Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. febrúar 2022 Innviðaráðuneytið

Kolefnislosun frá íslenskum byggingum ​metin í fyrsta sinn

Mat á kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði er efni nýrrar skýrslu, sem er liður í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Skýrslan er liður í aðgerð C3, loftslagsáhrifum byggingaiðnaðarins og er fyrsti hluti að Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð.

Almennt er miðað við að mannvirkjageirinn beri ábyrgð á um 30-40% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Upplýsingar um losun íslenskrar mannvirkjagerðar hafa hins vegar verið takmarkaðar hingað til.

Gerð skýrslunnar var styrkt af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og Samtökum iðnaðarins, en mat á kolefnislosun íslenskra bygginga er liður í samstarfsverkefni stjórnvalda og atvinnulífs um vistvæna mannvirkjagerð.

„Loftslagsmálin tengjast öllum hliðum samfélagsins og upplýsingarnar sem fram koma í  þessum fyrsta áfanga vegvísins eru mikilvægur liður í að ná utan um losun frá íslenskum byggingum og gerir okkur kleift að setja markmið um vistvænni byggingar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra.

Í vegvísinum kemur m.a. fram að:

  • Árleg kolefnislosun íslenskra bygginga samsvarar losun frá 145.000 bensínbílum, samkvæmt varfærnu mati sérfræðinga.
  • Mesta losunin eða 45% kemur frá byggingarefnum, einkum steypu.
  • Losun vegna rafmagns og hitaveitu á notkunartíma íslenskra bygginga myndar um þriðjung kolefnissporsins.

Niðurstöðurnar gera byggingariðnaðinum og stjórnvöldum kleift að setja skýr markmið um vistvænni mannvirkjagerð og skilgreina aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Sú vinna er þegar hafin á vegum samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð og er aðgerðaáætlunar að vænta nú í vor.

Verkefnisstjórn Byggjum grænni er staðsett hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en í verkefnahópnum sitja einnig fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Grænni byggð, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vegagerðinni Umhverfisstofnun og félagsmálaráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum