Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. apríl 2017 HeilbrigðisráðuneytiðVEL Ræður og greinar Óttarrs Proppé

Fjölumdæmisþing Lionshreyfingarinnar

Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra á fjölumdæmisþinginu, 22. apríl 2017

Kæru Lions-meðlimir og aðrir góðir gestir.

Þakka ykkur kærlega fyrir að bjóða mér að ávarpa ykkur í upphafi þessa fjölumdæmisþings.

Allt frá stofnun Lions-hreyfingarinnar hér á landi hefur hún unnið sér jákvæðan sess í hugum og hjörtum landsmanna, ég er þar með talinn. Sama á við um stöðu og ímynd hreyfingarinnar um allan heim.

Skýringin á þessari jákvæðu afstöðu meðborgaranna gagnvart ykkur er hinn djúpstæði mannkærleikur sem birtist í gjörðum samtakanna, sem hafa beitt kröftum sínum til að bæta mannlíf meðal þjóða heimsins.

Mér er mjög í huga, hvernig Lions-hreyfingin hefur á fórnfúsan hátt beitt sér bæði hér á landi og á heimsvísu. Hún hefur staðið fyrir því að bæta kjör og aðstæður fólks á ýmsa vegu, allt frá því að berjast gegn hungri meðal fátækra þjóða með matargjöfum til þess að efla og bæta sjónvernd og sykursýkisvarnir, auk þess að beina kröftum sínum að umhverfisvernd.

Hér á Íslandi er vart til sú heilbrigðisstofnun sem ekki hefur þegið rausnarlega gjöf frá Lions-klúbbi, jafnt sjúkrahús sem heilsugæslustöðvar, jafnt Landspítalinn, okkar stærsta heilbrigðisstofnun, sem minnstu einingar heilbrigðisþjónustunnar. Mér koma í hug tól og tæki af ýmsum toga, stór og lítil, sem hafa komið að miklum notum við heilbrigðisþjónustu á viðkomandi svæði. Á þennan hátt hafa íbúar notið gjafmildi og velvilja samtaka ykkar, sem hefur orðið byggðarlagi klúbbsins á svæðinu til góðs. Fyrir þetta verður aldrei nógsamlega þakkað. Vil ég sem heilbrigðisráðherra þakka þetta hér með enn og aftur.

Heilbrigðisþjónusta telst í öllum löndum til eins helsta þáttar þeirrar samfélagsverkefna, sem við stöndum öll saman að, enginn veit hvenær hann þarf á þessari þjónustu að halda og því er sátt meðal flestra þjóða, að þjónusta við sjúka teljist til sameiginlegra verkefna, þar sem við öll saman styðjum við þann sem á henni þarf að halda. Þjónustan á Íslandi telst í alþjóðlegum samanburði vera góð, grundvallarþættir eins og ungbarna- og mæðradauði eru með því lægsta í heiminum og lífslíkur með þeim bestu í heiminum. Minnumst þess að fyrir þremur kynslóðum átti nýfætt barn á Íslandi ekki nema um 50% líkur á að verða 10 ára gamalt. Nú eru þessar líkur um 100%. Þannig er þessu ekki varið víða um lönd, vissulega er ungbarnadauði fallandi, að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar deyja nú 19.000 færri börn daglega en 1990. 19.000 færri – daglega! Á síðasta ári létust um þrjár milljónir nýbura, flestir vegna vannæringar, 1990 létust um fimm milljónir nýbura árlega.

Svo mikið hefur verið gert en alltaf má gera betur, mörg mikilvæg verkefni bíða og kalla eftir að úr þeim verði leyst. Í þessu samhengi er stuðningur samtaka eins og Lionshreyfingarinnar ómetanlegur. Ég þykist vita að á því verði engin breyting í komandi framtíð.

Að baki þessarar ómældu góðvildar Lions-hreyfingarinnar býr hugarfar sem vonandi býr í sem flestum einstaklingum en til að leysa þessi jákvæðu öfl úr læðingi þarf samheldni og framtakssemi sem félagsskapurinn býður uppá, fjölbreytni, návist við góða félaga og vini, jákvæða upplifun af góðverkunum, viðurkenningu umhverfisins. Allt þetta tel ég Lions-hreyfinguna hafa öðlast með framlagi sínu til betra mannlífs víða um lönd.

Ég sá það í kynningarefni samtakanna að frá stofnun fyrsta klúbbsins hér á landi 1951 eru þeir nú orðnir um 90 og meðlimir vel á þriðja þúsundið. Nýliðun er öllum félögum nauðsynleg og ég þykist vita að hreyfingin gætir vel að því að endurnýja sig og ná til sín ungu fólki.

Hin öfluga starfsemi á Íslandi hefur vakið athygli um víða veröld og staða samtakanna hér viðurkennd. Ég þykist vita að þessi staðreynd hefur átt sinn þátt í því að nú er félagi ykkar, Guðrún Björt Yngvadóttir úr Garðabæ, annar varaforseti Alþjóðasamtaka Lions. Mun hún því fyrst kvenna veita forystu embætti alþjóðaforseta þessarar merku hreyfingar árin 2018-2019. Ég vil óska Guðrúnu og ykkur öllum til hamingju með þennan frama og viðurkenningu sem í þessu felst.

Kæru Lions-félagar

Ég við að endingu þakka aftur boð ykkar, ég vil einnig þakka aftur allan stuðning ykkar við íslenska heilbrigðisþjónustu og íslenskt samfélag á þeim 66 árum sem liðin eru frá stofnun Lions á Íslandi.

Ég vil óska ykkur alls hins besta í störfum ykkar og veit að þau verða íslensku samfélagi til góðs um ókomna tíma.

Þakka ykkur fyrir.

------------------------
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum