Hoppa yfir valmynd
22. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Fjöldamörk úr 50 í 200 manns og fleiri tilslakanir

Harpa - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tekur gildi mánudaginn 25. maí. Þar með verður allt að 200 manns heimilt að koma saman í stað 50 nú, heimilt verður að opna líkamsræktarstöðvar með sömu takmörkunum og gilda um sund- og baðstaði og öllum veitingastöðum, þar með töldum krám og skemmtistöðum, og einnig spilasölum, verður heimilt að hafa opið til kl. 23.00. Hvatt er til þess að viðhalda tveggja metra nálægðarmörkum eftir því sem kostur er, eins og nánar er fjallað um í auglýsingunni. Auglýsingin er í fullu samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Ráðherra kynnti ákvörðun sína um breytingar á takmörkun á samkomum á fundi ríkisstjórnar í morgun.

Með nýrri auglýsingu verður framkvæmd tveggja metra reglurnar breytt nokkuð. Horft er til þess að vernda þá sem eru viðkvæmir með því að skapa þeim sem það kjósa aðstæður til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu. Þannig verði til dæmis á veitingastöðum, í leikhúsum og bíósölum boðið upp á að minnsta kosti nokkur sæti sem geri þetta kleift.

Á líkamsræktarstöðvum verður, líkt og á á sund- og baðstöðum, takmörkun á fjölda gesta sem miðast við að þeir séu aldrei fleiri en nemur helmingi af leyfilegum hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi. Eins og fram kemur í auglýsingunni verða áfram gerðar sömu kröfur um sótthreinsun og þrif almenningsrýma og hingað til.

Frá upphafi COVID-19 faraldursins hér á landi hafa greinst smit hjá rúmlega 1.800 einstaklingum. Undanfarið hefur nýsmitum fækkað verulega og hafa aðeins fimm einstaklingar greinst það sem af er maímánuði. Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að þær tilslakanir sem gerðar voru á samkomutakmörkunum 4. maí síðastliðinn virðist ekki hafa leitt til fjölgunar sjúkdómstilfella.

Ný auglýsing um takmörkun á samkomubanni gildir til 21. júní

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum