Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Traust heilsugæsla

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Nýlega kom út samantekt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem fjallað er um þjónustu heilsugæslunnar, þróun hennar og árangur á árunum 2014-2019. Í samantektinni kemur meðal annars fram að aðgengi að þjónustu heilsugæslunnar hefur verið bætt til muna með nýjungum og breyttu skipulagi, sálfræðingar og sjúkraþjálfarar starfa nú á öllum heilsugæslustöðvum og skipulögð heilsuvernd fyrir aldraða er í sókn.

Þessi þjónustuaukning er í takt við áherslu mína á eflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu. Í þeim efnum er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ekki bara mikilvæg fyrir höfuðborgarsvæðið heldur á landsvísu. Framlög til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa aukist um 24% á árabilinu 2017 – 2020 í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um eflingu hennar.

Í samantekt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að allar heilsugæslustöðvarnar bjóða nú upp á opna móttöku þar sem hjúkrunarfræðingar taka á móti fólki samdægurs og/eða svara erindum í síma  og koma þeim í farveg. Læknir er tiltækur ef á þarf að halda í tengslum við þessa þjónustu. Auk þessa hefur tímaúrval hjá læknum verið aukið þar sem boðið er upp á styttri viðtalstíma samdægurs. Samskipti fólks við heilsugæsluna í gegnum mínar síður á vefnum www.heilsuvera.is aukast jafnt og þétt. Árið 2017 áttu sér stað rúm 24.000 samskipti í gegnum heilsuveru, þau voru rúmlega 65.000 árið 2018 og nærri 120.000 árið 2019.

Geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa öll tekið til starfa, þ.e. geðheilsuteymi HH austur sem þjónar íbúum Breiðholts, Árbæjar, Grafarvogs, Norðlingaholts, Grafarholts og Kjalarness, geðheilsuteymi HH vestur sem er fyrir íbúa miðborgarinnar og vesturhluta borgarinnar og nú síðast geðheilsuteymi HH suður sem þjónar Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði og tók til starfa í byrjun þessa árs. Starfsemi geðheilsuteymanna eykst jafnt og þétt. Árið 2018 voru samskipti við notendur geðheilsuteymanna tæplega 7.300 en rúmlega 12.700 árið 2019. Þjónusta teymanna kemur til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvunum og er fyrir þá sem þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu.

Nýlega létu Sjúkratryggingar Íslands vinna könnun um þjónustu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt niðurstöðum hennar bera notendur heilsugæsluþjónustu hjá heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu almennt mikið traust til heilsugæslunnar (74%), eru ánægðir með þjónustuna (79%) og telja viðmót og framkomu starfsfólks gott (90%).

Heilsugæslan veitir notendum heilbrigðiskerfisins mikilvæga og góða þjónustu, sem er veitt af fjölbreyttum og öflugum hópi fagfólks. Við þurfum að halda áfram að efla heilsugæsluna og styrkja - og það munum við gera.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 18. febrúar 2019

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira