Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. apríl 2010 HeilbrigðisráðuneytiðÁlfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra 2009-2010

Ársfundur Landspítala árið 2010

Álfheiður Ingadóttir
heilbrigðisráðherra

Ávarp heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítala
21. apríl 2010


Ágætu starfsmenn Landspítalans. Góðir gestir.

Ég þakka kærlega fyrir að fá að vera hér í upphafi dagskár á ársfundi spítalans. Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með þann margþætta árangur sem þið - starfsmenn og stjórnendur Landspítalans - , náið á hverjum degi, árangri sem aðeins næst þegar hver og einn skilar sínu hlutverki af metnaði, alúð og virðingu fyrir störfum hinna.

Árangur er viðeigandi yfirskrift á þessum ársfundi Landspítalans, í senn markmið og raunsönn lýsing.

Allir Íslendingar hafa á undanförnum misserum mátt mæta miklu mótlæti, atburðir haustsins 2008 setja mark sitt á andlega sem líkamlega heilsu landsmanna og ekki síður ykkar sem starfið í heilbrigðisþjónustunni. Þið eruð ekki undanskilin áhyggjum af afkomu ykkar og ykkar nánustu, en engu að síður eru það þið, sem takið á móti öllum hinum til að hjúkra og strjúka, fæða og klæða, þrífa og hvetja, líkna og lækna.

Undir þetta álagspróf gangist þið á hverjum degi og sýnið hvers spítalinn er megnugur, skilið árangri.

Og eins og eitt stykki bankahrun sé ekki nægilegt viðfangsefni fyrir eina þjóð, þá rekur hver stórviðburðurinn annan í landinu okkar góða og í heilbrigðisþjónustunni. Vil ég hér víkja að tveimur slíkum, þar sem spítalinn lék og leikur stórt hlutverk.

Þegar svínaflensufaraldur stakk sér niður s.l. haust, varð fljótlega ljóst að hann myndi haga sér líkt og í öðrum löndum – þ.e. með nokkuð hefðbundnu álagi á heilsugæslu, en miklu álagi á gjörgæsludeildir og sjúkrahús. Landspítalinn er einn um að geta sinnt þessu erfiða hlutverki hér á landi – og stóð undir því, þannig að betur varð ekki gert. Allur viðbúnaður og viðbrögð voru sem fyrr, fagleg og fumlaus og fyrir það vil ég þakka. Ljóst er að dauðsföll af völdum svínaflensunnar hefðu orðið fleiri á Íslandi hefði þessa ekki gætt.

Og nú gýs í Eyjafjallajökli. Því fylgir stóraukið álag á heilbrigðisstofnanir á gossvæðinu – en það álag er mun léttbærara í vitneskjunni um aðstoðina sem hægt er að sækja til ykkar á Landspítala. Þegar náttúruhamfarir verða, þá er spítali allra landsmanna sá staður sem leitað er til. Og nú eftir nokkurra vikna gos er álagið á íbúana fyrir austan orðið svo mikið að kallað hefur verið eftir sérþekkingu spítalans í andlegum stuðningi – svo hægt sé að veita þeim sálfélagslega þjónustu og áfallahjálp sem á þurfa að halda.

Hvernig sem árar í þjóðfélaginu, og hvað sem uppá kemur þá er LSH einn öflugasti hlekkurinn í því góða heilbrigðiskerfi sem við eigum. Það sýnir sig þegar á reynir.

Ágætu samstarfsmenn.
Ég get ekki komið hér í ræðustól án þess að fjalla um þau beinu áhrif sem bankahrunið hefur á fjárhag og rekstur spítalans. Þriðja hver króna sem veitt er til heilbrigðis¬þjónustu af skattfé hefur viðkomu í bókhaldi Landspítalans, 33 milljarðar af ríflega 100 milljörðum í ár.

Aðhaldskrafan sem gerð er til Landspítalans er mjög mikil – því verður ekki neitað. Þessari kröfu hefur spítalinn mætt með margvíslegum aðgerðum með það að meginmarkmiði að skerða ekki öryggi sjúklinga. Það hefur ekki alltaf ríkt ánægja með þessar aðgerðir, sem eðlilegt er. Um margt eru menn þó sammála, en hitt er ljóst að álag á starfsmenn spítalan hefur aukst vegna skipulagsbreytinga og sparnaðar. Það veldur áhyggjum og hér eins og annars staðar í heilbrigðisþjónustunni er mikilvægt að vera á vaktinni: Ef aðgerðir sem gripið er til skila ekki tilætluðum árangri, ég tala nú ekki um ef þær skila þveröfugum árangri, þá verðum við, jafnt í heilbrigðisráðuneyti sem í yfirstjórn spítalans að vera menn til að draga þær til baka.

Það er staðreynd að rekstur LSH hefði verið innan fjárlagarammans á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þetta myndi teljast góður árangur í meðalári og góðæri, en í þeim efnahagsþrengingum sem við búum við hlýtur það að snúa við rekstri spítalans úr hallarekstri að teljast frábær árangur og jafnvel þrekvirki.

Við áttum okkur öll á því að þessi árangur verður ekki til á bókhaldsskrifstofunni, heldur hefur þurft til að koma samstillt átak allra starfsmanna og þess vegna hefur sannarlega mætt meira á ykkur í starfi.

Til að koma landinu út úr kreppunni hefur þurft – og mun þurfa – samstillt átak allra landsmanna. Þið hafið sannarlega lagt ykkar lóð á vogarskálarnar, en átakið er ekki að baki, glímunni við skuldaklafa þjóðarbúsins er ekki lokið. Þetta hefur tekið á, en ég hlýt að endurtaka það hér að þessi glíma verður ekki endalaus og við sjáum nú ýmis merki þess að íslenskt efnahagslíf sé þrátt fyrir allt að sýna meiri og betri batamerki en flestir þorðu að vona.

Hrunið skildi ríkissjóð eftir með 350 milljarða króna gati, halla. Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar miðar við að koma okkur út úr þessum hremmingum á 3-4 árum – og það bendir ekkert til annars en að það muni takast.

Þó aðlögunarkrafan á heilbrigðiskerfið hafi verið minni en víða annars staðar, þá er þetta gífurlega erfitt verkefni að takast á við. Það verður ekki gert nema með stífri forgangsröðun en um leið verðum við að treysta grunngildin sjálf, þ.e. að í heilbrigðisþjónustunni ríki jöfnuður, góð þjónusta og hagkvæmni. Það skiptir mestu að þær efnahagslegu ógöngur sem við lentum í sem þjóð valdi ekki skaða á innviðum heilbrigðisþjónustunnar til frambúðar.

Heilbrigðiskerfið er það sameiginlega öryggisnet sem þjóðin öll stólar á. Árangur Landspítalans á þessum erfiðu tímum sýnir hversu sterkt þetta öryggsnet er.

Það er ekki bara í umfangi sem Landspítalinn er margslungin stofnun, heldur er eðli þeirrar starfsemi sem hér fer fram margs konar. Starf Landspítalans verður fyrst og síðast bundið við að lækna og annast sjúka, en Landspítalinn er einnig lífæðin í menntun heilbrigðistétta – og menntunin er grunnurinn að framtíð heilbrigðisþjónustunnar. Innan spítalans, og í tengslum við hann, fer einnig fram öflugt rannsóknar- og vísindastarf. Á síðasta ári birtu starfsmenn spítalans 240 vísindagreinar –gríðarlegur árangur, sem hefur bein og jákvæð áhrif á gæði þjónustunnar sem spítalinn.

Þá er Landspítalinn stærsti vinnustaður landsins. Þar vinna um 4.500 manns, þangað leitar um þriðjungur þjóðarinnar á hverju ári, þar eru innlagnir tæplega 30.000 á ári, þar eru gerðar um 15.000 skurðaðgerðir og þar fæðast um 3.400 nýir landsmenn árlega.
Loks eru þar um 1.100 nemar í ýmsum greinum heilbrigðisvísinda í klínísku námi á ári hverju.

Um slíka stofnun, stofnun sem gegnir jafnmiklu lykilhlutverki  og LSH verður að ríkja mikil sátt í samfélaginum, meiri sátt en nú er til staðar, og vil ég leggja mitt lóð á þá vogarskál eftir getu.

Kæra samstarfsfólk.
Rekstur allra ríkisstofnana hefur verið erfiður frá því að bankahrunið varð – og við megum búast við því að hann verði erfiður enn um sinn. Þó er ekki eintómur barlómur framundan, enda væri slíkt ómögulegt með vorið handan við hornið. Það er aldrei mikilvægara en á þrengingartímum að hafa skýra framtíðarsýn og svo sannarlega getum við litið bjartsýn fram til uppbyggingar nýs Landspítala, sem mun færa aðstöðu sjúklinga og starfsmanna allra til samræmis við það sem við ætlum nútímalegum spítala, til að Landspítalinn geti betur gegnt hlutverki sínu sem stærsti vinnustaður landsins, sem ein stærsta skólastofnun landsins og sem mikilvæg rannsóknastofnun í heilbrigðisvísindum, ein sú stærsta í landinu. En ekki síst til að geta þjónað betur þeim sem hingað leita, sjúklingunum.

Sjúklingurinn er að sjálfsögðu miðpunkturinn sem við störfum út frá. Það er eitt af sérkennum Landspítalans – og nokkuð sem ekki er sjálfgefið að finnist hjá jafnstórri heilbrigðisstofnun – hversu persónuleg þjónustan er. Hversu mikil nándin er.

Nýr Landspítali við Hringbraut er metaðarfullt verkefni, verkefni sem nær allir lífeyrissjóðir landsmanna koma að – sem er einmitt enn og aftur til marks um hlutverk LSH sem spítala fyrir allt landið, fyrir alla landsmenn.

Þá bíð ég þess spennt að sjá hrint í framkvæmd þeirri stefnumótun sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum innan spítalans. Betur verður greint frá henni hér á eftir, en ég má til með að hrósa stjórnendum spítalans fyrir þann metnað og þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við undirbúning þessarar nýju stefnu – sem ég vona að skili enn öflugari spítala inn í framtíðina.

Góðir gestir.

Ég vil ljúka máli mínu á sama hátt og ég hóf það – með þökkum. Þakka ykkur fyrir þann góða árangur sem náðst hefur í rekstri spítalans – og hvetja ykkur til að standa ótrauð áfram vörð um góða þjónustu við sjúklinga, kennslu og það öfluga vísindastarfi sem hér fer fram.

(Talað orð gildir)



 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum