Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. maí 2017 HeilbrigðisráðuneytiðVEL Ræður og greinar Óttarrs Proppé

Ljósmæðradagurinn 2017

Ávarp Óttars Proppé á Ljósmæðradeginum 5. maí 2017

Góðan dag ágætu gestir.

„Tvö fallegustu hugtök veraldar sett í eitt“ var lýsingin á orðinu ljósmóðir, sem kosið var fegursta orð íslenskrar tungu árið 2013. Þetta orð skipar án efa sérstakan sess í hugum landsmanna enda ljósmæður þátttakendur í stærstu stund hvers foreldris og fjölskyldu, þegar nýr einstaklingur kemur í heiminn.

Mér er sagt að mæður, og vonandi feður líka, muni alla tíð nafn þeirrar ljósmóður sem tók á móti barni þeirra. Betri vitnisburð um mikilvægi þjónustu ykkar er vart hægt að finna.

Ég þakka ykkur fyrir að bjóða mér að ávarpa ykkur hér í upphafi þessa Ljósmæðradags. Ég sé á dagskránni að þið ætlið meðal annars að ræða samskipti og stuðning við ykkar skjólstæðinga, hvoru tveggja grundvallaratriði í allri heilbrigðisþjónustu.

------------------------------------

Góðir gestir

Mikil umræða hefur verið um heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustuna á síðustu vikum og mánuðum. Ég fagna þessari miklu umræðu enda heilbrigðisþjónustan grunnstoð í hverju samfélagi og við eigum öll að láta okkur varða skipulag hennar og gæði.

Ég vil nota þetta tækifæri til að segja ykkur í örstuttu máli frá þeirri sýn og þeim áherslum sem ég hef varðandi heilbrigðisþjónustuna og þær fagstéttir sem veita þjónustuna.

Fyrst af öllu vil ég leggja áherslu á að í stærstu dráttum er heilbrigðiskerfið okkar gott og ég þreytist ekki á að lofa það mikla og góða starf sem unnið er á öllum stigum þjónustunnar og um land allt.

Um leið og við eigum að vera gagnrýnin á kerfið og þjónustuna, gagnrýnin í merkingunni „rýna til gagns“, megum við ekki gleyma því sem vel er gert.

Ég tek það skýrt fram að ég hyggst ekki bylta því kerfi sem við höfum, hvorki varðandi skipulag né rekstrarform. Við þurfum engu að síður að horfast í augu við það að ýmsu má breyta til að laga þjónustuna betur að þörfum notenda.

Fulltrúar Ljósmæðrafélags Íslands hafa þegar kynnt mér hugmyndir ykkar um slíkar umbætur á kerfinu, sem ég mun koma að síðar í þessu ávarpi.

Þegar við horfum til þess að gera breytingar á heilbrigðiskerfinu höfum við gjarnan byrjað á því að skipa nefnd eða starfshóp, sem síðan skila af sér skýrslum og greinargerðum til ráðherra.

Fyrir liggja margar slíkar greiningarskýrslur og tillögur nefnda og faglegra skipaðra vinnuhópa um efnið, sem ég tel ástæðu til að nýta, fremur en að skipa enn einn starfshópinn.

Ég hef kallað þetta verkefni Upp úr skúffunum.

Ég stefni að því að setja fram heildstæða stefnu í heilbrigðismálum þar sem allt er undir, jafnt grunnþjónustan í heilsugæslunni, sérfræðiþjónustan, opinbera stofnanaþjónustan, sérhæfða sjúkrahúsþjónustan, endurhæfingarstarfsemin og heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða.

Við viljum heildstæða, skilvirka og örugga þjónustu, sem veitt er á viðeigandi þjónustustigi miðað við þarfir hvers og eins – og við viljum að sjálfsögðu að þeim fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu sé varið skynsamlega og að þeir nýtist sem allra best.

Það er einnig grundvallaratriði að tryggja eins og kostur er jafnt aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, búsetu eða öðrum þáttum.

--------------------

Góðir gestir

Ég er mikill talsmaður teymisvinnu í heilbrigðisþjónustu. Eitt af lykilatriðunum í því að gera okkar góða heilbrigðiskerfi enn betra, er að tryggja að þeir sem leita eftir þjónustu fái hana á réttum stað í kerfinu og hjá þeim fagaðila sem besta þekkingu hefur á viðfangsefninu.

Óvíða, ef nokkurs staðar, eru ljósmæður með meiri menntun en hér á landi.

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðasamtaka ljósmæðra frá 2005, felur þjónusta ljósmæðra í sér „fyrirbyggjandi aðgerðir, stuðning við eðlilegt ferli fæðingar, greiningu á frávikum hjá móður og barni, milligöngu um læknishjálp eða aðra viðeigandi meðferð og veitingu bráðahjálpar“.

Þið veitið „nauðsynlegan stuðning, umönnun og ráðgjöf til kvenna á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu, stundið fæðingarhjálp á eigin ábyrgð og annist nýbura og ungbörn“.

Ykkar þjónusta er ein af grunnstoðunum í hinu íslenska heilbrigðiskerfi og ljósmæður afar mikilvægur hlekkur í teymi heilbrigðisstarfsmanna, hvort sem er í heilsugæslunni, á opinberum stofnunum eða sem sjálfstætt starfandi þjónustuveitendur.

Eins og ég nefndi hér fyrr hafa fulltrúar ykkar þegar komið á minn fund og lýst helstu áherslum ykkar varðandi breytingar á þætti ljósmæðra í teymi heilbrigðisstarfsmanna. Stóra málið á þeim fundi var ítrekun á fyrri erindum um heimild ljósmæðra til að ávísa ákveðnum lyfjum.

Mér er vel kunnugt um að á nágrannalöndunum hefur ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum verið veittur takmarkaður réttur til ávísunar á ákveðnum lyfjum. Embætti landlæknis og ýmsir aðrir hafa ályktað að sams konar takmarkaðar heimilir til ávísunar lyfja ætti að taka upp hér á landi.

Mér er ánægja að segja frá því hér að í tillögu til þingsályktunar um lyfjastefnu til 2022, sem ég hef lagt fram á Alþingi og er nú til umfjöllunar, segir að stefnt skuli að heimild til slíkra takmarkaðra ávísana á lyfjum.

-------------

Góðir gestir

Ég get ekki látið hjá líða að nota þetta tækifæri til að bera lof á ykkur fyrir upplýsingavefinn ykkar ljosmodir.is

Ég veit að þessi upplýsingaveita er mikið notuð og til mikillar fyrirmyndar fyrir aðrar heilbrigðisstéttir. Einn þáttur þeirrar heildstæðu stefnu í heilbrigðismálum sem ég hyggst setja fram, er einmitt aukin upplýsingagjöf til almennings, frá þeim fagaðilum sem best þekkja til mála.

Með upplýsingagjöf og ráðleggingum fagaðila getum við aukið þekkingu og sjálfsábyrgð landsmanna á eigin heilsu.

Að lokum vona ég að þessi Ljósmæðradagur verði fróðlegur en ekki síður skemmtilegur.

Þá vona ég að við getum átt gott samstarf um þá mikilvægu þjónustu sem þið veitið og ykkar mikla sess í teymi heilbrigðisstarfsmanna.

----------------------
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum