Hoppa yfir valmynd
27. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Efnahagssamráð Íslands og Bandaríkjanna fest í sessi

Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, undirritar sameiginlega minnisblaðið fyrir Íslands hönd. - myndUtanríkisráðuneytið

Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins og vegabréfsáritanir fyrir íslenska atvinnurekendur og fjárfesta voru á meðal umræðuefna á efnahagssamráðsfundi Íslands og Bandaríkjanna sem fram fór í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir að efnahagssamráð ríkjanna sé þegar farið að bera ávöxt.  

Þetta er í annað skiptið sem efnahagssamráðið fer fram en ákveðið var að setja það á fót á fundi þeirra Guðlaugs Þórs og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Reykjavík. Upphaflega stóð til að halda fundinn í Washington í vor en vegna COVID-19 farsóttarinnar var ekki unnt að halda hann fyrr en í dag og þá í gegnum fjarfundarbúnað.  

Á fundinum meðal annars rætt um um efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins, vegabréfsáritanir fyrir íslenska atvinnurekendur og fjárfesta, kerfisbundna skimun á erlendum fjárfestingum og vernd mikilvægra innviða.  Þá var á fundinum undirritað sameiginlegt minnisblað um áframhaldandi samvinnu á ýmsum sviðum á þessum vettvangi og festa samráðið í sessi þannig að það verði eftirleiðis haldið árlega. 

„Bandaríkin eru okkar mikilvægasta viðskiptaland og það hefur líklega aldrei verið mikilvægara en nú að styrkja sambandið vestur yfir haf. Áþreifanleg staðfesting á að nánari samvinna sé farin að skila árangri er Íslandsfrumvarpið svonefnda um sérstakar vegabréfaáritanir fyrir íslenskt viðskiptafólk í Bandaríkjunum. Ég er bjartsýnn á að fleiri brýr verði byggðar á næstu misserum til að efla viðskipti á milli þessara vinaþjóða. Í því sambandi skiptir miklu máli að efnahagssamráðið hefur nú verið fest í sessi þannig að það verður haldið á hverju ári,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

„Til viðbótar við þennan formlega vettvang ríkjanna hef ég auk þess beitt mér fyrir að efla enn frekar tengslin við Bandaríkjaþing og styrkja samráðið við embætti viðskiptafulltrúa Bandaríkjaforseta [USTR]. Þá höfum við lagt mikla áherslu á að að stækka það tengslanet sem íslensk stjórnvöld og útflutningsgreinar hafa í Bandaríkjunum. Þetta hefur gert okkur kleift að taka upp brýn hagsmunamál milliliðalaust, ný og nærtæk dæmi um slíkt eru viðbrögð við heimsfaraldrinum og grálistun FATF.“

Manisha Singh, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna á sviði efnahags- og viðskiptamála, leiddi fundinn af hálfu Bandaríkjamanna og Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir íslensku sendinefndinni. Auk þeirra sátu fulltrúar utanríkis-, viðskipta- og fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna auk bandaríska sendiráðsins í Reykjavík fundinn en frá Íslandi tóku þátt fulltrúar utanríkis-, forsætis- og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, sendiráðs Íslands í Washington, auk fulltrúa Íslandsstofu. Þessi vettvangur gefur tækifæri til að ræða á breiðum grundvelli mál sem varða efnahags og viðskiptasamskipti landanna.

  • Frá efnahagssamráðinu í dag. Frá vinstri: Kristín A. Árnadóttir sendiherra, María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu, Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu og Jón Erlingur Jónasson, skrifstofustjóri skrifstofu tvíhliða samstarfs og svæðisbundinna málefna - mynd
  • Manisha Singh, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna á sviði efnahags- og viðskiptamála, leiddi fundinn af hálfu Bandaríkjamanna. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum