Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. apríl 2017 HeilbrigðisráðuneytiðVEL Ræður og greinar Óttarrs Proppé

Landsfundur Sjálfsbjargar

Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra á landsfundi Sjálfsbjargar, 6. maí 2017

Ágætu gestir og fulltrúar á landsfundi Sjálfsbjargar 2017.

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur við upphaf landsfundarins.

Mér er ljóst að mörg verkefni eru á dagskrá ykkar í dag og alla daga, þar sem þið hafið í tæp 60 ár staðið vaktina varðandi stöðu og réttindi fatlaðs fólks.

Á vef ykkar er áhugavert yfirlit um sögu samtakanna og ég rak þar augun í yfirlit um þau baráttumál sem tilgreind voru í ykkar fyrstu lögum. Þar eru meðal annars tilgreind áform um byggingu félagsheimilis. Það hafið þig gert og gott betur.

Vinnu- og menntamál eru áhersluefni auk þess að koma upp þjálfunarstöðvum. Þar hefur líka mikið áunnist og ég held að óhætt sé að segja að staða fatlaðs fólks nú er allt önnur og betri en hún var á árinu 1959.

Ekki er þó öllum markmiðum náð og í tímans rás verða til ný verkefni og tækifæri sem þarf að huga að og fylgja eftir þótt önnur komist í höfn.

Einnig kemur fram á vef ykkar að aðgengismál í víðum skilningi hafa lengst af verið mikið áherslumál hjá samtökunum. Þá er ekki bara um að ræða ferlimál, sem var það sem var brýnast til að byrja með, heldur líka greiður aðgangur að fjölbreyttum hjálpartækjum bæði í vinnu og einkalífi.

Þróun hjálpartækja á þessum tíma hefur skipt sköpum varðandi möguleika fólks með margs konar fötlun til að geta notið sín í námi og starfi.

Þar hefur þróunin í tölvutækni verið einna mikilvægust á undanförnum árum og sú þróun er á fljúgandi ferð. Með nýrri tækni hefur fólk sem býr við mjög alvarlega fötlun allt önnur tækifæri en áður.

Í vikunni var verið að kynna mér stöðu mála varðandi flókin hjálpartæki sem notuð eru til tjáskipta og umhverfisstjórnunar.

Það er í rauninni alveg ótrúlegt að sjá möguleikana við að auðvelda fólki lífið.

Hins vegar erum við stundum í vandræðum með að fylgja möguleikum tækninnar eftir og fullnýta því hún er oft mjög flókin.

Við höfum eftir bestu getu reynt að fylgjast með þessari þróun en í þessu eins og mörgu öðru verða verkefnin enn um sinn óþrjótandi.

-------------------------

Ágætu fundarmenn.

Ég vil nota þetta tækifæri til að segja ykkur í örstuttu máli frá þeirri sýn og þeim áherslum sem ég hef varðandi heilbrigðisþjónustuna.

Fyrst af öllu vil ég leggja áherslu á að í stærstu dráttum er heilbrigðiskerfið okkar gott og ég þreytist ekki á að lofa það mikla og góða starf sem unnið er á öllum stigum þjónustunnar og um land allt.

Um leið og við eigum að vera gagnrýnin á kerfið og þjónustuna, gagnrýnin í merkingunni „rýna til gagns“, megum við ekki gleyma því sem vel er gert.

Ég tek það skýrt fram að ég hyggst ekki bylta því kerfi sem við höfum, hvorki varðandi skipulag né rekstrarform.

Við þurfum engu að síður að horfast í augu við það að ýmsu má breyta til að laga þjónustuna betur að þörfum notenda.

Nokkrir fulltrúar samtaka fatlaðs fólks hafa komið á minn fund og komið með góðar ábendingar.

Mér finnst mikilvægt að fá að heyra frá fulltrúum þeirra sem þekkja vel til og sjónarhorn fatlaðra notenda heilbrigðisþjónustu er þar ekki undaskilið.

Þegar við horfum til þess að gera breytingar á heilbrigðiskerfinu höfum við gjarnan byrjað á því að skipa nefnd eða starfshóp, sem síðan skila af sér skýrslum og greinargerðum til ráðherra.

Fyrir liggja margar slíkar greiningarskýrslur og tillögur nefnda og faglegra skipaðra vinnuhópa um mörg viðfangsefni heilbrigðisþjónstunnar.

Það er mikilvægt að nýta það sem fyrri liggur, fremur en að skipa enn einn starfshópinn.

Ég legg áherslu á að nýta vandaða vinnu sem fyrir liggur, rýna í fyrirliggjandi gögn og skýrslur og nota efnið til að skerpa línur og stefnu.

Þetta er verkefni okkar þessa dagana og okkar á milli köllum við verkefnið Upp úr skúffunum.

Ég stefni að því að setja fram heildstæða stefnu í heilbrigðismálum þar sem allt er undir, jafnt grunnþjónustan í heilsugæslunni, sérfræðiþjónustan, opinbera stofnanaþjónustan, sérhæfða sjúkrahúsþjónustan, endurhæfingarstarfsemin og heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða.

Við viljum heildstæða, skilvirka og örugga þjónustu, sem veitt er á viðeigandi þjónustustigi miðað við þarfir hvers og eins – og við viljum að sjálfsögðu að þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu sé varið skynsamlega og að þeir nýtist sem allra best.

Það er einnig grundvallaratriði að tryggja eins og kostur er jafnt aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, búsetu eða öðrum þáttum svo sem fötlun.

Þá vil ég nefna að 1. maí sl. tók gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustunnar.

Kerfið markar tímamót og hefur það markmið að verja sjúkratryggða fyrir mjög háum greiðslum.

Sett var þak á greiðslur sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu. Kerfið er í raun greiðslujöfnunarkerfi og mun kostnaður nú dreifast á sjúkratryggða með öðrum hætti en áður.

Þeir sem sjaldan þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda greiða meira fyrir þjónustuna og þeir sem þurfa á mikilli þjónustu að halda greiða minna.

Á þessu ári er ætlaður 1 milljarður króna í fjárlögum til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga á árinu 2017.

Þá vil ég líka að það komi skýrt fram að það er stefna ríkisstjórarinnar að halda áfram að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu og það er gert ráð fyrir fjármunum í það verkefni í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018 – 2020.

Ekki er búið að útfæra framkvæmdina í einstökum atriðum, en markmiðið er skýrt, það á að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga enn frekar.

Góðir fundarmenn.

Ég hef hér drepið á nokkur mál sem mér fannst mikilvægt að koma á framfæri við ykkur hér í dag.

Heilbrigðisþjónusta er ykkur mikilvæg eins og flestum landsmönnum og ég vil standa vörð um að hún verði áfram góð og batni enn frekar.

En ég vil líka nefna forvarnir, því betra er heilt en gróið.

Með stuðningi við fatlað fólk og eflingu þess á öllum sviðum er fólgið mikið forvarnarstarf bæði varðandi andlega og líkamlega heilsu. Þetta hefur Sjálfsbjörg gert í 60 ár. Hafið þökk fyrir.

Að lokum vona ég að þið eigið hér árangursríkan fund í dag og óska ykkur velfarnaðar í öllu ykkar starfi.

--------------------
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum