Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mikilvæg skref í jafnréttisbaráttu

Svandís Svavarsdóttir - mynd

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Birtist í Morgunblaðinu 24.  janúar 2018

Konur úr öllum starfsstéttum, alls staðar að úr heiminum hafa nýverið rofið þögnina og greint frá kynferðislegri áreitni, kynferðisofbeldi og mismunun sem þær hafa orðið fyrir í starfi. Konur í stjórnmálum hér á landi sendu frá sér áskorun í lok nóvember og í kjölfarið sendu fleiri hópar íslenskra kvenna frá sér áskoranir og lýstu reynslu sinni af kynferðislegri áreitni. Konur í tónlist, flugi, sviðslistum, tæknigreinum, heilbrigðisþjónustu, réttarvörslukerfinu og fleiri starfsstéttum sendu frá sér áskoranir þar sem krafan var sú sama: að kynferðisleg áreitni, mismunun og ofbeldi eigi ekki að líðast, gerendur taki ábyrgð, breyti til betra vegar og að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreiti verði sett í forgang hjá vinnuveitendum og í samfélaginu öllu. Þessar kröfur ber að taka alvarlega. 

Sjálf sendi ég stjórnendum allra stofnana sem heyra undir embætti heilbrigðisráðherra bréf fyrir jól, þar sem ég beindi því til allra forstöðumanna stofnana heilbrigðisráðuneytisins að tryggja að lögum um jafnrétti kynjanna sé fylgt fast eftir, og tryggja að í gildi sé hjá stofnununum jafnréttisáætlun ásamt aðgerðaráætlun þar sem fram kemur hvernig á að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni. 

Viðbrögð við #metoo-byltingunni hafa verið mikil. Fjölmargir vinnustaðir, opinberar stofnanir og félagasamtök hafa tekið áskoranirnar til sín og hafið vinnu við gerð aðgerðaráætlana, vinnureglna um viðbrögð kynferðislegri áreitni og ofbeldi og aðrar aðgerðir til að uppræta áreitni og ofbeldi. En betur má ef duga skal og til þess að byltingin hafi raunveruleg áhrif til góðs verður samfélagið allt að leggjast á eitt í baráttunni. 

Það er óskandi að áhrif #metoo-byltingarinnar verði til þess að það takist að uppræta kynferðislega áreitni, ofbeldi og mismunun í samfélaginu. Þannig getum við skapað samfélag sem er betra fyrir alla. Kynferðisleg áreitni, kynferðisofbeldi og mismunun stríða nefnilega gegn meginreglu jafnréttislaga um jafnan stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og er til þess fallið að veikja stöðu kvenna. Takmarkinu um jafna möguleika allra til að njóta jafnrar stöðu í samfélaginu næst því ekki nema kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni verði upprætt. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum