Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. febrúar 2010 Dómsmálaráðuneytið

Nefnd leggur til umfangsmiklar breytingar á meðlagskerfinu

Nefnd sem falið var að endurskoða ákvæði barnalaga um framfærslu barna, með það fyrir augum að kanna hvort núgildandi fyrirkomulag þjónaði hagsmunum barna og foreldra með sanngjörnum hætti, hefur nú skilað ráðherra tillögum sínum að umfangsmiklum breytingum á lögunum með frumvarpi og greinargerð.

Nefnd sem falið var að endurskoða ákvæði barnalaga, nr. 76/2003, um framfærslu barna, með það fyrir augum að kanna hvort núgildandi fyrirkomulag þjónaði hagsmunum barna og foreldra með sanngjörnum hætti, hefur nú skilað ráðherra tillögum sínum að umfangsmiklum breytingum á lögunum með frumvarpi og greinargerð. Frumvarpið er nú lagt fram til kynningar og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér efni þess og senda ráðuneytinu ábendingar og athugasemdir á netfangið [email protected] fyrir 15. febrúar nk.

Í nefndinni, sem þáverandi dómsmálaráðherra skipaði 2008, áttu sæti þau Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, sem jafnframt var formaður, Hrefna Friðriksdóttir, lektor í sifja- og erfðarétti við Háskóla Íslands, og Ásgeir Eiríksson, fulltrúi sýslumannsins í Keflavík. Starfsmaður nefndarinnar var Guðmundur Örvar Bergþórsson, lögfræðingur í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu.

Nefndin leggur til að hinu íslenska meðlagskerfi verði breytt á ýmsa lund. Helstu nýmælin eru talin upp hér að neðan en upptalningin er ekki tæmandi.

Í frumvarpinu er lagt til að rýmka samningsfrelsi foreldra um skiptingu kostnaðar vegna framfærslu barns og um greiðslu meðlags. Rökin eru fyrst og fremst þau að ábyrgð á framfærslu barns hvíli á herðum foreldra. Þá þykir það barni almennt fyrir bestu ef foreldrum sem ekki búa saman tekst að ná samstöðu um öll atriði sem varða hagsmuni barns. Þannig er m.a. lagt til að skylda til að semja um meðlag við skilnað og sambúðarslit foreldra verði afnumin og enn fremur að ákvæði um lágmarksfjárhæð meðlags verði afnumið.

Ef foreldrum tekst ekki að semja um skiptingu kostnaðar af framfærslu barns er gert ráð fyrir að unnt verði að úrskurða það foreldri sem barn býr ekki hjá til að greiða meðlag með barninu. Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að miðað verði við að lágmarksframfærslukostnaður barns sé kr. 54.000 og að við meðlagsákvörðun skuli skipta lágmarksframfærslukostnaði barns milli foreldra í hlutfalli við tekjur eða aflahæfi beggja. Við afmörkun tekna er fyrst og fremst gert ráð fyrir skattskyldum tekjum beggja en einnig er gert ráð fyrir að bæta við tekjurnar þeim barnabótum sem foreldri fær eða mun fá vegna viðkomandi barns. Með þessu móti má segja að barnabætur nýtist báðum foreldrum.

Samkvæmt 4. gr. er einnig gert ráð fyrir að við ákvörðun meðlags verði tekið tillit til umgengni barns við meðlagsskylt foreldri. Gert er ráð fyrir að frádráttur vegna umgengni verði útfærður í reglugerð í samræmi við sjónarmið sem nánar eru útlistuð í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Þannig er gert ráð fyrir að frádráttur miðist við tiltekna fjárhæð sem á við um umgengni sem fellur í ákveðinn umgengnisflokk.

Drög að frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum er varða framfærslu barna og meðlag skv. barnalögum nr. 76/2003 ásamt fylgiskjölum (pdf-skjal)


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum