Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2020 Heilbrigðisráðuneytið

WHO: Skýrsla um stöðu hjúkrunar um víða veröld

Eitt margvíslegra viðfangsefna hjúkrunarfræðinga í Covid-faraldri - myndMynd: Landspítali

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO birti í dag viðamikla skýrslu um stöðu hjúkrunar á heimsvísu. Útgáfa skýrslunnar ber upp á alþjóðaheilbrigðisdaginn, 7. apríl, sem stofnunin tileinkar hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Samkvæmt ákvörðun WHO er raunar allt þetta ár helgað þessum mikilvægu heilbrigðisstéttum. Markmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er að vekja athygli á störfum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og stuðla að því að störf þeirra séu metin að verðleikum.

„Hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfum allra þjóða. Í dag stendur fjöldi hjúkrunarfræðinga í fremstu víglínu vegna baráttunnar við Covid-19. Þessi skýrsla er sterk áminning til okkar um hve hjúkrunarfræðingar gegna mikilvægu hlutverki og ætti að verða okkur vakning til að tryggja að hjúkrunarfræðingar fái þann stuðning sem þeim er nauðsynlegur í þágu heilbrigðis í heiminum“ er haft eftir Dr Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í fréttatilkynningu í tilefni af útgáfu skýrslunnar í dag.

Viðamikil gagnasöfnun liggur að baki skýrslu WHO; State of the world's nursing 2020: investing in education, jobs and leadership, sem byggir á upplýsingum um 190 þjóðlanda um allan heim. Eftirfarandi eru nokkur atriði sem lesa má út úr skýrslunni sem telur 114 blaðsíður með fjölda af töflum og myndum sem lýsta stöðunni. Eins má benda á einblöðunga sem WHO hefur gefið út með yfirliti sem dregur fram ýmsar staðreyndir um stöðu hjúkrunarfræðinga í hverju landi fyrir sig.

  • Mikill skortur er á hjúkrunarfræðingum á heimsvísu en staðan er mjög ólík milli þjóða og enn fremur milli heimshluta. 

  • Alls starfa tæplega 28 milljónir við hjúkrun á heimsvísu og af þeim eru 19,3 milljónir með hjúkrunarfræðimenntun.

  • Hjúkrunarfræðingar eru hlutfallslega langfjölmennasta heilbrigðisstéttin og eru hjúkrunarfræðingar um 59% af öllum þeim sem starfa við heilbrigðisþjónustu.

  • Um 80% hjúkrunarfræðinga í heiminum starfa í löndum þar sem um helmingur jarðarbúa býr.

  • Talið er að á heimsvísu vanti um 5,9 milljónir hjúkrunarfræðinga til starfa.

  • Skortur á hjúkrunarfræðingum er yfirgnæfandi meðal lágtekjuþjóða. Þegar horft er til þess að hjá þessum þjóðum vantar um 5,3 milljónir hjúkrunarfræðinga til starfa, sem er um 89% af þeim 5,9 milljónum sem skortir á heimsvísu.

  • Á heimsvísu er meðalaldur starfandi hjúkrunarfræðinga tiltölulega lágur. Aldurssamsetningin er hins vegar breytileg milli þjóða og heimshluta og mun óhagsstæðari í Evrópu og Ameríku en í öðrum álfum.

  • Ef takast ætti að uppfylla þörf fyrir hjúkrunarfræðinga á heimsvísu árið 2030 þyrfti að fjölga útskrifuðum hjúkrunarfræðingum um 8% að meðaltali ár hvert, jafnframt því að tryggja betur ráðningar í stöður og sjá til þess að hjúkrunarfræðingar leiti ekki í önnur störf.

  • Einn afhverjum átta hjúkrunarfræðingum starfar í öðru landi en fæðingarlandi sínu eða því landi sem viðkomandi sótti sér menntun í faginu.

  • Kynjahlutföll innan starfsstéttar hjúkrunarfræðinga eru afar ójöfn. Um 90% hjúkrunarfræðinga eru konur. Aftur á móti er bent á í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að mjög fáar stjórnunarstöður í heilbrigðisþjónustu séu setnar af hjúkrunarfræðingum eða konum yfirleitt.

State of the world's nursing 2020: investing in education, jobs and leadership

Yfirlit um stöðuna hjá einstökum þjóðum

Yfirlit um stöðuna á Íslandi

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta