Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Jákvæð þróun í lyfjaávísunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Á síðasta ári dró verulega úr ávísunum lækna á lyf sem valdið geta ávana og fíkn en tölur landlæknisembættisins sýna að ávísunum á ópíóíða-lyf sem eru sterk verkja og róandi lyf og methýlfenidats sem er örvandi lyf fækkaði umtalsvert. Verkefnisstjóri hjá embætti landlæknis segir mega rekja þennan samdrátt í ávísunum til vitundarvakningar meðal lækna og breyttra áherslna í verkjameðferð.

Misnotkun lyfja sem valdið geta ávana og fíkn hefur farið hratt vaxandi undanfarin ár og haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Eitt af mínum fyrstu verkum sem heilbrigðisráðherra var að stofna starfshóp sem falið var að gera tillögur um aðgerðir til að stemma stigu við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja.  Hópurinn skilaði mér tillögum í maí sl. sem miðuðu meðal annars að því að takmarka magn ávanabindandi lyfja í umferð hér á landi, styðja við góðar ávísanavenjur lækna og efla eftirlit. Margar af tillögum starfshópsins eru þegar komnar til framkvæmda. Ný reglugerð um lyfjaávísanir, nr. 1266/2017, tók gildi 1. júlí sl. en í henni felast ýmis nýmæli sem miða að því að veita læknum meira aðhald en áður í lyfjaávísunum og stuðla að öruggari lyfjanotkun. Má þar nefna að með tilkomu hennar er ekki heimilt að ávísa ýmsum lyfjum, sem valdið geta ávana og fíkn, lengur en til 30 daga notkunar í senn. Þá þarf að liggja fyrir lyfjaskírteini sjúklings til að fá afgreidd lyf úr ákveðnum lyfjaflokkum og auknar kröfur eru um að einstaklingar sýni skilríki í apótekum til að fá slík lyf afgreidd.

Mikilvægt er sömuleiðis að huga að öryggi þeirra einstaklinga sem þegar eru í neyslu með skaðaminnkun að leiðarljósi. Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú til umsagnar áform mín um að koma á fót öruggu neyslurými fyrir einstaklinga sem neyta vímuefna með sprautubúnaði og er umsagnarfrestur til 27 janúar.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr ávísunum lyfja sem valdið geta ávana og fíkn er notkun slíkra lyfja meiri hér en annars staðar á Norðurlöndunum og ljóst að leita þarf allra leiða til að stemma stigu við misnotkun þeirra. Það er von mín að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til stuðli að lausn vandans og eru tölur landlæknisembættisins um samdrátt í ávísunum umræddra lyfja vísbending um að við séum á réttri leið.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 14. janúar 2019.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum