Hoppa yfir valmynd

COVID-19: Aðgerðir og ráðstafanir

 

Stjórnvöld hafa kynnt til sögunnar fjölda efnahagsúrræða vegna heimsfaraldursins sem nýtast heimilum og fyrirtækjum með beinum hætti. Eftirfarandi er yfirlit yfir virkar aðgerðir.

FYRIRTÆKI

Viðspyrnustyrkir eru ætlaðir rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins.

Hægt er að sækja um styrkina á þjónustuvef Skattsins.

Í lögum um styrkina kemur fram að rekstraraðilar sem hafa vegna heimsfaraldursins orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til og með 30. nóvember 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk.
Styrkfjárhæð verður ekki hærri en 90% af rekstrarkostnaði umsækjanda. Að auki eru eftirfarandi

Þrjú viðmið sett fram um styrkfjárhæðir:

40-60% tekjufall: 300 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 1,5 milljónir króna.

60–80% tekjufall: 400 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2 milljónir króna.

80–100% tekjufall: 500 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2,5 milljónir króna.

Heimilt er að miða við fjölda stöðugilda við fjölda þeirra í sama mánuði 2019.

Upplýsingar vegna ríkisaðstoðar

Viðspyrnustyrkir fela í sér ríkisaðstoð. Hámarksstuðningur er 260 m.kr. að meðtöldum lokunarstyrkjum fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020, tekjufallsstyrkjum og ferðagjöf. Sé um fyrirtæki í erfiðleikum að ræða takmarkast heildarfjárhæð til viðkomandi rekstraraðila við 30 millj.kr. í samræmi við reglur um minniháttaraðstoð.

Frekari upplýsingar er að finna á Ísland.is

 

 

Úrræðið nær til þeirra sem er gert að loka eða stöðva starfsemi samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra. Þetta á til dæmis við um hárgreiðslustofur, krár, líkamsræktarstöðvar, skemmtistaði, spilasali, snyrtistofur, húðflúrstofur, söfn, og sundlaugar.
Styrkirnir taka við af lokunarstyrkjum sem veittir voru í fyrstu bylgju farsóttarinnar. Framhaldslokunarstyrkirnir miðast ekki lengur aðeins við takmarkanir sóttvarnaryfirvalda sem þegar hafa komið til framkvæmda heldur taka einnig til frekari takmarkana sem kunna að koma til síðar.

Upplýsingar vegna ríkisaðstoðar

Lokunarstyrkir fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 fela í sér ríkisaðstoð. Hámarksstuðningur er 120 m.kr. að meðtöldum viðspyrnustyrkjum, tekjufallsstyrkjum og ferðagjöf. Sé um fyrirtæki í erfiðleikum að ræða takmarkast heildarfjárhæð til viðkomandi rekstraraðila við 25 millj.kr. í samræmi við reglur um minniháttaraðstoð

Sótt er um styrkinn á vef Skattsins 


Framlengdur umsóknarfrestur

Almennur umsóknarfrestur um lokunarstyrki sem veittir voru vegna fyrri hluta ársins 2020 var til og með 1. september 2020 og um viðbótarlokunarstyrki til og með 1. október 2020.  Skattinum hefur verið heimilað að taka til afgreiðslu umsóknir sem berast eftir þann tíma allt til 30. september 2021. Hafi rekstraraðili ekki sótt um innan almenns frests en telur sig geta átt rétt á lokunarstyrk vegna lokana í mars til maí 2020 er hægt að senda erindi til Skattsins þar um en slíkar umsóknir er ekki unnt að senda rafrænt.

Lokunarstyrkir sem veittir voru á fyrri hluta ársins 2020 eru ætlaðir fyrirtækjum sem skylt var að loka eða stöðva starfsemi vegna samkomubanns á tímabilinu 24. mars til 3.maí 2020. Þetta á til dæmis við um hárgreiðslustofur, krár, líkamsræktarstöðvar, nuddstofur, sjúkraþjálfun, skemmtistaði, snyrtistofur, húðflúrstofur, söfn, spilasali, sundlaugar og tannlækna. Stjórnvöld veita þessum aðilum styrki til að bæta upp hluta tekjufalls og hjálpa þeim að standa undir föstum kostnaði sem fallið hefur til í rekstri þeirra.

Viðbótarlokunarstyrkir eru ætlaðir þeim sem var gert að hafa lokað lengur eða á tímabilinu 4. maí til 25. maí 2020

Í desember 2020 var samþykkt framhald lokunarstyrkja og um þá styrki er hægt að sækja á vef Skattsins

Nánar:

Ráðningarstyrkir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki

Nú er auðveldara fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að ráða fólk og búa sig undir bjartari framtíð en fyrirtæki sem hafa færri en 70 starfsmenn geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur með ríflegum stuðningi. Hverjum nýjum starfsmanni fylgir allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð, í allt að sex mánuði og getur fyrirtækið ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til heildarfjöldi starfsfólks er orðinn70. Ráðningartímabilið er sex mánuðir á tímabilinu frá apríl til desember 2021.

Frekari upplýsingar má finna á hefjumstorf.is

Ráðningarstyrkir fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum

Þá geta fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum nýtt sér ráðningarstyrki sem auðvelda atvinnurekendum að ráða starfsfólk og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem eru án atvinnu. Með ráðningarstyrk getur atvinnurekandi fengið fullar grunnatvinnuleysisbætur með hverjum atvinnuleitanda sem hefur verið án vinnu í 30 daga eða lengur í allt að sex mánuði með hverjum nýjum starfsmanni, eða 307.430 krónur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ekkert þak er á fjölda starfsmanna sem fyrirtæki geta ráðið með þessu úrræði.

Frekari upplýsingar má finna á hefjumstorf.is

Ráðningarstyrkir fyrir sveitarfélög og opinberar stofnanir

Til að koma til móts við þann hóp sem er við það að fullnýta bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur ekki fengið atvinnu við lok bótatímabilsins verður farið í sérstakar aðgerðir til að aðstoða einstaklinga í þessum hópi við að komast aftur inn á vinnumarkað. Þannig greiðir Vinnumálastofnun ráðningastyrk í allt að sex mánuði, og er heimilt að lengja um aðra sex fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, vegna ráðningar einstaklinga sem eru við það að ljúka bótarétti. Er stofnuninni heimilt að greiða ráðningarstyrki sem nema fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Skilyrði er að ráðinn sé einstaklingur sem á sex mánuði eða minna eftir af bótarétti.
Þá er sveitarfélögum einnig heimilt að ráða til sín einstaklinga sem fullnýttu bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingarkerfisins á tímabilinu 1. október. til 31. desember 2020.

Frekari upplýsingar má finna á hefjumstorf.is

Ráðningarstyrkir fyrir félagasamtök

Félagasamtökum, sem rekin eru til almannaheilla og án hagnaðarsjónarmiða, er gert kleift að stofna til tímabundinna átaksverkefna í vor og sumar með ráðningarstyrk sem nemur fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Þá verður greitt 25% álag til þess að standa straum af kostnaði við verkefnin, svo sem við landvernd, viðhald göngustíga, landhreinsun, gróðursetningu, íþróttir og afþreyingu fyrir börn og unglinga og svo framvegis. Skilyrði fyrir ráðningarstyrk er að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur.

Frekari upplýsingar má finna á hefjumstorf.is

Markmið aðgerðarinnar er að gera launagreiðendum kleift að fresta skilum á staðgreiðslu skatts og tryggingagjaldi á árunum 2020 og 2021.

Aðgerðin var lögfest með lögum nr. 17/2020 og 25/2020, er breyttu lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald. Fyrrnefndu lögin heimiluðu frestun á skilum helmings fjárhæðar sem var á gjalddaga 1. mars um mánuð. Síðarnefndu lögin heimiluðu frestun á allt að þremur gjalddögum á tímabilinu 1. apríl-1. desember 2020 fram til 15. janúar 2021. Í desember 2020 var tveimur gjalddögum bætt við sem heimila frestun og skulu þeir vera á tímabilinu 1. janúar 2021-1. desember 2021 og skal nýr gjalddagi og eindagi þeirra vera 15. janúar 2022, sbr. lög nr 141/2020.

Fármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp um framlengdan frest þeirra sem hafa fengið frest til greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds 2020 með gjalddaga í júní, júlí og ágúst 2021 geti sótt um að dreifa þeim greiðslum í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur með fyrsta gjalddaga 1. júlí 2022.

Sótt er um úrræðið hjá Skattinum.

Umsókn launagreiðanda um frestun skal hafa borist í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils skv. 1. mgr. 20. gr. á því formi sem Skatturinn ákveður.

 

 

Úrræðið veitir fyrirtækjum í fjárhagslegum erfiðleikum vegna heimsfaraldursins heimild til greiðsluskjóls í allt að ár. Fyrirtæki í greiðsluskjóli geta meðan á greiðsluskjóli stendur samið við kröfuhafa með fulltingi sérstaks aðstoðarmanns, lögmanns eða löggilts endurskoðanda sem fyrirtækið tilnefnir sjálft sér til aðstoðar. 

Helstu skilyrði

 • Að lögaðilinn heyri undir lögsögu dómstóla hér á landi.
 • Atvinnustarfsemi hans hafi byrjað ekki síðar en 1. desember 2019.
 • Hann hafi greitt einum manni eða fleiri laun í desember 2019 og janúar og febrúar 2020 sem svari hið minnsta til lágmarkslauna fyrir fullt starf í hverjum þessara mánaða.
 • Samanlagður áætlaður rekstrarkostnaður og skuldir hans sem falla í gjalddaga á næstu tveimur árum séu meiri en heildarfjárhæð andvirðis peningaeignar hans, innstæðna, verðbréfa og krafna á hendur öðrum.

Beiðni um fjárhagslega endurskipulagningu skal beint til héraðsdóms þegar rekstraraðili hefur ráðið lögmann eða löggiltan endurskoðanda til aðstoðar.

Upplýsingar er um fjárhagslega endurskipulagningu á Ísland.is 

Alþjóðlegt markaðsverkefni í þágu íslenskrar ferðaþjónustu er hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins. Verkefnið er starfrækt á völdum erlendum mörkuðum. Markmið þess er að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina. Verkefnið er unnið í samræmi við framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 sem ber yfirskriftina „Leiðandi í sjálfbærri þróun“ og langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning. Verkefnið var boðið út í samræmi við ákvæði laga og reglna þar að lútandi. Alþjóðlega auglýsingastofan M&C Saatchi og íslenska auglýsingastofan Peel urðu hlutskörpust og stýra stefnumörkun, hugmyndavinnu, almannatengslum, hönnun og framleiðslu markaðsefnis fyrir verkefnið en Íslandsstofa sér um framkvæmd þess.


Gistináttaskattur hefur verið afnuminn út árið 2021. Auk þess var gjalddagi gistináttaskatts sem búið var að innheimta í janúar til apríl 2020 færður til 5. febrúar 2022.
Sprota og nýsköpunarsjóðurinn Kría hefur verður settur á laggirnar og framlögum í sjóðinn flýtt. Sjóðurinn hefur það hlutverk að fjárfesta í öðrum sérhæfðum sjóðum sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, svokölluðum vísisjóðum eða venture capital sjóðum. Markmið með Kríu er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

Framlag til Kríu sprota og nýsköpunarsjóðs verður allt að 650 milljónum króna á þessu ári, að því gefnu að fjárfestingasjóðir sæki um mótframlag til stjórnvalda. 

Nánar:

Skipuð var sérstök stjórn um Kríu sprota- og nýsköpunarsjóð.

Frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum var samþykkt á Alþingi sumarið 2020. 

 


Tækniþróunarsjóður hefur verið efldur um 700 m.kr og ferli umsókna flýtt. Fjárhæðin nemur 700 milljónum og verður nýtt til fjármögnunar nýrra verkefna á þessu ári. Þessi auknu framlög munu skila sér í fleiri styrkúthlutunum og þannig skila sér í fleiri atvinnutækifærum á sviði tækniþróunar og nýsköpunar.  

Framkvæmdaraðili er Rannís

 

150 milljón króna framlag til átaksverkefnis sem komið er í framkvæmd.

Framkvæmdaraðili er Stafrænt Ísland

 

Heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum hækkuð úr 20% í 35% en búið er að samþykkja á Alþingi frumvarp þess efnis. 

EINSTAKLINGAR

Atvinnuleitendur geta hafið fullt nám og fengið fullar atvinnuleysisbætur í eina önn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eftir fyrstu önnina tekur Menntasjóður námsmanna við.

Fjármögnun er tryggð fyrir allt að 3.000 atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og vilja skrá sig í nám á vorönn 2021, haustönn 2021 eða vorönn 2022.

Átakið „Nám er tækifæri“ afmarkast við starfs- og tækninám í framhaldsskólum eða háskólum en fyrirsjáanlegur skortur er í þeim geirum. Einnig er hægt að velja innan átaksins að fara í margskonar aðfararnám (brúarnám) eða nám í heilbrigðis- og kennslugreinum, en þar er einnig fyrirsjáanlegur skortur á starfsfólki í framtíðinni. Kjósi atvinnuleitendur að hefja nám undir formerkjum Náms er tækifæri mun það ekki hafa áhrif á bótarétt.

Frekari upplýsingar vef Vinnumálastofnunar – Nám er tækifæri


Úrræðið gildir út árið 2021.

Í því skyni að auðvelda einstaklingum og heimilum að standa af sér þær aðstæður sem sköpuðust vegna heimsfaraldursins var m.a. ákveðið að gera fólki kleift að taka út séreignarsparnað til frjálsra nota. Er markmiðið annars vegar að gera fólki kleift að nýta eigin sparnað til að mæta djúpri en tímabundinni efnahagslægð. Einnig er hægt að nota sparnaðinn til að auka útgjöld sem eykur eftirspurn í efnahagslífinu.  Hámarksútgreiðsla er 12 m.kr. yfir 15 mánaða tímabil og útgreiðsla hvers mánaðar nemur að hámarki 800 þúsund krónum. 

 

Tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að vera sýktir, samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, heimilaðar áfram á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.

Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi greiði launþega laun en geti svo gert kröfu á ríkissjóð til endurgreiðslu upp að vissri hámarksfjárhæð. Það sama gildir um sjálfstætt starfandi einstaklinga hafi þeir þurft að leggja niður störf vegna sóttkvíar á framangreindu tímabili. Greiðslur taka mið af heildarlaunum í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem einstaklingur er í sóttkví. Greiðslurnar verða aldrei hærri en 633.000 kr. á mánuði, eða 21.100 kr. á dag.

Gert er ráð fyrir að atvinnurekandi greiði launþega laun en geti svo gert kröfu á ríkissjóð til endurgreiðslu upp að vissri hámarksfjárhæð. Það sama gildir um sjálfstætt starfandi einstaklinga sem þurftu að leggja niður störf vegna sóttkvíar á framangreindu tímabili.

Vinnumálastofnun annast framkvæmd laga um tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví og á vef stofnunarinnar er hægt að sækja um. 

Nánar:

Spurt og svarað um laun í sóttkví

Gripið hefur verið til sértækra aðgerða til að tryggja þjónustu og stuðning við viðkvæma hópa á tímum COVID-19, og í kjölfar faraldursins. Um er að ræða meðal annars aldraða, fatlað fólk, innflytjendur og flóttafólk, fanga, heimilislausa  og börn og fjölskyldur þeirra. Sérstök áhersla er lögð á að vinna gegn félagslegri einangrun með eflingu félagsmiðstöðva fyrir eldri borgara og öryrkja, aukinn félagslegan stuðning fyrir fjölskyldur á landsvísu með sérstakri áherslu á stuðning við fötluð börn og fjölskyldur þeirra sem og börn af erlendum uppruna.
Skipað hefur verið tímabundið aðgerðateymi  til að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða sem miða að verndun viðkvæmra hópa. Meðal aðgerða er áframhaldandi vitundarvakning um ofbeldi gegn börnum sem felst meðal annars í því að efla og vekja athygli á úrræðum eins og 112 , Hjálparsímanum 1717 og netspjallinu 1717.is. Stuðningur til þjónustuaðila sem sinna ráðgjöf fyrir bæði þolendur og gerendur ofbeldis hefur verið aukinn. Þá var starfsemi Barnahúss styrkt sérstaklega með það að markmiði að draga úr bið eftir þjónustu.

Sýnt hefur verið fram á að samfélagslegum áföllum fylgir oft aukin áfengis- og vímuefnaneysla, ofbeldi og fleiri neikvæð mynstur sem þarf að koma í veg fyrir eins og hægt er með forvörnum og frekari aðgerðum. Aðgerðirnar eru miðaðar sérstaklega að viðkvæmum hópum, þar með talið börnum, konum af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðu fólki, sem reynslan hefur sýnt að eru í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Aðgerðateyminu er jafnframt falið að fylgja eftir öðrum almennum aðgerðum er lúta að fræðslu, þjónustu og stuðningi vegna ofbeldis í samræmi við tillögur í áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019-2022, sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2019.


Þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi hefur mikið forvarnargildi og stuðlar að aukinni velferð þeirra. Þegar efnahagsþrengingar verða er mikil hætta á að fyrstu aðgerðir fjölskyldna verði að draga úr íþrótta- og tómstundastarfi barna. Miðað við núverandi tölur má ætla að börn sem eru í hættu á að detta úr tómstunda- og frístundastarfi séu um 8 þúsund börn. Með aukningu í fjölda þeirra sem munu mögulega þiggja atvinnuleysisbætur má ætla að þessi fjöldi hækki töluvert og nái jafnvel um 12 þúsund börnum. Strax í haust verður lagt fram viðbótarframlag vegna tómstundastarfs barna sem búa á tekjulágum heimilum. Aðgerðin jafnar tækifæri barna til þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi þrátt fyrir efnahagsþrengingar.

Á vefnum Ísland.is getur þú kannað hvort þú eigir rétt á styrk

Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fer úr þremur mánuðum í sex mánuði, enda séu ákveðin skilyrði uppfyllt, og hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði. Greiðslur launa vegna einstaklinga í sóttkví munu einnig halda áfram.
Markmiðið með framlengingu á rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex mánuði er að komið til móts við einstaklinga sem orðið hafa fyrir atvinnumissi vegna Covid-19 faraldursins og munu búa við skerta möguleika á atvinnu næstu misseri. Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði tekur gildi þegar lögin verða samþykkt og gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta réttinn fyrir 1. október 2021.
Hægt er að sækja um atvinnuleysisbætur á vef Vinnumálastofnunar


AÐGERÐIR FYRIR ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSFÉLÖG

Vinnumálastofnun annast framkvæmd laga nr. 155/2020 um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Markmið laganna er að stuðla að því að íþróttafélög geti hafið óbreytta starfsemi að nýju eftir að þeim hefur verið gert að fella niður starfsemi á tilteknu tímabili vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Með þessu er stefnt að því að sem minnstar raskanir verði á íþróttastarfi til lengri tíma litið vegna faraldursins.

Lögin taka til greiðslna vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna hjá íþróttafélögum og öðrum samböndum sem starfa innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 og þurftu að fella niður starfsemi tímabundið, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnarráðstafana á tímabilinu 1. október 2020 til og með 30. júní 2021. Umsóknir um greiðslur skulu berast Vinnumálastofnun fyrir 30. september 2021. Eftir þá dagsetningu fellur réttur til greiðslu niður.

Nánari upplýsingar eru á vef Vinnumálastofnunar


HAGKERFIÐ

Í því skyni að örva hagkerfið ákváðu stjórnvöld að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað vegna vinnu við byggingu, endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði úr 60% í 100% frá 1. mars til og með 31. desember 2021. Samhliða hækkun endurgreiðsluhlutfallsins var úrræðið útvíkkað og einnig látið ná til frístundahúsnæðis og hönnunar og eftirlits við framangreind húsnæði. Úrræðið var einnig á sama tímabili látið ná til annars húsnæðis í eigu sveitarfélaga, eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu þeirra vegna byggingar, endurbóta og viðhalds. Þá var jafnframt ákveðið að láta úrræðið á sama tímabili ná til heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis sem og bílaviðgerða, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Loks var ný heimild tekin upp fyrir mannúðar- og líknarfélög, íþróttafélög og björgunarsveitir og deildir þeirra til óska eftir endurgreiðslu á 100% virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað á tímabilinu 1. mars til og með 31. desember 2021 við byggingu, endurbætur eða viðhald á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra.

Skatturinn sér um framkvæmd endurgreiðslna. Hægt er að sjá nánari upplýsingar um ofangreind úrræði á vef Skattsins.

 

 

Til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu hefur ríkisstjórnin ákveðið að ráðast í átak í fjárfestingu. Fjárfestingarátakið felst í því að hefja nýjar fjárfestingar eða flýta áður fyrirhuguðum fjárfestingum til þess að skapa störf. Með því er ætlað að sporna gegn aukningu í atvinnuleysi og auka framleiðni til lengri tíma. Fjárfestingarátakið felst meðal annars í fjárfestingu í samgöngumannvirkjum eins og fækkun einbreiðra brúa og bættum vegasamgöngum, Viðhald og endurbætur fasteigna, hafna og flugvalla um land allt. Jafnframt var leitast við að skapa fjölbreytt störf sem hafa jákvæð áhrif á umhverfismál og framleiðni. Má þar nefna orkuskipti í samgöngum, rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar og átak í upplýsingatækni til að bæta þjónustu ríkisins.
 

Spornað gegn útbreiðslu Covid-19

Fréttir sem tengjast Covid-19

Áhrif á jafnrétti

Á þessu svæði er annars vegar farið yfir áhrif ákveðinna mótvægisaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19 á stöðu kynjanna á Íslandi og hins vegar greint frá þeim aðgerðum sem sérstaklega var ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna.

Spornað gegn útbreiðslu Covid-19 á Íslandi

Viðbrögð vegna kynbundins ofbeldis gegn konum og börnum

Það er þekkt staðreynd að heimilisofbeldi, og þá sérstaklega ofbeldi karla gegn konum og börnum, eykst í tíð heimsfaraldra á borð við COVID-19. Innilokun á heimilum eykur líkurnar á heimilisofbeldi enn frekar þegar konur og börn einangrast með ofbeldisfullum maka. Samkvæmt nýjustu tölum lögreglunnar á höfuðborgar-svæðinu hefur tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgað um 21% í samanburði við síðastliðin þrjú ár. Vísbendingar frá sveitarfélögum og þeim aðilum sem koma að heimilisofbeldismálum benda þó til að aukningin sé meiri í raun, enda er ekki gefið að þolendur heimilisofbeldis leiti sér aðstoðar strax. Tilkynningum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um kynferðisbrot í samanburði við síðastliðin þrjú ár hefur fækkað um 16%. Á hinn bóginn þá hafa verið skráð 14% fleiri kynferðisbrot en að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár.

Ein mikilvægasta aðgerð stjórnvalda gegn ofbeldi hefur verið að leitast við að lágmarka samfélagsleg áhrif sóttvarnaaðgerða vegna COVID-19. Þannig hefur leik- og grunnskólum að mestu verið haldið opnum og ekki hefur verið gripið til útgöngubanns líkt og víða um heim. Þjónustuúrræði gegn ofbeldi lokuðu ekki og aðlöguðu starfsemi sína að sóttvarnarreglum.

Aðgerðir gegn ofbeldi

 • Skipað var aðgerðateymi gegn ofbeldi í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi. Neyðarnúmerið 112 hefur verið eflt og þróað með þeim hætti að þangað verði hægt að leita vegna heimilisofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Vefsvæði 112 er allsherjar upplýsingatorg um ofbeldi fyrir upplýsingar um þjónustu og úrræði á vegum opinberra aðila, félagasamtaka og einkaaðila.
 • Boðið er upp á beint netspjall við neyðarverði og það tengt við netspjall Heilsuveru og Hjálparsímanum 1717.
 • Opnað var kvennaathvarf á Akureyri í tilraunaskyni.
 • Stuðningur var aukinn við börn í viðkvæmri stöðu sem eru líkleg til að beita ofbeldi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var styrkt, þannig að teymi lögreglumanna starfaði með ungum gerendum og fræðsluefni um ofbeldi var dreift til ungs fólks.
 • Farið var í markvissa vitundarvakningu gegn heimilisofbeldi, úrræði voru gerð sýnilegri á samfélagsmiðlum, fræðsla aukin og upplýsingum dreift víða.
 • Unnið er að frekari tillögum á vegum aðgerðateymisins er m.a. snúa að gerendum, húsnæði fyrir þolendur, forvörnum og fræðslu til foreldra og barna og ungmenna og aðgerða vegna ofbeldis gegn fötluðu fólki. Lögð er áhersla á þróun tæknilausna í tíð COVID-19, til að vinna gegn ofbeldi og að þær lausnir nýtist áfram að loknum heimsfaraldrinum.

Styrkir til frjálsra félagasamtaka og sveitarfélaga

 • Samtök um kvennaathvarf voru styrkt um 100 m.kr. til að bæta húsakost félagsins svo þjónusta Kvennaathvarfsins væri aðgengileg öllum konum og börnum.
 • Stígamót, ráðgjafar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi, var styrkt um 20 m.kr. til þess að bregðast við auknu álagi í þjónustu samtakanna og til að draga þar með úr biðtíma eftir þjónustu.
 • Félagasamtök sem sinna viðkvæmum hópum voru styrkt um 55 milljónir króna til að bregðast við auknu álagi og styðja við skjólstæðinga sína almennt vegna COVID-19.
 • Reykjavíkurborg var styrkt um 85 mkr. til að fjármagna tímabundið húsnæði fyrir heimilislausa með fjölþættan vanda, þ.m.t. húsnæði fyrir konur sem sætt hafa ofbeldi.
 • Veittar voru 25 mkr. í styrki til verkefna sem fela í sér aðgerðir gegn ofbeldi með áherslu á samstarf frjálsra félagasamtaka og opinberra aðila.
 • Unnið er að þróun tæknilausnra til að vinna gegn ofbeldi með það fyrir augum að þær nýtist áfram að faraldrinum loknum.

Áhrif á heilsu

Heilsa karla og kvenna er ólík og karlar eru líklegri til að veikjast alvarlega vegna COVID-19. Konur eru að jafnaði undir meira álagi vegna aukinnar umönnunar- og heimilisábyrgðar vegna COVID-19, auk þess að vera líklegri til að skipa framlínuna við álagsstörf tengd faraldrinum. Oft eru þessi álagsstörf, láglaunastörf og umbun því ekki í samræmi við áhættuna.

Konur sinna frekar þeim störfum sem teljast til grunnþjónustu á tímum COVID-19 faraldursins og eru því útsettari fyrir smiti. Konur sem vinna í heilbrigðisgeiranum vinna að jafnaði í meira návígi við sjúklinga en karlar sem starfa innan sama geira. Slík kynjaskipting innan heilbrigðisgeirans er þekkt og sama mynstur er til staðar í flestum ríkjum Evrópu. Álag á heilbrigðiskerfið og aðrar takmarkanir hafa víðtæk áhrif og þá meiri áhrif á konur en karla vegna fæðingar- og mæðraeftirlits.

Hlífðarbúnaður og álagsgreiðslur tryggðar

 • Hlífðarbúnaður hefur verið tryggður fyrir starfsfólk spítala og aukið eftirlit er með heilsu starfsfólks Landspítalans.
 • Einn milljarður króna var settur í sérstakar álagsgreiðslur til starfsfólks sjúkrahúsa- og heilbrigðisstofnana sem starfa undir miklu álagi. Greiðslurnar voru í formi eingreiðslna til starfsfólks í framlínunni á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og hjá heilsugæslunni.

Áhersla á mæðra- og fæðingarþjónustu

 • Á Íslandi hefur verið hugað sérstaklega að stöðu kvenna hvað varðar heilbrigðisþjónustu og gætt að því að halda mæðra- og fæðingarþjónustu gangandi.
 • Kortlagningu er lokið á heilsufari landsmanna út frá kynja- og jafnréttis-sjónarmiðum og tillögur að úrbótum sem taka betur mið af ólíkum þörfum kynjanna við heilbrigðisþjónustan komnar í farveg.

Áhrif á atvinnuþáttöku og ólaunaða vinnu

Vinnumarkaður á Íslandi er kynskiptur og eru konur líklegri til að vera frá vinnu vegna umönnunar barna þegar þjónusta skerðist. Álagið er sérstaklega mikið hjá einstæðum foreldrum. Þá hafa afar og ömmur ekki í sama mæli haft tök á að aðstoða fjölskyldur á tímum COVID-19 vegna smithættu sem eykur álagið enn frekar. Á landsvísu hefur lítill munur verið á atvinnuleysi milli kvenna og karla en nokkur munur er eftir landssvæðum og er atvinnuleysi hærra meðal kvenna en karla alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er ívið hærra meðal karla. Mestur er munurinn á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysið er mun meira meðal kvenna en karla. 

Skólum haldið opnum

 • Framlínustörf sem teljast til grunnþjónustu í COVID-19 eru þess eðlis að fólk hefur ekki kost á að sinna þeim í fjarvinnu. Það gerir fólki erfitt fyrir að bregðast við lokunum skóla, leikskóla o.s.frv.
 • Skólum og leikskólum hefur því verið haldið opnum með ákveðnum takmörkunum og fólki í framlínu og samfélagslega mikilvægum störfum gefinn rýmri aðgangur að skólum og leikskólum fyrir börn sín.

Umönnunarstyrkir

 • Styrkjum hefur verið úthlutað vegna umönnunar fatlaðra og langveikra barna. Félagslegur og fjárhagslegur stuðningur við fjölskyldur getur dregið úr álagi vegna ólaunaðra umönnunarstarfa sem konur eru mun líklegri til að sinna.

Efnahagsaðgerðir

Efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafa ólík áhrif á kynin þar sem þau búa við ólíka efnahagslega stöðu. Á Íslandi er kynskiptur vinnumarkaður og konur að jafnaði með lægri tekjur en karlar. Þá sýna rannsóknir og greiningar að konur fá síður úthlutað úr opinberum sjóðum og þá að jafnaði lægri fjárhæðir en karlar.

Einstaklingar og fjölskyldur

Hlutastarfaleiðin

 • Kynjaskipting umsækjenda um hlutabætur hefur verið í samræmi við hlut karla og kvenna á vinnumarkaði.
 • Það að greiðslur allt að 400.000 kr. á mánuði skerðist ekki gagnast sérstaklega þeim lægst launuðu og sú ráðstöfun er því líkleg til að stuðla að jafnrétti. Mikilvægt er þó að fylgjast áfram með þróun nýtingar úrræðisins og áhrifum útfærslu þess á konur og karla.

Tekjutengdar atvinnuleysisbætur 

 • Tekjutengdar atvinnuleysisbætur hafa verið lengdar tímabundið úr 3 mánuðum í 6 mánuði og þá hefur nýtingartímabilið einnig verið lengt. 
 • Í ljósi þess að karlar eru að meðaltali með hærri tekjur en konur hafa greiningar sýnt að karlar fá hærra hlutfall tekjutengdra atvinnuleysibóta en konur að teknu tilliti til kynjahlutfalls þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur.

Hefjum störf

 • Vinnuveitendur geta fengið styrk til að ráða einstaklinga af atvinnuleysisskrá. Sambærilegt hlutfall kvenna og karla eru á atvinnuleysisskrá en í ljósi þess að hlutfall karla á vinnumarkaði er hærra en kvenna eru fleiri karlar atvinnulausir. Ráðningar í gegnum átakið hafa verið í samræmi við kynjahlutfall meðal atvinnulausra.

Sérstakur barnabótaauki

 • Allir foreldrar með börn á framfæri fengu greiddan barnabótaauka 2020. Þeir sem fengu greiddar tekjutengdar barnabætur fengu 42.000 kr. en aðrir 30.000 kr.
 • Konur voru 56% þeirra sem fengu greiddan barnabótaauka en 59% af upphæðinni sem greidd var fór til kvenna. Konur voru þannig líklegri til að eiga rétt á greiðslunni. 
 • Þessi munur skýrist að miklu leyti af kynjaskiptingu í hópi einstæðra foreldra. 90% einstæðra foreldra sem fengu greiddan barnabótaauka eru konur og fengu 96% þeirra greidda hærri upphæðina en 86% einstæðra feðra.

Úttekt séreignarsparnaðar

 • Um 65% þeirra sem nýta sér úttekt á séreignarsparnaði eru karlar og hafa þeir tekið út sama hlutfall af heildar fjárhæðinni. Að meðaltali eru útgreiðslur hálf milljón króna og greiðslur til kvenna eru um 85% af greiðslum til karla.

Virkni í atvinnuleit og sumarúrræði fyrir námsmenn

 • Viðbótarfjármagni var veitt í Nýsköpunarsjóð námsmanna sumarið 2020 vegna COVID-19. Með þeim hætti studdi sjóðurinn við sumarvinnu 552 námsmanna í 358 rannsóknarverkefnum. Konur voru 55% styrkþega og karlar 45% og er hlutfall karla því nokkuð hærra en meðal háskólanema almennt. Árangurshlutfall kvenna og karla var þó sambærilegt. 
 • Boðið var upp á sumarnám í framhaldsskólum og háskólum bæði sumarið 2020 og 2021. Sumarið 2020 nýttu 658 einstaklingar sér sumarnám á framhaldsskóla-stigi, örlítið fleiri stúlkur en drengir sem er öfugt við kynja-skiptingu í framhaldsskólum almennt. Þá nýttu 4.913 einstaklingar sér sumarnám á háskólastigi og voru konur þar í meirihluta og kynjaskiptingin áþekk því sem almennt er í háskólum.
 • Með úrræðinu Nám er tækifæri er atvinnuleitendum gert kleift að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn frá og með vorönn 2021. Átakið afmarkast við starfs- og tækninám í framhaldsskóla eða háskóla, brúarnám eða flýtileiðir til annarrar prófgráðu, til dæmis í heilbrigðis- og kennslugreinum en þessar námsleiðir virðast ekki höfða jafnt til kvenna og karla. Örlítið fleiri karlar en konur hafa nýtt sér úrræðið en meirihluti þátttakenda eru aðeins með grunnsólamenntun og flestir stunda nám í framhaldsskóla.

Fyrirtæki

Sókn í nýsköpun

 • Framlög til Rannsóknarsjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Matvælasjóðs voru hækkuð tímabundið auk þess sem framlögum í sprota- og nýsköpunarsjóðinn Kríu var flýtt sem hluti af aðgerðum til að bregðast við áhrifum COVID-19.
 • Færri konur en karlar sækja um fjármagn í samkeppnissjóði og auk þess sækja konur gjarnan um lægri upphæðir. Árangurshlutfall kynjanna er þó svipað í flestum sjóðum. Aukin framlög í samkeppnissjóði eru því líkleg til þess að gagnast körlum betur en konum, sé ekki höfðað betur til kvenfrumkvöðla og sérstaða þeirra og þarfir teknar betur til greina.
 • Við framhaldsúthlutun úr Rannsóknasjóði voru veittir 9 doktorsstyrkir, 2 nýdoktorsstyrkir og 12 verkefnisstyrkir. Meirihluti styrkjanna fór til karla eða verkefna sem leidd eru af körlum.
 • Við sumarúthlutun úr Tækniþróunarsjóði 2020 fengu karlar 180 m.kr. (75%) og konur 60 m.kr. (25%).
 • Við fyrstu úthlutun úr Matvælasjóði í desember 2020 var aðeins mögulegt að kyngreina styrkþega í flokknum Báru sem styður við verkefni á hugmyndastigi. 21% fjármagnsins fóru til verkefna sem bæði konur og karlar koma að, 36% til kvenna og 41% til karla.

Lokunarstyrkir

 • Lokunarstyrkir voru greiddir til fyrirtækja sem gert var að loka vegna sóttvarnar-ráðstafana. Við mótun skilyrða fyrir lokunarstyrk var gætt að því að útiloka ekki sjálfstætt starfandi í hlutastarfi en konur eru mun líklegri en karlar til að vera í hlutastarfi.
 • Konur eru í meirihluta meðal starfandi í flestum atvinnugreinum sem gert hefur verið að loka og hafa getað nýtt sér úrræðið. Á krám og skemmtistöðum er kynjahlutfallið þó nokkuð jafnt. 

 Tekjufallsstyrkir og viðspyrnustyrkir

 • Styrkjunum var ætlað að styðja rekstraraðila (fyrirtæki og einyrkja) sem höfðu orðið fyrir töluverðu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
 • Úrræðin hafa einkum nýst rekstraraðilum starfandi í ferðaþjónustu þar sem hlutfall starfandi eftir kynjum er í heild mjög jafnt en mestu munar í rekstri gististaða þar sem konur eru í meirihluta.

Hagkerfið

Fjárfestingarátak 

 • Ef miðað er við kynjahlutfall starfandi í þeim atvinnugreinum sem fjárfestingar-átakið tekur til má gera ráð fyrir að um 85% þeirra starfa sem skapast á framkvæmdatímanum verði unnin af körlum.
 • Fyrirhugaðar nýbyggingar eða endurbætur á opinberum byggingum hafa í fæstum tilfellum mikil áhrif á fjölda þeirra sem þar starfa. Verkefnin eru því ýmist ekki talin hafa áhrif eða líkleg til að stuðla að jafnrétti, m.a. vegna mögulegrar fjölgunar starfa sem konur sinna í auknum mæli og bættrar þjónustu sem kann að draga úr ólaunuðum umönnunarstörfum.

Útvíkkun á allir vinna

 • Gera má ráð fyrir að langflest þeirra starfa sem skapast vegna hækkunar endurgreiðsluhlutfalls VSK vegna bygginga, endurbóta eða viðhalds íbúðarhúsnæðis auk bílaviðgerða verði unnin af körlum enda eru ríflega 95% þeirra sem starfa við bílaviðgerðir, í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð karlar.
 • Heimild til endurgreiðslu VSK vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis er aftur á móti líklegri til að skapa fleiri störf fyrir konur þar sem fleiri konur en karlar starfa á þessu sviði. Þá kann hún einnig að bæta réttarstöðu þeirra sem vinna þessi störf auk þess að draga úr ólaunuðum störfum við þrif og umhirðu íbúðarhúsnæðis sem er í auknum mæli sinnt af konum.
 • Meiri hluti þeirrar fjárhæðar sem hefur verið endurgreidd er vegna nýbyggingar og viðhalds íbúðarhúsnæðis einstaklinga en einungis um 2,5% eru vegna heimilishjálpar og reglulegrar umhirðu.

Uppfært 2. september 2021

Frá og með 23. ágúst 2021 gildir reglugerð nr. 938/2001 um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Ráðuneytið hefur tekið saman eftirfarandi spurningar og svör sem lúta að inntaki reglugerðarinnar og framkvæmd hennar.

Spurt og svarað um sóttvarnaráðstafanir á landamærum

Með ferðamanni/farþega er átt við hvaða einstakling sem er, sem ferðast milli landa, hvort sem hann er búsettur hér á landi eða erlendis. Eftirfarandi upplýsingar gilda því um alla sem koma til landsins.

Einstaklingum er skylt að hafa tilbúin við byrðingu öll þau vottorð sem ber að framvísa á landamærum, hvort sem flugrekandi skoðar þau öll eða ekki.

Þau vottorð sem einstaklingar þurfa að koma með eru eftirfarandi:

 • Bólusettir: Útfyllt forskráningarform, bólusetningarvottorð og neikvætt Covid-próf (hraðpróf eða PCR próf) sem má ekki vera eldra en 72 klst.,
 • Þeir sem áður hafa sýkst: Útfyllt forskráningarform, vottorð um fyrri sýkingu sem er eldra en 14 dagar og neikvætt Covd próf (hraðpróf eða PCR próf), sem má ekki vera eldra en 72 klst., ef vottorð um fyrri sýkingu er eldra en 6 mánuðir.
 • Óbólusettir: Útfyllt forskráningarform og neikvætt PCR próf (ekki hraðpróf) sem má ekki vera eldra en 72 klst.

Þeir sem ekki geta framvísað tilskildum vottorðum á landamærastöð geta átt yfir höfði sé sektir.

Sjá nánar m.a. þetta hér: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/08/24/Ny-reglugerd-um-sottkvi-einangrun-og-synatoku-vid-landamaeri/ 

Ef þú ert með tengsl við Íslands þarftu að fara í sýnatöku innan 48 klukkustunda frá komu til landsins. Ekki er skylt að sæta sóttkví á þessu tímabili. Hægt er að fara í sýnatökuna á Keflavíkurflugvelli og er mælst til þess að fólk skrái það í forskráningu fyrir ferð. Einnig er hægt að fara í hraðpróf á vegum heilsugæslu og heilbrigðisstofnana um land allt innan þessara tímamarka. Sýnatakan er gjaldfrjáls. Heimilt er að sekta þá sem ekki fara í sýnatöku innan tilskilins frests. Jafnframt er skylt að koma með neikvætt Covid-próf.

Almennir ferðamenn sem ekki eru með tengsl við Ísland þurfa ekki að sæta sýnatöku eftir komuna til landsins.

Flugfélög miðla upplýsingum til farþega sinna við brottför erlendis frá. Við komuna til landsins fara þeir farþegar sem geta ekki sýnt fram á viðurkennt bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu í sýnatöku í flugstöðinni. Þeir þurfa síðan að fara í fimm daga í sóttkví í beinu framhaldi og aðra sýnatöku við lok sóttkvíar. Nánari upplýsingar veita landamæraverðir.

Millilending hefur því aðeins áhrif á skilgreiningu þess hvaðan þú telst koma ef þú hefur dvalið þar sólarhring eða lengur.

Viðurkennd vottorð eru eftirfarandi:

 • Alþjóðabólusetningarskírteinið gefið út í samræmi við alþjóðaheilbrigðisreglugerð Alþjóða­heilbrigðismála­stofnunarinnar.
 • Bólusetningarvottorð sem staðfestir bólusetningu með bóluefni sem Lyfjastofnun Evrópu hefur mælst til að fái markaðsleyfi eða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur viðurkennt og sem uppfyllir leiðbeiningar sóttvarnalæknis um vott­orð.
 • Vottorð sem staðfestir jákvæða niðurstöður úr PCR-prófi sem er eldra en 14 daga gamalt
 • Vottorð sem staðfestir mótefni með mótefnaprófi sem framkvæmt er með ELISA-aðferð eða sambærilegri aðferð samkvæmt nánari ákvörðun sóttvarnalæknis.
 • Stafrænt evrópskt vottorð sem gefið er út á grundvelli reglugerðar um slík vottorð.

Já, skrá þarf hótelið sem dvalarstað við forskráningu fyrir komuna til landsins.

Sá sem er í sóttkví þarf að vera einn á dvalarstað í sóttkví og aðskilja sig þannig frá öðrum einstaklingum nema aðrir á sama dvalarstað fylgi jafnframt reglum um sóttkví, þ.m.t. fari ekki til vinnu, skóla eða í verslanir, og tilkynni sóttvarnalækni um þá ráðstöfun. Við forskráningu þarf að skrá dvalarstað þar sem taka á út sóttkví. 

Þá getur sóttvarnalæknir ákveðið að viðkomandi ljúki sóttkví í sóttvarnahúsi. 

Já þær má bera undir héraðsdóm. Þeir sem þurfa að sæta sóttkví, hvort sem er í heimahúsi eða í sóttvarnahúsi, geta komið óánægju sinni á framfæri við sóttvarnalækni með því að senda tölvupóst á sottkvi[hjá]landlaeknir.is. Þar þarf að koma fram nafn, kennitala og heimilisfang sem og komudagur og tími til landsins og eftir atvikum ástæður þess að viðkomandi vill ekki sæta sóttkví. Í þeim tilvikum mun sóttvarnalæknir taka formlega ákvörðun um sóttkví, sbr. 14. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Ákvörðunina mun sóttvarnalæknir í kjölfarið bera undir héraðsdóm, sem mun skipa viðkomandi talsmann, sbr. 15. gr. sóttvarnalaga. Slíkur málarekstur er þeim sem sætir sóttkví að kostnaðarlausu.

Já, það er eftirlit með því að sóttvarnareglum sé fylgt. 

Já, það eru sektir fyrir brot á sóttkví.

Efnahagsleg áhrif farsóttar

Frá því að heimsfaraldur kórónuveiru skall á vorið 2020 hefur verið unnið að því að greina efnahagsleg áhrif farsóttarinnar á breiðum grundvelli og einnig leggja mat á valkosti í sóttvarnamálum út frá efnahagslegum sjónarmiðum.

Í september 2021 gaf fjármála- og efnahagsráðuneytið út skýrslu um mat á efnahagsaðgerðum vegna heimsfaraldursins, en skýrslan var unnin að beiðni Alþingis

Á árinu 2020 skipapi fjármála- og efnahagsráðherra tvo hópa, annan til að tryggja eftirfylgni efnahagsaðgerða vegna faraldursins og hinn til að greina efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnarmálum.

Skýrslur starfshóps um eftirfylgni efnahagsaðgerða

Starfshópur um eftirfylgni efnahagsaðgerða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hefur unnið að söfnun upplýsinga um nýttar fjárhæðir, fjölda þeirra sem fá stuðning og skiptingu þeirra eftir atvinnustarfsemi, landshlutum, kyni og öðrum upplýsingum eftir því sem við á. Einnig verða fjármunir flokkaðir eftir því hvort þeir teljist til fjárfestinga, reksturs eða tilfærslna.
Hópurinn hefur skilað eftirfarandi skýrslum:

Skýrslur starfshóps um efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnarmálum

Starfshópurinn vann greiningar á efnahagslegum áhrifum valkosta í sóttvarnarmálum, með tilliti til hagsmuna ólíkra samfélagshópa og geira hagkerfisins. Bæði voru metin skammtímaáhrif og áhrif á getu hagkerfisins til þess að taka við sér af krafti að nýju þegar faraldurinn og áhrif hans líða hjá.

Hópurinn vann tvær skýrslur:

Að auki birti fjármála- og efnahagsráðuneytið greinargerð og minnisblað þegar ákvarðanir voru teknar um breyttar aðgerðir á landamærunum í júní og ágúst. Því til viðbótar hefur ráðuneytið unnið minnisblöð um einstaka þætti og þróun mála fyrir ráðherranefndir og ríkisstjórn.

Síðast uppfært: 26.11.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira