Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra komin út​

Guðlaugur Þór Þórðarson og Össur Skarphéðinsson kynna skýrsluna á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Grænlandsnefnd utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur skilað af sér ítarlegri skýrslu með tillögum um aukið samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum. Ráðherra kynnti utanríkisráðherra Grænlands skýrsluna í gær.

Guðlaugur Þór skipaði nefndina í apríl 2019. Formaður hennar er Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, en aðrir fulltrúar eru þau Unnur Brá Konráðsdóttir og Óttarr Guðlaugsson.

Skýrslan ber heitið Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum. Í henni forgangsraðar nefndin tíu tillögum til stefnumörkunar og leggur til að Grænland og Ísland geri með sér rammasamning um samstarfssvið í framtíðinni. Samtals eru tillögur nefndarinnar 99 talsins og fjalla um möguleika á auknu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og stofnana, einkageirans, frjálsra félagasamtaka, íþrótta, lista og menningar.

Að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra markar skýrslan tímamót enda hefur utanríkisráðuneytið aldrei fyrr ráðist í jafn umfangsmikla greiningu á samskiptum landanna tveggja.

„Ég tel mikilvægt að hefja sem fyrst samtal og samvinnu við grænlensk stjórnvöld um framkvæmd tillagnanna. Tillögurnar eru afbragðs grundvöllur til að skilgreina sameiginlegar áherslur og sameiginleg viðfangsefni landanna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Að baki tillögum nefndarinnar er umfangsmikil og ítarleg greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna. Skoðuð var breytt staða landanna vegna aukins áhuga stórveldanna á norðurslóðum. Einnig er viðamikil skoðun á helstu atvinnugreinum s.s. sjávarútvegi, ferðaþjónustu og námuvinnslu.

Guðlaugur Þór kynnti Steen Lynge, utanríkisráðherra Grænlands, skýrsluna á fjarfundi þeirra í gær. „Það var bæði ánægjulegt og áhugavert að heyra skoðanir Lynge á skýrslunni enda gerði hann góðan róm að efni hennar. Við sammæltumst um að vinna að rammasamningi milli landanna þar sem lýst væri markmiðum á tilgreindum samstarfssviðum. Jafnframt lagði Lynge til að við myndum kynna skýrsluna sameiginlega á Hringborði norðurslóða í haust,“ segir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. „Ég hef einnig sett í gang vinnu við þingsályktunartillögu sem ég hyggst leggja fram á vorþingi, þar sem lýst er vilja og markmiðum Íslands um aukið samstarf landanna.“

Í skýrslunni er fjallað um land og samfélag, stjórnskipulag og stjórnmál í Grænlandi, innviði í uppbyggingu, meðal annars umtalsverða uppbyggingu flugsamgangna og sjóflutninga. Sérstaklega er fjallað um Austur-Grænland og þau sérstöku viðfangsefni sem þar er við að etja.

Nefndin heimsótti Grænland þar sem hún hélt fjölmarga fundi með heimamönnum. Einnig fundaði nefndin með miklum fjölda íslenskra fyrirtækja, stofnana og frjálsra félagsamtaka.

Löndin eiga nú þegar mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta meðal annars á sviði sjávarútvegs, flugþjónustu, stjórn flugumferðar, ferðaþjónustu og málefna norðurslóða. Aukin samvinna um heilbrigðismál, menntamál og stoðþjónustu við námuvinnslu gætu orðið mikilvæg samstarfssvið í framtíðinni.

Á alþjóðavettvangi eiga löndin þegar vaxandi samstarf þar sem norræn og vestnorræn samvinna ber hæst og einnig samstarf innan Norðurskautsráðsins.

  • Össur Skarphéðinsson afhenti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skýrsluna - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum