Hoppa yfir valmynd
20. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Miklar annir í áritanaútgáfunni

Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra og hans fólk stóðu í ströngu - mynd
Yfir eitt þúsund vegabréfsáritanir voru gefnar út í sendiráði Íslands í Peking í fyrstu viku september en það er metfjöldi. Búist er við að í lok næsta árs verði útgáfa vegabréfsáritana til kínverskra ferðamanna á leið til Íslands alfarið í höndum íslenska sendiráðsins og miðlægrar áritanadeildar í utanríkisráðuneytinu. 

Í rúman áratug hefur sendiráðið í Peking gefið út vegabréfsáritanir en dönsku aðalræðisskrifstofurnar í Shanghai og Guangzhou hafa sinnt afgreiðslu umsókna og útgáfu áritana sem hafa borist til sex annarra móttökustöðva. Sendiráðið hefur átt í farsælu samstarfi við miðlæga áritanadeild utanríkisráðuneytisins sem sett var á fót fyrr á árinu til að styðja við þessa starfsemi í sendiráðunum. Með stofnun deildarinnar er Ísland nú komið í fremstu röð Schengen-ríkja varðandi nýtingu tækninnar við miðlæga og rafræna afgreiðslu umsókna.

Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem fram fór í Borgarnesi í fyrri viku undirrituðu Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, nýjan samning varðandi vegabréfsáritanaútgáfu til erlendra ferðamanna og er undirritun samningsins liður í því ferli að Ísland annist sjálft þessa útgáfu á þeim svæðum þar sem álagið hefur verið mest á fyrirsvarsríkin. Við þetta tækifæri fagnaði Guðlaugur Þór því að Ísland væri nú í stakk búið til að axla ábyrgð og sinna þeim vaxandi fjölda ferðamanna alls staðar að úr heiminum sem vilja sækja Ísland heim.

Vinna er þegar hafin við flytja ábyrgð á fleiri móttökustöðvum til sendiráðsins frá Dönum og sinnir sendiráðið nú Nanjing, Fuzhou og Hangzhou. Alls starfa í Kína fimmtán slíkar stöðvar og er ætlunin að sinna þeim öllum og bæta þar með þjónustu sendiráðsins við kínverska ferðamenn. Í byrjun október bætast svo við Wuhan, Chengdu, Xi‘an og Chongqing. Á næsta ári ættu tilskilin leyfi frá kínverskum stjórnvöldum að hafa borist til að ábyrgð á áritunum til kínverskra ferðamanna verði alfarið í höndum sendiráðsins og munar þar mestu um þéttbýliskjarnana Shanghai, Guangzhou og Shenzhen. 

Verkefnin eru næg, eins og sást í upphafi þessa mánaðar en þá hafði af tæknilegum ástæðum safnast upp talsverður fjöldi umsókna um vegabréfsáritun. Allir starfsmenn sendiráðsins voru virkjaðir við að ganga frá vegabréfum til framsendingar til óþolinmóðra ferðalanga. Að lokinni fyrstu viku septembermánaðar höfðu verið gefnar út áritanir til 1.280 manns og námu tekjurnar af útgáfunni tæpum ellefu milljónum íslenskra króna.

Útlit er fyrir að fjöldi umsókna þrefaldist hið minnsta þegar sendiráðið hefur að fullu tekið yfir alla móttökustaði í Kína og á næsta ári hækka gjöld fyrir afgreiðslu umsókna. Allar horfur eru á því að tekjur vegna starfseminnar muni gera gott betur en að standa undir rekstrarkostnaði og sendiráðið verða fært um að senda heim fé í ríkissjóð. 

Þótt nokkuð hafi dregið úr ferðamannastraumi til Íslands almennt séð, fjölgar kínverskum ferðamönnum jafnt og þétt og dvelja þeir að jafnaði lengur en aðrir ferðamenn hér á landi og verja hærri upphæðum en aðrir. Það sem af er þessu ári hefur fjölgunin numið um tólf prósentum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Ferðamönnunum gæti fjölgað enn frekar því sendiráðið tekur á þessu ári þátt í ferðasýningum í Tianjin, Guilin, Xi‘an, Jinan og Hainan auk þess að aðstoða Íslandsstofu við hópferð íslenskra ferðaskrifstofa til Changsha, Hangzhou, Wuhan og Xi‘an.
 
  • Töðugjöld í lok annasams vinnudags hjá sendiskrifstofunni í Peking - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira