Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. maí 2016 HeilbrigðisráðuneytiðKristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, 2013-2017

Aðalfundur Almannaheilla 2016

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Sælir góðir aðalfundargestir Almannaheilla árið 2016.

Takk fyrir að bjóða mér hingað til að segja nokkur orð. Raunar væri auðvelt fyrir mig að segja mörg orð og tala lengi. Efni standa vel til þess ef við hugsum um hvað frjáls félagasamtök sem vinna að almannaheill eru mörg og fjölbreytt og hvað þau eru mikilvæg í íslensku samfélagi –sennilega miklu mikilvægari en fólk flest gerir sér grein fyrir.

Sem sveitarstjórnarmaður til margra ára og nú ráðherra í velferðarráðuneyti þekki ég orðið til fjölmargra almannaheillasamtaka, hvort sem þau nú eru aðilar að regnhlífarsamtökunum með því nafni eða ekki. Eðli málsins samkvæmt stendur starfsemi þessara félaga manni misjafnlega nærri eftir því að hvaða málum þau vinna – en ég held það megi fullyrða um þau öll, að þau eru samfélagslega mikilvæg í einhverjum skilningi.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin leggi áherslu á samfélagslegt mikilvægi frjálsra félagasamtaka og sjálfboðastarfs og muni greiða götu slíkrar starfsemi. Þar segir einnig að æskilegt sé að stjórnvöld viðurkenni í auknum mæli í verki mikilvægi samtaka á borð við hjálparsveitir, ungmennafélög, íþróttafélög, forvarna- og hjálparsamtök og önnur frjáls félagasamtök sem efla og bæta íslenskt samfélag.

Allt frá því að samtökin Almannaheill voru stofnuð árið 2008 hafa þau knúið á um að fá skýrari réttarstöðu og traustara rekstrarumhverfi með setningu heildarlöggjafar um almannaheillasamtök, réttindi þeirra og skyldur. Það er stundum sagt að góðir hlutir gerist hægt og það á trúlega við hér. Nú, átta árum frá stofnun samtakanna, er komið fram á Alþingi frumvarp um félagasamtök til almannaheilla sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram fyrir nokkrum dögum.

Ég tel fyrirhugaða lagasetningu mikilvæga og er viss um að hún verði til gagns og góðs, jafnt fyrir almannaheillafélögin sjálf og alla þá sem njóta góðs af störfum þeirra. Þá horfi ég einkum til grundvallarþátta í starfseminni varðandi gagnsæi, góða stjórnarhætti og ábyrga meðferð fjármuna.

Aftur á móti þarf að stíga varlega til jarðar þegar settar eru skorður við sjálfsprottinni grasrótarstarfsemi eins og hér um ræðir, umfram það sem kveðið er á um í almennum lögum. Það er mikilvægt að löggjöf um starfsemi almannaheillasamtaka sé ekki of íþyngjandi þannig að hún dragi ekki úr þeim sköpunarkrafti og hugsjónaanda sem er uppspretta og einkenni frjálsra félagasamtaka sem vinna að mikilvægum málefnum og verkefnum í þágu almennings og samfélagsins.

Eins og ég sagði áðan, efast ég um að fólk geri sér almennt fulla grein fyrir því hvað störf frjálsra félagasamtaka eru mikilvæg í samfélagi okkar, hvað þau eru fjölbreytt og hvað rætur þeirra og áhrif liggja víða.

Ég ætla ekki að fara mikið út í þá sálma hér í ykkar hóp, því það er óþarfi. Það er hins vegar full ástæða til að halda meira á lofti því góða starfi sem almannaheillasamtök sinna og hve áhrif þeirra eru í raun og veru mikil ef að er gáð á öllum sviðum samfélagsins.

Ég ætla ekki að hafa orð mín mikið fleiri. Ég vil bara að þið vitið að ég met mikils starfsemi ykkar, - ég veit hvers þið eruð megnug - og ég vil svo sannarlega gera það sem í mínu valdi stendur til að efla starfsemi þriðja geirans eftir því sem efni standa til.

Það hefur þokast áfram í baráttumálum samtaka Almannaheilla. Um áramótin samþykkti Alþingi mikilvægar breytingar á skattalögum sem gera fyrirtækjum kleift að styrkja félagasamtök sem starfa í almannaþágu um allt að 0,75% af heildarveltu og fá upphæðina dregna frá tekjuskatti. Einnig hefur erfðafjárskattur af gjöfum til almannaheillasamtaka verið felldur niður.

Nú er að sjá hvernig Alþingi fer höndum um frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem ég nefndi áðan. Þar er ég heldur bjartsýnn, því ég þykist vita að þingmenn allir séu vel vitandi um hve mikilvægt málið er og muni sýna því bæði áhuga og velvild, hvar í flokki sem þeir standa.

Bestu þakkir og megi hróður ykkar og gengi aukast með ári hverju, til heilla fyrir almenning og samfélagið allt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum