Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19

Ríkisstjórnin hefur kynnt framhald efnahagsaðgerða sinna vegna áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins. 

Markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar er að verja grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja, og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf. Eftir því sem neikvæð efnahagsleg áhrif Corona-faraldursins raungerast ber aukna nauðsyn til að huga að félagslegu öryggi og velferð. 

Sjá einnig: Spurt og svarað um aðgerðirnar vegna Covid-19 - 21. mars 2020

Aðgerðir sem snúa beint að einstaklingum eru tvíþættar. Áhrifa faraldursins gætir víða í samfélaginu og eru af bæði efnahagslegum og félagslegum toga. Annars vegar er aðgerðum ætlað að styðja við þá hópa sem talið er að þurfi bráða aðstoð vegna samfélagslegra afleiðinga COVID-19. Hins vegar er markmiðið að skapa tímabundin náms- og atvinnutækifæri fyrir námsmenn, fólk á atvinnuleysisbótum og aðra sem kunna að sækjast eftir slíkum tækifærum. Helstu aðgerðir eru eftirfarandi:

  • Geðheilbrigði og fjarþjónusta: Efling geðheilbrigðisþjónustu, heilsugæslu og fjarþjónustu
  • Vernd fyrir börn og viðkvæma hópa: Átak gegn ofbeldi, stuðningur vegna tómstunda og veikinda og úrræði gegn félagslegri einangrun
  • Sértækur stuðningur: Framlínuálag fyrir heilbrigðisstarfsfólk
  • Vegir til virkni í námi og starfi: Átak til að fjölga námsúrræðum og tímabundnum sumarstörfum fyrir námsmenn
  • Efling nýsköpunar og lista: Auknir nýsköpunarstyrkir, fleiri mánuðir listamannalauna

Afkoma heimila var í brennidepli í þeim aðgerðum sem kynntar voru í mars síðastliðnum, s.s. með atvinnuleysisbótum vegna minnkaðs starfshlutfalls, eingreiðslu til barnafólks og öryrkja og tímabundinni heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Þrjár þeirra aðgerða sem nú eru kynntar miða að því að styrkja starfsgrundvöll fyrirtækja í erfiðu efnahagsástandi og standa þannig vörð um störf og afkomu heimila. Nánari upplýsingar um þær aðgerðir má sjá undir flipanum „fyrirtæki“ hér að ofan.

Einstaklingar

Ákveðið hefur verið að efla göngudeildarþjónustu fyrir einstaklinga með áfengis- og vímuefnavanda og hefur Sjúkratryggingum Íslands verið falið að ganga til samninga við SÁÁ í þessu skyni. Aukin framlög vegna þjónustunnar nema 30 milljónum króna.

Sálfræðingum og/eða öðrum sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu verður fjölgað um 16. Stöðugildum fjölgar um tíu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og um eitt í hverju heilbrigðisumdæmi utan höfuðborgarsvæðisins. Markmiðið er að hvar sem er á landinu geti fólk fengið meðferð og stuðning sálfræðinga innan heilsugæslu vegna algengustu geðraskana, svo sem vegna þunglyndis og kvíða. Heilsugæslan fær einnig fá sérstakt framlag til að þróa og efla getu sína til að veita fjarheilbrigðisþjónustu á þessu sviði.

Framlög til geðheilbrigðisteyma í öllum heilbrigðisumdæmum landsins verða aukin svo unnt verði að fjölga geðlæknum og/eða öðrum sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu. Geðheilsuteymin sinna annars stigs geðheilbrigðisþjónustu, þ.e. sérhæfðari þjónustu en unnt er að veita innan heilsugæslunnar. Teymin eru ætluð þeim sem greindir eru með geðsjúkdóm og eru eldri en 18 ára. Eitt af markmiðunum með því að efla geðheilsuteymin er að auka getu þeirra til að sinna jaðarhópum eins og fólki með tvígreindan neyslu- og fíknivanda samhliða öðrum geðröskunum og einnig fólki sem er með þroskaröskun og glímir jafnframt við geðröskun.

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu hefur meðal annars það hlutverk að leiða faglega þróun og stýra samhæfingu heilsugæslu í landinu. Framlög til hennar verða aukin með áherslu á að samræma vinnubrögð og stuðla að því að aðgengi landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu sé sem jafnast, óháð búsetu. 

Þróunarmiðstöðinni verður falið að útbúa fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um neyslu- og fíknivanda, innleiða skimun á því sviði og þróa meðferðarúrræði innan heilsugæslu og hjá geðheilsuteymunum. Þróunarmiðstöðinni verður einnig falið að útbúa fræðsluefni fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila um geðheilbrigðismál og einnig fræðsluefni á sviði geðræktar í skólum.

Álagsgreiðslurnar verða í formi eingreiðslu til framlínustarfsfólks á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og í heilsugæslunni. Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki á mörgum sviðum heilbrigðisþjónustunnar, þar sem starfsaðstæður hafa verið óvenjulegar og krefjandi og hætta á smiti af Covid-19 daglegur veruleiki margra. Varið verður einum milljarði króna í greiðslurnar. Útfærslan verður á hendi forstöðumanna hverrar stofnunar.

Hafa unnið í a.m.k. 45% starfshlutfalli þar sem starfshlutfall þitt þarf að minnka um a.m.k. 20% og þú þarft að vera áfram í a.m.k. 25% starfshlutfalli fram til 1. júlí 2020. Eftir 1. júlí 2020 þarft þú að vera í a.m.k. 50% starfshlutfalli.

Til 31. ágúst 2020 með tilteknum breytingum sem meðal annars lúta að starfsemi fyrirtækja.

Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta ekki verið hærri en 700.000 kr. á mánuði og 90% af meðaltali heildarlauna.

Til að finna út meðaltal heildarlauna er miðað við þriggja mánaða tímabil áður en starfshlutfall var minnkað. Þér er þó heimilt að óska eftir því að miðað sé við mánaðarleg meðallaun ársins 2019 í stað þess að miðað verði við þriggja mánaða tímabil.

Já, ef uppfyllt eru öll skilyrði. Í slíkum tilvikum er heimilt að taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði miðuðust við hafir þú fengið greiðslur úr sjóðnum á því tímabili sem horft er til þegar atvinnuleysisbætur eru reiknaðar.

Já, ef uppfyllt eru öll skilyrði. Þar sem laun eru almennt ekki greidd þegar einstaklingar nýta rétt sinn til foreldraorlofs er í slíkum tilvikum heimilt að taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þú hafðir á síðustu þremur mánuðunum áður en þú byrjaðir í foreldraorlofi.

  • Vinnuveitandi þarf að staðfesta að starfsemi hafi dregist saman um 25%.
  • Vinnuveitandi þarf að staðfesta að hann skuldi ekki opinber gjöld og launatengd gjöld.
  • Vinnuveitandi þarf að staðfesta að hann beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og hafi staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi (félög í skattaskjóli), eftir því sem við á.
  • Vinnuveitandi þarf að staðfesta að hann hafi á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 ekki í hyggju að:
    • greiða út arð,
    • lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa,
    • greiða óumsamda kaupauka,
    • kaupa eigin hlutabréf,
    • inna af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans,
    • greiða af víkjandi láni fyrir gjalddaga,
    • oveita eigendum eða nákomnum aðilum lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða
    • greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr.

Já, þú þarf að staðfesta áframhaldandi nýtingu úrræðisins hjá Vinnumálastofnun fyrir 10. júní 2020 og staðfesta breytt starfshlutfall fyrir 1. júlí 2020 ef þú ætlar að nýta úrræðið áfram eftir 1. júlí 2020.

Já, Vinnumálastofnun er heimilt að krefjast staðfestingar eða gagna frá vinnuveitanda um að skilyrði hvað varðar starfsemi hans séu uppfyllt vegna umsóknar launamanns um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Það eru engin viðurlög fyrir launamanninn sjálfan.

Vinnumálastofnun verður heimilt að krefja viðkomandi vinnuveitanda um endurgreiðslu þeirra atvinnuleysisbóta sem greiddar hafi verið starfsmönnum hans á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2020 að viðbættu 15% álagi.

Einstaklingar eða lögaðilar sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veita Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar hvað varðar starfsemi sína kunna að sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema brot megi teljast minni háttar.

Háskólum verður gert kleift að mæta mögulegri nemendafjölgun í kjölfar efnahagsáhrifa af heimsfaraldri kórónaveiru. Áhersla verður lögð á námsleiðir sem draga úr færnibili á vinnumarkaði og mæta þörfum atvinnulífsins fyrir menntað starfsfólk í undirmönnuðum starfsgreinum, t.d. fagháskólanám í heilbrigðis- og tæknigreinum, kennaranám og hagnýtt nám fyrir nemendur með íslensku sem annað mál.

Nám á sumarönn 2020 er sérstaklega sniðið að þeim sem misst hafa vinnu eða fá ekki vinnu vegna skorts á störfum. Hér er um að ræða nemendur í framhaldsskólum og háskólum sem og atvinnuleitendur sem vilja undirbúa sig fyrir nýtt nám, nýjan starfsvettvang eða flýta fyrir sér í námi. Sumarnám hentar einnig starfsfólki í hlutastörfum og almenningi til að brúa færnibil og sem leið til starfsþróunar. Um 200 áfangar verða í boði á háskólastigi og rúmlega 80 áfangar á framhaldsskólastigi.

Sumarnám verður í boði á háskóla- og framhaldsskólastigi bæði sem eininganám eða námskeið sem standa yfir í mislangan tíma. Háskólum verður jafnframt gert kleift að mæta mögulegri nemendafjölgun í haust með áherslu á námsleiðir sem draga úr færnibili á vinnumarkaði. Einnig verður hægt að sækja margskonar starfstengd námskeið og fá námsráðgjöf hjá símenntunarmiðstöðvum um allt land.

Allir háskólarnir sjö hyggjast bjóða upp á sumarnám og 15 framhaldsskólar vítt og breitt um landið. Námsframboð verður auglýst á heimasíðum viðkomandi skóla og miðlægt á vefnum naestaskref.is.

Á framhaldsskólastigi er um að ræða annars vegar kynningaráfanga svo sem um nýsköpun, tækni og listir og hins vegar áfanga sem eru hluti af námsbrautum skólanna. Jafnframt verður boðið upp á stuttar starfsnámsleiðir.

Á háskólastigi er um að ræða stuttar hagnýtar námsleiðir á grunn- og meistarastigi, undirbúningsnám fyrir umsækjendur fyrir háskólanám og endurmenntun fyrir fagaðila.

Nám verður ýmist í staðnámi, dreifnámi/blönduðu námi eða fjarnámi:

  • Námsáfangar í staðnámi geta verið t.d. nokkrir tímar, hálfur/heill dagur í nokkrar vikur.
  • Námsáfangar í dreifnámi eða blönduðu námi þar sem námið er fyrst og fremst í fjarnámi en nemendur hittast einstaka sinnum með kennara/leiðbeinanda.
  • Námsáfangar í fjarnámi.

Já, boðið verður upp á undirbúningsnám fyrir nemendur sem munu hefja háskólanám í haust. Nánari upplýsingar verður að finna á heimasíðum háskólanna. Einnig verða í boði ýmsir áfangar sem tengjast starfsnámi, nýsköpun og frumkvöðlafræðum, listgreinum og umhverfismálum.

Nám á sumarönn er m.a. sniðið fyrir einstaklinga á atvinnuleysisbótum eða hlutabótum sem geta aukið færni sína með viðbótarnámi og endurmenntun. Námsframboð er mjög fjölbreytt og atvinnuleitendur verða sérstaklega hvattir til að nýta sér það til frekari hæfniuppbyggingar.  Upplýsingar um námsframboð í sumar verður að finna á heimasíðum skólanna og hjá ráðgjöfum skóla og Vinnumálastofnunar.

Það er góður möguleiki en mikilvægt er að kanna á heimasíðum háskólanna hvort viðkomandi nám sé metið til ECTS eininga og hvernig það nýtist inn í núverandi nám. Sumt nám að sumri er ekki einingabært og nýtist því ekki til styttingar náms. Nám sem ekki er einingabært getur samt sem áður nýst til símenntunar. Þá verður fjöldi fjarnámskeiða í boði þannig að hægt verður að stunda nám óháð búsetu.

Samkvæmt núgildandi lögum er þeim sem eru á atvinnuleysisbótum heimilt að stunda nám á háskólastigi að hámarki 10 ECTS einingum án þess að komi til skerðingar atvinnuleysisbóta. Hlutabótaleið er ætlað að viðhalda ráðningasambandi og er tímabundið úrræði til 31. ágúst og á því ekki við um nám á atvinnuleysisbótum.

Ýmsir námsáfangar verða í boði í dreifnámi/blönduðu námi eða í fjarnámi og hægt að taka með vinnu. 

Allt nám umfram 10 ECTS skerðir atvinnuleysisbætur í hlutfalli við fjölda eininga, sem dæmi þá skerðir nám sem er 15 ECTS einingar atvinnuleysisbætur um 50%.  Atvinnuleysisbætur falla niður við 20 ECTS eininga nám enda er þá unnt að sækja um lán á vegum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).

Háskólum er heimilt að meta ECTS einingar sem nemandi hefur áunnið sér í öðrum háskólum að fullu eða að hluta. Rétt er að kanna afstöðu skólans sem á að meta námið um hvort og að hve miklu leyti hann sé tilbúinn að meta til eininga nám sem tekið hefur verið við aðra stofnun.  Í framhaldsskólum er oftast hægt að fá námsáfanga metna sem val. Ef viðkomandi stundar nám í framhaldsskóla er rétt að kanna afstöðu skólans um hvort námsáfanginn sé metinn inn á brautina. 

Hver skóli mun birta gjaldskrá sumarnáms á heimasíðu sinni. Skráningargjöld í opinberum háskólum eru að hámarki 3000 kr fyrir hvert námskeið.  Nemendum sem þegar hafa greitt skráningargjöld í opinberum háskólum fyrir skólaárið 2019-2020 verður ekki gert að greiða skráningargjald fyrir sumarnám. Heimilt er skólum að innheimta efniskostnað fyrir námið.

Reiknað er með að námsstyrkir stéttarfélaga sem viðkomandi hefur áunnið sér rétt til að sækja um geti nýst. Einnig má sækja um endurgreiðslur til viðkomandi starfsmenntasjóða.

Ekki eru sérstakir námsstyrkir í boði aðrir en þeir sem hægt er að sækja um í gegnum stéttarfélög. 

Á háskólastigi er einungis sumarnám sem metið er til ECTS eininga lánshæft hjá LÍN. Nám á sumarönn tilheyrir undangengnu skólaári. Námsmaður þarf að ljúka að lágmarki 1 ECTS-einingu á sumarönn til að eiga rétt á sumarláni. Aldrei er veitt meira lán en sem nemur 20 ECTS-einingum á sumarönn og 80 ECTS-einingum samtals á hverju námsári. Sækja þarf sérstaklega um lán á sumarönn. Umsóknarfrestur til að sækja um lán hjá Lánasjóði íslenska námsmanna á sumarönn 2020 er til og með 15. júlí 2020.  

Framhaldsskólanemar sem stefna á stúdentspróf eða sambærilegt próf geta ekki fengið námslán. Hins vegar eru námslán veitt fyrir löggilt iðnnám og annað viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi sem skipulagt er af viðeigandi starfsgreinaráði. Námsmenn geta líka átt rétt á námslánum þegar þeir eru að vinna á samningi ef umsamin laun eru lægri en grunnframfærsla námsmannsins. Þegar upphæð námslánanna er reiknuð er farið með nemalaunin eins og aðrar tekjur skv. reglum sjóðsins og geta skert lánin.

Lögð verður áhersla á að bjóða upp á námskeið sniðin að þörfum fólks af erlendum uppruna. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar geta aðstoðað við að finna námskeið við hæfi.

Gert er ráð fyrir að sérstakt átak verði í íslenskukennslu fyrir útlendinga. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar geta aðstoðað við að finna námskeið við hæfi.

Vegna aðstæðna á vinnumarkaði í kjölfar faraldurs COVID-19 er ljóst að ekki verða jafnmörg sumarstörf í boði fyrir þá námsmenn sem nýta sumarið til starfa. Á grundvelli fjármagns frá ríki munu ríki og sveitarfélög skapa allt að 3.400 störf til fyrir námsmenn yfir sumartímann til þess að koma í veg fyrir að námsmenn verði tekjulausir og geti haldið áfram námi á komandi hausti.

Samhæfingarhópur félags-  og menntamálaráðuneytisins er að vinna að því að skapa menntatækifæri fyrir atvinnuleitendur í þeim tilgangi að styðja þá betur til þess að fá atvinnutækifæri síðar meir. Áætlað er að hægt verði að styðja við og stuðla að virkri atvinnuleit með námi og þjálfun um 15 þúsund manns á árinu.

Fjárveitingunni er ætlað að kosta náms- og þjálfunarúrræði innan hins hefðbundna menntakerfis, innan framhaldsfræðslunnar, hjá almennum fræðsluaðilum og öðrum þjónustuaðilum. Nemar í námi sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenska námsmanna eiga þó almennt ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Framlög til Nýsköpunarsjóðs námsmanna verða aukin um 400 millj. kr á þessu ári til að gera námsmönnum kleift að starfa við nýsköpunarverkefni í allt að þrjá mánuði.  

Nýsköpunarfyrirtæki geta ráðið til sín starfsmenn af atvinnuleysisskrá til allt að sex mánaða í senn í samvinnu Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Auk þess verður leitað leiða til að gera fyrirtækjum mögulegt að halda starfsfólki í tímabundnu úrræði, vegna vinnu við nýsköpunarverkefni.

Vegna COVID-19 verður aukaúthlutun úr launasjóði listamanna sem nemur 250 milljónum kr. Sjálfstætt starfandi hönnuðir, myndlistarmenn, rithöfundar, sviðslistafólk, tónlistarflytjendur og tónskáld geta sótt um í þann sjóð á vef Rannís. Það fjármagn kemur til viðbótar 500 milljóna kr. stuðnings til menningarstarfs og skapandi greina sem kynnt var í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í mars.

Ríkisstjórnin vill koma til móts við þá sem þurfa að sinna aukinni umönnun fatlaðra og langveikra barna þar sem ytri úrræði hafa legið niðri vegna COVID-19. Um er að ræða styrk til umönnunaraðila sem byggir á tímabundið aukinni umönnunarbyrði. Úrræðið er ekki tekjutengt. Styrkirnir eru undanþegnir skattskyldu og hafa ekki áhrif á aðrar bætur.

Gripið hefur verið til sértækra aðgerða til að tryggja þjónustu og stuðning við viðkvæma hópa á tímum COVID-19, og í kjölfar faraldursins. Um er að ræða m.a. aldraða fatlað fólk, innflytjendur og flóttafólk, fanga, heimilislausa og börn og fjölskyldur þeirra. Sérstök áhersla er lögð á að vinna gegn félagslegri einangrun með eflingu félagsmiðstöðva fyrir eldri borgara og öryrkja, aukinn félagslegan stuðning fyrir fjölskyldur á landsvísu með sérstakri áherslu á stuðning við fötluð börn og fjölskyldur þeirra sem og börn af erlendum uppruna.

Stjórnvöld munu grípa til markvissra aðgerða gegn heimilisofbeldi og ofbeldis gegn börnum, þar sem viðbúið er að ofbeldi aukist á tímum áfalla og efnahagsþrenginga. Skipað hefur verið tímabundið aðgerðateymi til að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða. Meðal aðgerða sem miða sérstaklega að börnum er áframhaldandi vitundarvakning um ofbeldi gegn börnum sem felst meðal annars í því að efla og vekja athygli á úrræðum eins og 112, Hjálparsímanum 1717 og netspjallinu 1717.is. Gert er ráð fyrir auknum stuðningi til þjónustuaðila sem sinna ráðgjöf fyrir bæði þolendur og gerendur ofbeldis. Þá verður stutt sérstaklega við starfsemi Barnahúss með það að markmiði að draga úr bið eftir þjónustu.

Sýnt hefur verið fram á að samfélagslegum áföllum fylgir oft aukin áfengis- og vímuefnaneysla, ofbeldi og fleiri neikvæð mynstur sem þarf að koma í veg fyrir eins og hægt er með forvörnum og frekari aðgerðum. Í kjölfar ákvörðun stjórnvalda um að grípa til markvissra aðgerða gegn heimilisofbeldi og ofbeldis gegn börnum, var skipað tímabundið aðgerðateymi til að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða. Aðgerðirnar munu miða sérstaklega að viðkvæmum hópum, þar með talið börnum, konum af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðu fólki, sem reynslan hefur sýnt að eru í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Aðgerðateyminu er jafnframt falið að fylgja eftir öðrum almennum aðgerðum er lúta að fræðslu, þjónustu og stuðningi vegna ofbeldis í samræmi við tillögur í áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019-2022, sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2019.

Þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi hefur mikið forvarnargildi og stuðlar að aukinni velferð þeirra. Þegar efnahagsþrengingar verða er mikil hætta á að fyrstu aðgerðir fjölskyldna verði að draga úr íþrótta- og tómstundastarfi barna. Miðað við núverandi tölur má ætla að börn sem eru í hættu á að detta úr tómstunda- og frístundastarfi séu um 8 þúsund börn. Með aukningu í fjölda þeirra sem munu mögulega þiggja atvinnuleysisbætur má ætla að þessi fjöldi hækki töluvert og nái jafnvel um 12 þúsund börnum.

Strax í sumar verður lagt fram viðbótarframlag vegna tómstundastarfs barna sem búa á tekjulágum heimilum. Aðgerðin jafnar tækifæri barna til þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi þrátt fyrir efnahagsþrengingar.

Útfærsla á framkvæmd úrræðisins er í vinnslu og verður kynnt á næstu dögum.

Þeim aðgerðum sem snúa beint að fyrirtækjum er ætlað að styðja þau til að takast á við mjög erfiðar efnahagsaðstæður sem orðið hafa vegna COVID-19 heimsfaraldursins og þeirra sóttvarnaraðgerða sem grípa hefur þurft til:

  • Lokunarstyrkir: Rekstrarstyrkir vegna fyrirmæla um lokun starfsemi
  • Stuðningslán: Rekstrarlán til minni fyrirtækja í lægð vegna faraldursins
  • Tekjuskattsjöfnun: Heimild til að jafna tap þessa árs á móti hagnaði í fyrra

Aðgerðir taka mið af þeim úrræðum sem þegar hafa komið til framkvæmda og má sjá nánari upplýsingar um hér[BB3] . Einnig hafa verið kynntar aðgerðir til viðspyrnu sem snúa sérstaklega að sprotum og nýsköpunarfyrirtækjum og má sjá nánari upplýsingar undir viðeigandi flipa hér að ofan.

Lokunarstyrkir

  1. Hann þurfti að loka starfsemi eða var óheimilt að veita þjónustu samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar á tímabilinu frá 24. mars til og með 3. maí 2020.
  2.  Tekjufall hans í apríl 2020 var að minnsta kosti 75% samanborið við apríl 2019. Hafi fyrirtækið hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans í apríl 2020 bornar saman við meðaltekjur hans á 30 dögum frá því hann hóf starfsemi til loka febrúar 2020.
  3. Tekjur hans á rekstrarárinu 2019 voru að minnsta kosti 4,2 milljónir króna. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
  4. Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld sem komin voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum.
  5. Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

Á vefnum island.is verða nánari upplýsingar um umsóknarferlið.

Já, rekstraraðili getur veitt öðrum aðila umboð til þess að sækja um styrk.

Styrkfjárhæðin er að jafnaði sú sama og rekstrarkostnaður fyrirtækisins á lokunartímabilinu, þ.e. frá 24. mars til og með 3. maí 2020. Styrkur getur þó ekki orðið hærri en 800 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann hjá fyrirtæki í febrúar 2020 eða 2,4 milljónir króna á hvert fyrirtæki. Ef fyrirtækið hafði einn starfsmann verður styrkurinn þannig ekki hærri en 800 þúsund krónur, ef fyrirtækið hafði tvo starfsmenn verður hann ekki hærri en 1,6 milljónir króna og ef fyrirtækið hafði þrjá eða fleiri starfsmenn verður hann ekki hærri en 2,4 milljónir króna.

Styrkir verða greiddir út fljótlega eftir að umsókn hefur verið skilað til Skattsins og aldrei síðar en tveimur mánuðum eftir að fullnægjandi umsókn var skilað í rafræna umsóknarkerfinu.

Hægt verður að sækja um styrkinn til 1. september 2020 en ekki eftir það. 

Nei. Allir, bæði einstaklingar og lögaðilar, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og eru skattskyldir á Íslandi geta átt rétt á styrk, að uppfylltum skilyrðum laganna. Þeir verða þó að vera skráðir á launagreiðendaskrá hjá Skattinum og virðisaukaskattsskrá þegar það á við.

Já, ef starfsemin var hafin fyrir 1. febrúar 2020. 

Já, styrkur vegna lokunar telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt. Hann telst þó ekki til skattskyldrar veltu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

Stuðningslán

Uppfylla þarf átta skilyrði til að fá stuðningslán, þ.e. að:

  1. Tekjur á 60 daga samfelldu tímabili árið 2020 hafi að minnsta kosti verið 40% lægri en á sama tímabili 2019. Hafi starfsemi hafist síðar á árinu 2019 en samanburðarmánuður 2020, skal horft til meðaltekna á 60 dögum frá því starfsemi hófst til loka febrúar 2020.
  2. Tekjur árið 2019 hafi að lágmarki verið 9 m.kr. og að hámarki 500 m.kr. Hafi starfsemi hafist eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur yfir starfstímann til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
  3. Launakostnaður hafi a.m.k. verið 10% af rekstrarkostnaði árið 2019. Hafi hann hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna launa- og rekstrarkostnað þann tíma sem hann starfaði til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.
  4. Ekki hafi verið greiddur út arður, óumsamdir kaupaukar, keypt eigin hlutabréf, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða lán eða aðrar greiðslur veittar eigendum eða nákomnum aðilum sem ekki eru nauðsynlegar til að viðhalda rekstrarhæfi frá 1. mars 2020 og út þann tíma sem ábyrgðar ríkissjóðs nýtur við.
  5. Rekstraraðili sé ekki í vanskilum sem hafa staðið lengur en 90 daga við lánastofnanir.
  6. Rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. Lög um ársreikninga, nr. 3/2006, upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög nr. 82/2019, og staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhaldsí lögaðilum á lágskattasvæðum.
  7. Bú rekstraraðila hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og hann hefur ekki verið tekinn til slita.
  8. Hann uppfyllir hlutlæg viðmið sem ráðherra skilgreinir í reglugerð og gefa tilefni til að ætla að hann verði rekstrarhæfur þegar bein áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru eru liðin hjá.

Nei, bæði einstaklingar og lögaðilar, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og eru skattskyldir á Íslandi geta átt rétt á stuðningsláni, að uppfylltum skilyrðum laganna. Þeir verða þó að vera skráðir á launagreiðendaskrá hjá Skattinum og virðisaukaskattsskrá þegar það á við.

Á vefnum island.is verða nánari upplýsingar um umsóknarferlið.

Stuðningslán skal að hámarki nema 40 m.kr.  

Lánið skal þó ekki vera hærra en sem nemur 10% af tekjum rekstraraðila árið 2019. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. janúar 2019 skal umreikna tekjur frá þeim tíma sem starfsemi hófst til loka febrúar 2020 á ársgrundvöll.

Já, ef starfsemin var hafin fyrir 1. febrúar 2020.  

Lánið skal veitt til 30 mánaða og skal það endurgreitt, að meðtöldum vöxtum, með tólf jöfnum greiðslum síðustu tólf mánuði lánstímans.

Stuðningslán er óverðtryggt og ber sömu vexti og vextir af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni.  

Ekki verður krafist trygginga fyrir stuðningsláni.  

Hins vegar skal umsækjandi staðfesta við umsókn að hann uppfylli þau skilyrði sem tilgreind eru, eftir atvikum eins og þau verða útfærð í reglugerð ráðherra, að upplýsingar sem hann skilar og liggja til grundvallar ákvörðun lánsfjárhæðar séu réttar og að honum sé kunnugt um að það geti varðað álagi, sektum eða fangelsi að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.  

Lánastofnun er heimilt að innheimta þóknun, sem skal dregin frá útborgun láns, til að standa undir kostnaði við umsýslu lána. Þóknunin skal að hámarki nema 2% af höfuðstól láns.

Lánið verður afgreitt hjá lánastofnun þeirri sem rekstraraðili tilgreinir í umsókn.

Ef rekstraraðili skráir öll viðeigandi gögn í umsóknarferlinu á island.is og þau uppfylla skilyrði fyrir veitingu láns, fær lánastofnun umsóknina rafrænt til afgreiðslu og ætti hún að geta veitt lánið innan nokkurra daga eftir að umsókn berst.   

Lánið má aðeins nýta til að standa undir rekstrarkostnaði lánþega og má ekki nýta til að borga af eða endurfjármagna önnur lán.

Hægt verður að sækja um lán til loka árs 2020.

Frestun skattgreiðslna lögaðila

Já. Fyrri aðgerðir miðuðust við að lögaðilar gætu frestað fyrirframgreiðslu tekjuskatts vegna 2019 fram á síðari hluta ársins 2020. Nánar tiltekið var lögaðilum heimilað val um hvort þeir greiddu fyrirfram upp í tekjuskatt vegna rekstrarársins 2019, en þær greiðslur voru á gjalddögum 1. apríl, 1. maí og 1. júní (eindagi mánuði síðar). 

Nú er ráðgert að ganga skrefinu lengra og lögaðilum með takmarkaða ábyrgð gefinn kostur á að fresta álögðum tekjuskatti vegna 2019 þegar álagning liggur fyrir, sem vænta má að verði í október, og jafna á móti tapi ársins 2020 þegar það raungerist við álagningu á árinu 2021, en fyrirséð er að mörg fyrirtæki munu skila hagnaði vegna rekstrar á árinu 2019 en tapi vegna rekstrar á árinu 2020. 

Fyrirtæki sem sjá fram á tap á yfirstandandi ári geta sótt um frekari frestun á greiðslu tekjuskatts þar til álagning ársins 2021, vegna rekstrar á árinu 2020, liggur fyrir og lækkað skattkröfuna sem nemur reiknaðri skatteign af tapi ársins, að uppfylltum skilyrðum laganna. Samkvæmt núgildandi skattalögum er heimilt að færa tap yfir á næstu 10 rekstrarár (yfirfæranlegt tap) en ekki hefur verið heimilt að færa tap yfir á fyrri ár (afturfæranlegt tap), sem nú er lagt til að verði gert. Aðgerðin mun styrkja lausafjárstöðu fyrirtækja og rekstur þeirra og gera fyrirtækjum betur kleift að takast á við þær krefjandi aðstæður sem nú eru uppi vegna Covid-19.  

Tilkynna skal Skattinum um þá fjárhæð sem hann kýs að fresta þegar álagning árið 2020 liggur fyrir og í síðasta lagi 15. nóvember nk. á því formi sem Skatturinn ákveður en gera má ráð fyrir að á þeim tíma ætti að vera ljóst hvort tap verði á yfirstandandi rekstrarári eða ekki.

Já. Hámark þess skatts sem heimilt verður að fresta greiðslu á er 20 m.kr. en það samsvarar 100 m.kr. skattskyldum hagnaði lögaðila (skattstofni). Miðast úrræðið þannig fyrst og fremst að litlum og meðalstórum fyrirtækjum en um 98% þeirra fyrirtækja sem skiluðu hagnaði í álagningu 2019, vegna rekstrarársins 2018, voru með skatt til greiðslu undir 20 milljónum króna. 

Álagningu skatts á árinu 2020 sem frestað er fram að álagningu ársins 2021 og sem jafnað er á móti skatteign ber ekki vexti. Ef hærri fjárhæð er frestað en sem jafnast á móti skatteign þá reiknast dráttarvextir á mismuninn líkt og frestun hafi ekki komið til. 

Í ákvæðinu kemur fyrir orðið „skatteign“ en með því er átt við skattverð taps. Í ákvæðinu er ráðgert að lögaðilar geti frestað álögðum skatti, þ.e. skattstofn * 20% skatthlutfall, og jafnað á móti tapi sem myndast á árinu 2020. Þar sem skattur verður ekki reiknaður af tapi þá er notað orðið skatteign sem reiknast sem tap * 20% skatthlutfall. Þannig verður hægt að jafna saman skatti og skatteign. 

Eftirgjöf skulda

Samkvæmt lögum um tekjuskatt er eftirgjöf skulda skattskyld sem stafa af atvinnurekstri. Á eftirhrunsárunum og allt til ársins 2014 voru sérreglur í gildi varðandi niðurfærslu skulda lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri vegna greiðsluerfiðleika. Er gert ráð fyrir að svipaðar reglur taki gildi vegna áranna 2020, 2021 og 2022 . Þannig er lögð til blönduð leið frestunar, dreifingar og skattfrelsis með ákveðnum skilyrðum í tengslum við eftirgjöf skulda sem hafa myndast í atvinnurekstri.

Já. Núgildandi kerfi skattívilnana samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki hefur stuðlað að arðbærum rannsóknum og þróun nýsköpunarfyrirtækja á undanförnum árum. Í ljósi ástandsins sem ríkt hefur vegna útbreiðslu COVID-19 eru nú lagðar fram frekari tillögur sem eru nauðsynlegar til að viðhalda því markmiði stjórnvalda að styðja við rannsóknir og tækniþróun nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Þetta er gert með hækkun á núverandi frádráttarhlutfalli frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja og með því að hækka núgildandi viðmiðunarfjárhæðir skattfrádráttar frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja. 

Breytingin lýtur að 5 prósentustiga hækkun, til bráðabirgða, á núverandi frádráttarhlutfalli frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar þeirra á rannsóknar- og þróunarverkefnum sem þau eru eigendur að og hlotið hafa staðfestingu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís). Frádráttarhlutfallið mun því hækka úr 20% í 25%.

Til bráðabirgða verða hækkaðar þær viðmiðunarfjárhæðir sem nú gilda um skattfrádrátt frá  álögðum tekjuskatti árnð 2021 og 2022 vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja. Annars vegar felur tillagan í sér að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 600 millj. kr. í 900 millj. kr., ef viðkomandi fyrirtæki er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum. Hins vegar er lagt til að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar á frádrætti hækki úr 900 millj. kr. í 1.100 millj. kr. þegar rannsóknar- og þróunarvinna er keypt af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun. Þessar hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum eru innan marka fyrrnefndrar reglugerðar um almenna hópundanþágu frá tilkynningarskyldu, nr. 651/2014. 

Já, lífeyrissjóðir fá heimild til að eiga 35% í stað 20% í hverjum nýsköpunarsjóði, þó ekki umfram 1% af heildareignum sínum. Með hækkun heimildarinnar þyrftu þrír lífeyrissjóðir að hafa aðkomu að sjóði, í stað fimm nú, sem auðveldar fjármögnun slíkra sjóða og styður við áætlun stjórnvalda um að bæta fjárfestingaumhverfi nýsköpunar hér á landi.  

Já. Ráðherra er veitt heimild til að útfæra í reglugerð fyrirkomulag fyrir rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla á árinu 2020. Þar verði m.a. litið til kostnaðar við laun og verktakagreiðslur vegna miðlunar frétta og fréttatengds efnis. Ennfremur verði litið til þess að minni aðilar hljóti hlutfallslega meiri stuðning og að tiltekið hámark verði á stuðningi við einstaka aðila. Gert er ráð fyrir að heildarfjárhæð stuðningsins nemi allt að 350 m.kr. 

Já, stefnt er að því að koma til móts við þennan vanda með lagabreytingu. Við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða sem heimili ferðaskrifstofum að endurgreiða ferðamönnum allar greiðslur vegna ferða sem eru afpantaðar eða þeim aflýst vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna í formi inneignarnótu sem verði innleysanleg að liðnum 12 mánuðum. Gert er ráð fyrir að heimildin afmarkist við ferðir sem hefur verið aflýst eða verið afpantaðar og áttu að vera farnar á tímabilinu 15. mars til og með 30. júní 2020.

Greiðsla hluta launa í uppsagnarfresti

Það felur í sér fjárstuðning úr ríkissjóði til að standa undir greiðslu á hluta launakostnaðar atvinnurekenda á uppsagnarfresti launþega. Markmiðið er að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og styrkja réttindi launamanna sem sagt er upp störfum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstri og orsakir þeirra eru raktar beint eða óbeint til ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem að öðru leyti hafa skapast vegna faraldurs kórónuveiru
Úrræðið tekur til þeirra atvinnurekenda sem hófu starfsemi fyrir 1. desember 2019 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á Íslandi. Það gildir ekki um stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.
  • Uppsögn launamanns, sem ráðinn var fyrir 1. maí 2020, vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna faraldurs kórónuveiru.
  • Meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda hafi dregist saman um a.m.k. 75% frá 1. mars 2020 til uppsagnardags launamanns m.v. tiltekin fyrri tímabil.
  • Atvinnurekandi skal ekki hafa ákveðið að greiða út arð, lækka hlutafé, greiða óumsamda kaupauka eða keypt eigin bréf eða ráðist í sambærilegar aðgerðir frá 15. mars 2020.
  • Atvinnurekandi skal ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattsektir sem komin voru á eindaga fyrir lok árs 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum. Hann skal hafa staðið skil á skattframtölum og fylgigögnum og öðrum skýrslum og skilagreinum þ.m.t. CFC skýrslum til Skattsins sl. þrjú ár áður en umsókn barst og staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur.
  •  Bú atvinnurekanda hafi hvorki verið tekið til gjaldþrotaskipta né slita.
  • Atvinnurekandi skal hafa staðið skil á staðgreiðslu skatts af launum viðkomandi mánaðar.

Sú kreppa sem við göngum nú í gegnum er tímabundin. Viðspyrnan kemur þó óvíst sé hversu lengi þurfi að bíða hennar. Undirstöður hagkerfisins eru góðar til að takast á við þá áskorun að byggja upp öflug fyrirtæki bæði á útflutningsmarkaði og heimamarkaði og vinna til baka markaði sem lokuðust vegna COVID-19. Sérstaklega er mikilvægt að byggja upp atvinnugreinar sem byggja á nýsköpun og ótakmörkuðum auðlindum hugvits sem hraða munu uppbyggingu, fjölga störfum og auka hagvöxt. Um það fjalla þær aðgerðir sem snúa beint að sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum:

  • Efling nýsköpunar: Auknar R&Þ endurgreiðslur og styrkir
  • Fjármögnun sprota: Mótframlög og fjárfestingar í sprota- og vaxtarfyrirtækjum
  • Aukning innlendrar verðmætasköpunar: Nýr matvælasjóður til að efla nýsköpun og markaðssetningu, aukning á listamannalaunum

Sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðlar

Hlutfall og þak endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunarstarfs verður hækkað. Vegna aukins fjölda umsókna munu framlög til endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði verða aukin á þessu ári og leitast við að flýta endurgreiðslum vegna ársins 2019. Lögð verður til hækkun hlutfalls endurgreiðslna úr 20% í 25% og að hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hækki úr 600 m.kr í 900 m.kr hjá hverju fyrirtæki.

Endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunarstarfs hafa reynst áhrifarík leið til stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki. Þessi framlög hafa hækkað talsvert á síðustu árum, bæði vegna hækkunar á þaki endurgreiðslna en einnig vegna þess að umsóknum um slíkan stuðning hefur fjölgað mjög.

Tækniþróunarsjóður hefur verið efldur um 700 m.kr og ferli umsókna flýtt. Þessi auknu framlög munu skila sér í fleiri styrkúthlutunum nú á vordögum en einnig munu fleiri aðilar fá styrk við úthlutun sjóðsins að hausti. 

Þrjár aðgerðanna snúa beint að því að auka fjáfestingu í sprota- og -nýsköpunarfyrirtækjum:

  •  Stofnun sprota- og nýsköpunarsjóðsins Kríu verður flýtt
  • Stuðnings-Kría mun bjóða mótframlag til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum
  • Fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum verður rýmkuð úr 20% í 35%

Lögð verður áhersla á að stofnun sjóðsins verði flýtt svo hann geti komið til móts við stofnun nýrra sjóða þegar á þessu ári. 

Frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum hefur verið lagt fram en markmið frumvarpsins er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki með stofnun Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs, sem yrði sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins.

Stuðnings-Kría býður mótframlag til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Um er að ræða fjárfestingu í formi láns með vöxtum og breytirétti í samvinnu við fjárfesta og mun aðgerðin ganga undir heitinu „Stuðnings-Kría“. Þessari aðgerð er ætlað að vera tímabundinn stuðningur við bæði sprotafyrirtæki og fjárfesta í því ótrygga ástandi sem nú ríkir á árinu 2020 og að sama skapi nýtast sem upptaktur að þeirri auknu samvinnu stjórnvalda og fjárfesta sem stefnt er að með Kríu sprota- og nýsköpunarsjóði.  

Allmörg dæmi virðast vera um að sprotafyrirtæki sem voru langt komin með fjármögnunarsamninga við fjárfesta eða önnur vilyrði fyrir fjármögnun standi nú frammi fyrir mikilli fjárhagslegri óvissu vegna COVID-19. Til að koma til móts við lífvænleg sprotafyrirtæki munu stjórnvöld bjóða mótframlag til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Tvenns konar breytingar hafa verið gerðar á skattafsláttarkerfi fyrir einstaklinga varðandi hlutafjárkaup. Annars vegar felst breytingin í því að einstaklingar sem fjárfesta í félögum sem uppfylla ákveðin skilyrði munu geta dregið frá tekjuskattstofni sínum 75% í stað 50% af fjárfestingunni á hverju ári. Hins vegar felst í breytingunni að hámark skattfrádráttarins mun ekki lengur verða bundið við heildarfjárfestingu að 10 millj. króna á ársgrundvelli heldur 15 millj. kr. Breytingarnar taka til almanaksáranna 2020 og 2021 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árunum 2021 og 2022.

Samhliða stuðningi úr ríkissjóði til nýsköpunarfyrirtækja er mikilvægt að gera þeim aðilum sem hafa fjármuni til kleift að taka þátt í slíkum fjárfestingum á viðskiptalegum grunni. Hér á landi sækja vísisjóðir sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum (venture capital) aðallega fjárfestingu til lífeyrissjóða. Til að stuðla að meiri fjárfestingu lífeyrissjóða verður fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum rýmkuð úr 20% í 35%. 

Lífeyrissjóðir fá heimild til að eiga stærri hluta í hverjum nýsköpunarsjóði og allt að 1% af heildareignum sínum í slíkum sjóðum. Heildarfjárfesting þeirra í nýsköpunarsjóðum mun eftir breytinguna geta numið 50 mö.kr.

Lög um sjóðinn voru samþykkt á Alþingi 28. apríl 2020 og er unnið að stofnun sjóðsins til samræmis við ákvæði laganna, þ.m.t. með skipun stjórnar sem annast stefnumótun fyrir sjóðinn og ber ábyrgð á starfssemi hans.

Gert er ráð fyrir að skipting fjármagns til þessara atvinnugreina verði með sambærilegum hætti og nú er í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóð í sjávarútvegi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun á næstu dögum leggja fram lagafrumvarp á Alþingi um stofnun sjóðsins. Gert er ráð fyrir að skipuð verði stjórn fyrir Matvælasjóð við gildistöku laganna sem skuli þegar hefja vinnu við stefnumótun fyrir sjóðinn og undirbúning að starfsemi hans. Undirbúningur að stofnun sjóðsins hefur staðið yfir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu síðustu mánuði með aðkomu hagsmunaaðila.

Ráðgert er að auglýst verðir eftir umsóknum um styrki í ágúst eða september og að fyrsta úthlutun verði síðar í haust.

Ekki er gert ráð fyrir neinum takmörkunum á því hverjir geta sótt um styrki í sjóðinn, en val milli umsókna um stuðning mun ráðast af faglegu mati með hliðsjón af stefnumörkun fyrir sjóðinn.

Til stofnunar sjóðsins verður varið 500 m.kr. á árinu 2020. Á árinu 2021 bætast við þeir fjármunir sem nú renna í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóð í sjávarútvegi.

Framlög til Nýsköpunarsjóðs námsmanna verða aukin um 300 millj. kr á þessu ári til að gera námsmönnum kleift að starfa við nýsköpunarverkefni í allt að þrjá mánuði.  

Nýsköpunarfyrirtæki geta ráðið til sín starfsmenn af atvinnuleysisskrá til allt að sex mánaða í senn í samvinnu Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Auk þess verður leitað leiða til að gera fyrirtækjum mögulegt að halda starfsfólki í tímabundnu úrræði, vegna vinnu við nýsköpunarverkefni.  

Garðyrkjubændur

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Sambands garðyrkjubænda og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, sem er einn hinna fjögurra búvörusamninga. Markmið samkomulagsins er meðal annars að stuðla að framþróun og nýsköpun í garðyrkjunni með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum. Við næstu endurskoðun samningsins árið 2023 er markmiðið að framleiðsla á íslensku grænmeti hafi aukist um 25%, miðað við meðalframleiðslu áranna 2017 til 2019, meðal annars í því skyni að auka markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu. Í samkomulaginu er m.a. kveðið á um að garðyrkjan verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en 2040, fyrirkomulagi á niðurgreiðslum á raforku verði breytt, fjölbreyttari ræktun njóti beingreiðslna og greidd verði aukin framlög til rannsókna-, tilrauna- og þróunarstarfs og aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum í garðyrkju.

Auknir fjármunir verða lagðir í garðyrkjusamninginn sem nema 200 milljónum króna á ári. Aukningin kemur til framkvæmda strax á þessu ári.  Þeir nýtast m.a. til beingreiðslna vegna raforkukaupa, aðgerða í loftslagsmálum, þróunarverkefna og til fjölbreyttari ræktunar á grænmeti hér á landi.  

Já, samkvæmt samkomulaginu verður aukið við fjármagn til lýsingar að fjárhæð 70 m.kr.árlega út samningstímann. Þá verður fyrirkomulagi á niðurgreiðslum á raforku verði breytt með þeim hætti að ylræktendum verða tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar.

Markmið samkomulagsins er meðal annars að stuðla að framþróun og nýsköpun í framleiðslu garðyrkjuafurða með áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum og fjölþætta stefnumótun. Jafnframt er markmið samkomulagsins að við endurskoðun samningsins 2023 hafi framleiðsla á íslensku grænmeti aukist um 25%. Með því verður aukið við framboð og neyslu á garðyrkjuafurðum í samræmi við lýðheilsustefnu stjórnvalda og aukna vitund almennings um hollustu og heilbrigða lífshætti. Jafnframt mun það stuðla að fjölbreyttara framboði á garðyrkjuafurðum árið um kring á sanngjörnu verði fyrir neytendur. Með því að setja aukið fjármagn í samninginn eru skapaðar forsendur til að stuðla að aukinni framleiðslu á íslenskum garðyrkjuafurðum á þessu og næstu árum og með því stuðlað að framangreindum markmiðum til hagsbóta fyrir neytendur. 

Samningurinn var undirritaður þann 14. maí 2020 og verður settur á vefinn stjornarradid.is á næstu dögum. 

Sveitarfélög

Já, reglum Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er breytt í því skyni að auðvelda sveitarfélögum að ráðast fleiri framkvæmdir sem miða að því að bæta aðgengismál og starfsumhverfi fatlaðs fólks. Vænst er þess að framkvæmdir hefjist strax á komandi sumri.

Fyrir liggur að tekjur sjóðsins munu dragast verulega saman á þessu ári vegna minnkandi tekna ríkissjóðs og sveitarafélaga, sem mynda grundvöll fyrir tekjur hans. Óljóst er hve mikil lækkunin verður frá fyrstu áætlun en gera má ráð fyrir að þær verði á bilinu 4 til 5 milljarðar. Því verður 1,5 milljarði sem af bundnu fjármagni sjóðsins varið til greiðslu framlaga í ár og þannig dregið úr áhrifum af tekjufallinu í ár.

Frekari umræða um málefni sjóðsins verður tekin á vettvangi samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga. Það sama á við um aðgerðir sem snúa að sveitarfélögunum.

Settir verða 25 milljónir kr. í að þróa sjálfbærnilíkan fyrir sveitarfélögin sem ætlað að greina betur veikleika í búskap einstakra sveitarfélaga til að geta sett upp sviðsmyndir til að bregðast betur við þegar sambærilegar aðstæður koma upp, svo sem minnst rof verði á grunnþjónustu sem sveitarfélög bera ábyrgð á.

Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra hefur falið Byggðastofnun að vinna greiningu á þeim vanda sem við blasir á einstökum sveitarfélögum og svæðum sem tengist Covid-19 faraldrinum, m.a. vegna hruns ferðaþjónustunnar. Víða er atvinnuleysi af þeim sökum komið yfir 20% og ljóst að þar er við mikinn vanda að glíma. Að einhverju leyti munu átaksverkefni atvinnuleysistryggingasjóðs og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar mæta þeim erfiðleikum, en greina þarf frekar sértækar aðgerðir og áskoranir einstakra svæða.

Málefni Suðurnesja hafa verið til skoðunar í ráðherraskipaðri nefnd og er aðgerðaráætlun um málefni svæðisins á lokametrunum. Lagt er til að 250 milljónir króna fari til að framkvæmda áætlunina auk annarra framlaga og viðfangsefna sem eru á vegum einstakra ráðuneyta og sveitarfélaganna sjálfra. Þá verður ráðist í framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli á vegum Isavia fyrir um 4 milljarða sem eru veruleg innspýting fyrir atvinnulífið á svæðinu.

Veitt er 100 m.kr. til stafrænnar þróunar á vegum sveitarfélaga til að bæta þjónustu og auka samskipti. Breytingar hafa verið gerðar á sveitarstjórnarlögum sem tryggja að hægt sé að halda sveitarstjórnarfundi eingöngu í gegnum fjarfundarbúnað, en þetta er gott dæmi um hvernig hægt er að hagnýta nútímalega upplýsingatækniinnviði og þekkingu til góðs. Þegar hafa verið setti verulegir fjármunir í stafræna þróun á vegum ríkisins og er framlaginu ætlað að tryggja sambærilega þróun hjá sveitarfélögunum.

Í gegnum byggðaáætlun verði hægt að veita 30 m.kr. stuðning til fámennra byggðarlaga og dreifbýlla svæða þar sem eru að takast á við sérstakar áskoranir tengdar covid-19 faraldursins á m.a. sviði félagslegar þjónustu.
Já, endurgreiðsluheimildin er nú útvíkkuð til sveitarfélaga. Þau munu fá endurgreiddan VSK af kostnaði við vinnuliðinn við nýbyggingu, endurbætur eða viðhald húsnæðis, einnig þótt ekki sé um íbúðarhúsnæði að ræða. Heimildin er hliðstæð þeirri heimild sem gilti á árunum 2009-2014.
Lagt er til að sett verði ákvæði í lög þar sem Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði veitt heimild til að nýta fjármuni Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða almenn framlög, grunnskólaframlög og framlög vegna málefna fatlaðs fólks á árinu 2020. Tilgangur lagaákvæðisins er að minnka áhrif tekjutap sjóðsins vegna Covid-19 á almenn framlög sjóðsins ársins 2020.
Síðast uppfært: 27.4.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum