Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. apríl 2017 HeilbrigðisráðuneytiðVEL Ræður og greinar Óttarrs Proppé

Ársfundur Landspítala 2017

Ávarp heilbrigðisráðherra, Óttars Proppé á ársfundi Landspítala
5. maí 2017

Komið þið sælir góðir gestir á ársfundi Landspítala. Gaman að sjá ykkur og hitta hér við þetta tækifæri sem eðlilegt er að nýta jafnt til þess að líta yfir farinn veg á liðnu ári og horfa til framtíðar.

Það er orðið nokkuð algengt í máli fólks þegar það ræðir um Landspítala að bæta einhverju við nafn sjúkrahússins eins og til að undirstrika að þetta er enginn venjulegur spítali í ónefndu landi. Þetta er Landspítali Íslands, þjóðarsjúkrahúsið, sjúkrahús allra landsmanna, háskólasjúkrahúsið okkar og þar fram eftir götunum.

Í lögum heitir hann bara Landspítali – og ekki einu sinni með ákveðnum greini. Það held ég að flestum finnst of fátæklegt heiti á jafnmikilvægri stofnun í lífi okkar landsmanna og bæti því um betur á þennan máta til að gera veigamiklu hlutverki hans betri skil. Norðmenn eiga sér orðatiltækið ,,kært barn á sér mörg nöfn“ í lauslegri þýðingu, og það á held ég vel við um Landspítalann.

Ýmsar stærðir í rekstri Landspítalans segja meira en mörg orð um það hvert vægi hans er í okkar litla samfélagi. Þetta er einn stærsti vinnustaðurinn á landinu með um 5.500 starfsmenn sem allir gegna sínu mikilvæga hlutverki í gangverkinu, margir hverjir með mikla menntun, sérfræðiþekkingu og reynslu og bera þunga ábyrgð á heilsu og velferð sjúklinganna sem á Landspítalann leita. Um hundrað þúsund sjúklingar leituðu til Landspítalans á liðnu ári og fjárveitingar ríkisins til hans árið 2016 námu rúmum 56 milljörðum króna.

Ef við lítum á fjárlög fyrir árið 2017 má sjá að:

  • Útgjöld ríkissjóðs nema um 750.000 milljörðum króna

  • Heildarframlög til heilbrigðismála eru um 200.000 milljarðar króna - eða tæpur fjórðungur, 25%, af heildarútgjöldum ríkisins

  • Fjárveitingar til Landspítala sem hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins er um 8%.

  • Hlutfall Landspítala af útgjöldum til heilbrigðismála er um 30% 

Á Landspítalanum er veitt allra sérhæfðasta heilbrigðisþjónustan, til viðbótar almennri heilbrigðisþjónustu sem eðlilegt er að veita á umdæmissjúkrahúsi, því spítalinn gegnir líka því hlutverki gagnvart íbúum Reykjavíkur og nágrennis. Hér fer fram kennsla og þjálfun heilbrigðisstétta og vísindastörf og rannsóknir eru fyrirferðamikill þáttur í starfseminni.

Það er því ekkert ofsagt að Landspítalinn sé engin venjuleg stofnun. Umfang rekstrarins skapar honum sérstöðu og eðli verkefnanna sömuleiðis. Síðast og ekki síst felst mikil sérstaða í hinum sterku tengslum við stóran hluta landsmanna á hverjum tíma, og nánast alla landsmenn einhvern tíma á lífsleiðinni.

Það er óhjákvæmilegt að stofnun sem er svona mikilvæg og hefur svona afgerandi sérstöðu í mörgum efnum sé uppspretta margvíslegra umræðna, skoðanaskipta, deildra meininga og valdi stundum höfuðverk hjá þeim sem þurfa að axla ábyrgð og taka mikilvægar ákvarðanir, jafnt faglegar og fjárhagslegar ákvarðanir sem stundum eiga ekki fyllilega samleið.

Framtíð Landspítalans er yfirskrift þessa ársfundar og hvað hana varðar má margt ræða. Það er ekki svo að framtíðin sé algjörlega óskrifað blað. Það liggja fyrir stórar og mikilvægar ákvarðanir um framtíð Landspítalans.

Í haust lýkur fyrsta áfanga framtíðaruppbyggingar við Hringbraut þegar nýja sjúkrahótelið tekur til starfa í 4.300 fermetra vandaðri byggingu með aðstöðu fyrir 75 sjúklinga og aðstandendur þeirra. Það verður kærkomið og mun hafa margvísleg jákvæð áhrif, fyrir notendur þjónustunnar og fyrir spítalann sjálfan.

Í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins er uppbygging Landspítalans við Hringbraut sett á oddinn og er gert ráð fyrir því að meðferðarkjarninn og rannsóknarkjarninn verði teknir í notkun árið 2023.

Það kemur einnig glöggt fram í nýrri fimm ára fjármálaáætlun stórnvalda sem nú liggur fyrir Alþingi að heilbrigðismálin verða í forgangi á komandi árum. Það eru vissulega aðhaldsmarkmið í áætluninni fyrir næsta ár, en krafan um aðhald er lægri á sjúkrahús og öldrunarstofnanir.

Til lengri tíma litið eru aukin framlög til heilbrigðismála í forgangi samkvæmt áætluninni. Gert er ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin í skrefum.

Milli áranna 2017 og 2018 er aukningin um 9%.

Uppbygging Landspítalans er stærsta verkefnið framundan, en einnig verður áfram unnið að styttingu biðlista eftir völdum aðgerðum, líkt og þið þekkið hér í tengslum við endurnýjaða samninga vegna átaks í þeim efnum.

Um er að ræða þriggja ára átak sem hófst 2016 og í ár hefur verið leitað til Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands til að framkvæma aðgerðirnar auk fyrirtækja á sviði augnlækninga.

Þá verður áhersla lögð á uppbyggingu hjúkrunarrýma og geðheilbrigðsmálin fá meira vægi.

Loks vil ég nefna sérstaklega nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu með gildistöku 1. maí næstkomandi sem ég vil láta eftir mér að kalla þjóðþrifamál og stórt réttlætismál.

Með nýja greiðsluþátttökukerfinu er sett hámark á útgjöld einstaklinga fyrir heilbrigðisþjónustu en það hefur svo sárlega vantað hingað til. Þeir sem eru oft eða mikið veikir munu þar með vita fyrir víst að heilbrigðisútgjöld þeirra fara ekki yfir tiltekin mörk, sama hve fólk þarf á mikilli þjónustu að halda, - til dæmis einstaklingar sem eru í meðferð vegna krabbameina.

Uppbygging Landspítala við Hringbraut er nú loksins orðin meira en framtíðarsýn, hún er fjármögnuð áætlun um framkvæmdir á næstu árum og að hluta farin að raungerast, eins og við sjáum í sjúkrahótelbyggingunni sem brátt verður tekin í notkun.

Góðir gestir.

Margvíslegar áskoranir blasa við frá degi til dags í starfsemi Landspítalans og ég geri mér vel grein fyrir því að róðurinn á spítalanum er oft þungur vegna álags, þar sem lítið má út af bregða til að ástandið verði alvarlegt og erfitt við að ráða.

Fráflæðisvandinnsem ég kýs frekar að kalla útskriftarvanda – er sameiginlegt verkefni sem við verðum að leysa með sameiginlegri ábyrgð og skynsamlegum og skilvirkum leiðum.

Stjórnendur spítalans og ráðuneytið hafa unnið saman að ýmsum leiðum til að bregaðst hér og nú við erfiðri stöðu hvað þetta varðar og orðið nokkuð ágengt.

Má í því sambandi til dæmis nefna tímabundið verkefni um biðrými fyrir þá sem bíða eftir hjúkrunarrýmum og er unnið í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Þessi nýju rými munun án vafa nýtast vel einkstaklingum sem lokið hafa meðferð á Landspítala. Stefnt er að því að þessi rými verði tekin til notkunar nú í maí.

En við þurfum sömuleiðis framtíðarlausnir. Til lengri tíma litið liggja þær lausnir einkum í því að stórauka þann stuðning sem gerir fólki kleift að búa lengur heima hjá sér þrátt fyrir heilsubrest og skerta athafnagetu og mikilvægt er að fjölga hjúkrunarrýmum.

Það er óviðunandi allra hluta vegna að fólk ílengist eftir að meðferð er lokið á Landspítala eins og nú er. Það er vont fyrir þessa einstaklinga, það er vont fyrir starfsemi sjúkrahússins, það er óskynsamlegt og ég leyfi mér að segja óverjandi.

Við verðum að komast fyrir þennan vanda og við getum það með góðri samvinnu, útsjónasemi og réttri forgangsröðun. Þá þarf að sjálfsögðu að taka með í reikninginn hækkandi meðalaldur þjóðarinnar, enda ekkert sem á að koma okkur á óvart hvað það varðar.

Landspítalinn og þjónustan sem þar er veitt stendur og fellur með fólkinu sem þar starfar. Þetta veit ég, þetta vitið þið og þetta vita allir sem láta sig starfsemi sjúkrahússins varða.

Það er því mikið alvörumál þegar erfiðlega gengur að laða fólk til starfa, þegar nýliðunin er ófullnægjandi og þegar reynt fagfólk hverfur frá störfum.

Kaup og kjör, vinnuálag, aðstæður varðandi samræmingu vinnu og fjölskyldulífs, vinnuumhverfi og aðbúnaður eru allt þættir sem hafa áhrif á viðhorf fólks til vinnustaða. Sömuleiðis hafa samskipti, stjórnun og forysta afgerandi áhrif á hvernig starfsfólki líður í vinnunni.

Það er alveg ljóst að mönnunin er orðin alvarlegt vandamál á Landspítalanum og þá sérstaklega þegar hjúkrunarfræðingar eiga í hlut. Hér er um að ræða flókinn vanda sem kallar á margþætta lausn.

Leita þarf allra leiða og snúa vörn í sókn. Mér er kunnugt um að starfsfólk ráðuneytisins er í góðum samskiptum við stjórnendur spítalans um verkefnið.

Við horfum nú fram á stórfellda uppbyggingu Landspítala hvað allan húsakost, tækjabúnað og aðra aðstöðu varðar. Ég trúi því og treysti að við séum að byggja upp Landspítala sem eigi alla möguleika á því að verða eftirsóttur og framúrskarandi vinnustaður ef við höldum rétt á málum.

Gott fólk.

Landspítalinn er þjóðinni kær, enda á hann sér marga vini og hauka í horni. Árlega eru honum færðar smærri og stærri gjafir frá einstaklingum og félagasamtökum. Þannig hefur það verið alla tíð og sum félög eiga orðið sögu sem er samofin sögu spítalans sjálfs. Liggur þá beint við að nefna Kvenfélagið Hringinn, að öðrum góðum félögum ólöstuðum.

Ég ætla ekki að láta undir höfuð leggjast að nefna hér magnaða og merkilega gjöf sem Íslensk erfðagreining færði þjóðinni af fádæma rausnarskap og Landspítalinn er handhafi að. Hér á ég auðvitað við jáeindaskannann sem tekinn verður í notkun í haust ef fer sem horfir.

Það mun ekki vera of sagt að hann muni á margan hátt valda straumhvörfum. Með tilkomu hans þarf ekki lengur að senda fólk í jáeindaskanna til Danmerkur líkt og gert hefur verið með tilheyrandi óhagræði fyrir sjúklingana og miklum tilkostnaði.

Þetta hafa verið um 200 sjúklingar á ári. Nú mun þessi tækni jafnframt koma miklu fleirum að notum, eða allt að tvöþúsund sjúklingum á ári er mér sagt. Greiningar ýmissa sjúkdóma verða mun nákvæmari og betri en áður, meðferð þar með markvissari og horfur sjúklinga betri.

Það munar um minni gjafir en þá sem hér var um rætt – en svo hefur líka sannarlega munað um þau auknu framlög til tækjakaupa sem fylgdu markvissri tækjakaupaáætlun sem gerð var í tíð forvera míns á stóli heilbrigðisráðherra. Gömul og úrelt tæki hafa verið endurnýjuð, ný tæki og ný tækni hefur opnað nýja möguleika á sviði meðferðar.

Kæru vinir.

Við skulum ekki gleyma því þótt við mætum mótbyr, að Landspítalinn er flaggskip í heilbrigðisþjónustu okkar. Við eigum að meta hann að verðleikum, því hann stendur undir þjónustu sem við getum verið stolt af.

Landspítalinn hefur á að skipa vel menntuðu og færu fagfólki. Hér starfar öflug liðsheild og fyrir henni fara stjórnendur sem njóta traust og virðingar.

Við erum hér saman komin ákveðin í að horfa til framtíðar. Ég fullyrði að Landspítalans bíður björt framtíð – við munum sjá hann eflast og dafna á komandi árum, sem hátæknisjúkrahús, háskólasjúkrahús, sem Landspítali Íslands og þjóðarsjúkrahúsið, eða hvaða öðrum viðeigandi og nöfnum við viljum nefna þessa merku stofnun sem er okkur landsmönnum svo kær.

Takk fyrir.

 

------------------------
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum