Hoppa yfir valmynd
16. mars 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þórdís Kolbrún opnar vefinn: Jafnvægisás.is

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra opnaði í dag Jafnvægisás ferðamála á vefsíðunni www.jafnvægisás.is.

Jafnvægisásinn er samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Stjórnstöðvar ferðamála og verkfræðistofunnar EFLU sem unnið var á árunum 2017-2019 og er ætlað að meta þolmörk gagnvart sjálfbærum fjölda ferðamanna.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„Með birtingu Jafnvægisássins verða fjölbreyttar upplýsingar og mælikvarðar aðgengilegar öllum. Með því að nýta niðurstöður verkfærisins getum við brugðist hraðar við og stuðlað að sjálfbærri ferðaþjónustu til framtíðar. Við erum öll meðvituð um áhrif  heimsfaraldursins á ferðaþjónustuna sem skekkir vissulega marga mælikvarða en samtímis er Jafnvægisásinn þróunarverkefni sem er enn í mótun.“

Jafnvægisás ferðamála er þannig mælitæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins og leggja mat á hvort grípa þurfi til aðgerða. Áhersluflokkar Jafnvægisássins eru þjóðhagslegar stærðir, innviðir, stoðþjónusta og samfélag. 

„Í þessum breytta veruleika þurfum við að horfa yfir allt sviðið. Jafnvægisásinn er vissulega þróunarverkefni og ég hef ákveðið að kalla saman hóp sérfræðinga sem mun fara yfir mælikvarðana, skoða hvort breyta þurfi sviðsmyndunum sem við vorum að vinna með og koma með tillögur um áframhaldandi þróun á mælikvörðum Jafnvægisássins,“ segir Þórdís Kolbrún.

Á vefnum www.jafnvægisás.is má finna fyrstu útgáfu hans. Hann er uppfærður eins nálægt rauntíma og hægt er og sýna ný gögn stöðu mælikvarðanna hverju sinni. Flestir gagnabrunnar eru með ársgögnum en nokkrir sýna mánaðartölur og frekara niðurbrot niður á landshluta eða svæði.

Notendur eru hvattir til að prófa sig áfram og kalla fram mismunandi upplýsingar sem gefa góða mynd af þróun mála innan áðurnefndra áhersluflokka í íslenskri ferðaþjónustu yfir mismunandi löng tímabil.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum