Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. október 2008 HeilbrigðisráðuneytiðGuðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra 2009

Heimilislæknaþing 2008

Guðlaugur Þór Þórðarson

Heilbrigðisráðherra

 

Ávarp heilbrigðisráðherra á Heimilislæknaþingi

á Grand Hótel í Reykjavík

laugardaginn 18. október 2008

 

 

 

Góðir heimilislæknar, aðrir góðir gestir,

Ég vil byrja á því að óska Félagi íslenskra heimilislækna innilega til hamingju með 30 ára afmæli sitt. Mér þykir óneitanlega viss mótsögn í að halda þrítugsafmæli yfir svo gamalgróinni stétt sem heimilislæknar eru. Í mínum huga og flestra annarra landsmanna hefur stétt heimilislækna verið grunnur heilbrigðisþjónustunnar frá örófi alda allt fram á þennan dag. Það er fyrst á síðustu öld að til kemur aukin sérhæfing og aðrar stéttir lækna fara að verða sýnilegar. Heilsugæsla og heimilislækningar áttu sér stað öldum saman, sinntu veikindum þjóðarinnar í blíðu og stríðu áður en fyrsti sjúkrahússlæknirinn tók til starfa. Heimilislæknastéttin hefur því í mínum huga og flestra annarra mjög rótgróna og trygga stöðu, sem er órjúfanlega tengd því öryggi sem búseta á hverjum stað krefst.

Það falla ánægjulega saman 30 ára afmæli Félags íslenskra heimilislækna og 30 ára afmæli hinnar mjög frægu ályktunar WHO um heilsugæslu, sem kennd er við borgina Alma Ata í Kasakstan. 

Einmitt þessa vikuna hefur verið haldið upp á þessa mjög merkilegu ályktun, sem að hluta til hefur verið leiðarvísir í þróun heilsugæslu víða um heim, þótt margt sé ógert í þeim málum víða um heim. Í ræðu Dr. Margarethu Chan, framkvæmdastjóra WHO, sem hún hélt nú í vikunni af þessu tilefni, getur hún ýmissa þátta sem að fram koma í nýjustu ársskýrslu WHO, sem að stórum hluta er helguð heilsugæslu. 

Meðal annars kemur fram að heilbrigði þjóðanna hefur batnað verulega á þessum 30 árum. Meðalaldur fólks í heiminum er núna 7 árum lengri en hann var 1978 en mismunurinn milli landa er verulegur og nánast óásættanlegur. Sem dæmi má nefna að 40 ára munur er á ævilengd milli ríkustu og fátækustu þjóða heimsins, svo ótrúlegt sem það hljómar.  40 ár !!

Útgjöld til heilbrigðismála á hvern íbúa landa heimsins eru frá 20 dollurum í 6.000 dollara. Aldrei hefur mannheimur verið jafn vel búinn tólum, tækjum og tækni til að takast á við sjúkdóma og lengja líf, en samt látast nærri 10 milljónir ungra barna og þungaðra kvenna af ástæðum sem auðveldlega hefði mátt fyrirbyggja.

Það er ekki undarlegt með tilliti til þessara merku tímamóta og 30 ára afmælis alþjóðastefnu í heilsugæslu að sjónum manna sé sérstaklega beint að henni, eins og WHO gerir nú. Þjóðir heims eru sammála um að skipulögð heilsugæsla skuli vera grunnurinn að heilbrigðisþjónustu landanna. Hún sé sú nálgun sem sé áhrifamest, dreifi gæðum best og sé líklegust til að þjóna þjóðunum á sem hagkvæmastan hátt, þótt rekstrarform og rekstraraðilar geti verið margir og mismunandi. Allar þjóðir vilja heilbrigðisþjónustu sem er aðgengileg, af góðum gæðum, sanngjörn og viðráðanleg í verði. Eins er með okkur Íslendinga.

Framundan gætu verið erfiðir tímar, ólgusjór og brimskaflar og vafalaust verður veturinn harður hjá mörgum, þótt ég efist ekki eitt andartak um að við komumst í gegnum það sem við blasir. Að mínu mati má á þessum tímamótum alls ekki slá á mikilvægi heilsugæslunnar, mikilvægi þess að vernda heilsuna er sjaldan meira. Af ástæðum sem ég veit að allir hér skilja, þá þarf í ljósi breytts efnahagsástands að endurmeta allar framkvæmdaáætlanir hins opinbera og þessi vinna er vart farin af stað. Ég get því ekki á þessari stundu greint nánar frá því hvernig framkvæmdum og uppbyggingu verður háttað á næstu misserum en ég mun gera mitt besta til að tryggja áframhaldandi góða heilsugæslu. Heilbrigði er undirstaða velferðar og framleiðslu meðal þjóðanna, því er mikilvægt að við stöndum vörð um heilsu okkar meir en nokkru sinni. Ég ætla ekki að fara nánar út í þessa þætti, það eru margir óljósir þættir framundan, sem verða þungir fyrir marga, bæði einstaklinga, félög og þjóðina í heild sinni. Í gegnum þetta munum við sameiginlega ganga. Á þessum tímum mun heilsugæslan þurfa að axla þunga ábyrgð og sinna mikilvægum verkefnum, ekki síst vegna eðlilegrar nálægðar sinnar við íbúa alls landsins. Til hennar munu margir leita. Í mínum huga er enginn vafi á því að heilsugæslan mun sinna þessu verkefni af myndarskap eins og hingað til.

Það má gera ráð fyrir að verkefnin sem tengjast ástandinu nú lendi fremur á þeim sem starfa á vettvangi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðins, en hinum sem starfa annars staðar á landinu. Ég sendi út tilmæli til allra heilbrigðisstofnana fyrir skemmstu þar sem ég bað um að heilbrigðisstarfsmenn og læknar, sem eru þrautþjálfaðir í að sjá og skilja þarfir og ástand sjúklinga, sem til ykkar leita, hefðu vakandi auga á skjólstæðingum ykkar. Ég vil þakka fyrir það sérstaklega, að um klukkustund síðar lá fyrir hvernig Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ætlaði að bregðast við. Í þessu felst það sem ég raunar vissi að heilsugæslulæknar, hvar sem þeir eru staðsettir á landinu, eru sér mjög meðvitaðir um ábyrgð sína gagnvart skjólstæðingum sínum.
 

Góðir fundarmenn,
Ég endurtek hamingjuóskir í tilefni af 30 ára afmælinu. Ég óska félaginu alls hins besta á komandi árum, heilsugæslan mun gegna mjög mikilvægu hlutverki áframtíðinni eins og hún hefur gert hingað til. Það mun reyna á þekktan áhuga og þjóðfélagslega meðvitund meðlima félagsins gagnvart íbúum landsins og ég veit að þeir og félagið mun standa undir þessum væntingum.

Takk fyrir

 

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum