Hoppa yfir valmynd
02. maí 2022 Innviðaráðuneytið

Straumhvörf með breytingum á regluverki um steypu

Ávarp á morgunfundi innviðráðuneytisins og HMS um straumhvörf með nýju regluverki um steypu mánudaginn 2. maí 2022

Fyrir tæpum tveimur árum kom út merkilegt fræðirit eftir arkitektinn Hjörleif Stefánsson um þá byltingu í húsagerð sem varð þegar Íslendingar yfirgáfu torfbæinn og tóku að byggja úr steinsteypu. Bókin ber hið skemmtilega heiti: Hvílíkt torf – tóm steypa! og gefur góð fyrirheit um þann fund sem hér er að hefjast. Auk þess að góða veita innsýn í lokaskeið torfhúsahefðar á Íslandi er fjallað um mótunarsögu steinsteypuhús á 20. öld, sem oft hefur verið kölluð steinsteypuöldin. 

Saga steinsteypuhúsa verður ekki rakin frekar hér. Straumhvörf urðu í samfélaginu með steypunni og hægt var að byggja hratt og vel betri húsakynni fyrir íbúa landsins. Alla tíð síðan höfum við kappkostað að stuðla að framförum í byggingargerð, rannsaka steypu og sementsíblöndur og veita fjármunum í rannsóknir í þágu byggingariðnaðar. Allt gert til að bæta endingu og gæði byggingarefna.

Ég hef sagt það áður – meðal annars nýlega við úthlutun úr Aski, nýjum mannvirkjarannsóknasjóði í mars – að eitt mikilvægasta verkefni okkar um þessar mundir væri baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Og þar sagði ég einnig að við verðum að leita allra leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og byggingarefna og samtímis að draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna. Við vitum að kolefnisspor í byggingariðnaði er hátt og það var staðfest rækilega í nýlegri rannsókn á vegum HMS fyrr á árinu. Þar kom meðal annars fram að byggingarefnin sjálf beri ábyrgð á 45% af kolefnisspori íslenskra bygginga. 

Og þar komum við að tilefni þessa fundar. Í dag ætlum við að kynna nýjar og vandaðar tillögur að breytingum á regluverki um steypu í byggingarreglugerð. Með nýju regluverki um steypu verða sannkölluð straumhvörf en með þeim er opnað fyrir grænar vistvænar lausnir og margvíslega möguleika til að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig munu breytingarnar koma til móts við hækkandi heimsmarkaðsverð á sementi og stuðla að lægra byggingarverði, öllum til hagsbóta.

Helstu breytingar í tillögunum felast í sveigjanlegri og markmiðsbundnum ákvæðum sem munu opna fyrir grænar lausnir án þess að slakað verði á kröfum um öryggi og gæði. Framvegis verður hægt að nota fjölbreyttari samsetningar í steypuíblöndun, nýta mismunandi blöndur fyrir ólíkar aðstæður og endurvinna steinefni. Markmiðið er að lágmarka umhverfisáhrif steypunnar og tryggja endingu með tilheyrandi ávinningi. Síðar á fundinum verður farið nánar yfir þessar góðu tillögur.

Tillögurnar voru birtar fyrr í morgun í samráðsgátt stjórnvalda – sem drög að reglugerð um breytingu á byggingarreglugerð, nr. 112/2012. Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur breytingarnar og senda inn ábendingar.

Sérstakur faghópur hefur, í samstarfi við HMS og í víðtæku samráði við fagaðila, unnið tillögurnar að breytingum á steypukafla byggingarreglugerðar. Ég vil færa öllum þeim sem komu að þessari vinnu mínar bestu þakkir fyrir vandaða og góða vinnu.

Góðir gestir! 

Við fyrstu sýn kunna reglugerðarbreytingar að hljóma veigalitlar – en það er öðru nær í þessu tilviki. Fáar reglugerðarbreytingar sem ég hef staðið að á mínum ferli munu reynast jafn áhrifaríkar til að koma af stað nauðsynlegum breytingum í þágu loftslags og samfélags. Með þeim eigum við þess kost á að draga verulega losun gróðurhúsalofttegunda og byggja á grænni framtíð í húsnæðismálum.

Hér á máltækið góða vel við: Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum