Hoppa yfir valmynd


21. júní 2024 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlaðist þingsályktunin þegar gildi. 

Mikilvæg atvinnugrein

Ferðaþjónustan er ein af stærstu atvinnugreinum á Íslandi og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. Fjöldi ferðamanna óx úr tæplega 500 þúsund árið 2010 í rúmar 2,3 milljónir árið 2018 þegar mest var. Árið 2023 er gert ráð fyrir að fjöldi ferðamanna verði svipaður og fyrir heimsfaraldur. Samhliða þessu hefur hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu vaxið mjög en árið 2022 nam hann 7,8% og útgjöld erlendra ferðamanna námu 390,4 milljörðum króna. Um 35 þúsund einstaklingar starfa við ferðaþjónustu á Íslandi.

 

Eitt af verkefnum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að vinna aðgerðaáætlun á grundvelli framtíðarsýnar ferðaþjónustu til 2030.

Ferðamálastefna til 2030 og aðgerðaáætlun

Haustið 2022 hófst vinna við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 sem lauk í byrjun árs 2023. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags-, umhverfis- og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir sjálfbæra þróun, gæði og einstaka upplifun. Í uppfærðum stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 eru 12 áherslur sem deilast á lykilstoðirnar fjórar; efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. Aðgerðaáætlunin mun fylgja eftir þeirri framtíðarsýn, markmiðum og áherslum sem koma fram í ferðaþjónustustefnu til 2030.

Í maí 2023 skipaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, sjö starfshópa sem falið er að vinna tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustustefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024. Verkefnið í heild sinni er leitt af stýrihópi  á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

Hóparnir ná utan um sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu.

Formenn hópanna eru Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu, Már Másson, framkvæmdastjóri hjá Fossfall ráðgjöf, Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs-, og vöruþróunarsviðs hjá Bláa lóninu og Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

„Það skiptir miklu máli að skapa ferðaþjónustunni hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti með það fyrir augum að skapa aukin verðmæti og lífsgæði fyrir íslenskt samfélag. Ég hef miklar væntingar til vinnu starfshópanna enda höfum við fengið til liðs við okkur fjölbreytt og öflugt fólk með víðtæka þekkingu og reynslu hvert á sínu sviði,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra. 

Miðað er við að hóparnir hafi víðtækt samráð við ferðaþjónustuna og aðra haghafa og skili fyrstu drögum að aðgerðum fyrir 15. október 2023. Þær tillögur fara í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Haldnir verða opnir umræðu- og kynningarfundir um vinnuna í öllum landshlutum í haust. Hóparnir skila lokatillögum til stýrihóps fyrir 15. desember 2023 sem samræmir aðgerðir í heildstæða aðgerðaáætlun og skilar til ráðherra.

Tímaáætlun

 

Gagnasafn

Hér má nálgast gögn sem tengjast vinnu starfshópa og stýrihóps og viðkoma ferðaþjónustu.

Fréttir

 

Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu

Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hér á landi hefur aukist til muna samhliða vexti greinarinnar. Hér áður fyrr stóð ytri staða þjóðarbúsins oft og tíðum tæpt, þar til straumhvörf á viðskiptajöfnuðinum áttu sér stað fyrir rúmlega tíu árum með tilkomu sterkrar ferðaþjónustu hér á landi.

Fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að hafa styrkar útflutningsstoðir. Á tímum kórónuveirunnar kom glöggt í ljós hversu hagfellt var að vera með gjaldeyrisforða sem gat jafnað mestu sveiflur.

Ferðaþjónustan snertir á öllum þremur stoðum sjálfbærrar þróunar en með mismunandi hætti innan einstaka greina. 

Með auknum fjölda ferðamanna hafa tekjur þjóðarbúsins aukist og ný störf skapast í landinu. Spáð er áframhaldandi vexti í komum erlendra ferðamanna til Íslands. Hröðum vexti fylgja áskoranir en í greininni felast mikil sóknarfæri samfélagsins til aukinnar hagsældar og jákvæðrar byggðaþróunar.

Í mars 2023 stóð menningar- og viðskiptaráðuneytið í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu fyrir ráðstefnu um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar þar sem flutt voru fróðleg erindi, nýtt mælaborð um áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög var kynnt og áhugaverðar umræður sköpuðust í pallborði.

Síðast uppfært: 4.12.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta