaverð á Íslandi sé langt umfram það sem er í grannríkjum okkar. Ég hef þess vegna ákveðið að setja á fót nefnd með fulltrúum stjórnvalda, aðilum vinnumarkaðarins og samtökum bænda til að skoða og skilgreina ástæður þessa og koma með tillögur um úrbætur í þessu efni.

Málefni öryrkja hafa verið mjög til umræðu að undanförnu og er það vel. Ríkisstjórnin hefur ákveðið í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að gera sérstakt átak í málefnum þeirra og leggja áherslu á starfsendurhæfingu og gera þær ráðstafanir sem auðvelda mega öryrkjum að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Þeir, eins og aldraðir, eru ekki einsleitur hópur og sömu úrræði henta ekki öllum. Margir búa við slík örkuml að engin von er um atvinnuþátttöku og verður að hlúa vel að þessum hópi. Aðrir geta fundið störf við sitt hæfi með aðstoð og þjálfun. Mikilvægt er að hverjum og einum sé gert kleift að leita sér lífsfyllingar og nýta þá möguleika sem bjóðast til hins ítrasta.

V

Góðir Íslendingar

Á Þingvöllum hvílir hinn merki og framfarasinnaði athafnamaður Einar Benediktsson skáld. Hann kenndi okkur að hugsa stórt og sá kraftur sem nú býr með þjóðinni væri honum mjög að skapi. Framsýni hans og hugsjónaeldur verður okkur eilíf hvatning til áframhaldandi afreka. Hinu má þó ekki gleyma, eins og skáldið minntist oft á, að við verðum að vera heil í því sem við tökum okkur fyrir hendur og gæta þess að rækta okkur sjálf svo að við missum eigi sjónar á því sem mestu skiptir í lífinu. Því vil ég að lokum taka undir með Einari, er hann segir í kvæðinu Aldamót:

„Að elska, að finna æðanna slag,
að æskunni í sálinni hlúa,
það bætir oss meinin, svo heimurinn hlær,
svo höllinni bjartar skín kotungsins bær.
Sjálft hugvitið, þekkingin hjaðnar sem blekking,
sé hjarta ei með, sem undir slær.
Hver þjóð, sem í gæfu og gengi vill búa,
á guð sinn og land sitt skal trúa.“

Ég óska landsmönnum öllum nær og fjær gæfu og friðar á nýju ári og þakka samskiptin á árinu sem nú er að líða í aldanna skaut.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira