Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. maí 2010 HeilbrigðisráðuneytiðÁlfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra 2009-2010

Ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri

Álfheiður Ingadóttir
heilbrigðisráðherra

Ávarp

Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra

á ársfundi Sjúkrahússins á Akureyri

miðvikudaginn 5. maí 2010

 

 

Góðir starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri, góðir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir að vera boðið á þennan fund. Það er alltaf gott að koma norður, ekki síst þegar vorblær er í lofti og ég vona svo sannarlega að við megum öll njóta góðs sumars. Sömuleiðis vil ég óska þeim sem hér voru heiðraðar rétt áðan, til hamingju með þann heiður og farsælan og langan starfsaldur. Ég veit að það hefur einkennt þessa mætu stofnun, að margir hafa átt nánast alla sína starfsævi hér við stofnunina og segir það meira en mörg orð.

Það er engin tilviljun að hér voru sjö konur heiðraðar, því þetta er vinnustaður kvenna: af 858 starfsmönnum á árinu 2009 voru 714 konur og 144 karlar.


Góðir fundarmenn.

Sjúkrahúsið á Akureyri er hornsteinn í heilbrigðiskerfi landsmanna. Hér er annað stærsta sjúkrahús landsins, sjúkrahús sem þjónar landsmönnum öllum sem varasjúkrahús fyrir Landspítalann ef þörf krefur. Auk þess hefur hér verið byggð upp sérfræðiþjónusta, sem gerir íbúum norðan og austan lands kleift að sækja sér margvísleg sérhæfðari úrræði heilbrigðisþjónustunnar nærri heimili sínu – og öll vitum við hve dýrmætt er að vera nærri ástvinum sínum þegar heilsan bilar og eitthvað bjátar á.

Þá hefur FSA af miklum myndarskap mannað sjúkraflug fyrir landið allt og er ábyrgt fyrir Sjúkraflutningaskólanum.

Akureyringar og norðlendingar allir mega vera ánægðir og hreyknir af þeirri góðu þjónustu sem hér er veitt en einnig af þeirri samþættingu heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sveitarfélagsins í öflugri heilsugæslu og öldrunarþjónustu.

Á undanförnum misserum hefur álag aukist á starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri, líkt og annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Atburðir haustsins 2008 hafa sett mark sitt á andlega og líkamlega heilsu landsmanna allra –  og gerir enn! – Það álag leggst tvöfalt á ykkur sem auk þess að takast persónulega á við efnahagshrunið líkt og aðrir þurfið að taka á móti öllum hinum, hlúa að þeim, hvað sem á bjátar.

Þetta er í raun heilmikið álagspróf sem þið gangist undir á hverjum degi og sýnið hvers sjúkrahúsið er megnugt, hvers heilbrigðisstarfsfólk er megnugt. 

-o-

Á undanförnum árum hefur FSA átt í farsælu samstarfi við Háskólann á Akureyri, við þróun og uppbyggingu náms á heilbrigðisvísindasviði. Þetta hefur gert menntuðu fólki kleift að snúa aftur í heimabyggð, gert Norðlendingum fært að mennta sig án þess að neyðast til að flytjast suður – og verið gífurleg lyftistöng fyrir samfélagið í heild.

Það er því vel við hæfi að í dag sé haldinn vísindadagur FSA og HA – og að í dag hafi tekið til starfa vísindaráð FSA. Tengsl fræða og framkvæmdar eru óvíða jafnskýr og á sviði heilbrigðisvísinda. Menntun heilbrigðisstétta innan skólakerfisins fer fram í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir, þjálfun þeirra og störf eru samofin og styrkir hvað annað.

Með því að leggja núna sérstaka rækt við vísindastarf innan FSA, með stofnun vísindaráðsins, er stigið skrefi lengra. Með öflugu vísinda- og rannsóknastarfi má segja að gæði þjónustunnar séu aukin og þau tryggð til framtíðar.

Ég hlýt því að fagna frumkvæði FSA, þessari framtíðarsýn sem beinist að faglegri eflingu innra starfs stofnunarinnar – og hlakka til að sjá hrint í framkvæmd þeirri vísindastefnu sem ráðinu er ætlað að móta.


Kæra samstarfsfólk.

Ég get ekki komið í ræðustól hér án þess að fjalla um þau beinu áhrif sem bankahrunið hefur á fjárhag heilbrigðisstofnana og rekstur FSA eins og hér hefur verið skýrt frá og farið rækilega yfir.

Eins og ykkur mun vel ljóst þá boða ég engar stórframkvæmdir, engar nýjar uppbyggingaraðgerðir eða aukin framlög, eins og stundum hefur fylgt ræðum ráðherra á stundum sem þessari. Hins vegar er sjaldan mikilvægara en einmitt á tímum sem þessum að hafa skýra framtíðarsýn, vita hvert við ætlum að stefna. Ég vil taka undir það sem forstjórinn sagði hér áðan um framtíðaruppbyggingu FSA en einnig skýra frá því að í tillögum sem nú eru til umfjöllunar um átak í viðhaldi opinberra stofnana í samvinnu við lífeyrissjóðina er FSA hátt á blaði, enda hefur viðhald orðið að sitja á hakanum. 

Aðhaldskrafan er mikil, því verður ekki neitað, og henni hefur FSA mætt með margvíslegum aðgerðum, með það þó að markmiði að öryggi sjúklinga verði ekki skert. Það hefur náðst góður árangur, sem sést á því að sjúkrahúsið var innan fjárheimilda á síðasta ári og einnig á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Það hefur sannarlega mætt mikið á bæði stjórnendum og starfsmönnum FSA og fyrir það vil ég þakka.

Það var athyglisvert að sjá í ársskýrslunni 2009 hvernig bilið milli launagreiðslna og stöðugilda óx stöðugt í svokölluðu góðæri; launamunurinn jókst hér eins og annars staðar í samfélaginu.

Við niðurskurðinn hafa leiðarljós stjórnvalda og heilbrigðisráðuneytisins gagnvart forstjórum og framkvæmdastjórnum heilbrigðisstofnana verið skýr: Að verja störfin og jafna kjörin, sem þýðir að verja lægstu launin og lækka þau hæstu.

Nú fer hátt í umræðunni úrskurðir kjararáðs af tilefni sem ég ætla ekki að gera að sérstöku umræðuefni. Við vitum það hins vegar að í heilbrigðisþjónustunni hefur viðgengist mikill launamunur reyndar sá mesti ef frá er talinn bankageirinn, sem svo hrundi.

Þar er því eftir nokkru að slægjast og auðsætt hversu miklu mikilvægara það er að sem flestir haldi vinnunni en að viðhalda margföldum launamun.

Ríkisstjórnin markaði þá stefnu fyrir ári síðan að enginn ríkisstarfsmaður hefði hærri laun en forsætisráðherra og útfærði hana í breyttum lögum um kjararáð sem tóku gildi 11. ágúst 2009. Gripið var til margháttaðra aðgerða til að fylgja þessari stefnumörkun eftir með því að lækka laun ráðherra, þingmanna, æðstu starfsmanna ráðuneyta, dómara og fleiri og forstjórar ríkisstofnana og félaga voru færðir undir kjararáð.

Það er mikilvægt að lög um kjararáð haldi en það er líka mikilvægt að allir sem í hlut eiga leggi sitt af mörkum til að lækka hæstu laun. Við þurfum samstillt átak til að verja störfin. Það er hægt með þessu móti.

Þessi glíma verður ekki endalaus og við sjáum nú ýmis merki þess að íslenskt efnahagslíf sé þrátt fyrir allt að sýna meiri og betri batamerki en flestir þorðu að vona. Ég hef bjargfasta trú á að við munum komast í gegnum þetta erfiða tímabil.

Góðir fundargestir.

Ég vil að nýju endurtaka kveðju mína til þeirra sem hér hafa verið heiðraðir og eru að ljúka farsælli starfsævi. Þeim sem hér eru við störf vil ég óska alls hins besta á komandi misserum og um leið þakka fyrir þeirra ómetanlega framlag til að viðhalda hér góðri þjónustu við sjúklinga. Megi gæfa fylgja starfsemi Sjúkrahúss Akureyrar og starfsmönnum þess.

 

(Talað orð gildir.)

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum