Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2018 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðir gegn misnotkun lyfja

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra

Misnotkun lyfja sem valdið geta ávana og fíkn hefur verið mikið í umræðunni og fréttir um alvarlegar afleiðingar af notkun ungmenna á ávanabindandi lyfjum hafa upp á síðkastið verið alltof margar. Ljóst er að þessi vandi er margþættur og því miður er enga eina lausn að finna. Heilbrigðisyfirvöld verða þó að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sporna gegn misnotkun umræddra lyfja án þess þó að ganga gegn hagsmunum þeirra sjúklinga sem þurfa að hafa aðgang að þeim.

Eitt af mínum fyrstu verkum sem heilbrigðisráðherra var að stofna starfshóp sem falið var að gera tillögur um aðgerðir til að stemma stigu við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja. Hópurinnn skilaði tillögum sínum til mín í maí. Tillögur hópsins miðast fyrst og fremst að því að takmarka magn ávanabindandi lyfja í umferð hér á landi, styðja við góðar ávísanavenjur lækna og efla eftirlit. Starfshópurinn ítrekaði einnig mikilvægi þess að almenningur sé upplýstur um þá hættu sem stafar af rangri notkun umræddra lyfja.

Margar af tillögum starfshópsins eru nú þegar komnar til framkvæmda og aðrar eru í vinnslu. Af þeim tillögum sem komnar eru til framkvæmda má nefna tillögu sem snýr að því að takmarka aðgang að ávanabindandi lyfjum. Ný reglugerð um lyfjaávísanir, nr. 1266/2017, tók gildi 1. júlí sl. en í henni felast ýmis nýmæli sem miða að því að veita læknum meira aðhald í lyfjaávísunum en áður og stuðla að öruggari lyfjanotkun.

Reglugerðin hefur meðal annars þær breytingar í för með sér að frá 1. september má aðeins ávísa ýmsum ávana- og fíknilyfjum til 30 daga notkunar í senn, ekki er hægt að fá afgreidd lyf úr ákveðnum lyfjaflokkum nema fyrir liggi lyfjaskírteini fyrir viðkomandi sjúkling, auknar kröfur um að einstaklingar sem fá lyfjum framvísað sýni skilríki í apótekum auk þess sem ekki verður heimilt að innleysa lyfjaávísanir vegna ávana- og fíkniefna sem gefnar eru út á EES-svæðinu.

Af aðgerðum sem nú er unnið að má nefna aðgerðaáætlun við stefnu í áfengis- og vímuvörnum, sem Embætti landlæknis vinnur að í samvinnu við velferðarráðuneytið og nýja reglugerð sem mun innihalda hertar reglur um innflutning einstaklinga á lyfjum, einkum ávana- og fíknilyfjum, en tekið verður mið af samsvarandi reglum sem gilda í Noregi. Opnun neyslurýma fyrir langt leidda vímuefnaneytendur er einnig í undirbúningi í velferðarráðuneytinu. Aukin fræðsla um ávana- og fíkniefni og alvarlegar afleiðingar neyslu slíkra lyfja er einnig aðkallandi.

Það er ljóst að við þurfum beita öllum tiltækum ráðum til að stemma stigu við misnotkun ávana- og fíknilyfja. Það er von mín að aðgerðir stjórnvalda sem þegar hefur verið gripið til, og þær aðgerðir sem eru farvatninu, séu til þess fallnar að leysa þennan vanda.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2018


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira