Hoppa yfir valmynd

Markaðsmál og upplýsingagjöf

Íslandsstofa

Íslandsstofa fer með kynningar- og markaðsstarf á sviði ferðamála samkvæmt samningi við ferðamálaráðherra. Markmið kynningarstarfsins er að efla orðspor og ímynd Íslands erlendis, skapa áhuga á landinu sem áfangastað og laða til landsins erlenda ferðamenn með samræmdu kynningar – og markaðsstarfi. 

Íslandsstofa annast markaðsverkefnið Ísland allt árið (Inspired by Iceland) samkvæmt sérstökum samningi. Verkefnið er samstarfsverkefni opinberra aðila og einkafyrirtækja um kynningu á áfangastaðnum Íslandi sem blásið var til í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli 2010.

 

Ferðamálastofa

Ferðamálastofa fer með framkvæmd ferðamála, samkvæmt lögum um skipan ferðamála. Meðal verkefna eru „markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustu, í samræmi við ákvörðun ráðherra hverju sinni“. Síðan 2010 hefur erlend markaðssetning farið fram á vegum Íslandsstofu. Ferðamálastofa fer m.a. með upplýsingamál, alþjóðlegt samstarf og þróunar- og gæðamál en þau verkefni tengjast öll markaðssetningu landsins með einhverjum hætti.

Markaðsstofur landshlutanna 

Markaðsstofur landshlutanna eru sjö talsins, á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Suðurlandi, Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu (Höfuðborgarstofa). Hlutverk þeirra er að samræma markaðs- og kynningarmál í ferðaþjónustu og vinna við vöruþróun í ferðaþjónustu á sínum svæðum. Markaðsstofur landshlutanna starfa í samvinnu við fyrirtæki í greininni, ferðamálasamtök, atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og fleiri hagsmunaaðila. Markaðsstofurnar eru reknar í nánum tengslum við upplýsingamiðstöðvar.

Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna

Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna starfa um allt land. Aðal upplýsingamiðstöðvarnar (landshlutamiðstöðvar) eru ellefu talsins og styrktar af opinberu fé. Rekstrarform annarra upplýsingamiðstöðva er fjölbreytt. Sumar eru reknar af einkaaðilum, aðrar eru starfræktar af sveitarfélögum í nánu samstarfi við ferðamálasamtök og markaðsskrifstofur. Þær veita upplýsingar til ferðamanna sem komnir eru til landsins og halda utan um ýmsa skráningu á þjónustu hvers svæðis, dreifa bæklingum og sjá um vefi í samstarfi við markaðsstofur.

Mælaborð

Síðast uppfært: 17.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum