Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðVEL Heilbrigðismál-Frettir

Málþing ADHD samtakanna, Nýjar lausnir – ný sýn

Málþing ADHD samtakanna, Nýjar lausnir – ný sýn 23. september 2011

Guðbjartur Hannesson ávarpaði málþing ADHD samtakanna Nýjar lausnir – ný sýn sem haldið var 23. september í tilefni evrópskrar ADHD vitundarviku. Markmið vitundarvikunnar er að auka þekkingu almennings á ADHD, eyða fordómum, auka skilning og efla stuðning við fólk sem glímir við þessa taugaþroskaröskun – sem á íslensku er kölluð athyglisbrestur með ofvirkni.

„Það er vel þekkt að sjúkdómar eða raskanir sem hafa áhrif á hegðun fólks mæta víða fordómum, miklu frekar en þegar einkenni eru líkamleg, sýnileg og öllum ljós. Fordómar eiga rætur sínar í þekkingarskorti og hræðslu eða óöryggi gagnvart því sem fólk ekki skilur.

Í gegnum tíðina hefur samfélagið skapað sér ramma og norm sem ætlast er til að fólk falli inní, jafnt börn og fullorðnir. Þegar ramminn er of þröngur og skilningur fyrir frávikum af skornum skammti getur verið stutt í uppgjöf gagnvart þeim sem ekki passa inn í kerfið.   

Sem betur fer höfum við sem komin erum með uppsafnaða reynslu áranna í farteskið séð mörg vígi falla þegar kemur að fordómum í samfélaginu. Með aukinni þekkingu, rannsóknum og fagmennsku hafa augu okkar opnast og skilningur vaxið fyrir fjölbreytileikanum í mannlífsflórunni. Við vitum og skiljum að fólk er ólíkt  og að fyrir því geta verið margvíslegar ástæður.“

Ráðherra minnti á að þarfir fólks eru mismunandi, geta fólks liggur á ólíkum sviðum, hæfileikar geta legið djúpt og leiðirnar til þess að draga fram það besta hjá hverjum og einum þurfa að taka mið af því:  „Skilningur á þessu fer vaxandi og því er í æ meira mæli lögð áhersla á einstaklingsmiðaða nálgun, hvort sem er í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu eða félagslega kerfinu.

Í stað þess að gefast upp á þeim sem falla ekki inn í kerfið þurfum við að laga kerfið að einstaklingunum, byggja upp þann stuðning sem þarf og veita hann í samræmi við ólíkar þarfir hvers og eins. Þetta vitum við og ég tel að okkur miði stöðugt í rétta átt hvað þetta varðar.“ 

Ráðherra sagði frá samstarfssamningi frá árinu 2009 sem gerður var milli félagsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um tilraunaverkefni til styrktar langveikum börnum og börnum með ADHD. Áhersla var lögð á verkefni til að efla þjónustu í heimabyggð. Í samningnum var gert ráð fyrir að veita styrki til verkefna af þessum toga árlega í þrjú ár og hafa úthlutanir farið fram tvisvar, 80 milljónir í hvort sinn.  Á ráðstefnunni voru kynnt dæmi um nokkur árangursrík verkefni sem gætu orðið til eftirbreytni.

Markmið samstarfssamnings ráðuneytanna og sveitarfélaganna var að stuðla að framkvæmd verkefna þar sem þjónusta er veitt í samræmi við þarfir barnanna og fjölskyldna þeirra, óháð því hvar þjónustan er flokkuð í stjórnkerfinu: „Þegar samningurinn var gerður voru þrjú ráðuneyti sem höfðu að gera með málefni þessara barna, auk sveitarfélaganna. Mikilvæg breyting og tvímælalaust til góðs var sameining tveggja þeirra með stofnun velferðarráðuneytisins sem veitir margvísleg tækifæri til að samþætta og bæta þjónustuna“ sagði velferðarráðhera meðal annars í ávarpi sínu.

Ráðherra gerði að umtalsefni sívaxandi notkun lyfja gegn athyglisbresti og ofvirkni og þann vanda sem stafaði af misnotkun þeirra. Þetta eru einkum lyf sem innihalda metýlfenidat eins og ritalín en aukningin hefur einkum verið meðal fullorðinna, eldri en 20 ára og eru þeir rúm 40% allra sem fá lyfið. Benti hann á að Alþjóðafíkniefnaráð Sameinuðu þjóðanna hefði séð ástæðu til að vara íslensk heilbrigðisyfirvöld við mikilli notkun þessara lyfja hér á landi og þeirri staðreynd að notkun metýlfenidats er hvergi í heiminum meiri en á Íslandi. Þegar hefði verið brugðist við til þess að taka á vandanum með breyttum reglum um ávísanir þessara lyfja og aukið eftirlit með þeim.

„Ég veit að umræða um mikla notkun metýlfenidatlyfja er viðkvæm. Þess vegna vil ég nota tækifærið hér til að undirstrika að spjótin beinast ekki að þeim sem þurfa sannarlega á þessum lyfjum að halda. Við verðum hins vegar að geta rætt þessi mál æsingalaust og á faglegum nótum til þess að finna raunhæfa skýringu á þeirri staðreynd að Íslendingar slá heimsmet í notkun þessara lyfja sem getur ekki talist eðlilegt.“

Ráðherra sagði að lokum að enn væri margt í sambandi við ADHD, greiningu og meðferð þar sem skorti meiri þekkingu. „Varðandi stuðning við fólk með ADHD þurfum við að feta okkur áfram, skoða nýjar aðferðir og leiðir með opnum huga en jafnframt gæta að því að meta árangur á faglegan hátt, vera gagnrýnin og stöðugt reiðubúin til endurskoðunar.“

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum