Hoppa yfir valmynd
1. desember 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundi ÖSE lokið

Utanríkisráðherrafundi ÖSE lokið - myndOSCE / Ministry of Foreign Affairs of Poland

Afleiðingar innrásarinnar í Úkraínu voru meginefni utanríkisráðherrafundar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sem haldinn var í pólsku borginni Łódź. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra áréttaði skuldbindingar aðildarríkjanna við alþjóðalög og alþjóðakerfið og brýndi þau til beita sér fyrir friði, frelsi og mannréttindum í ávarpi sínu á fundinum.

Fundurinn í Łódź markaði lok formennskuárs Póllands en þar komu saman utanríkisráðherrar og aðrir fulltrúar ríkjanna 57 sem eiga aðild að ÖSE. Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu setti svip sinn á samkomuna og var ávarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra að sama skapi helgað umræðu um afleiðingar innrásarinnar fyrir öryggi og frið í okkar heimshluta. Rússland hefði með framgöngu sinni gjörsamlega brugðist skyldum sínum gagnvart bæði ÖSE og alþjóðakerfinu og alþjóðalögum sem nú væri teflt í mikla tvísýnu. „Við stöndum á svo mikilvægum krossgötum að þegar við horfum til baka – eftir kannski þrjátíu ár – eigum við annað hvort eftir að fyllast djúpri hryggð yfir hörmulegum óförum eða tala um tímamót samstöðu og styrks þegar alþjóðakerfið stóðst sína mestu þolraun án þess að líða undir lok,“ sagði utanríkisráðherra í ávarpinu.

Í lok ávarpsins minnti ráðherra á að aldrei mætti gleyma afleiðingum þess ef heimskipan sem byggðist á virðingu fyrir alþjóðalögum viki fyrir ofbeldi og hernaðarmætti. Því næst skoraði hún á fulltrúa Rússlands að láta af árásum sínum og kveðja herliðið heim um leið og hún brýndi hin aðildarríkin til dáða. „Það er skylda okkar að leggja okkar af mörkum til að styrkja stoðir alþjóðakerfisins. Þar höfum við öll hlutverki að gegna, líka Ísland sem nú fer með formennsku í Evrópuráðinu. Við verðum öll að vera vandanum vaxin á þessum örlagatímum. Okkur ber öllum skylda til að gera það sem við getum til að stuðla að þessum sameiginlega málstað: frelsi, mannréttindum og friði,“ sagði Þórdís Kolbrún að lokum.

Í morgun tók utanríkisráðherra þátt í pallborðsumræðum á hliðarviðburði um mansalsmál sem Valiant Richey, sérlegur fulltrúi ÖSE í mansalsmálum fór fyrir. Þátttakendur, sem voru auk Þórdísar utanríkisráðherrar Noregs, Moldóvu og Norður-Makedóníu, voru sammála um mikilvægi þess að forgangsraða aðgerðum í þessum efnum og tryggja nægilegt fé til að bregðast við breyttri heimsmynd vegna stríðsins í Úkraínu. Richey heimsótti Ísland í október síðastliðnum og átti þá meðal annars fund með utanríkisráðherra til að ræða stöðu mansalsmála í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.

Í gær buðu pólsku gestgjafarnir til vinnukvöldverðar sem ráðherrarnir ásamt Helgu M. Schmid, framkvæmdastjóra sóttu. Þar voru þær áskoranir sem stofnunin stendur frammi fyrir til efst á baugi. Í innleggi sínu ræddi utanríkisráðherra þá grafalvarlegu stöðu sem ríkir í öryggismálum Evrópu vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. „Það er þyngra en tárum taki að eitt aðildarríkjanna haldi áfram að grafa undan öryggi og stöðugleika í álfunni með svo grófum hætti,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum 57. Innan stofnunarinnar, sem hefur aðsetur í Vín, fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, auk öryggis- og afvopnunarmála. Einnig má nefna víðtækt kosningaeftirlit á vegum stofnunarinnar í aðildarríkjunum. Öll ríki Evrópu eiga aðild að ÖSE auk Bandaríkjanna, Kanada, Kasakstan, Kirgistan, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.

  • Utanríkisráðherra tók þátt í hliðarviðburði um mansalsmál - mynd
  • Þórdís Kolbrún ásamt Zbigniew Rau, utanríkisráðherra Póllands - mynd
  • Utanríkisráðherrafundi ÖSE lokið - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum