Hoppa yfir valmynd
11. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Hringrásarhagkerfi og nútímavæðing fiskveiða í Kenía

Andvari-VE 100 með Plútó toghlera. - myndHafþór Halldórsson

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu hefur veitt fyrirtækinu Pólar toghlerar ehf. fjárstyrk til að ráðast í undirbúningsverkefni í Kenía við að innleiða hringrásarhagkerfi og ný vinnubrögð við fiskveiðar og meðferð sjávarfangs. Samstarfsaðili er Kaldara Group ehf., auk heimamanna í Kenía.

Markmiðið er að ný vinnubrögð og tækni við veiðar geti leitt til umhverfisvænni, hagkvæmari og sjálfbærra veiða í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. 

Í undirbúningsverkefninu verða kannaðar forsendur fyrir því í samvinnu við sjómenn og aðra hagsmunaaðila í Kenía, að innleiða notkun á nýrri tegund Plúto plast fiskihlera og notkun á einangruðum endurvinnanlegum fiskikössum, svokölluðum „minitubs“. Samhliða því verða skoðaðar leiðir til að bæta vinnubrögð við meðferð aflans, allt frá veiðum til markaðar. Verði niðurstöður jákvæðar verður ráðist í framhaldsverkefni og innleiðingu.

Stefnt er að því að bæði fiskihlerarnir og fiskikassarnir verði framleiddir í Kenía, að hluta til úr endurunnu plasti, sem stuðlar að hringrásarhagkerfi, bættu umhverfi, atvinnuuppbyggingu og atvinnuþróun.

Við innleiðingu mun almenningur í Kenía eiga kost á heilnæmari fiskafurðum og atvinnu við að safna plastúrgangi og skila honum til samstarfsaðila gegn gjaldi.

Pluto fiskihlerarnir þurfa ekki viðnám við botn til að opna fiskitrollið, eru mun léttari í togi og leiða til hagkvæmari og sjálfbærra veiða. Með fiskikössunum og kælingu er unnt að varðveita gæði aflans mun betur en nú er og þar með að nýta sjávarauðlindina betur, tryggja gæði og heilnæmt sjávarfang.

Stefnt er að því að ljúka undirbúningsverkefninu í nóvember á þessu ári.

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu veitir íslenskum fyrirtækjum styrki til fjárfestinga í nýjum tækifærum í þróunarlöndum. Verkefni sem fjárfest er í þurfa að styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran hagvöxt í þróunarlandinu. Næsti umsóknarfrestur er til 3. október.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
14. Líf í vatni
17. Samvinna um markmiðin
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum