Hoppa yfir valmynd
1. október 2021 Utanríkisráðuneytið

Borgar Þór í framkvæmdastjórn Uppbyggingarsjóðs EES

Borgar Þór Einarsson - mynd

Borgar Þór Einarsson tekur við stöðu varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES í Brussel þann 1. janúar nk. Stjórn sjóðsins tók ákvörðun um ráðninguna eftir tilnefningu íslenskra stjórnvalda. Borgar Þór mun fara með samskipti EFTA-ríkjanna í EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, við viðtökuríki sjóðsins í Suður- og Austur-Evrópu.

Borgar Þór er hæstaréttarlögmaður en frá janúar 2017 hefur hann starfað sem aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Þar hefur hann sérstaklega sinnt málefnum EES-samstarfsins, starfsemi EFTA og utanríkisviðskiptum. Hann situr jafnframt í stjórn Íslandsstofu og Grænvangs.

Borgar Þór lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2004 með áherslu á þjóðarétt. Hann hefur víðtæka reynslu af lögfræði- og lögmannsstörfum í alþjóðlegum verkefnum og hefur meðal annars flutt mál fyrir EFTA-dómstólnum.  Borgar Þór var sjálfstætt starfandi lögmaður frá 2010 sem eigandi hjá lögmannsstofunni OPUS og síðar CATO en þar áður starfaði hann sem lögfræðingur í Landsbankanum og löglærður fulltrúi á lögmannsstofunni LEX. Hann var varaformaður Lögmannafélags Íslands 2012–2013. Á árunum 2003-2004 var hann aðstoðarmaður menntamálaráðherra.

Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði á Evrópska efnahagssvæðinu og stuðla að eflingu tvíhliða samstarfs milli EES/EFTA-ríkjanna og viðtökuríkjanna fimmtán: Búlgaríu, Eistlands, Grikklands, Kýpur, Lettlands, Litáens, Möltu, Portúgal, Póllands, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Króatíu, Tékklands og Ungverjalands.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum