Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2015 HeilbrigðisráðuneytiðKristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, 2013-2017

Ávarp heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítala 2015: Uppbygging í augsýn

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Góðir gestir, stjórnendur og aðrir starfsmenn Landspítalans  – Landspítalans sem er í senn nærspítali fyrir stóran hluta landsmanna, háskólasjúkrahús og þjóðarsjúkrahúsið sem landsmenn allir bera mikið traust til og vilja veg og vanda sem mestan.

Landspítalinn hKristján Þór heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítalaefur ávallt reynst traustsins verður, þökk sé færum stjórnendum, vel menntuðu fagfólki og öflugu og reyndu starfsfólki sem vinnur störf sín af metnaði og trúmennsku. Á vinnustað eins og þessum  skiptir hvert einasta handtak máli. Fólk veltir því kannski ekki mikið fyrir sér meðan allt leikur í lyndi, en nú höfum við því miður fengið að sjá og reyna hvernig hlutir geta farið úr skorðum.

Verkfall lækna fyrir áramót var erfitt fyrir sjúklinga og starfsmenn og raskaði starfsemi Landspítalans þannig að enn er verið að vinna úr eftirköstum.  Um alvarleika yfirstandandi verkfallsaðgerða ætla ég ekki að hafa mörg orð – ástandið er einfaldlega mjög alvarlegt og versnar auðvitað eftir því sem aðgerðirnar dragast á langinn. Það er erfitt upp á að horfa    viðkvæmur og mikilvægur rekstur, sem varðar líf og heilsu fólks, skuli ítrekað lenda  í uppnámi vegna kjaradeilna. Verst er, að þeir gjalda mest fyrir sem síst skyldi, það eru sjúklingarnir sem við eigum og viljum lækna og líkna.

Þetta eru erfiðir tímar – erfiðastir fyrir sjúklinga og þeirra nánustu - en líka erfiðir fyrir stjórnendur og starfsfólk. Við vitum að allir reyna að gera sitt besta við þessar aðstæður, en því miður er það ekki nóg. Sjúkrahúsið líður fyrir vandann, traust almennings og sjúklinga dvínar, öryggi og gæði þjónustunnar er ekki hið sama.

Gott fólk.

Heilbrigðisþjónusta er veitt víðar en á Landspítalanum, þótt hann þjóni vissulega landsmönnum öllum. Eftir að lokaáfanga við sameiningu heilbrigðisstofnana lauk á liðnu ári erum við með eina nokkuð öfluga stofnun í hverju heilbrigðisumdæmi og hver þeirra með nokkrar starfsstöðvar í umdæminu. Ég hef rætt það við forstöðumenn þessara stofnana að við eigum að veita heilbrigðisþjónustu eins og kostur er sem næst fólki, heima í héraði. Til þess að það sé unnt þurfa heilbrigðisstofnanir í öllum heilbrigðisumdæmum landsins þar með talið Landspítalinn að vinna saman og virka eins og heild.

Landspítalinn ber ríkar skyldur sem spítali allra landsmanna – og heilbrigðisstofnanir í héraði hafa líka miklar skyldur við íbúa hver á sínu svæði. Hugsanlega er ástæða til að skilgreina þær betur en nú er gert. Þetta eru mál sem við ræðum á sameiginlegum vettvangi.

Heilbrigðismál og rekstur heilbrigðiskerfa eru með stærstu, mikilvægustu, flóknustu og útgjaldafrekustu viðfangsefnum stjórnvalda víða um heim. Það skiptir því miklu hvernig á málum er haldið þannig að sem best sé spilað úr takmörkuðum fjármunum til að tryggja almenningi örugga og góða heilbrigðisþjónustu. Hluti vandans við að gera þetta vel felst einmitt í því að láta hina mörgu hluta gangverksins í heilbrigðiskerfinu vinna saman. - Ef einhver hluti þess virkar ekki sem skyldi hefur það keðjuverkandi áhrif alls staðar.

Við erum flest eða öll sammála um að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Fyrir þessu eru margvísleg rök sem fólk hér þekkir, þ.e. að reyna að leysa vanda fólks á viðeigandi þjónustustigi, tryggja samfellda þjónustu, tryggja utanumhald og eftirfylgni með sjúklingum og svo mætti áfram telja. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er ekki nógu burðug til að standa undir þessu og Landspítalinn geldur fyrir það, m.a. með verkefnum á bráðamóttöku sem heilsugæslan er betur fallin til að sinna. Úr þessu verður að bæta, hvoru tveggja með auknum fjármunum en ekki síður með breytingum á skipulagi þjónustunnar. Þar er brýnast að koma á þjónustustýringu, líkt og tíðkast í heilbrigðiskerfum flestra þjóða sem við berum okkur saman við. Að þessum verkefnum og fleiri er unnið undir formerkjum áætlunarinnar Betri heilbrigðisþjónustu. Nýlega skipaði ég verkefninu sérstaka stjórn  – sem Björn Zoega, fyrrverandi forstjóri Landspítala, hefur tekið að sér að leiða að  minni ósk.

Þjónusta við aldraða, sem þurfa umönnun og hjúkrun, er mikilvægur hluti af gangverki heilbrigðiskerfisins og þar er mikið verk að vinna. Það er  alltaf dapurt þegar í fréttum er fjallað um veikt gamalt fólk sem vandamál á Landspítala, líkt og gerist ansi oft. Engu að síður skil ég fyllilega umræðuna og þann vanda sem stjórnendur Landspítalans eru að benda á með þessari umræðu.  Opnun hjúkrunardeildar á Vífilsstöðum var bráðabirgðaaðgerð til að mæta aðstæðum á Landspítalanum. Það var mikilvæg ráðstöfun en gerir þó ekki meira en að létta tímabundið á vandanum, ekki leysa hann.

Öldruðum fjölgar ört og verða æ hærra hlutfall af þjóðinni. Þetta gerir auknar kröfur til heilbrigðiskerfisins og öldrunarþjónustu. Núna, árið 2015, telja þeir sem eru 67 ára og eldri um 38.000 manns. Árið 2020 verða þeir um 45.300 sem er tæplega 19% fjölgun á fimm árum. Á sama tímabili fjölgar landsmönnum sem yngri eru um tæp 4%. Tölurnar tala sínu máli – hlutfall aldraðra í þjóðfélaginu er að hækka - og við verðum að takast á við staðreyndirnar sem að baki liggja.  Í grófum dráttum má gera ráð fyrir að á næstu 5 – 6 árum þurfi að bæta við um 500 nýjum hjúkrunarrýmum – þorra þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Stofnkostnaður 500 nýrra hjúkrunarrýma er um 12- 15 milljarðar króna. Miðað við hefðbundna kostnaðarskiptingu bera sveitarfélögin 15% en ríkissjóður og Framkvæmdasjóður aldraðra 85%. Árlegur rekstrarkostnaður 500 hjúkrunarrýma er um 4,8 milljarðar króna. Þetta er hlutur sem við verðum að takast á við. Ég hef því látið vinna í ráðuneytinu drög að framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila á næstu árum sem ég vonast til að geta kynnt um mitt þetta ár.

Umtalsverð fjölgun hjúkrunarrýma er óhjákvæmileg, það blasir við en uppbygging og úrbætur í öldrunarþjónustu þurfa jafnframt að hafa mun víðari skýrskotun. Leggja þarf áherslu á að efla þjónustu við fólk í heimahúsum, sinna forvörnum og endurhæfingu og takast þannig á við  öldrunarmálin  að við náum sem bestum árangri fyrir fólk og samfélag.

Góðir ársfundargestir.

Uppbygging í augsýn, er yfirskrift ársfundar Landspítalans árið 2015. Það er vel við hæfi, enda dvelur hugur fólks eðlilega við langþráða uppbyggingu á húsakosti spítalans. Ég vil þó halda því fram að uppbyggingin sé ekki aðeins í augsýn – heldur sé hún hafin og hafi byrjað þegar fjárlög ársins 2014 voru ákveðin með styrkingu á rekstrargrundvelli spítalans og stórauknu fé til tækjakaupa. Í fjárlögum þessa árs var haldið áfram á sömu braut. Fjárveitingar til heilbrigðismála voru auknar um rúma 9,4 milljarða króna milli áranna 2014 og 2015 þar af var raunaukning 5,6 milljarða.kr. framlög til að styrkja rekstrargrunn heilbrigðisstofnana, framlög til tækjakaupa og til áætlunarinnar Betri heilbrigðisþjónustu, svo nokkur verkefni séu talin.

En víkjum nú að byggingaframkvæmdum og þeirri uppbyggingu sem er í augsýn.

Í fjárlögum þessa árs eru 945 milljónir króna ætlaðar í verkframkvæmdir sjúkrahótels og fullnaðarhönnun meðferðakjarnans sem auglýst var um liðna helgi. Í byrjun næsta mánaðar verður síðan birt önnur auglýsing vegna jarðvinnu til undirbúnings sjúkrahótelinu og framkvæmdir ættu að geta hafist seinni partinn í júní. Bygging sjúkrahótelsins verður svo boðin út vonandi í júlí og ættu þá framkvæmdir þar að geta hafist í haust. Áætlað er hótelið verði tilbúið til notkunar árið 2017. Framkvæmdir eru nú að fara á fullan skrið, kyrrstaðan hefur verið rofin.

Ef einhver skyldi velkjast í vafa um hvar nýbyggingar Landspítala munu rísa get ég upplýst um það hér að í mínum huga er það ekki nokkur spurning, það verður við Hringbraut. Staðarvalið hefur verið skoðað og endurskoðað þrisvar sinnum. Árið 2002 skilaði fyrsta nefndin um framtíðarskipulag LSH áliti sínu og á grundvelli þess tóku stjórnvöld ákvörðun um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Aftur var komist að sömu niðurstöðu árið 2004. Árið 2008 skilaði nefnd um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana greinargerð til heilbrigðisráðherra eftir að hafa skoðað byggingastaði eins og Fossvog, Vífilsstaði og Hringbraut, auk nýs valkosts í landi Keldna. Enn á ný var niðurstaðan sú að Hringbraut væri besti kosturinn.

Þá er rétt að árétta að með lögum nr 64/2010 samþykkti Alþingi samhljóða að standa bæri að uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Með lögum nr 53/2013 samþykkti Alþingi samhljóða að um framkvæmdirnar við Hringbraut skyldu gilda lög um skipan opinberra framkvæmda nr. 84/2001 og í þingsályktun Alþingis sem samþykkt var samhljóða á 143. löggjafarþingi fyrir tæpu ári síðan eða þann 16. maí 2014 var tekið á þremur efnislegum þáttum. Í fyrsta lagi, staðsetning yrði við Hringbraut, í öðru lagi að ljúka ætti undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala og í þriðja lagi að framkvæmdir hæfust þegar fjármögnun hefur verið tryggð.

Ríkisstjórnin samþykkti nýlega  þingsályktunartillögu um langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Þar er gert ráð fyrir 5,1 milljarði króna í framkvæmdir við Landspítala á árunum 2016 – 2019 og fjármagni til byggingar sjúkrahótels og fullnaðarhönnunar meðferðarkjarna. Fyrirvari er um fjármögnun framkvæmda við meðferðarkjarnann, en rétt er að taka fram að þessi langtímaáætlun er endurskoðuð ár hvert og það er enn langt í að framkvæmdir við meðferðarkjarnann geti hafist, einfaldlega vegna þess að fullnaðarhönnun og allt ferlið í kringum hana er tímafrekt.

Fyrir þessum ákvörðunum öllum liggja margvísleg rök. Hagkvæmni vegur þungt, því talið er að það yrði dýrara að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á öðrum stað en að byggja við Hringbraut og nýta áfram 56.000 fermetra af eldri byggingum. Nálægð við Háskóla Íslands og þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir einnig miklu máli vegna rannsókna og kennslu þar sem vel á annað hundrað starfsmanna spítalans eru jafnframt starfsmenn Háskólans. Forhönnun og allar skipulagsáætlanir liggja fyrir og eru staðfestar. Vilji Alþingis liggur fyrir.

Markmiðið er alveg skýrt og við hljótum að geta sameinast um það, þ.e. að byggja upp þjóðarsjúkrahúsið sem þörfnumst og viljum sjá, með sterka innviði, fagfólk í fremstu röð, vel tækjum búið og í húsnæði sem samræmist kröfum samtímans. Þetta er verkefnið  og nú er það innan seilingar.

Kæru starfsmenn Landspítala, góðir ársfundargestir.

Það slær mig stundum í umræðum og opinberri umfjöllun um heilbrigðiskerfið og viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar hve gjarnan  gleymist sú staðreynd að allt snýst þetta um fólk af holdi og blóði. Annars vegar eru sjúklingarnir, oft mikið og alvarlega veikir sem þurfa á geysilega sérhæfðri þjónustu að halda þar sem ekkert má út af bera. Hins vegar er starfsfólkið sem veitir þjónustuna – oft flókna og mjög sérhæða þjónustu þar sem fjölmargir koma að málum – þar sem hvert einasta handtak skiptir máli – þar sem hver einasta ákvörðun getur skipt sköpum um hvernig til tekst – þar sem örlítil yfirsjón í annríki dagsins getur verið afdrifarík.

Ég held að það sé gott að rifja þetta upp reglulega. Ég veit að starfsfólk í heilbrigðisþjónustu er  meðvitað um þetta - það vill enginn gera mistök við þessar aðstæður og þess vegna er mikið lagt upp úr verkferlum, gæðastjórnun og eftirliti og beitt margvíslegum stjórntækjum til að draga úr hættunni á mistökum. Það skiptir líka miklu máli að almenningi og notendum heilbrigðisþjónustu sé þetta ljóst, þ.e. að fólk skilji þessar aðstæður og viti jafnframt að gæða- og öryggismál eru meðal þeirra verkefna sem mikilvægust eru talin í rekstri sjúkrahúss eins og Landspítalans. Ég nefni í þessu samhengi starfshóp sem ég skipaði nýlega um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu með  fulltrúum innanríkisráðuneytis, Embættis landlæknis og tveimur fulltrúum Landspítalans.  Verkefni hópsins er að gera tillögur að verklagi í tengslum við tilkynningar og rannsókn óvæntra dauðsfalla í heilbrigðisþjónustu sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð sjúklings. Starfshópurinn er tekinn til starfa og ég er viss um að hann muni skila góðu verki í þágu vandaðrar umfjöllunar um erfið mál.

Góðir ársfundargestir.

Það er trú mín að þegar kemur að heilbrigðiskerfinu þá deilum við ekki um markmið. Okkur getur greint á um leiðir en markmiðin eru skýr. Við viljum heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða, þar sem öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar eru í hávegum og lýðheilsustarf með áherslu á forvarnir, heilsueflingu og meiri vellíðan, innvafið í alla þjónustu, sérstaklega heilsugæsluna.

Árangur heilbrigðisþjónustunnar er metinn með því að mæla hvaða gæðum hún skilar til sjúklinga, hversu örugg hún er, aðgengileika þjónustunnar og hvað hún kostar. Margir öfunda okkur Íslendinga af okkar heilbrigðisþjónustu og það ætti að vera hvatning til að halda áfram að bæta okkur og efla á alla lund. Það er ekki aðeins áskorun heldur einnig skylda.

Takk fyrir.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum