Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. október 2017 HeilbrigðisráðuneytiðÓttar Proppé

Fundur Læknafélags Íslands

Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra

Sæl verið þið öll, félagar í Læknafélagi Íslands og takk fyrir að bjóða mér til fundar með ykkur.

Það er lýðum ljóst að kosningar eru eftir nokkra daga og landslagið í pólitíkinni virðist hafa tekið umtalsverðum breytingum frá því að síðast var kosið til Alþingis, fyrir réttu ári.

Þessi staðreynd hefur óhjákvæmilega áhrif á stöðu mína hér í dag,  að ræða það sem ég vildi gera í heilbrigðismálum á komandi misserum – eins og ég hefði auðvitað helst kosið. En það sem ég get rætt, er annars vegar almennt um stöðuna í heilbrigðismálum eins og hún er í dag. Hins vegar get ég rætt um hvaða áherslur ég tel mikilvægastar í ljósi þeirrar innsýnar sem ég hef öðlast í starfi á liðnu ári og hvaða verkefni mér finnst að setja eigi í forgang.

Fyrst af öllu vil ég minna bæði ykkur og sjálfan mig á að þrátt fyrir langvarandi og þunga umræðu um erfiða stöðu heilbrigðiskerfisins, þá eru einnig stór mál og jákvæð sem vert er að muna eftir og meta að verðleikum.

Eitt mesta framfaraskref í íslenskri heilbrigðisþjónustu er bygging Nýs Landspítala sem hefst nú seinni hluta árs 2018 þegar hafist verður handa við byggingu meðferðarkjarna við Hringbraut.

Með nýju sjúkrahúsi rætist sá draumur að sjúklingum og starfsfólki Landspítala verði búnar góðar aðstæður sem skapa enn betri grunn fyrir góða þjónustu og tækifæri fyrir starfsfólk að njóta sín í starfi á áhugaverðum vinnustað og öflugri vísindastofnun.

Átak til að stytta biðlista, sem hófst árið 2016, heldur áfram og ég treysti því að áfram verði haldið að styrkja innviði stofnana með áherslu á skilvirkari þjónustu þar sem sjúklingarnir eru í forgangi.

Ég hef í starfi reynt að ýta markvisst undir aukna samvinnu heilbrigðisstofnana. Stjórnendur og starfsfólk hefur ríkan vilja til aukins samstarfs og það eru fyrir  hendi tækifæri í því skyni, t.d. með því að efla miðlun þekkingar, auka stafsmannaskipti og bæta ferla og gæði þjónustunnar.

Líkt og forveri minn á stóli heilbrigðisráðherra hef ég lagt áherslu á að efla heilsugæsluna, meðal annars með því að halda áfram að fjölga nýjum faghópum heilbrigðisstétta í framlínu þjónustunnar. Vel hefur gengið að bæta geðheilbrigðisþjónustu við börn með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslu um land allt.  Næsti áfangi er að bæta sálfræðiþjónustu við fullorðna og þar verður bætt verulega í á næstu misserum samkvæmt geðheilbrigðisáætlun og fjármálaáætlun.

Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Sterkar vísbendingar eru um að þjónustan hafi styrkst í kjölfar nýs reiknilíkans og í kjölfar síðustu samninga við lækna. Læknisviðtölum og viðtölum við hjúkrunarfræðinga hefur fjölgað á milli ára. Fjölgun sálfræðinga á heilsugæslustöðvum um land allt hefur skilað árangri og almennri ánægju meðal fagfólks og skjólstæðinga. Stefnt er að því að fjölga geðheilsuteymum og frekari teymisvinna innleidd með aukinni áherslu á forvarnir og heildræna þjónustu á fleiri heilsugæslustöðvum.

Til að bæta enn frekar þjónustu heilsugæslunnar liggur fyrir í fjármálaáætlun að fjölga næringarfræðingum og sjúkraþjálfurum til þess að mæta þörfum einstaklinga t.d. vegna lífsstílsvanda eða stoðkerfisvanda. Fyrsti áfanginn hér er þróunarverkefni um þjónustu næringarfræðinga á nokkrum heilsugæslustöðvum.

Enn einn liður til að bæta upplýsingar og aðgengi að þjónusu heilsugæslunnar er ný gagnvirk heimasíða www.heilsuvera.is með upplýsingum um ýmis heilbrigðismál og ráðgjöf um þjónustuna sem í boði er. Síðan er síkvik og í stöðugri þróun og mun bæta verulega upplýsingaflæði til einstaklinga og ráðgjöf um kerfið sem mikið hefur verið kallað eftir undanfarið.

Víða innan heilbrigðisþjónustunnar hér á landi, líkt og í nágrannalöndum, er hröð þróun fjarheilbrigðisþjónustu. Mörg verkefni á þessu sviði eru nú þegar hluti af heilbrigðisþjónustinni og í nýrri fjármálaáætlun eru áform um enn frekari þróun á þessu sviði. Það er mjög ánægjulegt að fylgjast með áhuga fagfólks og merkilegu frumkvæði lækna og hjúkrunarfræðinga t.d. um fjarheilbrigðisþjónustu á Suðurlandi.

Ráðherrann sem hér stendur hefur lagt mikla áherslu á geðheilbrigðismál. Styrking geðheilbrigðisþjónustu við börn á Landspítala og fjölgun sálfræðinga á heilsugæslu eru mikilvægir þættir í að auka aðgengi sjúklinga að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Mikilvægur grunnur að þróun geðheilbrigðisþjónustu næstu árin er ný geðheilbrigðisáætlun. Það er ánægjulegt að vel gengur að fylgja áætluninni og brýnt að halda áfram að hrinda í framkvæmd áföngum áætlunarinnar.

Þjónusta við aldraðra er þungamiðjan heilbrigðisþjónustunnar og mörg brýn verkefni framundan. Samvinna, samráð og sameiginleg ábyrgð allra sem koma að þjónustu við aldraða er lykilatriði til að tryggja öldruðum viðeigandi þjónustu á hverjum tíma.

Nú liggur fyrir ný áætlun heilbrigðisráðherra um byggingu 155 hjúkrunarrýma til ársins 2022 til viðbótar þeim 313 rýmum sem þegar eru á framkvæmdastigi samkvæmt eldri framkvæmdaáætlun. Alls munu því verða byggð eða endurgerð 468 hjúkrunarrými á tímabilinu ýmist til fjölgunar rýma eða til að bæta aðbúnað.

Með innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis fyrir heilbrigðisþjónustu var stigið stórt framfaraskref í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Áður var búið að gera sambærilega kerfisbreytingu til að setja skorður við lyfjakostnaði fólks. Þak á heilbrigðisútgjöld fólks er mikilvægt réttlætismál en mikilvægt er að halda áfram með þróun kerfisins og lækka greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu.

Eitt meginverkefnið nú til að styrkja heilbrigðisþjónustuna er að setja fram heildstæða stefnu í heilbrigðismálum. Á vettvangi velferðarráðuneytisins er unnið að mótun slíkrar stefnu og byggt á vinnu undangenginna ára.

Áfangar vinnunnar eru tveir, annars vegar að móta framtíðarsýn og hins vegar að gera framkvæmdaáætlun. Í vinnunni hefur verið lögð áhersla á forvarnir, lýðheilsu og heilsueflingu á sem flestum sviðum samfélagsins og svo skipulag og framkvæmd heilbrigðisþjónustu.

Við erum öll meðvituð um mikilvægi góðs starfsumhverfis í heilbrigðisþjónustunni og jafnframt fullnægjandi mönnunar til að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar. Í þessu sambandi hef ég lagt áherslu á samvinnu og teymisvinnu á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar og að fyrir liggi mannaflaspá á hverjum tíma.

Í gerð stefnu um heilbrigðismál er miðað við heildræna nálgun miðað við 1) vellíðan þjóðar, 2) mannauð heilbrigðisþjónustunnar og 3) samþætta og skilvirka þjónustu þar sem hlutverk mismunandi þjónustuaðila í heilbrigðisþjónustunni er skýrt.

Í því sambandi hefur meðal annars verið skipaður starfshópur sem samanstendur af forstjórum sjúkrahúsanna, heilbrigðisstofnanna og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hópnum hefur verið falið að greina þá sérgreinalæknaþjónustu sem þegar er veitt á heilbrigðisstofnununum, á hvaða formi þjónustan er veitt og hvernig samstarfi stofnananna er háttað.

Markmiðið er að tryggja aðgengi sjúklinga að sérgreinalæknaþjónustu á viðeigandi þjónustustigi. Verkefnið er jafnframt liður í undirbúningi að nýjum samningum við sérgreinalækna, en núgildandi samningur rennur út í árslok 2018. Flestir hér þekkja þau vandkvæði sem upp hafa komið í tengslum við gildandi samning. Mikilvægt er að vanda til verka við næstu samningsgerð til að lenda ekki aftur í þeirri stöðu sem nú er komin upp.

 

Íslendingar búa við góða heilsu og langlífi. Það bendir til að heilbrigðisþjónustan hér skili góðu verki og flestir sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda eru ánægðir. Áskoranir innan þjónustunnar eru margar en með áframhaldandi góðri samvinnu finnum við leiðir til að leysa þau vandamál.

Markmiðið hlýtur alltaf að vera að veita notendum heilbrigðisþjónustunnar heildstæða, skilvirka og örugga þjónustu á viðeigandi þjónustustigi miðað við þarfir hvers og eins og að fjármunum sem varið er til heilbrigðisþjónustu sé varið skynsamlega og að þeir nýtist sem allra best.

Um þetta hljótum við öll að vera sammála.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum