Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2016 HeilbrigðisráðuneytiðKristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, 2013-2017

Aðalfundur Læknafélags Íslands 2016

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélags Íslands
22. september 2016

Sæl verið þið öll ævinlega og takk fyrir gott boð um að eiga við ykkur stefnumót á aðalfundi Læknafélags Íslands.

Það hefur mikið vatn til sjávar runnið frá því ég hitti ykkur fyrst sem heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélagsins 2013. Ég vísaði þar m.a. til viðtals sem Læknablaðið hafði átt við mig þar sem ég var m.a. spurður að því hvort mér þætti heilbrigðiskefið of dýrt. Eins og ég sagði þá finnst mér það ekki og sé ekki eftir sköttunum mínum í heilbrigðisþjónustuna. Ég sagði hins vegar að við gætum örugglega farið betur með fjármunina sem við leggjum til kerfisins með betra skipulagi og að ég vildi vinna að því. Á fundinum þá talaði ég m.a. um að efla heilsugæsluna sem grunnstoð kerfisins, að innleiða þjónustustýringu, vinna að uppbyggingu Landspítala, að gera tækjakaupaáætlun fyrir stóru sjúkrahúsin, bæta stöðu lyflækningasviðs Landspítalans sem var þá í óefni og síðast en ekki síst að koma á heildstæðu greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðiskerfinu. Flest af þessu hefur gengið eftir að meira eða minna leyti og mörg önnur stór verkefni hafa tekið á sig mynd eða eru komin til framkvæmda.

Ég hef nú setið á stóli heilbrigðisráðherra í rúm þrjú ár, framundan eru kosningar og þar með ákveðin tímamót. Mér finnst því liggja beint við að nota tíma minn hér til að líta yfir farinn veg, ræða svolítið um þær áherslur sem ég hef lagt og unnið eftir í embætti, hvað hefur áunnist, ásamt hugleiðingum um það á hverju við eigum helst að byggja til næstu ára.

Góðir gestir.

Í mínum huga leikur ekki nokkur vafi á því síðustu misserin hafa verið stigin stór skref til úrbóta og uppbyggingar heilbrigðisþjónustu í landinu. Mér fannst satt að segja þegar ég tók við sem heilbrigðisráðherra að verulega skorti á sýn og stefnu í heilbrigðismálum. Það var vissulega búið að vinna margvíslega greiningarvinnu um stöðu heilbrigðiskerfisins á mörgum sviðum og ýmsar tillögur til úrbóta höfðu verið lagðar fram. Það skorti ekki skýrslur og gögn, en það skorti sýn, það skorti forgangsröðun og það skorti úrvinnslu úr annars ágætu efni.

Á þeim grunni sem fyrir lá, lét ég vinna áætlun og setja í farveg þau verkefni sem augljóslega voru brýnust til úrbóta, undir heildstæðri áætlun sem ég hef kennt við Betri heilbrigðisþjónustu, enda markmiðið með verkefnunum sem þar falla undir.

Eitt fyrsta verkefnið var að koma stjórn heilbrigðismála í sama form í öllum sjö heilbrigðisumdæmum landsins með því að ljúka sameiningu heilbrigðisstofnana.

Svo má nefna innleiðingu hreyfiseðla sem gerir það að verkum að læknar um allt land geta nú ávísað hreyfingu í meðferðarskyni. Þótt verkefnið láti lítið yfir sér ber það engu að síður með sér mikilvæga áherslubreytingu sem felst m.a. í því að virkja fólk sjálft til ábyrgðar á eigin heilsu og að styðja það markvisst í þeirri viðleitni.

Allt frá árinu 1996 hafa stjórnvöld haft þá stefnu að koma á fót samtengdum upplýsingakerfum í heilbrigðisþjónustu sem gerir m.a. heilbrigðisstarfsfólki kleift að skiptast á upplýsingum og vinna saman sem ein heild. Til að koma þessu máli í traustan farveg var Embætti landlæknis formlega falin ábyrgð á framkvæmd þess. Ég setti jafnframt aukið fé til verksins og með því að veita þessu mikilvæga og víðfeðma verkefni athygli, forgang og aukna fjármuni hefur margt áunnist og mikilvægir áfangar náðst. Til að mynda eru nú heilbrigðisstofnanir í öllum umdæmum landsins samtengdar með rafrænni sjúkraskrá, þótt enn sé verið að ganga frá ákveeðnum öryggisatriðum á stöku stað og jafnframt er kappkostað að því að tengja aðra veitendur heilbrigðisþónustu inn í kerfið.

Frumvarp um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu varð að lögum frá Alþingi í júní í sumar. Mótun og innleiðing á nýju greiðsluþátttökukerfi var eitt þeirra verkefna sem ég setti ofarlega á dagskrá undir formerkjum Betri heilbrigðisþjónustu í því skyni að skapa einfaldara og þar með skiljanlegra – og síðast en ekki síst réttlátara greiðsluþátttökukerfi sem ver sjúklinga fyrir óhóflegum kostnaði þegar þeir þurfa hvað mest á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda. Það var ánægjulegt að í meðförum Alþingis, sem fer með fjárveitingarvaldið, kom fram vilji þingmanna til að auka fé inn í greiðsluþátttökukerfið og lækka þannig greiðsluþátttöku sjúklinga í heildina frá því sem nú er.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi kemur til framkvæmda 1. febrúar á næsta ári. Með því verða jafnframt innleiddar breytingar sem fela í sér þjónustustýringu í meira mæli en verið hefur, með áherslu á aukið hlutverk heilsugæslunnar. Meðal annars þess vegna hef ég kappkostað að því að styrkja heilsugæsluna, t.d. með því að fjölga þar sálfræðingum og fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun. Það hefur lengi verið sterkur samhljómur um það að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu en því miður hefur sú áhersla verið sterkari í orði en á borði. Nú erum við komin á veg með að raungera þennan vilja þannig að heilsugæslan standi undir nafni.

Og það er fleira fréttnæmt úr heilsugæslunni.

Í febrúar sl. kynnti ég áform um breytt fyrirkomulag fjármögnunar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í grundvallaratriðum felur þetta í sér að fjármagn til rekstrar heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu mun endurspegla þann sjúklingahóp sem viðkomandi heilsugæslustöð þjónar. Fjármögnun allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu mun byggjast á sömu forsendum óháð rekstarformi, þannig að allir sitji við sama borð, hvort sem reksturinn er opinber eða á hendi einkaaðila. Stefnt er að því að sambærilegt fjármögnunarkerfi verði innleitt á landsvísu þegar frá líður.

Samhliða vinnu að breyttri fjármögnun var ákveðið að fjölga heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu með útboði, enda ekki vanþörf á. Síðast var ný heilsugæslustöð tekin í notkun fyrir tíu árum, þ.e. stöðin í Glæsibæ árið 2006. Síðan þá hefur íbúum á þjónustusvæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 26.000 manns. Í kjölfar útboðs hafa Sjúkratryggingar Íslands nú samið um rekstur tveggja nýrra stöðva sem verða á Bíldshöfða í Reykjavík –henni er ætlað að þjóna austurhluta Reykjavíkur -  og í Urðarhvarfi í Kópavogi þar sem þjónustusvæðið miðast við efri byggðir í austurhluta Reykjavíkur og Kópavogi. Miðað er við að báðar þessar stöðvar taki til starfa 1. febrúar næstkomandi.

Tíðindi urðu í júní þegar undirritaður var samningur um innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar Landspítala sem byggist á alþjóðlega DRG flokkunarkerfinu. Kostir og markmið framleiðslutengdrar fjármögnunar eru gensærri aðferðir við fjármögnun þar sem þjónustan er kostnaðargreind, skynsamlegri úthlutun fjármagns í heilbrigðiskerfinu og betri nýting fjármuna, aukin skilvirkni og bætt eftirlit með gæðum og hagkvæmni þjónustunnar og að skilið sé betur á milli hlutverka kaupanda og seljanda þjónustunnar.

Það er mikill ábyrgðarhluti að annast kaup á heilbrigðisþjónustu og þetta er vandasamt og flókið verkefni. Kaupandinn verður að vera fær um að skilgreina hvaða þjónustu hann vill kaupa og í hvaða magni, setja fram kröfur um gæði og skilgreina að hvaða árangri er stefnt. Ég tel að mikilvæg skref í þá átt að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu hafi þegar verið stigin, bæði með þeim breytingum sem ég ræddi um áðan á fjármögnun heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og eins með breyttri fjármögnun Landspítalans. Margt þarf þó enn að bæta og stór verkefni eru framundan hvað þetta varðar.

Ég veit að sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum var sumum brugðið um áramótin síðustu þegar tilkynnt var um aðgerðir til að ná tökum á umfangi og kostnaði við samning sérgreinalækna við ríkið. Þetta var því miður óhjákvæmilegt þar sem ekki hefur tekist að halda kostnaði við rammasamning Sjúkratrygginga og sérgreinalækna frá árinu 2013 innan tilgreinds einingafjölda og innan heimilda fjárlaga. Ákveðið var að stöðva skráningu nýrra sérgreinalækna inn á rammasamninginn frá 1. janúar síðastliðnum þar sem umfang hans væri yfir tilgreindum viðmiðum og hefur sá háttur verið hafður á að þegar umsóknir er þjónustuþörfin metin í hverju tilfelli.

Gildandi rammasamningur við sérgreinalækna rennur út í lok árs 2018. Af minni hálfu er alveg ljóst að hann verður ekki endurnýjaður án verulegra breytinga. Eins og ég sagði áðan þá verður að vera ljóst og vel skilgreint af hálfu ríkisins sem kaupanda þjónustunnar hvaða á að kaupa, í hvaða magni, af hvaða gæðum o.s.frv.

Það hefur verið hreyft við ákveðnum hugmyndum um breytt fyrirkomulag sem mér finnast áhugaverðar. Þar nefni ég sérstaklega þá leið að bjóða út þá þjónustu sem talin er þörf fyrir hverju sinni, í samræmi við 42. gr. laga um sjúkratryggingar. Þá væri ekki aðeins skilgreind þjónustan, magn og gæðakröfur, heldur einnig kröfur um húsnæði, starfsfólk og upplýsingakerfi og jafnframt yrði miðað við að allur kostnaður sem tengdist veittri þjónustu félli undir samninginn, þar með taldar rannsóknir.

Góðir fundarmenn.

Nýlega var kynnt skýrsla ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey, sem að meginefni fjallaði um rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítalans, þótt óhjákvæmilega væri þar einnig snert á skipulagi og stórnun íslenska heilbrigðiskerfisins í víðara samhengi. Það er margt áhugavert í þessari skýrslu og af mörgu að taka. Enn og aftur fáum við staðfestingu á því að margt í okkar heilbrigðiskerfi er mjög gott í erlendum samanburði þannig að við getum borið höfuðið hátt. Engu að síður eru líka margar ábendingar um ágalla, meðal annars kerfislæga sem brýnt er að bæta úr til að bæta þjónustu og auka skilvirkni.

Í skýrslu McKinsey er m.a. bent á að heimilislæknar á Íslandi eru hlutfallslega álíka margir hér og í Svíþjóð en bið eftir tíma í heilsugæslunni er samt umtalsvert lengri hér. Skýrsluhöfundar segja að heilsugæslan hér glími við vanda varðandi rekstrarskilvirkni. Eins benda þeir á – sem kemur ekki á óvart – að margir sjúklinga sem leita á bráðamóttöku Landspítalans ættu frekar að fá úrlausn í heilsugæslunni. Þótt margt í skýrslu McKinsey sé einungis staðfesting á því sem við vissum fyrir, eru þar ýmsar haldbærar ábendingar um úrbætur sem við eigum að vinna með til að nýta betur þá fjármuni sem við höfum í þágu sjúklinga.

Áður en lenga er haldið vil ég nefna sérstakt átak til að stytta bið eftir völdum aðgerðum sem hófst snemma á þessu ári með undirritun samnings við fjórar heilbrigðisstofnanir. Ákveðið var að verja rúmum 1660 milljónum króna til verkefnisins á árunum 2016 – 2018, þar af um helmingi fjárins á þessu ári. Með þessum stígum við stórt skref sem miðar að því að bæta þjónustu við sjúklinga, auka lífsgæði fólks og styrkja heilbrigðiskerfið. Til lengri tíma litið er markmiðið að hámarksbið eftir aðgerð verði ekki lengri en 90 dagar.

Mannauður og menntun er grundvöllur og forsenda góðrar heilbrigðisþjónustu. Mér fannst það því afar ánægjulegt þegar ég gat staðfest reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi hér á landi. Síðar staðfesti ég nýjar starfsreglur fyrir mats- og hæfnisnefnd sem aftur staðfesti marklýsingu fyrir starfsnám læknakandídata. Læknakandídatar sem útskrifuðust í vor eru þeir fyrstu til að stunda starfsnám á grundvelli nýju marklýsingarinnar.

Til viðbótar þessu er svo gaman að nefna hina konungulegu vottun sem sérnám í lyflækningum hér á landi hefur nú fengið. Þá á ég við þegar konunglega breska lyflæknafélagið (Royal College of Physicians í Bretlandi) vottaði sérnám í lyflækningum á Íslandi fyrir skömmu.

Góðir gestir.

Ég gæti haldið áfram lengi, lengi. En það er kannski ekki vinsælt að ég taki allan tíma ykkar hér. Mig langar samt að geta um þá áfanga sem teknir hafa verið við uppbyggingu Landspítalans þar sem framkvæmdir eru nú í fullum gangi við byggingu sjúkrahótels og langtímafjármögnun frekari stórframkvæmda liggur fyrir. Þetta er mikilvægt því nú er ljóst að unnt verður að bjóða út framkvæmdir við meðferðarkjarna og rannsóknarhús árið 2018.

Fjögurra ára áætlun sem gerð var um aukin framlög til tækjakaupa á sjúkrahúsunum stóru hefur skilað þeim árangri að innkaup nýrra tækja og viðhald tækjabúnaðar er komið í viðunandi horf.

Hvað sem líður fréttaflutningi um innleiðingu nýrra lyfja hér á landi, þá hefur orðið viðsnúningur í þeim efnum. Í upphafi þessa árs ákvað ég að flytja  100 milljónir króna af safnlið ráðuneytisins til að greiða fyrir innleiðingu nýrra lyfja og til viðbótar samþykkti ríkisstjórnin að leggja aukið fé til málaflokksins. Markmiðið var að gera kleift að innleiða öll þau lyf sem sett höfðu verið á forgangslista af hálfu Landspítalans. Eins og fram kom í tilkynningu sem lyfjagreiðslunefnd sendi frá sér í vikunni hafa mikilvægir áfangar við innleiðingu nýrra lyfja náðst á árinu og að mati hennar er staðan hér á landi um felst sambærileg við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum.

Svo skulum við ekki gleyma stórmerku meðferðarátaki við lifrarbólgu C með bestu fáanlegum lyfjum – meðferðarátak sem á sér vart fordæmi og væri trúlega ekki á nokkurrar þjóðar færi að standa undir ef greiða þyrfti lyfin fullu verði – en eins og þið munið leggur fyrirtækið Giliad okkur lyfin til í rannsóknarskyni.

Þjóðin eldist hlutfallslega og nokkuð hratt. Eins og vonlegt er heyrast því áhyggjuraddir um stöðuna í málefnum sjúkra, einkum aldraðra, sem geta ekki búið heima, þrátt fyrir ýmsa aðstoð og þjónustu og verða því að komast á hjúkrunarheimili. Framboð hjúkrunarrýma er mismunandi eftir landshlutum en höfuðborgarsvæðið og Suðurland hafa staðið frekar illa hvað þetta varðar. Í þessum málum stendur margt til bóta. Eins og þið eflaust vitið kynnti ég fyrir nokkru áætlun um byggingu fimm hjúkrunarheimila á næstu árum þar sem þörfin er brýnust og þess er vænst að þau verði tilbúin til notkunar um áramótin 2018/2019. Þessi heimili munu rísa í Reykjavík, Kópavogi, á Seltjarnarnesi og í Hafnarfirði. Með þessum framkvæmdum og öðrum sem eru nú á framkvæmdastigi eða nýlokið sjáum við bætast við 400 ný hjúkrunarrými á landsvísu. Af þeim eru um 240 sem eru hrein viðbót við framboð rýma en tæplega 170 sem eru byggð til að mæta nauðsynlegri endurnýjun húsnæðis og kröfum um bættan aðbúnað. Ég tel mjög brýnt að sinna þessari uppbyggingu, en legg líka áherslu á að efla stuðning við aldraða í heimahúsum og hafa þjónustuna sem fjölbreyttasta þannig að hægt sé að laga hana sem best að þörfum hvers og eins.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég geta í stuttu máli um mikilvæga stefnumótun sem fram hefur farið í velferðarráðuneytinu í minni tíð. Fyrst vil ég telja ályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor. Sjálfur samþykkti ég lyfjastefnu til ársins 2020 í apríl síðastliðnum og lagði hana síðan fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögu. Síðast en ekki síst birti ég nýlega til umsagnar drög að heilbrigðisstefnu til ársins 2022 sem ætlað er að verða grunnur að aðgerðaáætlun sem varðar úrbætur í heilbrigðisþjónustu og skipulag hennar um allt land og undirstaða verkefna sem styðja við heilsu landsmanna.

Gott fólk. Nú læt ég lokið máli mínu – en vil endilega svara spurningum ef þið hafið einhverjar og spjalla við ykkur um heilbrigðismál ef tími gefst til. Ef ekki, þakka ég gott hljóð og samfylgd í gegnum súrt og sætt á síðustu árum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum