Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. maí 2017 HeilbrigðisráðuneytiðVEL Ræður og greinar Óttarrs Proppé

Vísindi á vordögum - setningaávarp heilbrigðisráðherra

Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra við setningu Vísinda á vordögum
Hringsal Landspítalans 4. maí 2017

Kæru gestir.

Mér er það mikil ánægja að setja þessa dagskrá hér í dag,sem Vísindaráð og Vísindadeild Landspítala halda og ber heitið VÍSINDI Á VORDÖGUM. Þetta mun vera eins konar uppskeruhátíð vísindafólks á Landspítalanum þar sem vísindamenn eru heiðraðir fyrir vinnu sína og styrkjum er úthlutað.

„Vísindin efla alla dáð“ orti Jónas forðum daga og þau orð eiga ekki síður við í dag en þá, árið 1839.

Rannsóknir á heilbrigðissviði skapa grunninn að sterku heilbrigðiskerfi.

Þýðing vísindarannsókna fyrir heilbrigðiskerfið hefur sjaldan verið meiri en nú. Tækniframfarir eru örar og samfélagslegar og lýðfræðilegar breytingar eru miklar. Sjúkdómsbyrðin færist stöðugt frá bráðasjúkdómum og smitsjúkdómum yfir í þá langvinnari sem einstaklingar lifa með árum og áratugum saman.

Vísindarannsóknir stuðla að framförum og leiða til þess að meðferð og heilbrigðisþjónusta uppfylla alþjóðlegar gæðakröfur og gefa möguleika á þróun nýrra meðferða og tæknilausna í klínískri vinnu.

Vísindarannsóknir eru jafnframt undirstaða fyrir líftækni og tengdan iðnað.

Þá eru vísindarannsóknir stór hluti af menntun heilbrigðisstarfsmanna og þátttaka í rannsóknum getur verið mikilvægur þáttur starfsþróun heilbrigðisstarfsfólks.

Þróttmikið vísindastarf getur jafnframt verið mikilvægur þáttur í því að við getum haldið áfram að laða til okkar efnilega vísindamenn og efnilegt heilbrigðisstarfsfólk.

Vísindarannsóknir á heilbrigðissviði eru þannig einn af grundvallarþáttum fyrir því að heilbrigðiskerfið sé skilvirkt, uppfylli hæstu gæðakröfur og geti staðist samanburð við önnur lönd.

Heilbrigðisvísindarannsóknir á Íslandi hafa verið sterkar undanfarin ár og þar hefur Landspítalinn verið fremstur meðal jafningja með mjög öfluga vísindavinnu sem vakið hefur athygli hérlendis og erlendis. Mikilvægt er að stuðla að því að sú þróun haldi áfram og að góð skilyrði og umhverfi fyrir rannsóknarvinnu séu til staðar.

Góðir gestir

Tækifærin eru mörg og spennandi á sviði vísindarannsókna á heilbrigðissviði á Íslandi. Það munum við eflaust sjá og heyra meira af í dag í kynningum vísindafólksins sem hér flytur sín erindi.

Hér í dag munu ungir vísindamenn kynna vinnu sína og styrkir verða veittir til að þeir hafi tækifæri til að sækja erlendar ráðstefnur og kynna þar niðurstöður vísindaverkefna sinna. Það er mér mikil ánægja að velferðarráðuneytið geti fjármagnað einn slíkan ferðastyrk.

Það er ánægjulegt að sjá hve margt efnilegt fólk ákveður snemma á lífsleiðinni að helga sig heilbrigðisvísindum og gera vinna á þeim vettvangi að ævistarfi.

Það starf sem unnið er á Landspítalanum við að mennta ungt fólk til vísindastarfa er ómetanlegt.

Hér lærir ungt fólk vísindalega hugsun, þau læra að vera gagnrýnin og spyrjandi og það er það sem við þurfum til að byggja upp sterkar undirstöður fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi okkur öllum til heilla.

Ég óska Landspítalnum og hinu mikilvæga vísindastarfi hér allra heilla.

---------------------------
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum