Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. mars 2015 HeilbrigðisráðuneytiðKristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, 2013-2017

Dagur sjúkraþjálfunar 2015

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, á Degi sjúkraþjálfunar, 6. mars 2015.


Ágætu sjúkraþjálfara.

Ég vil byrja á því að óska ykkur innilega til hamingju með 75 ára afmælið. Mér reiknast til að félag sjúkraþjálfara sé eitt af elstu félögum heilbrigðisstarfsmanna á landinu. Ég verð að viðurkenna að það er ekki löng sagnfræðileg rannsókn að baki þessari ályktun en félagið ykkar er örugglega meðal þeirra elstu.

Þetta skýrir að nokkru stöðuna sem sjúkraþjálfarar hafa haft innan íslenskrar heilbrigðisþjónustu og þann fjölda félagsmanna sem í félaginu er.

Sjúkraþjálfarar starfa jöfnum höndum hjá hinu opinbera, á sjálfseignarstofnunum og í eigin rekstri. Sjúkraþjálfarar eru fagstétt sem hefur öðrum heilbrigðisstéttum fremur þekkingu á hreyfikerfi líkamans og því hversu mikilvægt er að fólk reyni hæfilega á líkamann til að viðhalda styrk og hreyfigetu sem allra lengst og geti  lifað sjálfstæðu lífi þegar kemur fram á elliár. Á næstu árum er fyrirsjáanlegt að öldruðum muni fjölga, þar sem nú fara stórir árgangar að nálgast ellimörk. Því er mikilvægt að gera allt sem hægt er til að varðveita sjálfsbjörg meðal aldraðs fólks.

Forsendan fyrir því að fólk geti dvalið heima í góðu yfirlæti er að það sé sæmilega sjálfbjarga.

Þarna held ég að sjúkraþjálfarar gegni ákveðnu lykilhlutverki. Bæði að fyrirbyggja færnitap þegar aldurinn færist yfir og að þjálfa upp aftur styrk og getu eftir veikindi og áföll Svo ekki sé talað um almenna vellíðan og ánægju aldraðra.

Ég heyrði af frétt í gærmorgun um að elsta manneskja í heimi, sem er kona, ætti 117 ára afmæli. Svo kom lýsing á ástandi hennar sem var eitthvað á þá leið að hún væri bærilega hress en orðin svifasein.  Nú er kannski allt í lagi að maður sé orðinn eitthvað svifaseinn þegar maður er 117 ára og jafnvel fyrr. En það er alla vega fínt að geta hreyft sig. Það fylgdi ekki fréttinni hvort hún hefði fengið sjúkraþjálfun.

Við höfum nýlega ýtt úr vör verkefninu um hreyfiseðla. Árið 2014 var lokið við að innleiða seðlana í heilsugæslunni og á öllum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Innleiðingin hefur gengið vel, notkun seðlanna hefur aukist jafnt og þétt við innleiðinguna og árangurinn er góður.

Það er engin launung að sjúkraþjálfarar hafa staðið í fylkingarbrjósti við að koma á hreyfiseðlum og þar gegna þeir líka lykilhlutverki. Ég er þessum aðilum afar þakklátur fyrir þeirra framlag og úthald við að koma þessu verkefni áfram og hef miklar væntingar um að það muni skila okkur heilsufarslegum ávinningi og sparnaði í heilbrigðisþjónustunni.

Á síðasta hausti var námi í sjúkraþjálfun breytt þannig að sjúkraþjálfarar fá nú ekki löggildingu fyrr en eftir 5 ára nám í stað þess að þurfa að ljúka fjögurra ára BSc. námi. Þetta er í samræmi við þróun sem hefur verið í öðru háskólanámi og er í rauninni eðlileg í ljósi þess að þekkingu fleygir fram á þessu sviði sem öðrum.

Stórir sjúkdómar, sem áður ollu dauða á tiltölulega skömmum tíma, svo sem krabbamein, eru nú oft orðnir að langvinnum sjúkómum. Fólk lendir í alvarlegum veikindatímabilum og missi færni og getu til að takast á við sitt daglega líf og þarf að koma sér í form aftur, í rauninni á sama hátt og varðandi aldraða. Við vitum öll að heilbrigðismálin er fjárfrekur málaflokkur og ef við ætlum að auka fjárframlög til endurhæfingar þurfum við að sjá fjárhagslegan sparnað annars staðar í kerfinu. Ég tel rétt að þetta sé kannað gaumgæfilega.

Enn og aftur óska ég ykkur til hamingju með áfangann og vona að þið haldið áfram að styrkjast og leggja fram ykkar mikilvæga skerf til íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum