Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. nóvember 2013 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að breytingu á reglugerð um innleiðingu reglugerða varðandi hafnarríkiseftirlit til umsagnar

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 314/2012, um innleiðingu reglugerða framkvæmdastjórnar ESB varðandi hafnarríkiseftirlit, eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Umsagnarfrestur er til og með 4. desember næstkomandi og skulu umsagnir berast á netfangið [email protected].

Með drögum þessum er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1205/2012 frá 14. desember 2012 um framkvæmd 3. mgr. 10. gr. og 27. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/16 að því er varðar frammistöðu félags.

Hafnarríkiseftirlit

Tilskipun 2009/16 mælir fyrir um hafnarríkiseftirlit (e. Port State Control). Með hafnarríkiseftirliti er átt við eftirlit og skoðun sem stjórnvald ríkis framkvæmir á skipum undir erlendum fána sem koma til hafnar í því ríki. Hér á landi sinnir Samgöngustofa hafnarríkiseftirliti, sbr. 1. tölul. 9. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

Skip sem koma til hafnar hér á landi eru valin til skoðunar á grundvelli áhættusniðs sem skiptist í eftirfarandi flokka:

  • HRS (High Risk Ship), skip með snið sem vísar til mikillar áhættu,
  • SRS (Standard Risk Ship), skip sem hvorki vísar til mikillar eða lítillar áhættu,
  • LRS (Low Risk Ship), skip með snið sem vísar til lítillar áhættu.

Meðal þátta sem ákvarða áhættusnið er frammistaða félags en með félagi er átt við eiganda skips eða hvern þann lögaðila eða einstakling sem ber ábyrgð á rekstri skips.

Skrá yfir frammistöðu félaga

Í 27. gr. tilskipunar 2009/16 er lagt á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að birta skrá yfir félög með mjög lélega eða lélega frammistöðu. Birting þessarar skrár er hugsuð sem hvatning til eigenda þeirra um að grípa til aðgerða til úrbóta.

Á grundvelli þessa ákvæðis hefur framkvæmdastjórnin gefið út reglugerð nr. 802/2010, þar sem þetta hlutverk er falið Siglingaöryggisstofnun Evrópu (e. European Maritime Safety Agency, EMSA).

Í 3. gr. reglugerðarinnar segir að EMSA skuli birta og uppfæra daglega eftirfarandi upplýsingar á opinberu vefsetri sínu:

a)   skrá yfir félög með mjög lélega frammistöðu í a.m.k. þrjá mánuði samfellt næstliðna 36 mánuði,

b)   skrá yfir félög með lélega frammistöðu eða mjög lélega frammistöðu í a.m.k. þrjá mánuði samfellt næstliðna 36 mánuði,

c)   skrá yfir félög með lélega frammistöðu í a.m.k. sex mánuði samfellt næstliðna 36 mánuði.

Með reglugerð nr. 1205/2012 er framangreindu ákvæði breytt á þann veg að ekki er lengur gerð krafa um að frammistaða félags skuli hafa verið mjög léleg eða léleg í þrjá eða sex mánuði samfellt næstliðna 36 mánuði heldur skuli frammistaða félags hafa verið mjög léleg eða léleg í 36 mánuði samfellt.

Þessi breyting er gerð í þeim tilgangi að þessi skrá sé sem virkust og beinist fyrst og fremst að félögum með lélegustu frammistöðuna en samfelld, léleg frammistaða í svona langan tíma sýnir fram á vilja- eða getuleysi af hálfu félagsins til að bæta frammistöðu sína.

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 314/2012 um innleiðingu reglugerða framkvæmdastjórnar ESB varðandi hafnarríkiseftirlit

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira