Hoppa yfir valmynd
11. júní 2021 Matvælaráðuneytið

Samningur um tækifæri til hagræðingar í sauðfjárbúskap

Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landsamtaka sauðfjárbænda, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri RML  - mynd

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í dag samning um verkefnið „Betri gögn, bætt afkoma“ við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og Landssamtök sauðfjárbænda.

 

Um er að ræða þriggja ára verkefni til að efla rekstrarráðgjöf til sauðfjárbúa og bæta afkomu þeirra. Ætlunin er að efla núverandi verkefni RML verulega og fjórfalda stærð þess á samningstímanum. Gögnin verða nýtt til að auka leiðsögn til þátttakenda um tækifæri til hagræðingar í sínum rekstri í ljósi þeirra gagna sem þeir skila inn. RML mun veita ráðgjöf til þátttakenda á einstaklingsgrunni sem byggir á styrkleikum og veikleikum hvers og eins.

 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Ég er afskaplega ánægður með þetta samkomulag og þakka bæði fulltrúum RML og LS fyrir samstarfið við að koma þessu á fót. Staðreyndin er sú að gögn frá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins sýna að það eru til staðar umtalsverð tækifæri til hagræðingar í íslenskum sauðfjárbúskap. Meginmarkmið þessa samkomulags er að gera bændum kleift að hagræða í sínum rekstri og bæta þannig afkomu þeirra til skemmri og lengri tíma.“

Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landsamtaka sauðfjárbænda:

„Við höfum miklar væntingar fyrir þessu verkefni.  Með aukinni þátttöku bænda munum við fá enn betri yfirsýn yfir rekstur búanna og betri gögn til að vinna með. En verkefnið mun líka nýtast til þess hver og einn bóndi geti borið sig saman við sambærileg bú og þannig greint styrkleika og veikleika í sýnum rekstri“

Umtalsverð tækifæri til hagræðingar

RML, sem er ráðgjafafyrirtæki í landbúnaði og tengdum greinum, hefur undanfarin ár unnið að verkefninu „afkomuvöktun sauðfjárbúa“ sem snýr að söfnun og greiningu rekstrargagna frá sauðfjárbúum og nýtt gögnin til að leiðbeina bændum um sinn rekstur. Niðurstöður verkefnisins sýna að umtalsverð tækifæri eru til staðar til hagræðingar en mikill breytileiki er í afkomu búanna. Samkvæmt samkomulaginu byggir verkefnið á þessari vinnu RML.  

 

Verkefnið er liður af aðgerðaráætlun til eflingar íslensks landbúnaðar sem ráðherra kynnti í febrúar 2021 og er þungamiðja aðgerðar um sértæka vinnu vegna sauðfjárræktarinnar.  

 

Önnur verkefni sem tengjast sértækri vinnu vegna sauðfjárræktarinnar eru til dæmis ný skýrsla Landbúnaðarháskólans um afkomu sauðfjárbænda og leiðir til að bæta hana sem birt var í síðasta mánuði, uppbótargreiðslur á gæðastýrða sauðfjárframleiðslu sem greiddar voru í mars og uppbótargreiðslur á ull sem greiddar voru um síðustu mánaðamót.  Þá var gefin út reglugerð í maí um lítil sauðfjár- og geitasláturhús sem eykur möguleika bænda til að framleiða og selja afurðir beint frá býli til að styrkja verðmætasköpun og afkomu þeirra fyrir næstu sláturtíð. Þá stendur fyrir dyrum viðhorfskönnun meðal sauðfjárbænda til að meta nánar stöðu og horfur í greininni s.s. viðhorf til núverandi stuðningskerfis, afstöðu til loftslagsmála, vinnuálag við reksturinn og fleira.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum