Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Innanlandsaðgerðir hertar vegna mikillar fjölgunar smita

COVID-19: Innanlandsaðgerðir hertar vegna mikillar fjölgunar smita - myndStjórnarráðið
Skylt verður að bera grímu þegar ekki er unnt að virða 1 metra nálægðarreglu, fjöldatakmarkanir verða 500 manns, veitingastöðum með vínveitingaleyfi verður skylt að loka tveimur tímum fyrr en nú. Með notkun hraðprófa verður heimilt að halda viðburði fyrir allt að 1.500 manns. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið þessar aðgerðir samkvæmt tillögum sóttvarnalæknis sem hefur áhyggjur af mikilli fjölgun smita, auknum veikindum og vaxandi álagi á heilbrigðiskerfið. Reglur um grímunotkun taka gildi á morgun (á miðnætti aðfaranótt 6. nóvember) en aðrar breytingar miðvikudaginn 10. nóvember og gilda í fjórar vikur til þriðjudags 8. desember.

Frá því að bylgja faraldursins sem nú gengur yfir tók að rísa um miðjan júlí sl. hafa tæplega 7.300 greinst með COVID-19, um 160 lagst inn á sjúkrahús (2,2%), 33 á gjörgæsludeild, 17 hafa þurft á öndunarvél að halda og fjórir látist. Sóttvarnalæknir telur hertar takmarkanir innanlands nauðsynlegar til að forða því að neyðarástand skapist í heilbrigðiskerfinu með ófyrirséðum aðgerðum. Ná þurfi daglegum fjölda smita niður í 40-50 og viðhalda þeirri stöðu með takmörkunum þar til betra ónæmi næst í samfélaginu með örvunarbólusetningum og náttúrulegri sýkingu. 

Aðgerðirnar í hnotskurn:

Strax á miðnætti (aðfaranótt 6. nóvember) tekur gildi grímuskylda; skylt verður að bera grímu þegar ekki er unnt að virða 1 metra nálægðarreglu, s.s. í fjölmennum verslunum, almenningssamgöngum og viðlíka. Einnig verður skylt að bera grímu á sitjandi viðburðum (tekur gildi frá og með 6. nóvember).

  • Börn 15 ára og yngri eru undanþegin grímunotkun.
  • Starfsfólki sem veitir einstaklingsbundna þjónustu sem krefst nándar, t.d. hárgreiðslu, nudd og viðlíka, er ekki skylt að bera grímu enda er grímuskylda á viðskiptavinum.
  • Framhaldsskólanemar mega taka niður grímu eftir að sest er í kennslu þótt ekki sé hægt að viðhafa 1 metra nálægðarreglu.

Almennar fjöldatakmarkanir verða 500 manns: Á sitjandi viðburðum er heimilt að víkja frá eins metra nálægðarreglu meðan setið er, að því gefnu að allir beri grímu (tekur gildi frá og með 10. nóvember).

Hraðpróf og skipulagðir viðburðir: Heimilt verður að skipuleggja viðburði fyrir allt að 1.500 manns. Gestum á slíkum viðburðum er skylt, þrátt fyrir hraðpróf, að bera grímu ef ekki er unnt að virða 1 metra nálægðarreglu (tekur gildi frá og með 10. nóvember).

Sérstök heimild gildir áfram fyrir skólaskemmtunum í framhaldsskólum með notkun hraðprófa.

Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru vínveitingar: Opnunartími styttist um 2 klst. og ber að loka kl. 23:00 og rýma staðina fyrir miðnætti. Tekin verður upp að nýju skráningarskylda gesta og skulu vínveitingar bornar til sitjandi gesta (tekur gildi frá og með 10. nóvember).

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum