Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. júní 2016 HeilbrigðisráðuneytiðKristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, 2013-2017

Kynningarfundur um lýðheilsuvísa Embættis landlæknis

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Ágæta samkoma, ég bíð ykkur öll velkomin til fundarins sem fjallar um áhugavert efni.

„Til að taka stefnu frá einum punkti á annan er nóg að draga línu á milli þeirra og mæla hornið milli lengdarbaugs og hennar.“ Þetta er bein tilvitnun í fræðsluefni um áttavita. Þar segir enn fremur: „Það er þó gagnslaust að geta tekið stefnu á korti ef við getum ekki fært hana yfir í umhverfið...“

Þetta er kannski ekki stórmerkilegur bókmenntatexti sem ég vísa hér til – en þetta er að mér finnst afskaplega viðeigandi miðað við efnið sem hér er til umfjöllunar.

Í textanum er svo áfram fjallað um að taka stefnu í umhverfinu og hvernig finna skuli réttvísandi stefnu út frá misvísandi stefnu og svo framvegis. Síðan er svo réttilega varað við þumalputtareglum þar sem að baki þeim liggur enginn skilningur og því engin leið að vita hvort reglunni hafi verið snúið á haus: „Almennur ferðamaður getur vissulega rifjað slíkt upp fyrir hverja ferð, en björgunarmaður á einfaldlega að kunna þetta jafn vel og stafrófið“ - tilvitnun lýkur.

Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar og áhrifaþætti þeirra. Eins og segir í upplýsingaefni frá Embætti landlæknis um lýðheilsuvísa þá eru þeir þættir fjölmargir sem hafa áhrif á heilsu og líðan. Við val á lýðheilsuvísum var sjónum beint að þeim áhrifaþáttum sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Einnig var leitast við að draga fram þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers umdæmis geri sér grein fyrir og bregðist við eftir föngum.

Í raun má segja að lýðheilsuvísarnir feli annars vegar í sér ágætar þumalfingursreglur fyrir almenning, eða öllu heldur fyrir hinn almenna ferðamann samkvæmt áttavitatextanum. Margir vísanna geta hjálpað fólki að axla ábyrgð á eigin heilsu þar sem þeir leiðbeina um breytni og lífsstíl og hafa þannig mikilvægt forvarnargildi.

Hins vegar er það hagnýting vísanna af hálfu fagfólks heilbrigðiskerfisins og raunar út fyrir það líka. Hér erum við í yfirfærðri merkingu að tala um hjálparsveitirnar. Vísarnir í höndum fagfólksins sem þekkja þá og kunna jafn vel og stafrófið, gera kleift að greina stöðuna í heilbrigðisumdæmum, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna. Horft er til þess að heilbrigðiskerfið og sveitarfélögin geti á grundvelli þessara vísa unnið saman að því að bæta heilsu og líðan íbúanna.

Fyrir heilbrigðisyfirvöld – og raunar fyrir stjórnvöld almennt eiga lýðheilsuvísarnir að geta nýst við stefnumótun og ákvarðanatöku í fjölmörgu samhengi, því eins og áður sagði eru þeir þættir sem hafa áhrif á heilsu og líðan margvíslegir. Lýðheilsuvísarnir eiga að veita okkur yfirsýn yfir lýðheilsu í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir sig og í samanburði við landið í heild. Þeir eiga tvímælalaust eftir að verða að góðum notum.

Góðir gestir.

Munum - að það er gagnslaust að geta tekið stefnu á korti ef við getum ekki fært hana yfir í umhverfið.

Því má við bæta að það er ómarkvisst að arka stefnulaust af stað því þá er algjörlega undir hælinn lagt og tilviljun háð hvar ferðin endar.

Í viðamiklum og vandasömum málaflokkum er hvort öðru mikilvægara, stefnumótunin sjálf og framkvæmd stefnunnar. Hvorugur þátturinn getur án hins verið.

Ég fagna útgáfu lýðheilsuvísa Embættis landlæknis og færi mínar bestu þakkir öllum þeim sem unnið hafa að gerð þeirra. Vonandi verður vegur vísanna sem mestur og vel farið með þá, jafnt í höndum hins almenna ferðamanns og hjálparsveitanna, svo ég ljúki þessu erindi mínu með því að vísa enn og aftur í fræðsluefni um áttavita.

Og ég er - í ljósi þekkingar minnar á siglingafræðum - handviss um það að við erum á réttri leið og réttri siglingu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum