Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. janúar 2017 Félagsmálaráðuneytið

Tímamótasamingur um hlutverk RKÍ við móttöku flóttafólks

Stigið er skref í átt að því að jafna þjónustu við flóttafólk, hvort sem það kemur í boði stjórnvalda (kvótaflóttafólk) eða á eigin vegum, í nýjum samningi við Rauða kross Íslands (RKÍ) sem Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra og Sveinn Kristinsson formaður RKÍ undirrituðu í dag.

„Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að fyrsti samingurinn sem ég undirrita sem ráðherra skuli fela í sér tímamót eins og hér um ræðir, því það var orðið mjög mikilvægt að stuðla að jafnari stöðu flóttafólks sem hingað kemur“ sagði Þorsteinn við undirritun samningsins. „Þetta er góður samningur fyrir báða samningsaðila og síðast en ekki síst góður fyrir flóttafólkið sjálft“ segir Sveinn Kristinsson.

Á síðustu árum hefur hælisleitendum sem sækja um og fá alþjóðlega vernd á Íslandi, og þar með réttarstöðu flóttafólks, fjölgað verulega. Lengi hefur verið rætt um að þessir einstaklingar njóti ekki aðstoðar og stuðnings til aðlögunar í sama mæli og kvótaflóttafólk og að jafna þurfi stöðu þessara hópa. Því má segja að samningurinn sem undirritaður var í dag feli í sér tímamót að þessu leyti. Þess má geta að á síðastliðnum tveimur árum hafa samtals 193 einstaklingar sótt um og fengið alþjóðlega vernd hér á landi.

Samningurinn er til þriggja ára og kveður á um hlutverk RKÍ varðandi móttöku, aðstoð og stuðning við flóttafólk sem kemur til landsins á samningstímanum. Á næstu dögum er von á 47 flóttamönnum frá Sýrlandi sem koma í boði stjórnvalda, í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Samningurinn tekur meðal annars til þess að flóttafólki standi til boða stuðningur sjálfboðaliða Rauða krossins. Kveðið er á um að Rauði krossinn veiti flóttafólki almennar leiðbeiningar, fræðslu og ráðgjöf og vísi á úrræði sem standa því til boða. Þá mun Rauði krossinn standa fyrir reglulegum námskeiðum fyrir flóttafólk um einkenni ofurálags og áfallastreitu og skyndihjálparnámskeiðum. Rauði krossinn mun einnig aðstoða flóttafólk við að komast í samband við nána ættingja í gegnum alþjóðlega leitarþjónustu, meðal annars til að hafa uppi á týndum ættingjum eða grafast fyrir um örlög þeirra. Þannig megi endurvekja samband innan fjölskyldna sem hafa sundrast vegna átaka, ofsókna eða af öðrum orsökum.

Eins og fram kemur í samingnum er markmiðið með honum að tryggja árangursríka aðlögun flóttafólks með náinni samvinnu stjórnvalda, sveitarfélaga og Rauða krossins. Jafnframt er þess vænst að með honum skapist svigrúm til gagnkvæmrar aðlögunar flóttafólks og heimamanna og að hann stuðli að jöfnun þjónustu og stuðnings við flóttafólk sem kemur hingað eftir ólíkum leiðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira