Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. febrúar 2006 ForsætisráðuneytiðHalldór Ásgrímsson, forsætisráðherra 2006-2009

Ræða forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, á Viðskiptaþingi, 8. febrúar 2006

English version

Ræða forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar,
á Viðskiptaþingi, 8. febrúar 2006

Ég vil byrja á að þakka Viðskiptaráði Íslands fyrir að boða til þessa árlega Viðskiptaþings. Þingið hefur markað sér fastan sess í okkar þjóðfélagi á undanförnum árum, ekki síst fyrir það hversu framsækið og áræðið umræðuefnið er hverju sinni. Að þessu sinni er spurt: Hvernig Ísland viljum við sjá árið 2015? Hér er stórt spurt og oft hefur verið sagt að þegar stórt sé spurt verði oft fátt um svör. Ég tel að það eigi þó ekki við að þessu sinni.

Stefnumörkun auðveldari

Skýrsla Viðskiptaráðs Íslands sem hér liggur fyrir gefur góða sýn inn í hugarheim íslensks viðskiptalífs og hugmyndir manna um æskilega þróun íslensks þjóðfélags fram til ársins 2015. Ég fagna þessu framlagi Viðskiptaráðs til uppbyggilegrar umræðu og skoðanaskipta um framtíð okkar lands og get fyrir mitt leyti verið sammála þeim megináherslum sem fram koma í þessari skýrslu.

Ég vil þó leyfa mér að vera ósammála upphafsorðum skýrslunnar þar sem segir að tíu ár séu langur tími í stefnumörkun. Það kann að hafa átt við um Ísland fyrir 15 til 20 árum þegar hér var mikill óstöðugleiki í efnahagsmálum. Við þær aðstæður var enginn vegur að hugsa nokkra vitræna hugsun nema til skamms tíma, hvað þá að gera áætlanir til einhverra ára í senn. Menn lifðu frá degi til dags og það gilti jafnt um stjórnendur fyrirtækja, heimilin og okkur stjórnmálamenn.

Nú er þetta sem betur fer allt breytt. Efnahagsumhverfið er orðið stöðugt og sama gildir um stjórnmálin. Það er ekki sami grundvallarágreiningur um stefnumörkun og fyrr. Fyrir 20 árum voru menn ósammála um hvaða hlutverki ríkisfjármálin ættu að gegna í efnahagslífinu. Að það skipti yfirhöfuð einhverju máli hvort ríkissjóður væri rekinn með halla eða afgangi. Þetta viðhorf er gjörbreytt og ég hygg að það sé leitun að þeim þingmönnum sem ekki telja að ríkisfjármálin eigi að gegna lykilhlutverki í hagstjórn.

Fyrir 20 árum voru menn líka afar ósammála um grundvallarbreytingar í sjávarútvegi sem voru lykilatriði í framþróun efnahagslífsins. Það hefur einnig breyst mikið. Fyrir 10 árum voru menn ósammála um einkavæðingu bankanna og enn eru uppi efasemdir um nýlegar breytingar á fjarskipta- og raforkumarkaði, svo dæmi sé tekið.

Hitt er svo annað mál að tölusettar áætlanir eru mikilli óvissu háðar og auðvitað verður óvissan þeim mun meiri því lengra fram í tímann sem horft er. Sem betur fer verður þróunin hins vegar oft betri og hagstæðari en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Hver hefði til dæmis trúað því á árinu 1995 að kaupmáttur heimilanna ætti eftir að aukast um 60% fram til ársins 2005? Eða að hagvöxtur ætti eftir að aukast um meira en 50%? Ekki einu sinni við sem sátum í ríkisstjórn á þeim tíma hefðum þorað að setja fram slíka bjartsýnisspá enda vorum við, til dæmis í mínum flokki, sökuð um óraunsæi fyrir mun varkárari spár.

Gjörbreytt Ísland

Með samstilltu átaki hefur okkur tekist að umbylta íslensku efnahags- og atvinnulífi og losa um þá fjötra sem það var áður hneppt í. Sala á hlut ríkisins í fyrirtækjum í samkeppnisrekstri var stórt skref í átt til aukins frjálsræðis og fjölbreytileika í íslensku efnahagslífi. Síðastliðin 14 ár hafa 44 slíkar sölur átt sér stað sem hefur skilað ríkinu rúmum 141 milljarði króna á verðlagi í dag. Fé, sem áður var bundið í rekstri fyrirtækja, hefur verið notað til greiðslu skulda og ýmissa annarra samfélagslegra verkefna. Nú síðast var Landssími Íslands seldur fyrir tæpa 67 milljarða. Það er óumdeilt að sala bankanna og vöxtur þeirra síðan eigi hvað stærstan þátt í öflugri markaðssókn íslenskra fyrirtækja á erlenda grund.
Önnur stór skref voru stigin. Ég nefni sérstaklega aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu, sem hefur reynst íslensku þjóðfélagi farsæl. Einnig þau skref sem stigin hafa verið til lækkunar skatta, jafnt hjá einstaklingum sem fyrirtækjum. Þrátt fyrir að skatthlutföll hafi verið lækkuð umtalsvert hafa skatttekjur ríkissjóðs aukist vegna þess hvata og þeirrar örvunar sem þessar skattalækkanir hafa haft í för með sér fyrir efnahagslífið í heild.

Hinn gríðarlegi vöxtur í starfsemi íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu verður að skoðast í þessu ljósi. Íslensk fyrirtæki í matvælaiðnaði, lyfjaframleiðslu, flug- og ferðaiðnaði, fiskframleiðslu, fjarskiptum, hönnun og smásöluverslun hafa fært út kvíarnar og hafa á sínum vegum þúsundir starfsmanna víðs vegar um heiminn. Nýleg könnun í Viðskiptablaðinu sýnir að um 104 þúsund manns í 14 löndum utan Íslands sæki vinnu á degi hverjum í fyrirtæki sem eru í íslenskri eigu. Þetta jafngildir þeim fjölda sem sækir vinnu hér á höfuðborgarsvæðinu. Hagnaður íslenskra fyrirtækja og fjárfestingar þeirra erlendis nema í krónum talið fjárlögum íslenska ríkisins. Svona er heimurinn breyttur. Þannig er umhorfs á Íslandi í dag.

En hvernig tel ég og hvernig vil ég sjá Ísland á árinu 2015?

Framleiðsla og þjónusta eru ekki andstæður

Ég tel mikilvægt að við höldum áfram því uppbyggingarstarfi sem hér hefur verið í gangi á undanförnum áratug. Við þurfum í fyrsta lagi að tryggja hér áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum því að það er sá grunnur sem við þurfum á að halda. Hér sé ég fyrir mér og finnst sjálfgefið að við munum sjá áframhaldandi uppbyggingu þjónustusamfélagsins og margvíslegra hátæknigreina. Ég tel að í þessum greinum sé vaxtarbroddur framtíðarinnar sem þarf að hlúa að.

Þetta þýðir ekki að uppbygging í hefðbundnum framleiðslugreinum stöðvist þótt hlutfallslegt vægi þeirra verði minna. Við hljótum að auka framleiðslu mat- og iðnaðarvara sem hagkvæmt er að framleiða hér á landi. Auðlindir hafsins verða áfram mikilvægur þáttur í okkar efnahagslífi og menn sjá margvíslega möguleika að auka framleiðslu með eldi ákveðinna tegunda eins og þorsks og lúðu.

Heimurinn stendur frammi fyrir orkuskorti og verðmæti orkulinda okkar er því mikið. Þar eru margvíslegir möguleikar, ekki aðeins með framleiðslu á áli. Þær miklu framkvæmdir sem nú eru í gangi vegna uppbyggingar á Reyðarfirði og Grundartanga eru þær umfangsmestu í sögu þjóðarinnar. Ýmsar hugmyndir eru uppi um frekari framkvæmdir sem of snemmt er að segja til um. Þar eru tækifæri sem verður að nýta til að tryggja áframhaldandi hagvöxt. Ef samningar nást um orkuverð og annað þarf að dreifa þeim framkvæmdum þannig að þær hafi sem jákvæðust áhrif á aðra atvinnustarfsemi og efnahagslífið í heild.

Varðandi arðsemi virkjana er rétt að hafa það í huga að Búrfellsvirkjun er nánast afskrifuð til fulls eftir 40 ár en er í betra ástandi en þá. Eigendur Landsvirkjunar hafa lagt rúmlega 1 milljarð króna í fjármagni á verðlagi í dag inn í fyrirtækið en eigið fé er yfir 50 milljarðar króna. Þetta segir ákveðna sögu um arðsemi virkjunarframkvæmda hér á landi.

Það má ekki líta á framleiðslu- og þjónustugreinar sem tvo ósamrýmanlega kosti enda hafa mörg af öflugustu hátæknifyrirtækjum landsins byggst upp sem þjónustufyrirtæki fyrir framleiðslugreinar eins og sjávarútveginn. Við þurfum hins vegar að búa þannig um hnútana að rekstrarskilyrði allra þessara atvinnugreina séu sem stöðugust og hagstæðust hverju sinni. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að hátt gengi íslensku krónunnar að undanförnu stafar aðeins að litlu leyti af stóriðjuframkvæmdunum. Stórfelld útlánaaukning bankanna og mikil skuldabréfakaup erlendra aðila hér á landi eiga mun meiri þátt í þessari þróun.

Alþjóðavæðingin helsta tækifærið

Íslensk fyrirtæki halda eflaust áfram að reyna fyrir sér á erlendum mörkuðum. Þar eru þeirra tækifæri til vaxtar. Heimurinn er í síauknum mæli að verða eitt markaðssvæði og alþjóðasamfélagið vinnur að því að draga úr höftum og hömlum til viðskipta. Ég hygg að íslensk fyrirtæki líti í auknum mæli til ört vaxandi markaða í Austur-Evrópu og Asíu, ekki síst í Kína og Indlandi. Þar hefur vöxturinn verið ævintýri líkastur. Á Indlandi hefur millistéttin, sem hefur orðið umtalsverðan kaupmátt, vaxið mjög hratt og telur nú um 300 milljónir manna, eða jafnmarga og Bandaríkjamenn. Stofnun íslensks sendiráðs á Indlandi síðar í þessum mánuði er liður í viðleitni stjórnvalda til að styðja við bak íslenskra fyrirtækja og einstaklinga sem hyggjast reyna fyrir sér í viðskiptum og fjárfestingum á þessu svæði.

Mér hefur líka verið umhugað um hvernig laða mætti að auknar fjárfestingar hingað til lands. Það var í því skyni sem ég setti á fót nefnd til að fjalla um forsendur alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi og samkeppnishæfni landsins á því sviði. Nefndinni, sem er stýrt af Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni KB Banka, ber meðal annars að skoða hvernig breyta þurfi lögum og reglum um fjármálastarfsemi, fjármagnsmarkað, skattheimtu og félagaumsvif til að ýta undir alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi án þess að slaka á kröfum um eðlilegt aðhald og eftirlit.

Ég er þeirrar skoðunar að sérhæfð þjónusta við íslensku alþjóðafyrirtækin, ef svo mætti kalla þau, og fjármálaþjónusta við alþjóðleg fyrirtæki, sem hér kynnu að vilja hafa aðsetur, gætu orðið meðal helstu vaxtarbrodda atvinnulífsins í framtíðinni ef rétt er haldið á málum. Slík þróun yrði til þess að hamla gegn atgervisflótta frá landinu og skapa ný og verðmæt störf og um leið mynda eftirsóknarvert samfélag hæfileikafólks á Íslandi. Að mínu viti þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að sameinast um það metnaðarfulla verkefni að koma fjármálaþjónustu hér á landi á svipað þróunarstig og best gerist annars staðar, í löndum eins og Bretlandi, Hollandi, Írlandi, Lúxemborg og Sviss.

Ég sé fyrir mér að árið 2015 gæti Ísland verið orðin alþjóðleg fjármálamiðstöð. Ég tel að hér geti öll skilyrði verið fyrir hendi. Sum koma frá náttúrunnar hendi eins og lega landsins, sem tengir mikilvæg markaðssvæði í vestri og austri. Hér er hátt menntunarstig og reglur um banka- og fjármálastarfsemi eru að evrópskri fyrirmynd og almennt í góðu horfi. Hið sama á við um alla grundvallarinnviði samfélagsins.

Til að þessi framtíðarsýn geti orðið að veruleika þarf hins vegar að hlúa enn frekar að nokkrum málaflokkum. Þótt skattaumhverfi hér sé tiltölulega hagstætt rekstri fyrirtækja má ýmislegt enn betur fara, bæði sem varðar innlend fyrirtæki, eins og afnám stimpilgjalds og vörugjalda sem skekkir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins þyrftu að koma til frekari skattalegar aðgerðir til að laða að erlenda fjárfesta í takt við það sem hefur verið að gerast í mörgum af okkar nágrannaríkjum. Þá yrði að bæta enn frekar tengingar og fjarskipti við útlönd. Að lokum yrðu viðhorf stjórnmálamanna og embættismanna að breytast og ráðuneyti og undirstofnanir þeirra þurfa skýr fyrirmæli um að atvinnulífið eigi að fá góða og hraða þjónustu, á sama tíma og skilvirkt eftirlit með því er bætt.

Ég tel líka tímabært að endurskoða fyrri ákvarðanir sem takmarka fjárfestingu erlendra aðila í tilteknum atvinnugreinum, til dæmis í sjávarútvegi. Hér áður fyrr voru góð og gild rök fyrir slíkum takmörkunum en við verðum að horfast í augu við það alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem við búum nú við þar sem fjármagn, fólk og fjárfestingar flæða mikið til óhindrað yfir landamæri. Ég tel að slíkar takmarkanir geti dregið úr möguleikum okkar til að laða erlent fjármagn inn í íslenskt efnahagslíf.

Ísland og Evrópa

Það er ekki hægt að líta fram til ársins 2015 án þess að velta fyrir sér hver sé besta leiðin til að tryggja stöðu Íslands í áframhaldandi alþjóðavæðingu. Við munum búa við meira viðskiptafrelsi og frjálsari fjárfestingastefnu. Í skýrslu Viðskiptaráðs er mikil áhersla lögð á alþjóðavæðinguna og þá möguleika sem hún skapar. Þar er hins vegar ekkert að finna um það hvort samningurinn um evrópska efnahagssvæðið sé nægilegur grundvöllur í þeirri sýn sem þar kemur fram.

Stóra spurningin er hvort við verðum þá með sjálfstæða íslenska krónu eða hvort við verðum orðnir fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Við verðum að viðurkenna að sveiflur í gengi íslensku krónunnar eru vandamál og spurningar eru uppi um möguleika lítilla gjaldmiðla á frjálsum fjármálamarkaði.

Ég spái því reyndar að við verðum orðnir aðilar að Evrópusambandinu árið 2015. Ég tel að það sem verði einkum ráðandi í umræðu um það á næstunni sé framtíð og stærð evrópskra myntbandalagsins. Ákvarðanir Dana, Svía og Breta hafa þar veruleg áhrif. Það eru hins vegar engar pólitískar forsendur fyrir ákvörðun nú af okkar hálfu. Til þess er umræðan ekki nægilega þroskuð. Forsenda þess að málið þroskist betur er að atvinnulífið láti það til sín taka með mun virkari hætti. Ég hef alltaf undrast litla umræðu atvinnulífsins um Evrópumálin. Launþegahreyfingin hefur einhverra hluta vegna staðið fyrir meiri umræðu. Hvað veldur veit ég ekki.

Hitt finnst mér augljóst að því verður ekki frestað lengi, hvorki í atvinnulífinu né á vettvangi stjórnmálanna. Það á ef til vill við í þessu máli líkt og í flestum öðrum stórum málum að þótt við vitum hvað verður þá sé það ekki líklegt til vinsælda. Óttinn við að rugga bátnum sé of mikill. Þegar ekkert kallar á skjóta niðurstöðu og vel gengur er oft þægilegra að fresta málinu.

Menntun og nýsköpun

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi menntunar fyrir framþróun í atvinnulífi og almenna velmegun. Menntakerfið á að þróast í takt við kröfur samfélagsins og atvinnulífsins og íslenskir háskólar eiga að vera sveigjanlegir og laða til sín snjalla vísindamenn og afburðanemendur víðs vegar að úr heiminum. Við eigum að stefna að því að menntun á öllum skólastigum verði með því besta sem þekkist í heiminum. Skólar og vísindastarfsemi eiga í auknum mæli að starfa í samkeppnisumhverfi þar sem áhersla er lögð á skapandi hugsun, tungumálakunnáttu, raungreinar og siðferði. Menntakerfið á að leggja rækt við frumkvæði og framtak einstaklingsins og styðja við afburðanemendur. Ég vil líka sjá stóraukinn fjölda ungs fólks sækja í tækni- og raungreinanám.

Ég sé fyrir mér að hin aukna áhersla sem stjórnvöld, undir merki Vísinda- og tækniráðs, hafa að undanförnu lagt á menntun og vísindarannsóknir muni á árinu 2015 skila sér í stórauknu hlutfalli hátæknigreina í útflutningstekjum Íslendinga.

Ríkisstjórnin ákvað að leggja 2,5 milljarða króna til nýsköpunar í atvinnulífinu á næstu árum. Þar af um 1,5 milljarð í sjóð sem lífeyrissjóð, fjármálafyrirtæki og aðrir legðu verulegt fjármagn á móti.

Ég vil skora á forsvarsmenn atvinnulífsins að bregðast hratt og vel við þannig að stofnfé slíks sjóðs geti orðið á bilinu 6-10 milljarðar króna og ríkið eigi til dæmis 20-25% stofnfjár. Með þessu móti getur atvinnulífið komið sínum áherslum í nýsköpun og þróun á framfæri og beint spennandi nýsköpunarverkefnum í jákvæðan farveg og veitt sprotafyrirtækjum brautargengi með nauðsynlegu áhættufjármagni.

Athugun hefur leitt í ljós að nauðsynlegt kunni að reynast að gera vissar lagabreytingar til þess að slíkur sjóður geti orðið að veruleika og starfað hér á landi og er ríkisstjórnin tilbúin að beita sér fyrir því.

Þáttur ríkisvaldsins

Snúum okkur þá að sjálfum ríkisrekstrinum, umsvifum hans og stjórnsýslunni? Hvernig viljum við sjá þessa þætti á árinu 2015?

Ég hef nokkuð mótaðar skoðanir á því sem að mörgu leyti eru í takt við þær áherslur sem fram koma í skýrslu Viðskiptaráðs. Reyndar er það svo að nú þegar er töluverð vinna í gangi sem snýr að endurskipulagningu á þessu sviði.

Ríkisstjórnin hefur hleypt af stokkunum átaki sem hún nefnir “Einfaldara Ísland”. Átakið varðar hið opinbera regluverk og einnig það viðmót sem fyrirtækin og borgararnir mæta hjá hinu opinbera. Með þessu móti vilja stjórnvöld leggja sitt af mörkum til að bæta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði borgaranna.

Þótt Ísland sé fámenn þjóð og stjórnsýslan að mörgu leyti einföld þarf að bæta vinnubrögð við lagasetningu. Kostnaður atvinnulífsins af ýmsu opinberu regluverki hefur ekki verið metinn en ef marka má reynslu erlendis frá er hann verulegur. Hér eru því sóknarfæri til aukinnar framleiðni. Ég sé fyrir mér að árið 2015 muni engin ný lög og reglugerðir verða sett án þess að fram hafi farið mat á áhrifum þessa á kostnað fyrirtækjanna.

Á grundvelli stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið er nú, í samvinnu við sveitarfélög, unnið að því að koma upp rafrænni þjónustuveitu sem á að gegna lykilhlutverki í miðlun upplýsinga og rafrænnar stjórnsýslu. Markmið hennar er að auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum aðgengi að opinberri þjónustu, bæta þjónustuna og gera hana ódýrari.

Árið 2015 sé ég fyrir mér að allir landsmenn geti tengst hinu opinbera með rafrænum hætti og þar bjóðist öll sú þjónusta sem þeir kunna að vilja nýta sér af hálfu hins opinbera. Um leið verður að gæta þess að ríkið verði ekki ómanneskjulegt og fjarlægt tæknifyrirbæri. Samhliða aukinni rafrænni sjálfsafgreiðslu má sjá fyrir sér að hlutverk starfsmanna ríkisins verði líkt hlutverki þjónustufulltrúa í bönkum að liðsinna viðskiptavinunum og leysa þau vandamál sem upp koma.

Eldra Ísland

Ég hef hér að framan fjallað um mína framtíðarsýn varðandi uppbyggingu efnahags- og atvinnulífsins annars vegar og endurskipulagningu á sviði ríkisrekstrar og stjórnsýslu. Ég vil að lokum gera að umtalsefni nokkra þætti sem snúa að þeim lýðfræðilegu breytingum sem fyrirsjáanlegar eru á næstu árum og áratugum og áhrifum þeirra á okkar þjóðfélagshætti.

Á undanförnum áratugum hafa sem kunnugt er orðið miklar breytingar á aldursskiptingu þjóðarinnar. Þannig hefur fæðingum fækkað á sama tíma og meðalaldur hefur hækkað. Allt útlit er fyrir að framhald verði á þessari þróun, jafnt hér á landi sem annars staðar. Þannig er búist við að hlutfall fólks á eftirlaunaaldri tvöfaldist á næstu áratugum.

Gagnstætt flestum þjóðum Evrópu sýndu Íslendingar þá fyrirhyggju fyrir rúmum þremur áratugum að skylda menn til aðildar að lífeyrissjóðum sem byggja á sjóðssöfnun. Um þessar mundir eru fyrstu Íslendingarnir sem greitt hafa í lífeyrissjóði alla sína starfsævi að komast á eftirlaunaaldur. Þetta mun verða til þess að greiðslur ellilífeyris almannatrygginga minnka eftir því sem lífeyrissjóðirnir taka við. Almannatryggingar verða þá ekki lengur eftirlaunakerfi þorra Íslendinga heldur öryggisnet fyrir þá sem ekki hafa getað stundað reglulega atvinnu alla starfsævina. Með því skapast fjárhagslegt svigrúm til að almannatryggingar geti betur séð fyrir þörfum þessa fólks en áður.

Jafnframt því sem hlutfall fólks á eftirlaunaaldri tvöfaldast má gera ráð fyrir að hlutfall þeirra allra elstu, þeirra sem eru áttræðir eða eldri, muni einnig tvöfaldast. Hér þarf því mikið átak til að sjá vel fyrir umönnum þessa fólks, ekki síst að gera því kleift að búa eins lengi heima og kostur er. Þessar aðstæður kalla á aukna samhæfingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar sem aftur kallar á mikla fjármuni og skipulagningu þar sem ég tel að einkaframtakið hafi verk að vinna.

En það eru vitaskuld ekki allir á þessum aldri sem eru færir um að sjá um sig sjálfir og þess vegna verður einnig að auka hjúkrunarrými á hentugum hjúkrunarheimilum. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur þegar verið tekið duglega til hendinni í þessum mikilvæga málaflokki og frekari aðgerðir eru í undirbúningi.

Ég vil nefna eitt atriði til viðbótar sem gæti verið mikilvægt innlegg í þessa stöðu. Í þróuðum þjóðfélögum okkar tíma þarf að vera sá sveigjanleiki á vinnumarkaði að fólk geti stytt vinnutíma sinn eða lokið störfum fyrir tiltekinn eftirlaunaaldur eða tekið lífeyri að hluta til. Eldra fólk býr yfir dýrmætri reynslu sem glatast þegar það dregur sig í hlé. Flest aldrað fólk nýtur auk þess vinnu sinnar og lífsgæði þess minnka þegar það neyðist til að setjast í helgan stein. Við þurfum að finna nýjar leiðir til að gera starfslok sveigjanlegri en nú er og auka með því valfrelsi fólks.

Tækifærin blasa við

Ég hef tekið þátt í öllum stærri breytingum í íslensku þjóðlífi síðustu áratugina. Oftast hafa þær mætt harðri gagnrýni og skoðanakannanir sýnt mikla andstöðu. Enn er breytinga þörf og ég horfi með tilhlökkun til að takast á við þær með ykkur og öðrum. Árangurinn að undanförnu ætti að vera öllum hvatning. Það er hins vegar erfiðara að breyta þegar flest gengur vel. Velgengnin slævir og það er auðvelt að dragast aftur úr öðrum þjóðum. Það má ekki gerast.

Ég horfi björtum augum fram á veginn og tel að við eigum mikla möguleika á að halda áfram á þeirri braut að efla og styrkja okkar þjóðfélag þannig að allir geti vel við unað. Það kallar á áræði og þor, jafnt hjá okkur stjórnmálamönnum sem og hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Tækifærin eru óþrjótandi og ég tel að við Íslendingar höfum sýnt það og sannað á undanförnum árum að í okkur býr frumkvöðlaandi, kjarkur, þor og framtakssemi. Ég er þess fullviss að þessir eiginleikar munu skila okkur bjartri framtíð og áframhaldandi aukinni farsæld, ekki aðeins fram til ársins 2015 heldur um ókomna framtíð.

Englis version of the speechEfnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira