Hoppa yfir valmynd
05. júlí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Alvöru árangur – styttri bið

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 5. júlí 2018

Nú eru rúm tvö ár frá því farið var af stað í þriggja ára átak til að stytta biðlista eftir völdum skurðaðgerðum. Um að ræða átak heilbrigðisráðuneytisins með það fyrir augum að stytta biðtíma eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum.  Bið eftir fyrrnefndum aðgerðum á Landspítala hafði á þeim tíma sem ráðist var í átakið verið langt umfram viðmiðunarmörk Embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir aðgerð, en þau viðmiðunarmörk eru 90 dagar.

Embætti landlæknis fylgist með biðlistaátakinu og stöðu þess með reglubundnum hætti. Eftir að ráðist var í átakið hefur mikill viðsnúningur orðið í bið eftir skurðaðgerð á augasteini á Landspítala. Af þeim sem biðu eftir aðgerð þar í febrúar 2018 höfðu einungis 9% beðið lengur en 3 mánuði, en hlutfallið var 84% fyrir tveimur árum. Biðtími eftir hjarta- og/eða kransæðamyndatöku er nú vel innan ásættanlegra marka, en af þeim sem voru á biðlista í febrúar 2018 höfðu aðeins  7% beðið lengur en 3 mánuði.

Ef liðskiptaaðgerðir eru skoðaðar sérstaklega, þ.e. aðgerðir á hnjám og mjöðmum, má sjá að árangur átaksins er greinilegur. Mun færri eru á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á Landspítala eftir að ráðist var í biðlistaátakið þann 1. janúar 2016. Á þeim degi voru 937 manns á bið, eftir fyrsta ár átaksins voru 774 manns á biðlista og 1. janúar 2018 voru 660 manns á biðlista eftir aðgerð. 1. júní 2018 voru 617 manns á biðlista. Heildarfækkun á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á Landspítala nemur því 34% frá því að átakið hófst. Í þessu samhengi er mikilvægt að halda því til haga að fjöldi nýrra sjúklinga á umræddum biðlistum hefur aukist um 20% frá upphafi átaksins. Ef fjöldi nýrra sjúklinga hefði haldist óbreyttur frá ársbyrjun 2016 væru nú aðeins um 400 sjúklingar á biðlista eftir liðskiptaaðgerð.

Meðalbiðtími eftir liðskiptum á hné og mjöðm hefur styst verulega. Í upphafi átaks var biðlistinn að meðaltali 10.4 mánuðir en 1. júní síðastliðinn var meðalbiðtími eftir liðskiptum á hné 5.5 mánuðir en 4.4 eftir liðskiptum á mjöðm. Af þessum gögnum má sjá að biðlistaátakið hefur haft ótvíræðan ávinning í för með sér. Jákvætt er einnig að sýkingartíðni eftir aðgerðir hefur ekki aukist, þrátt fyrir aukinn fjölda aðgerða.

Biðlistaátakið er dæmi um samvinnu heilbrigðisstofnana sem hefur tekist vel. Samvinnan hefur leitt af sér styttri biðlista eftir völdum skurðaðgerðum, og þar með bættri heilbrigðisþjónustu, og biðlistaátakinu verður haldið áfram. Á sama tíma er mikilvægt að muna að við leysum þessi mál ekki með átaki. Verkefnið er stórt og viðvarandi og verður aðeins leyst til framtíðar með styrkingu opinbera heilbrigðiskerfisins og innviða þess. Það er stóra verkefnið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum