Hoppa yfir valmynd

Jafnvægisás ferðamála

Jafnvægisás ferðamála er mælitæki til að meta reglulega áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins. Verkefnið byggir á álagsmati á fjölda ferðamanna á Íslandi en til þess að meta stöðuna voru þróaðir sjálfbærnivísar út frá þolmörkum umhverfis, samfélags og efnahags. Ástandið er metið ýmist í heild sinni fyrir landið en í öðrum tilfellum á einstökum stöðum eða landsvæðum. 

Í mælaborðinu á þessari síðu eru vísarnir settir fram með myndrænum hætti. Hér má sjá stöðu þeirra innan þolmarka umhverfis, samfélags og efnahags. Í sumum tilfellum er um að ræða reglubundnar mælingar en tíðni mælinga er misjöfn allt frá mánaðarlegum gögnum í það að vera uppfærð annað hvort ár.

Hafa ber í huga að mælikvarða fyrir árin 2020-2021 þarf að skoða í ljósi áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins og óhjákvæmilegra breytinga á ferðavenjum fólks á því tímabili. 

Sjálfbær ferðaþjónusta og forgangsröðun

Árið 2017 ákvað ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að ráðast í umfangsmikið verkefni með það að markmiði að leggja mat á álag á innviði, efnahag, umhverfi og samfélag með tilliti til fjölda ferðamanna á Íslandi. 

Verkefninu var stýrt af Stjórnstöð ferðamála og unnið af EFLU verkfræðistofu ásamt ráðgjöfum frá Tourism Recreation & Conservation (TRC) frá Nýja Sjálandi og Recreation and Tourism Science (RTS) frá Bandaríkjunum.

Niðurstöðum verkefnisins var ætlað að vera grunnur að stefnumótun um sjálfbæra ferðaþjónustu hérlendis og forgangsröðun aðgerða til að auka samhæfingu ferðamála við aðra þætti eins og náttúruvernd, samgöngumál, löggæslu, heilsugæslu, álagsstýringu og uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi.

Við vinnuna var haft samráð við fjölmarga sérfræðinga á vegum ráðuneyta, stofnana, samtaka og fyrirtækja á Íslandi og lögð áhersla á að nýta fyrirliggjandi gögn og meta ástand vísa fyrir allt landið í heild en ekki einstaka staði eða svæði.

Niðurstöður verkefnisins gáfu góða stöðumynd af þolmörkum og áhrifum ferðaþjónustu á innviði, efnahag, náttúru og samfélag.  Þær sköpuðu forsendur og grunn að stefnumótun um sjálfbæra ferðaþjónustu og forgangsröðun aðgerða til að auka samhæfingu ferðamála.


Framsetning mælikvarða

Framsetning mælikvarða Jafnvægisáss ferðamála er í forritinu Power-BI sem auðveldar myndræna framsetningu og nánari rýni á gögnin sem eru á bak við mælikvarðana.

Gögnin sem Jafnvægisásinn byggir á eru misjöfn eftir flokkum og vísum. Matið á þolmörkunum eru byggð á tæknilegum stöðlum, önnur á mörkum í lögum og reglugerðum, alþjóðlegum viðmiðum eða dæmum og sérfræðiáliti. Út frá þessu var settur fram umferðaljósa kvarði, þar sem grænt er undir þolmörkum, gult er að nálgast þolmörk og rautt er yfir þolmörkum.

Í sumum tilfellum er um að ræða reglubundnar mælingar en tíðni mælinga er misjöfn allt frá mánaðarlegum gögnum í það að vera uppfærð annað hvort ár.

Mælikvarðana er í einhverjum tilfellum hægt að skoða út frá einstaka landsvæðum og sveitarfélögum.

Jafnvægisás ferðamála er þróunarverkefni. Vinna við hann mun halda áfram til framtíðar. Vinsamlegast komið ábendingum um efnistök áfram á netfangið [email protected]

Hvernig virkar Jafnvægisásinn?

Mælikvarðarnir eru settir fram í forritinu Power BI sem gefur möguleika á að skoða og bera saman gögn á gagnvirkan hátt. Á hverri blaðsíðu er heiti mælikvarðans og á upplýsingahnappnum ( i ) eru upplýsingar um viðkomandi mælikvarða (sjá hér til hliðar).

Þar er meðal annars að finna upplýsingar um uppruna gagna, eining vísa, ákvörðun þolmarka og rök fyrir þeim auk viðbótarupplýsinga. Áhersluflokkurinn um þjóðhagslegar stærðir er sá eini sem er aðgengilegur á ensku í dag, en aðrir áhersluflokkar munu fylgja á eftir.

Notendur eru hvattir til að prófa sig áfram og vera óhræddir við að fara yfir myndir með bendlinum til að kalla fram mismunandi upplýsingar sem gefa góða mynd af þróun mála innan áðurnefndra áhersluflokka í íslenskri ferðaþjónustu yfir mismunandi löng tímabil.

Fyrir hverja er Jafnvægisásinn?

Jafnvægisásinn er öllum aðgengilegur. Hann er sérstaklega gagnlegur fyrir stjórnvöld, sveitarstjórnarstigið, ferðaþjónustuaðila, rekstraraðila, markaðsstofur, áfangastaðastofur, háskólasamfélagið, greiningaraðila og aðra hagaðila íslenskrar ferðaþjónustu, sem og alla sem hafa áhuga á þróun og stöðu ferðaþjónustunnar. 

Jafnvægisásinn byggir á samstarfsverkefni atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins, Stjórnstöðvar ferðamála og verkfræðistofunnar EFLU sem unnið var á árunum 2017-2019. Hann er nú í vörslu menningar- og viðskiptaráðuneytis. 

Áhersluflokkar Jafnvægisásins eru þjóðhagslegar stærðir, innviðir, stoðþjónusta og samfélag.  Nánari upplýsingar um áhersluflokkana má lesa á www.jafnvaegisas.is.

 

 

Þjóðhagslegar stærðir

Vísir A.1.1, Hlutdeild ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu,sýnir að frá árinu 2016 hefur heildarverðmætasköpun ferðaþjónustunnar verið svipuð eða um 8% á tímabilinu frá árinu 2016 til ársins 2019. Bráðabirgðatölur fyrir árið 2020 sýna að hlutdeild ferðaþjónustu er um 3,5% af vergri landsframleiðslu.

Vísir A.1.3, Framleiðni vinnuafls í ferðaþjónustu (og undirgreinum) – vinnsluvirði /klst., sýnir hlutfall vinnsluvirðis ferðaþjónustu og fjölda unninna klukkustunda. Þróun vísisins síðastliðin ár sýnir að framleiðni vinnuafls í ferðaþjónustu jókst á tímabilinu 2017 - 2019.

Vísir A.2.2, Laun í ferðaþjónustu á klukkustund, sýnir meðallaun í ferðaþjónustu fyrir hverja klukkustund. Gögn fyrir árið 2018 sýna hækkun meðallauna frá árinu 2017 sem sýnir að meðallaun í ferðaþjónustu hafa nálgast meðallaun í öðrum atvinnugreinum.

Vísir A.3.1, Afkoma einkennandi greina í ferðaþjónustu, mælir afkomu ferðaþjónustu og veitir samanburð við aðrar atvinnugreinar. Árið 2018 var EBITA/rekstrartekjur í ferðaþjónustu 6,6% á meðan aðrar atvinnugreinar mældust með EBITA 12,3%. Þetta er töluverð lækkun frá árinu 2017 þegar EBITA/rekstrartekjur mældist 10,4% í ferðaþjónustu en aðrar atvinnugreinar með tæp 14%.

Vísir A.1.2, Framlag ferðaþjónustu til hagvaxtar, sýnir hversu mikið af breytingum í hagvexti kemur til vegna ferðaþjónustu. Framlag ferðaþjónustunnar fyrir árin 2017 og 2018 var um 7,8% en lækkkaði í 6,6% á árinu 2019. Mælikvarðinn sýnir stöðuna miðað við árið 2019.

Vísir A.2.1, Hlutdeild ferðaþjónustu í útflutningstekjum. Hlutdeild ferðaþjónustu í útflutningstekjum hefur verið mjög há undanfarin ár, en frá árinu 2017 hefur hún farið minnkandi. Árið 2019 var hlutdeild ferðaþjónustunnar í útflutningstekjum 35% og var farin að nálgast þolmörk. Gögn fyrir árið 2020 ná yfir fyrstu níu mánuði ársins og sýna því ekki heildarniðurstöður fyrir árið 2020.


Hafnir

Hafnir

Hafnir eru flokkaðar í eftirfarandi flokka eftir fjölda skipakomudaga:

  • Flokkur 1: Hafnir með fleiri en 75 skipakomudaga árlega
  • Flokkur 2: Hafnir með 25 til 75 skipakomudaga árlega
  • Flokkur 3: Hafnir með minna en 25 skipakomudaga árlega


Vísir B.3.1, Viðlegulengd,  sýnir lengd bryggjukants sem er skilgreind til notkunar fyrir skemmtiferðaskip í viðkomandi höfn. Viðmið vísisins í viðlegulengd í öllum þremur flokkum hafna frá árinu 2017 til ársins 2019 er svipuð, þ.e. á gulu en minni hafnir eru á rauðu.

Vísir B.3.2, Skipakomudagar, sýnir fjölda komudaga. Vísirinn sýnir eingöngu fjölda skipa en ekki hversu lengi þau stoppa í hverri höfn. 

Hafnir í flokki 1 eru á Akureyri, Reykjavík, Ísafirði og Seyðisfirði. Frá árinu 2017 til ársins 2019 færast flestar hafnirnar frá gulu yfir á rauðan lit.

Hafnir í flokki 2 eru flestar á grænu eða gulu yfir tímabilið frá 2017 til 2019 nema Vestmannaeyjahöfn sem er á rauðu fyrir árin 2018 og 2019.

Hafnir í flokki 3 eru flestar á grænu eða gulu yfir tímabilið 2017-2019 nema hafnirnar á Patreksfirði og Stykkishólmi sem eru rauðar.

Gögnin eru einnig aðgengileg eftir landshlutum.   

Vísir B.3.4, Öryggi, sýnir hvort viðkomandi höfn uppfyllir hafnarreglugerðir varðandi  slysavarnir og öryggisbúnað í höfnum.  

Hafnir í  flokki 1 er flestar á grænu og uppfylla reglugerðina fyllilega fyrir árin 2017-2019.

Hafnir í  flokki 2 eru á gulu og uppfylla reglugerðina að hluta fyrir árin 2017 – 2019.

 Hafnir í  flokki 3 eru flestar á gulu og uppfylla reglugerðina að hluta fyrir árin 2017 – 2019.  

Vísir B.3.3, Fjöldi farþega,  sýnir fjölda farþega sem koma með skemmtiferðaskipum til hafna árlega. Hafnir í  flokki 1 er á gulu fyrir árin 2017 og 2018 en árið 2019 færast hafnirnar í Reykjavík og Akureyri yfir á rauðan.

Hafnir í flokki 2 eru að mestu á grænu og gulu fyrir árin 2017 og 2018, hafnirnar í Vestmannaeyjum og Grundarfirði færast yfir á rauðan lit árið 2019.

Hafnir í flokki 3 eru að mestu á grænu og gulu fyrir árin 2017 og 2018. Hafnirnar í Grímsey, Eskifirði og Hafnarfirði færast yfir á rauðan lit árið 2019.

Árið 2020 eru allir vísar á grænu í öllum flokkum fyrir fjölda farþega vegna stöðvunar skipakoma til landsins í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Vísir B.3.5, Umhverfisáhrif,  sýnir umfang aðgerða hafna á sviði umhverfismála s.s. hvatakerfi fyrir umhverfisvænni rekstur skemmtiferðaskipa. Í öllum flokkum hafna eru hafnirnar í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akranesi á grænum lit þar sem þær rekahvatakerfi fyrir umhverfisvænan rekstur á meðan hinar eru á gulum lit. 

Flugvellir

Vísir B.2.1, Flughreyfingar,  sýnir fjölda flughreyfinga á ársgrundvelli með jafnri dreifingu komu og brottfara allt árið og metur hvort flugvellir landsins geti annað fleiri flughreyfingum.  Viðmið vísisins er á ársgrundvelli sem er misjafn eftir háannatíma annars vegar og flughreyfinga á hámarksklukkustund hins vegar. 

Miðað við fjölda flughreyfinga á ársgrundvelli á Keflavíkurflugvelli er vísirinn á grænu og því innan þolmarka fyrir árin 2017-2020. Það sama á við flugvellina í Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum. 

Vísir B.2.2, Farþegafjöldi á ársgrundvelli, sýnir hámarksfjölda farþega sem hægt er að taka á móti á ársgrundvelli með jafnri dreifingu komu og brottfara allt árið allan opnunartíma flugvallanna og metur hvort flugvellir landsins geti tekið á móti fleiri farþegum.

Farþegafjöldi á ársgrundvelli fyrir Keflavíkurflugvöll árin 2017-2020 er undir þolmörkum nema árið 2018 þegar farþegafjöldi var farinn að nálgast þolmörk.

Gögn eru aðgengileg fyrir; Keflavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll.

Slysatíðni - Vegir 

Vísir B.1.4, Vegir – þjónusta. Vísinum er skipt í vetrar- og sumarþjónustu. Þjónustuflokkar eru skilgreindir eftir umferðarþunga veganna. Besti þjónustuflokkur fær einkunnina 1 og  versti þjónustuflokkur fær einkunnina 5.

Fyrir vetrarþjónustu er vegið meðaltal fyrir þjónustuflokka mismunandi eftir árdagsumferð (ÁDU) og sýnir vísirinn að vetrarþjónustan er á grænum lit og því undir þolmörkum fyrir ÁDU flokka þar sem umferð er minni, en í mestu umferðarflokkunum tveimur er hún að færast yfir á gulan lit. Fylgjast þarf með þróun þessa mælikvarða.

Fyrir sumarþjónustu er vegið meðaltal fyrir þjónustuflokka á grænum lit á umferðarminni vegum en á umferðarþyngri vegum er þjónustan að færast í áttina að því að fara yfir þolmörk, þ.e.  inn á rauðan lit. Huga þarf að þjónustustigi á umferðarþyngstu vegum.

Vísir C.2.3, Löggæsla – fjöldi erlendra aðila sem lenda í umferðarslysum, sýnir þann fjölda umferðarslysa sem lögregla sinnir. Fjöldi þeirra erlendu aðila sem lenda í umferðarslysum hefur minnkað síðastliðin fjögur ár. Árið 2020 voru 173 ferðamenn sem lentu í slysum, 2019 voru 318 ferðamenn, 320 ferðamenn árið 2018 og 375 árið 2017. Einnig má sjá þjóðerni ferðamanna og sýna gögnin að flestir ferðamenn sem lenda í umferðarslysum árið 2020 koma frá Póllandi, en árið 2019 voru flestir ferðamenn frá Kína. Gögn sýna að fjöldi slysa fer minnkandi og færist mælikvarðinn í átt að grænum lit sem er undir þolmörkum. Einnig sýna gögnin hvar slysin eiga sér stað og geta því nýst sveitarfélögum. 

Vísir B.1.5, Vegir – slysatíðni.  Vísirinn sýnir að slysatíðni er hvað hæst í flokkum þar sem minnst umferð er eða 1,49 og í flokknum þar sem mest umferð er eða um 1,33. Unnt hefur verið að greina meðalslysatíðni niður á landshluta og er slysatíðni hæst á Austurlandi eða 1,25 og lægst á Suðurlandi og Reykjanesi eða um 0,64. Meðalslysatíðni fyrir árið 2017 í öllum flokkum árdagsumferðar er 1,07 og er á gulum lit og því farin að nálgast þolmörk. Fylgjast þarf með mælikvarðanum. 

Gögn væntanleg

Viðhorf íbúa 

Vísir D.4.1, Ánægja Íslendinga með fjölda ferðamanna í heimabyggð, gefur vísbendingu um ánægju íbúa með fjölda ferðamanna í sinni heimabyggð. Gögnin greina á milli sumars og veturs. Árið 2019 töldu 59% landsmanna fjölda ferðamanna hæfilegan í sinni heimabyggð, samanborið við 55% árið 2017. Þegar gögnin eru skoðuð með skiptingu milli sumars og veturs  telur helmingur landsmanna að fjöldi ferðamanna sé hæfilegur yfir vetrartímann. Mælikvarðinn stendur á gulum lit og verður fylgst með þróun hans í næstu mælingum.

Vísir D.4.2.2, Forðast ákveðna staði vegna ferðamanna, mælir að hve miklu leyti Íslendingar forðast ákveðna staði vegna fjölda ferðamanna. Árið 2017 forðuðust 50% landsmanna ákveðna staði vegna fjölda ferðamanna samanborið við 44% landsmanna árið 2019. Niðurstöðurnar gefa til kynna að færri landsmenn forðist nú ákveðna staði vegna fjölda ferðamanna. Gögnin eru greinanleg niður á landshluta og er munur milli mælinga hvað mestur milli áranna 2017 og 2019 á Norðurlandi, þar sem hann minnkar frá 45% niður í 37% íbúa sem forðast ákveðna staði vegna fjölda ferðamanna. Mælikvarðinn er á gulu og verður fylgst með þróun hans í næstu mælingum.   

Vísir D.4.4, Samfélagsbreytingar vegna ferðaþjónustu, mælir hvernig ferðaþjónusta hefur breytt  íslensku samfélagi. Árið 2019 töldu 61% landsmanna ferðamenn hafa breytt íslensku samfélagi til hins betra samanborið við 53% árið 2017. 64% íbúa á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum telja ferðaþjónustu hafa breytt samfélaginu til hins betra. Þar á eftir koma Suðurland og Vestfirðir með 62% íbúa sem eru á sömu skoðun. Mælikvarðinn er á gulum lit og verður í næstu mælingum fylgst með þróun hans.

Vísir D.4.2.1, Ónæði í daglegu lífi,  segir til um upplifun landsmanna á því hvort ferðamenn valdi ónæði í daglegu lífi þeirra.  Árið 2017 töldu 69% landsmanna ferðamenn ekki valda meira ónæði í daglegu lífi samanborið við 85% landsmanna árið 2019. Þeim sem telja ferðamenn ekki valda ónæði í daglegu lífi hefur fjölgað töluvert á milli þessara tveggja mælinga. Hægt er að sjá niðurstöður  gagna fyrir alla landshluta og er sambærileg niðurstaða fyrir þá alla milli áranna 2017 og 2019. Mælikvarðinn er á grænum lit og vel undir þolmörkum.  

Vísir D.4.3, Efnahagslegur ávinningur, mælir efnahagslegan ávinning samfélagsins af ferðaþjónustu. Árið 2017 töldu 87% landsmanna að það væri efnahagslegur ávinningur af ferðaþjónustu í þeirra heimabyggð, samanborið við 88% árið 2019. Þeir landshlutar sem meta efnahagslegan ávinning hvað mestan í ferðaþjónustu á árinu 2019 eru Suðurland með 93% íbúa og Norðurland og Suðurnes með 92% íbúa. Mælikvarðinn er á grænum lit og vel innan þolmarka. 

Viðhorf ferðamanna

 

Vísir D.3.1., Meðmælaskor, gefur vísbendingu um það hvort erlendir gestir mæli með Íslandi sem áfangastað við vini og ættingja. Stigagjöfin er munurinn á hvetjendum og letjendum. Mælingar hófust um mitt ár 2017 með framkvæmd landamærakönnunar sem á sér stað við brottför erlendra ferðamanna í Leifsstöð.  Árið 2018 var fyrsta heila árið sem könnunin var framkvæmd og var meðmælaskorið 70,2 stig sem var vel innan þolmarka á grænum lit. Árið 2019 mældist meðmælaskorið 79,1 sem er 9,1 stiga hækkun milli ára þannig að vísirinn var áfram vel inni á grænu svæði. Fyrir árið 2020 var gögnum safnað fyrir fyrstu átta mánuði ársins og er meðmælaskorið fyrir 2020 80,7 stig.

Vísir D.3.2., Líkur á endurkomu, segir til um líkurnar á því að gestir komi aftur til Íslands. Árið 2018 töldu 75% ferðamanna mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir myndu koma aftur til Íslands sem hafði það í för með sér að mælikvarðinn var á gulum lit. Árið 2019 telja tæp 79% líklegt eða frekar líklegt að þeir muni koma aftur til Íslands, og hefur vísirinn færst á grænan lit sem þýðir að aðgerða er ekki krafist. Fyrir árið 2020 eru gögn til fyrir fyrstu átta mánuði ársins og eru tæplega 82% ferðamanna sem geta hugsað sér að koma aftur til Íslands.

Sjá einnig:

Fyrirvari Jafnvægisáss ferðamála

Menningar- og viðskiptaráðuneytið leitast við að hafa allar upplýsingar á Jafnvægisási ferðamála áreiðanlegar og réttar. Ráðuneytið ábyrgist ekki áreiðanleika birtra gagna né ábyrgð á tjóni sem rekja má til notkunar upplýsinganna. Öllum er heimil afnot upplýsinga  úr Jafnvægisási ferðamála. Í ljósi þess að uppruni gagna er mismunandi gilda ólíkir skilmálar um dreifingu og nýtingu gagna úr Jafnvægisási ferðamála. Öll gögn í Jafnvægisási ferðamála eru í eigu stjórnvalda og ekki framseljanleg. Vinsamlegast getið heimilda.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum