Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. janúar 2006 HeilbrigðisráðuneytiðJón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra 2001-2006

Um stefnumótun í heilbrigðisþjónustu

Stefna og stefnuleysi að gefnu tilefni

Mikið hefur verið gert úr þeirri skoðun Ríkisendurskoðunar að nauðsynlegt sé að skýra stefnuna í heilbrigðisþjónustunni, sem minnst er á í annars ágætri skýrslu um sameiningu spítalanna í Reykjavík. Þetta er hraustlega mælt og sama gildir það sem haft er eftir forstjóra Landspítala - háskólasjúkrahúss í Morgunblaðinu að leiðsögn frá heilbrigðismálaráðherra um stefnu spítalans mætti vera skýrari. Það er ágætt að menn tali hreint út en ég verð að viðurkenna að ég er orðinn frekar leiður á sífelldum stefnuleysisumræðum, einkum um Landspítala - háskólasjúkrahús, vegna þess að mér finnst mönnum stundum sjást yfir að í daglegu starfi og í ákvörðunum sem verið er að taka frá degi til dags er fólgin stefna og stefnumótun. Einmitt þess vegna finnst mér ástæða til að leggja hér orð í belg.

Fyrst vil ég hins vegar óska starfsmönnum Landspítalans til hamingju með vitnisburðinn sem þeir fá í skýrslu Ríkisendurskoðunar, en í mati stofnunarinnar á góðum árangri sameiningar spítalanna í Reykjavík felst mikill og góður vitnisburður um starfsmenn spítalans sem ber að lofa.

Landspítali – háskólasjúkrahús

Landspítali - háskólasjúkrahús er öflugasti og í mörgum tilvikum eini bráðaspítali landsins. Það er veigamikið hlutverk í starfsemi spítalans. Þannig hefur það verið og þannig verður það. Í hlutverkinu felst bæði ytri stefnumótun og krafa um innri stefnumótun svo notuð séu hugtök sérfræðinga.

Landspítali - háskólasjúkrahús er öflugasti aðgerðaspítali landsins fyrir alla landsmenn. Þar eru til dæmis gerðar aðgerðir sem ekki eru gerðar annars staðar og verða ekki gerðar annars staðar af faglegum og fjárhagslegum ástæðum. Í því hlutverki spítalans felst stefna í heilbrigðisþjónustunni.

Landspítali - háskólasjúkrahús er líka svæðissjúkrahús fyrir höfuðborgarsvæðið og nærliggjandi sveitir. Honum ber því að sinna, eins og hann gerir, hefðbundnu hlutverki svæðisbundinnar heilbrigðisstofnunar. Í því hlutverki spítalans felst stefna og stefnumótun.

Landspítali - háskólasjúkrahús er öflugasta rannsókna- og kennslustofnun landsins, ein af frumforsendum þess að hér er hægt að halda uppi akademísku námi í heilbrigðisvísindum og ein veigamikil forsenda þess að hér er rekin öflug rannsóknastarfsemi. Þarf að fjölyrða um stefnumótunina sem í þessu felst, eða er hér auglýst eftir því að heilbrigðisráðherra sé með nefið ofan í hvers manns koppi í þessu sambandi?

Lagasetning – stefnumótun

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að mjög hafi dregið úr vexti þjónustu sérfræðilækna, en sá vöxtur hefur oftsinnis orðið tilefni gagnrýni og opinberra umræðna. Í skýrslunni virðist það hins vegar vera samspilið milli reksturs spítalans og sérfræðiþjónustunnar sem tilfært er sem dæmi um stefnuleysi. Umfangið í þessari þjónustu sérfræðilækna er skýrt að hluta til í skýrslunni. Er það gert með því að benda á starfsemi dag- og göngudeilda Landspítala - háskólasjúkrahúss og er sá vöxtur er bæði eðlilegur og æskilegur. Skýringarnar sem Ríkisendurskoðun nefnir ekki eru hins vegar tvær og báðar veigamiklar.

Í fyrsta lagi voru sett lög um sérstaka samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á tímabilinu sem um ræðir, nefnd sem ætlað var að halda betur utan um þjónustuna sem veitt er á þessu sviði. Nefndinni var jafnframt ætlað það hlutverk að vera tæki heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni og að skapa ráðherra skilyrði til að geta hrint í framkvæmd vilja löggjafar- og fjárveitingavaldsins á þessu sviði.

Í öðru lagi hefur Landspítali - háskólasjúkrahús gert þá kröfu til yfirlækna sem ráðnir eru til spítalans að þeir reki ekki einkastofur samhliða því að gegna lykilhlutverki í þjónustu spítalans við sjúklinga. Hvort tveggja hefur að mínum dómi haft þau áhrif að dregið hefur úr vexti í þjónustu sérfræðilækna, þjónustu sem er mjög mikilvægur þáttur heilbrigðisþjónustunnar og rétt að halda því til haga. Þessi breyting er ekki gerð án samráðs eða vitundar heilbrigðismálaráðherra. Hér eru stjórnendur Landspítala að halda fram stefnu ráðherra, með stuðningi hans, og óþarfi að kalla það annað, eða jafnvel stefnuleysi.

Þessi tvö atriði fela í sér stefnu, eða stefnumótun, sem hefur haft umtalsverð áhrif í heilbrigðisþjónustunni og ekki bara rétt heldur líka skylt að draga fram. Í þessu felst stefna og vilji ráðherra fyrst og fremst til viðbótar við stefnu Alþingis að því er varðar fyrrnefnda atriðið. Af því minnst er á Alþingi þá er rétt að draga fram að heilbrigðisþjónustan þessi árin er líka byggð upp í samræmi við Heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Sú áætlun var samþykkt sem ályktun Alþingis við miklar og góðar undirtektir fyrir ekki löngu síðan.

Undir sama þaki

Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík er ákvörðun sem ræður miklu um stefnuna í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn. Þetta segi ég vegna þess að hér verður aðeins rekinn einn Landspítali í tengslum við Háskóla Íslands. Þrjú hundruð þúsund manna þjóð á þann kost einan að reka einn slíkan háskólaspítala, eina þekkingarmiðstöð, ef þessi þáttur í heilbrigðiskerfinu á að geta staðið undir nafni. Hér verða í þessum skilningi ekki reknir margir háskólaspítalar með þessu umfangi. Því var sameiningin í hæsta máta stefnumarkandi.

Annar þáttur í stefnumótun heilbrigðisþjónustunnar er svo að koma sem mestu af starfsemi háskólasjúkrahússins undir eitt þak. Það mun í senn efla bráða- og slysaþjónustu spítalans, efla hann sem kennslu- og rannsóknastofnun og leiða til þess smám saman, að raunhæfar forsendur skapast til að endurskilgreina heilbrigðisþjónustuna í landinu í heild sinni. Það verður hvorki gert í eitt skipti fyrir öll, né án þess að hafa hliðsjón af því hvernig við kjósum að þróa heilbrigðisþjónustuna á næstu árum. Heilbrigðismálaráðherra getur aldrei neglt sig svo í skilgreiningarnar að þær verði mönnum fjötur um fót í þjónustunni við sjúka. Í þessum efnum er ekkert eitt patent, ein einföld skilgreining.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu

Í því felst einnig klár stefna í heilbrigðisþjónustunni að stórefla þjónustu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, en á næsta ári sér fyrir endann á því verkefni. Þá verður bætt við nýrri heilsugæslustöð í Voga- og Heimahverfinu, fyrir utan nýju stöðina í Kópavogi og Hafnarfirði sem senn tekur til starfa. Í uppbyggingu heilsugæslunnar felst ótvíræð stefnumótun, sem hefur bæði áhrif á rekstur og þjónustu Landspítala og þjónustu sérfræðilækna. Þar fyrir utan felast bæði stefna ráðuneytis og stefnuáherslur heilbrigðismálaráðherra í samningum um aukna og breytta þjónustu í heilsugæslunni.

Allt þetta flókna samspil verða menn að hafa í huga þegar þeir draga ályktanir, stjórna heilbrigðisstofnunum eða skrifa og flytja útvarpsfréttir. Veruleikinn er ekki og getur aldrei orðið rödd eins manns, jafnvel þótt hún sé látin endurtaka skoðanir sínar þrettán sinnum eða oftar.

Jón Kristjánsson

Grein heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra birtist í Morgunblaðinu 3. janúar 2006Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira