Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2020 Heilbrigðisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Breyttar reglur um sóttkví og upptaka landamæraeftirlits á innri landamærum

Breyttar reglur um sóttkví og upptaka landamæraeftirlits á innri landamærum - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis breytt gildandi reglum um sóttkví. Með nýjum reglum verður öllum sem koma til landsins skylt að fara í sóttkví í 14 daga frá komu. Samhliða verður tekið upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum. Reglurnar koma til framkvæmda föstudaginn 24. apríl og falla að óbreyttu úr gildi 15. maí.

Krafa um sóttkví á við um komu fólks frá löndum sem sóttvarnalæknir skilgreinir sem há-áhættusvæði en sem stendur á það við um öll lönd. Reglulega verður endurmetið hvort einhver lönd falli ekki lengur undir þessa skilgreiningu.

Eins og fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis hefur að mestu tekist að ráða niðurlögum COVID-19 faraldursins hér á landi þannig að einungis nokkur tilfelli greinast daglega. Eitt mikilvægasta atriðið til að viðhalda stöðunni og koma í veg fyrir víðtækan faraldur hér á landi er að tryggja að smit berist ekki hingað frá öðrum löndum. Verkefnahópur undir stjórn ríkislögreglustjóra sem stofnaður var að beiðni sóttvarnalæknis hefur skilað tillögum sínum. Niðurstaða hópsins er sú að skynsamlegast sé að útvíkka reglur um sóttkví þannig að þær taki til allra sem koma til landsins en hingað til hefur það ekki gilt um ferðamenn.

Til að framfylgja breyttum reglum um sóttkví þarf að taka upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins í samræmi við útlendingalög og reglugerð um för yfir landamæri. Gerð verður krafa til þeirra sem flytja farþega til landsins að þeir útfylli svokallað e. Public Health Passenger Locator eða sambærilegt form og munu farþegar þurfa að framvísa því við landamæraeftirlit. Með því er gert að skilyrði við komu fólks til landsins að fyrir liggi allar nauðsynlegar upplýsingar um hvar viðkomandi muni dvelja í sóttkví og hvernig henni verður háttað.

Á fundi ríkisstjórnar í gær var samþykkt að starfshópur nokkurra ráðuneyta sem leiddur verður af forsætisráðuneytinu muni fjalla um möguleg næstu skref varðandi ferðalög milli landa. Ákvarðanir um hvert framhaldið verður munu ráðast af þróun faraldursins hérlendis og erlendis og taka mið af stefnu annarra ríkja í þessum efnum.

Fylgiskjöl:

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum