Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. apríl 2016 HeilbrigðisráðuneytiðKristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, 2013-2017

Ávarp heilbrigðisráðherra á 16. þingi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Sæl öll sömul og takk fyrir að bjóða mér til þings ykkar slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Að vaða eld og reyk er ekki heiglum hent og ég ímynda mér að í hugum margra sé það sú mynd sem margir sjá fyrst og fremst fyrir sér þegar stétt ykkar ber á góma. Það er þó ekki minni ástæða til að bera virðingu fyrir hlutverki ykkar sem sjúkraflutningafólks sem er snar þáttur í starfi ykkar og getur skilið milli feigs og ófeigs hvernig að því er staðið.

Sem heilbrigðisráðherra geri ég mér afar vel grein fyrir því hve miklu skiptir að hafa á að skipa vel menntuðu, þjálfuðu og færu fólki sem starfar við sjúkraflutninga. Það er í öllu samhengi mikilvægt – en þó er vert að geta sérstaklega um hve miklu það skiptir gagnvart strjálbýlinu þar sem vegalengdir eru miklar.

Þið þekkið eflaust flest þá afstöðu mína að leggja beri áherslu á að efla menntun ykkar sem heilbrigðisstéttar og styrkja ykkur í starfi með ráðum og dáð sem hluta af þjónustu heilbrigðiskerfisins. Það er gott fyrir ykkur og það er mikilvægt fyrir heilbrigðiskerfið. Fyrir þessu hef ég beitt mér og því mun ég halda áfram.

Markmiðið með öflugu og markvissu skipulagi sjúkraflutninga er að bráðaþjónusta sé tryggð og flutningur sjúkra og slasaðra sé sinnt með öruggum, faglegum og hagkvæmum hætti.

Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2022 liggur nær fullsköpuð á skrifborðinu mínu og ég stefni á að kynna hana almenningi innan skammst. Þar er að sjálfsögðu vikið að sjúkraflutningum. En megin atriðin eru eftirfarandi.

Skilgreina þarf þjónustuviðmið sjúkraflutninga í hverju umdæmi þannig að horft sé til þess hvers konar sjúkraflutningaþjónusta þurfi að vera til staðar á hverjum stað í ljósi fjölda íbúa, umfangs sjúkraflutninga, fjölda ferðamanna, heibrigðisstofnana og hvaða heilbrigðisstarfsmenn komi að þjónustunni.

Nauðsynlegt er að efla enn frekar vettvangsliða sem öflugan hluta af heilbrigðiskerfinu þar sem það á við og tryggja hlutverk þeirra í kerfi sjúkraflutninga.

Efla þarf samræmda rafræna skráningu í sjúkraflutningum og tryggja að upplýsingar á vettvangi skili sér í sjúkraskýrslu á heilbrigðisstofnun. Ég mun á næstunni fela Embætti Landlæknis að koma með tillögur í þessum efnum í samráði við fagráð sjúkraflutninga.

Jafnframt þarf að horfa til meiri notkunar fjarþjónustu í sjúkraflutningum með aukinni tækni og búnaði en slíkt getur leitt til þess að meðferð geti hafist fyrr og aukið batahorfur sjúklings.

Fleiri ætla ég ekki að hafa þessi orð hér í dag. Ég óska ykkur öllum alls hins besta, megi þingið verða ykkur ánægjulegt og gagnlegt.

Góðar stundir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum