Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. október 2017 HeilbrigðisráðuneytiðÓttar Proppé

Kynning á niðurstöðum dómnefndar í hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili í Árborg

Ávarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra 

Ágætu íbúar Árborgar, þátttakendur hönnunarsamkeppninar og aðrir góðir gestir

Mér er það sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag, að fagna þessum tímamótum og taka þátt í að ýta úr vör svo mikilvægu verkefni sem undirbúningur og bygging nýs hjúkrunarheimilis er.

Aðdragandi þess að við erum hér á þessum tímamótum hefur einkennst af ríkum vilja margra og miklum metnaði til að búa sem best að því fólki sem þarf á langvarandi hjúkrun og umönnun að halda.

Í byrjun árs 2016 var kynnt framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma. Þar var áætlun um að byggja 50 ný hjúkrunarrými á Árborgarsvæðinu. Myndu þau rými að hluta til leysa af hólmi eldri rými á svæðinu en 15 rýmanna áttu að vera hrein viðbót.  Á haustdögum 2016 var undirritað samkomulag milli ríkisins og Sveitarfélagsins Árborgar um byggingu 50 rýma hjúkrunarheimilis og kostnaðarskiptingu þeirra á milli á verkinu (ríkið 84% og Árborg 16%).  Hjúkrunarheimilið verður reist á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Undanfarna mánuði hafa forsvarsmenn, sveitarfélög og fleiri  hér á Suðurlandi sótt mjög fast að hjúkrunarheimilið yrði stærra en þessi 50 rými sem hafði verið samið um. Ný fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem Alþingi samþykkti skapaði svigrúm til aukinnar uppbyggingar hjúkrunarrýma. Vegna þess fjárhagslega svigrúms sem skapaðist og mat á því hvar þörfin er mest liggur nú fyrir ný áætlun þar sem gert er ráð fyrir að hjúkrunarrýmum í Árborg verði fjölgað um 10 rými til viðbótar þannig að nýja hjúkrunarheimilið geti verið alls 60 hjúkrunarrými í stað 50.

Ágætu gestir

Eins og ég sagði þá hafa margir lagt hér hönd á plóg af miklum metnaði – og við eigum líka að sýna metnað til að búa vel að öldurðum í okkar samfélagi.

Hjúkrunarheimilið sem hér mun rísa byggist á nútímahugmyndafræði um það hvernig slík heimili verði sem best úr garði gerð til að mæta þörfum íbúa og starfsmanna. Miðað við þann metnað sem einkennt hefur undirbúninginn verður mjög gaman að fylgjast með byggingunni rísa og sjá hvaða áhrif hún kemur til með að hafa inn í framtíðina á aðrar slíkar byggingar sem síðar munu rísa.

Að þessu sögðu get ég ekki annað en nefnt það að sú uppbygging sem hér mun eiga sér stað - bæði til að bæta aðbúnað og fjölga hjúkrunarrýmum á svæðinu - er í samræmi við þær áherslur sem ég sem heilbrigðisráðherra hef unnið eftir. Aukinn þungi hefur verið settur á uppbyggingu öldrunarþjónustu með sérstakri áherslu á heimaþjónustu og hjúkrunarheimili, fjölgun dagdvalarrýma og styttri bið eftir þjónustu. Þessi áhersla birtist einnig í fjármálaáætlun til næstu fimm ára – enda mikilvægt að uppbyggingin haldi áfram. 

Gott fólk

Eins og fram hefur komið voru 17 tillögur sem kepptu í þessari hönnunarsamkeppni. Mikill fjöldi fagfólks lagði þar af mörkum til að tillögurnar væru sem bestar og til að mæta þörfum þeirra sem munu búa á nýja hjúkrunarheimilinu og skapa góðan vinnustað fyrir þá sem þar munu starfa. Ég veit að allir bíða spenntir eftir að komast yfir í salinn til að skoða tillögurnar nánar  - ekki hvað síst vinningstillöguna.

Góðir gestir

Ég óska íbúum Áborgar og nágrennis til hamingju með þessi tímamót og hlakka til að fylgjast með nýja hjúkrunarheimili rísa og verða að veruleika sem nýtt og fallegt heimili einstaklinganna sem þar mun búa.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum