Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2018 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Öflugur fyrsti viðkomustaður

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Heilsugæslan ætti að vera fyrsti viðkomustaður allra í heilbrigðiskerfinu. Til þess að heilsugæslan geti staðið undir því hlutverki þarf að efla hana og styrkja, en sú styrking er eitt meginmarkmiða ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í heilbrigðismálum.

Nú þegar hafa verið stigin mikilvæg skref í þá átt að efla heilsugæsluna, á því tæpa ári sem liðið er síðan ríkisstjórnin tók við. Í maí síðastliðnum kynnti ég ákvörðun mína um stofnun Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar á landsvísu. Þróunarmiðstöðin mun leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu og markmiðið með stofnun hennar er meðal annars að jafna aðgengi landsmanna að þessari mikilvægu grunnþjónustu hvar sem fólk býr, efla gæði þjónustunnar og stuðla að nýjungum. Einnig að annast innleiðingu gæðavísa, leiða samstarf á sviði rannsókna og stuðla að því að sérhæfð þekking fagfólks heilsugæslunnar um allt land nýtist sem best.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2019 verður heilsugæslan styrkt umtalsvert,  til þess að efla hana sem fyrsta viðkomustað sjúklinga, efla teymisvinnu innan hennar og auka forvarnir og fræðslu til sjúklinga. Geðheilbrigðisþjónusta á landsvísu innan heilsugæslunnar verður einnig  efld til muna með 650 milljóna króna framlagi samkvæmt fjárlögum ársins 2019, til að fjölga geðheilsuteymum og fjölga stöðugildum sálfræðinga í samræmi við geðheilbrigðisáætlun alþingis.

Í byrjun október tók ég þá ákvörðun að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um fimm. Þörf fyrir að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum er tvíþætt. Annars vegar er fjölgun sérfræðinga í heimilislækningum mikilvæg til að fylgja eftir áherslum stjórnvalda um eflingu heilsugæslunnar og aukið hlutverk hennar innan heilbrigðiskerfisins. Hins vegar er meðalaldur starfandi sérfræðinga í heimilislækningum fremur hár og stór hópur þeirra mun fara á eftirlaun á næstu árum.Fjölgun sérnámsstaða í heimilislækningum er því mikilvægt skref.

Eins og með aðra þætti heilbrigðiskerfisins er það svo að breytingar innan heilsugæslunnar hafa áhrif á heilbrigðiskerfið allt. Efling og styrking þjónustu heilsugæslunnar hefur jákvæð áhrif á bráðamóttökur spítalanna, sem glíma alltof oft mið of mikið álag, léttir á geðdeildum spítalanna og álagi á sjúkrahúsum landsins almennt. Með eflingu heilsugæslunnar næst það mikilvæga markmið að einstaklingar fái notið þjónustu á réttu þjónustustigi innan heilbrigðiskerfisins. Þannig er tryggt að öryggi og gæði þjónustunnar samrýmist bestu fagþekkingu, og þannig viljum við hafa það.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember 2018

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira